Færsluflokkur: Útvarp

Radio Luxembourg - minningar

Þa er ekki víst að yngri lesendur bloggsins kannist við  Radio Luxembourg. Þetta var frjáls og óháð útvarpsstöð sem útvarpaði aðallega á ensku frá furstadæminu Luxembourg og var fjármögnuð með sölu auglýsinga. Þessi útvarpsstöð á sér langa sögu en hún og aðrar frjálsar stöðvar sem staðsettar voru á skipum umhverfis Bretlandseyjar áttu að líkindum sinn þátt í því að einokun BBC á útvarpsrekstri var afnumin 1973.

Ég minnist þess hvað það var heillandi tilfinning að reyna að ná Luxembourgarútvarpinu. Til þess þurfti sérstakan útbúnað sem var á þá leið að ferðaútvarp var tekið og um það var vafið góðum spotta af koparvír. Annar endi vírsins lá gjarnan út um glugga og virkaði sem loftnet en hinn endinn í ofn og virkaði sem jarðtenging.  Þannig útbúið náðust líka fleiri stöðvar á útvarpstækið svo sem útvarp flotastöðvar Bandaríkjamanna í Keflavík skst. AFRTS (American Forces Radio and Television Service Keflavik Iceland), nefnd Kanaútvarpið í daglegu tali. Þegar svo stöðin náðist og þekktist af kallmerkinu sem var "Two - ooh - eight - lets take you higher..." var takmarkinu náð. Stöðin sendi út á 208 metrum á miðbylgju en á þeim árum voru skalar tækjanna yfirleitt í metrum en ekki kílóriðum eða megariðum eins og nú er.

Þorvaldur Halldórsson sagði fyrir nokkru frá því á Útvarpi Sögu að þau í Hljómsveit Ingimars Eydal hefðu hlustað á Radio Luxembourg og heyrt þar nýjustu lögin og gátu því verið tilbúin með þau þegar lögin nokkru síðar fengu spilun í Útvarpi Reykjavík (núna RÚV- Rás 1) og urðu þar með vinsæl á Íslandi. 

Ég man að á tímum þorskastríðsins þá voru fréttamenn Luxembourgarútvarpsins duglegir að segja frá því að "Icelandic gunboats" hefðu gert þetta og hitt og mér þótti furðulegt að varðskipin skyldu vera kölluð þessu nafni því hér heima var tíundað kyrfilega að fallbyssurnar væru frá tímum síðasta Búastríðsins í Suður-Afríku.  Það var athyglisvert að upplifa þetta fjölmiðlastríð og sjá hvernig deiluaðilar útbúa og matreiða sinn málstað í fjölmiðlum og hefur alla tíð síðan orðið mér mikið umhugsunarefni.

Luxembourgarstöðin spilaði mest vinsældalista og skaut auglýsingum og fréttum inn á milli þess sem málglaðir diskótekararnir þeyttu skífum.   Margir aðdáendur stöðvarinnar sem og Keflavíkurstöðvarinnar voru því vanir því að heyra efni af vinsældalistum því Keflavíkurstöðin spilaði gjarnan vinsælustu sveitalögin. Þetta hefur sjálfsagt valdið því að sú eftirvænting sem byggðist upp þegar Rás 2 byrjaði breyttist brátt í vonbrigði. A.m.k. varð svo hjá mér. Rás 2 var á fyrstu árunum aðallega í framúrstefnupoppi og því að spila nýútkomnar plötur og ég gafst mjög fljótlega upp á stöðinni, enda vanur poppinu úr Radio Luxembourg, sveitavinsældalistanum í Kanaútvarpinu sem og gullaldarrokkinu sem var mikið spilað af hljómplötum og snældum á þessum árum. Ég var of ungur fyrir Þjóðarsálina (þó svo ég hlusti á Sigga Tomm með mikilli ánægju núna á Útvarpi Sögu) og því fór sem fór. Ég slökkti á Rás 2 fljótlega eftir að hún byrjaði og hef aldrei fundið ástæðu til að gefa henni annað tækifæri.


Menningarlegt sjálfstæði landsbyggðarinnar er brýnt

í nýlegum niðurskurðaráætlunum RÚV sést glöggt að RÚV er í kjarnann það sem það hefur alltaf verið og heitið: Útvarp Reykjavík. Ekki er nóg með að nú sé skorið niður á svæðisstöðvunum fyrir vestan, norðan og austan. Hér fyrir sunnan er engin stöð til að loka eða skera niður hjá. Ríkisútvarpið hefur af skiljanlegum ástæðum sinnt nágrenni sínu mest og best í menningarlegu tilliti. Þetta þarf að breytast og það getur breyst því forsendur ljósvakamiðla eru allar aðrar  en þær voru árið 1930 en í grunninn er hugmyndafræðin á bakvið RÚV enn sú sama og þá. Menningarlegt sjálfstæði landsbyggðarinnar mun ekki nást nema landsbyggðin eignist sína eigin fjölmiðla og menningarlegt sjálfstæði er forsenda fyrir öðru sjálfstæði. Þeir sem styðja áframhaldandi stjórnlausan vöxt borgarinnar á suðvesturhorninu geta haldið áfram að styðja RÚV. Þeir sem eru á annarri skoðun ættu að fara fram á það að þeir peningar sem núna renna til RÚV renni til fjölmiðla sem staðsettir eru í þeirra eigin nágrenni.


Styrkir til fleiri aðila en RÚV stuðla að fjölbreytni og jafnræði í menningarmálum

Ráðleggingar OECD til íslensku ríkisstjórnarinnar um að hún eigi að draga úr ríkisumsvifum ættu að geta verið ríkisstjórninni kærkomið tækifæri og rökstuðningur fyrir því að dreifa áherslum sínum í menningarmálum. Til dæmis gæti hún skorið á náin tengsl sín við RÚV og dreift þeim styrk sem þessi eina stóra stofnun hlýtur til allra ljósvakamiðlanna í réttu hlutfalli við framboð þeirra af innlendu efni. Slíkt fyrirkomulag myndi tryggja bæði fjölbreytni og jafnræði og engin sérlög þyrfti að smíða fyrir RÚV.

Yfirlit yfir pistla mína um RÚV

Á síðastliðnum mánuðum hef ég tekið saman nokkra pistla sem varða málefni Ríkisútvarpsins. Þeir eru sem hér segir í tímaröð, nýjasti fyrst og sá elsti síðast:

Pistlarnir  Af hverju kemur vonda veðrið okkur alltaf á óvart og Óviðunandi frammistaða RÚV í óveðrinu á Austurlandi koma inn á öryggishlutverk RÚV í þeim tilgangi að rökstyðja það að öryggi er betur tryggt með fleiri og fjölbreyttari ljósvakamiðlum frekar en fáum og einhæfum.

Pistillinn Enn birtast vankantar á fyrirkomulagi Ríkisútvarpsins ohf fjallar um erfiða stöðu RÚV í kjölfar nýju ohf laganna en með þeim flýtur stofnunin í tómarúmi milli hins opinbera og einkageirans.

Hlúa þarf betur að hljóðrituðum menningararfi og Stofnun ljósvakasafns er löngu tímabær fjalla um nauðsyn þess að ríkið tryggi hljóðritasafn RÚV með öðrum hætti en að varðveita hann hjá stofnuninni. Það myndi skjóta öruggari fótum undir menningararfinn auk þess að tryggja jafnan aðgang að honum.

RÚV - og hin rausnarlegi styrkur Björgólfs fjallar einnig um erfiða stöðu RÚV eftir ohf-væðinguna.

RÚV - Menningarleg Maginotlína fjallar um það að menningarleg markmið RÚV eru ekki að nást því hugmyndafræðin að baki stofnuninni þarfnast endurskoðunar. Komið er með tillögur til úrbóta.

Tæknin breytir stöðunni varðandi ljósvakamiðlun til dreifðra byggða fjallar um það hvernig tæknin breytir stöðunni hvað varðar miðlun efnis til dreifðari byggða og dregur þannig úr mikilvægi þess að einn mjög öflugur aðili sjái bæði um framleiðslu og dreifingu efnis.

Framtíðarmöguleikar RÚV fjallar um gallað fyrirkomulag RÚV m.v. nýju ohf lögin og nauðsyn þess að rjúfa tengsl stofnunarinnar við valdstjórnina, en nýju ohf lögin staðfesta þessi tengsl.

Aðalbjörg Sigurðardóttir um RÚV árið 1944 er yfirlit yfir gagnrýni merkrar kvenréttindakonu og óháðrar menntakonu Aðalbjargar Sigurðardóttir á RÚV sem hún flutti í útvarpinu árið 1944. Í rauninni er gagnrýni hennar ennþá gild því lítið hefur breyst síðustu 64 árin.

Amy Goodman - orð í tíma töluð í og fyrir RÚV fjallar um athugasemdir bandarísku fréttakonunnar Amy Goodman um fjölmiðla og nauðsyn þess að þeir séu óháðir og kalli valdamenn til ábyrgðar.

Jóra í Jórukleif slær í borðið - ástæðan var léleg dagskrá RÚV sjónvarpsins var pistill sem ég skrifaði í tilefni af jarðskjálfta sem varð nálægt Selfossi í október 2007 en frásögn af honum rataði ekki inn í kvöldfréttir RÚV Sjónvarps.

Fordómar í fjölmiðlum - hvar stendur RÚV? er pistill sem skrifaður var í tilefni af síendurteknum fréttum RÚV af furðumennum á Filippseyjum, fréttum sem voru valdar í erlent fréttayfirlit á föstudaginn langa ár eftir ár.

 


Lagið „Mañana“ með Bay City Rollers

Ég ætlaði að fara að blogga um lagið góða „Mañana“ með Bay City Rollers sem fékk mjög mikla spilun í útvarpi árið 1972 og 1973 og fór að leita á því á YouTube en fann ekki þrátt fyrir nokkra leit. „Mañana“ sló í gegn í söngkeppni sem Radio Luxembourg hélt árið 1972. Á Wikipediu kemur fram að lagið hafi fengið mikla spilun á nokkrum stöðum í Evrópu og í Ísrael. Það kom mér nokkuð á óvart að 45 snúninga plata lagsins hafði ekki komist á lista í Bretlandi yfir söluhæstu plöturnar, a.m.k. miðað við þá miklu spilun sem lagið fékk á Íslandi og á Radio Luxembourg.

Það voru nokkur lög sem heyrðust mjög oft hér á landi þessi árin og „Mañana“ var eitt þeirra. Þetta var fyrir daga rásar 2 og Ríkisútvarpið reyndi að standa sig vel og koma til móts við óskir um vinsæl lög með þætti sem Jón B. Gunnlaugsson stjórnaði en hlustendur hringdu inn og báðu um óskalög. Ég man ekki lengur hvað þátturinn hét en man ekki betur en hann hafi verið mjög vinsæll, alla vega man ég að á útvarpið var oftast á í skólabílnum sem keyrði okkur krakkana úr skólanum á Selfossi í Gaulverjabæjarhreppinn og þá var þessi þáttur hlustaður upp til agna.

Heimildir:

http://en.wikipedia.org/wiki/Bay_City_Rollers
http://en.wikipedia.org/wiki/Radio_Luxembourg_%28English%29


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband