Radio Luxembourg - minningar

Þa er ekki víst að yngri lesendur bloggsins kannist við  Radio Luxembourg. Þetta var frjáls og óháð útvarpsstöð sem útvarpaði aðallega á ensku frá furstadæminu Luxembourg og var fjármögnuð með sölu auglýsinga. Þessi útvarpsstöð á sér langa sögu en hún og aðrar frjálsar stöðvar sem staðsettar voru á skipum umhverfis Bretlandseyjar áttu að líkindum sinn þátt í því að einokun BBC á útvarpsrekstri var afnumin 1973.

Ég minnist þess hvað það var heillandi tilfinning að reyna að ná Luxembourgarútvarpinu. Til þess þurfti sérstakan útbúnað sem var á þá leið að ferðaútvarp var tekið og um það var vafið góðum spotta af koparvír. Annar endi vírsins lá gjarnan út um glugga og virkaði sem loftnet en hinn endinn í ofn og virkaði sem jarðtenging.  Þannig útbúið náðust líka fleiri stöðvar á útvarpstækið svo sem útvarp flotastöðvar Bandaríkjamanna í Keflavík skst. AFRTS (American Forces Radio and Television Service Keflavik Iceland), nefnd Kanaútvarpið í daglegu tali. Þegar svo stöðin náðist og þekktist af kallmerkinu sem var "Two - ooh - eight - lets take you higher..." var takmarkinu náð. Stöðin sendi út á 208 metrum á miðbylgju en á þeim árum voru skalar tækjanna yfirleitt í metrum en ekki kílóriðum eða megariðum eins og nú er.

Þorvaldur Halldórsson sagði fyrir nokkru frá því á Útvarpi Sögu að þau í Hljómsveit Ingimars Eydal hefðu hlustað á Radio Luxembourg og heyrt þar nýjustu lögin og gátu því verið tilbúin með þau þegar lögin nokkru síðar fengu spilun í Útvarpi Reykjavík (núna RÚV- Rás 1) og urðu þar með vinsæl á Íslandi. 

Ég man að á tímum þorskastríðsins þá voru fréttamenn Luxembourgarútvarpsins duglegir að segja frá því að "Icelandic gunboats" hefðu gert þetta og hitt og mér þótti furðulegt að varðskipin skyldu vera kölluð þessu nafni því hér heima var tíundað kyrfilega að fallbyssurnar væru frá tímum síðasta Búastríðsins í Suður-Afríku.  Það var athyglisvert að upplifa þetta fjölmiðlastríð og sjá hvernig deiluaðilar útbúa og matreiða sinn málstað í fjölmiðlum og hefur alla tíð síðan orðið mér mikið umhugsunarefni.

Luxembourgarstöðin spilaði mest vinsældalista og skaut auglýsingum og fréttum inn á milli þess sem málglaðir diskótekararnir þeyttu skífum.   Margir aðdáendur stöðvarinnar sem og Keflavíkurstöðvarinnar voru því vanir því að heyra efni af vinsældalistum því Keflavíkurstöðin spilaði gjarnan vinsælustu sveitalögin. Þetta hefur sjálfsagt valdið því að sú eftirvænting sem byggðist upp þegar Rás 2 byrjaði breyttist brátt í vonbrigði. A.m.k. varð svo hjá mér. Rás 2 var á fyrstu árunum aðallega í framúrstefnupoppi og því að spila nýútkomnar plötur og ég gafst mjög fljótlega upp á stöðinni, enda vanur poppinu úr Radio Luxembourg, sveitavinsældalistanum í Kanaútvarpinu sem og gullaldarrokkinu sem var mikið spilað af hljómplötum og snældum á þessum árum. Ég var of ungur fyrir Þjóðarsálina (þó svo ég hlusti á Sigga Tomm með mikilli ánægju núna á Útvarpi Sögu) og því fór sem fór. Ég slökkti á Rás 2 fljótlega eftir að hún byrjaði og hef aldrei fundið ástæðu til að gefa henni annað tækifæri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Í Reykjavík þurfti engan sérstakan búnað til að heyra kanaútvarpið á miðbylgju. Þar heyrði ég öll nýjustu lögin áður en Elvis kom fram á sjónvarviðið og man reyndar vel þegar hann fór að heyrast þar fyrst vorið 1956.

Sigurður Þór Guðjónsson, 13.8.2008 kl. 19:33

2 Smámynd: Dunni

Gaman að þessari færslu hjá þér.  Hún vekur upp góðar minningar frá æskuárunum fyrir austan. Reyndar vorum við svo hepin, sumstaðar á Fjörðunum, að við náðum mörgum góðum útvaarpsstöðvum.  Fyrst var það náttútulega BBC og svo kom Luxeborg sem gerði góða hluti með 10 á toppnum.

Seinna komu svo sjóræningjastövarnar Radio Caroline og Radio Scotland. Báðar reknar úr gömlum togurum fyrir utan 4 mílurnar við England. Það var mikil framför þeagar Caroline kom með topp 20.  Þá fékk maður 20 vinsælustu lögin á breska listanum.  Radio Scotland gerði svoo enn betur með að bjóða manni upp á topp 50 sem þýddi að maður notaði lungan úr laugardagseftirmiðdeginum til að hlusta á þessa fínu stöð.

Ég útbjó mér betra loftnet en flestir aðrir á staðnum þar sem ég stal koparvír frá Ella frænda. Sá var það langur að ég gat leitt hann upp á topp á járnflaggstönginni sem við höfðum í garðinum. Svo var að sjálfsögðu stubbur í miðstöðvarofninn.

Ég ætla ekki að reyna að lýsa soundinu. Það var bara æðislegt og lokkaði marga góða gesti í heimsókn á laugardögunum.

Þarna hljómuðu svo The Beaatles, The Kinks, The Hollies, The Swinging Blue Jeanes, The Eacy Beats, The Pretty Things.........og The Rolling Stones. Þetta var veisla.

Dunni, 13.8.2008 kl. 19:53

3 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Radio Lux var æðislegt, fann það oft á gamla útvarpinu heima í den, þurfti engan spes útbúnað, svo sumarið sem ég var í Norge þá hlustuðum við á stöðina allt sumarið.  Frábær tónlist.

Ásdís Sigurðardóttir, 14.8.2008 kl. 01:22

4 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir innlitin og skemmtilegar frásagnir!

Sigurður, já Kaninn náðist betur en Luxembourg og fyrir austan fjall heyrðist hann á miðbylgjunni án útbúnaðar en yfirleitt fylgdi nokkuð suð. Þegar búið var að vefja útvarpið heyrðist hann betur. En ég man líka að í Reykjavík heyrðist sú stöð miklu betur. Þar náðist gufunesradíó líka á miðbylgju. Það hlýtur að hafa verið skemmtilegur tími þegar Elvis var að byrja á Kananum!

Dunni: Þetta er frábær saga að austan! Ég hafði haft spurnir af þessu áður, þ.e. að erlendu stöðvarnar næðust miklu betur þar. Ég heyrði aldrei a.m.k. ekki mér vitanlega í Radio Caroline eða Radio Scotland. Þetta hefur verið fínn útbúnaður hjá þér og laugardagarnir hafa greinilega verið mjög skemmtilegir.

Ásdís: Þú hefur verið með gott útvarp! Sum gömlu lampatækin voru ofurnæm því þau voru gjarnan bæði tengd við útiloftnet og jarðsamband og þurftu því engar sér viðbætur.  Ég gæti trúað að þessi lampaútvörp hafi verið með þeim bestu sem hafa verið gerð þegar kemur að móttöku fjarlægra stöðva. A.m.k. fannst mér oft að transistortækin væru ekki jafn góð.

Smá viðauki við pistilinn fyrir unga lesendur. Þjóðarsálin var spjallþáttur á Rás 2 sem Sigurður G. Tómasson stjórnaði. Í hann hringdi fólk og spjallaði um allt milli himins og jarðar. Ekki ósvipað og hann er með á Útvarpi Sögu um þessar mundir.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 14.8.2008 kl. 07:33

5 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Sæll Raggi

Í sjónvarpsleysi og einangrun æskuslóða í austrinu þá fékk maður frjálsar útvarpsbylgjur frá Radíó Luxemborg, stystu leið yfir sundið milli strandar suð-austurlands og meginlands Evrópu. Áhrifavaldur í mótun ungviðis.

          Hafðu það sem allra best,  kær kveðja  G

Gunnlaugur B Ólafsson, 14.8.2008 kl. 10:48

6 Smámynd: Marinó Már Marinósson

Hlustaði alltaf á Luxemborg þegar ég bjó austur á Reyðarfirði í gamla daga.  Best var að hlusta snemma á morgnanna og seint á kvöldin.  Stundum heyrði maður í Rússunum líka:):):)   

Marinó Már Marinósson, 14.8.2008 kl. 17:39

7 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir innlitin og skemmtilegar frásagnir. Það er gaman að fá svona margar staðfestingar á hlustun á Radio Luxembourg á Austurlandi. Það er eins og þú segir Gulli þaðan er stysta leið yfir sundið og miðbylgjuna hefur munað um kílómetrana - og svo var fyrrum íslenskur togari notaður fyrir Radio Caroline! Heimurinn er stundum ekki svo stór. 

Ragnar Geir Brynjólfsson, 15.8.2008 kl. 07:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband