Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Andlát: Guðmundur Erlingsson

Guðmundur Erlingsson andaðist á heimili sínu í Opelousas Louisiana í Bandaríkjunum 2. desember sl. Bálför hans fer fram frá Sibille Funeral Home Chapel í Opelousas á morgun, laugardaginn 5. des. Guðmundur var fæddur 7. apríl 1931 á Galtastöðum í Gaulverjabæjarhreppi (nú Flóahreppi). Foreldrar hans voru J. Erlingur Guðmundsson og Guðlaug Jónsdóttir. Eftirlifandi systkini hans eru Arndís, Sigurjón og Árni sem búa á Selfossi. Þau áttu tvær systur sem létust barnungar. Guðmundur ólst upp hjá móðursystkinum sínum á Syðra Velli í sama hreppi. Hann tók stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík og hóf síðan nám við Washington State University sem styrkþegi árið 1951.

Guðmundur giftist eftirlifandi eiginkonu sinni Wirginiu Owens, hjúkrunarkonu frá Nowata Oklahoma 15. febr. 1957. Þau fluttust til Opelousas í Louisiana þar sem þau bjuggu síðan. Þau eignuðust þrjú börn Gretchen sem giftist Mark Deshotels býr í Opelousas, þau skildu. Barn þeirra er Alyce Deshotels. Mary sem giftist Michael Simon býr í Baton Rouge. Börn þeirra eru Alexander, Kathryn og Gabriel.  Eric sem giftist Kjersti Botnen býr í Ósló. Börn þeirra eru Elias og Emma.

Guðmundur starfaði við flutninga og vann fyrst fyrir Talton "Tiny" Turner hjá Louisiana Truck Brokerage. Síðar starfaði hann fyrir Al Robichaux hjá Union 76 vöruflutningaþjónustumiðstöð í Lafayette í Louisiana. Þegar Guðmundur komst á eftirlaun hlaut hann þann heiður að vera útnefndur heiðursprófessor við University of Louisiana vegna starfs við kennslu í forníslensku og þýðingu fornrita. Ásamt dr. W. Bryant Bachmann þýddi hann sex íslenskar fornsögur: Finnboga sögu ramma, Hálfs sögu og Hálfsrekka, Hrólfs sögu kraka og kappa hans, Svarfdæla sögu, Valla-Ljóts sögu og Þorleifs þátt jarlaskálds. Þessar sögur komu út í þrem bókum: "The Saga of Finnbogi the Strong" (ISBN-13: 9780819175946), "The Sagas of King Half and King Hrolf" (ISBN-13: 9780819181220) og "Svarfdaela saga and Other Tales" (ISBN-13: 9780819195135). 

Þeir sem vilja senda samúðarkveðjur geta farið inn á vef útfararstofunnar og skráð þær þar. Slóðin er: http://www.sibillefuneralhomes.com.  Smellt er á nafn Guðmundar og síðan á Guestbook. 


Hið andlega lausafé

Fyrir einu ári birti ég ljóðið Ellimörkin? hér á blogginu. Þetta var á meðan góðærið svokallaða var enn hér á landi og fjöldinn allur af gljáandi nýjum pallbílum með stórar innfluttar hestakerrur í eftirdragi eða fjórhjólavagna renndi stoltur eftir götunum. Í kjölfar bankahrunsins er þetta orðið sjaldgæfari sjón og því ákvað ég að yrkja ljóðið upp í tilefni af breyttum tímum:

Ellimörkin - einu ári síðar.

Glæsikonur líta ekki lengur glaðlega til mín
og pallbílar góðærisins eru horfnir af götunum, hestakerrurnar líka.
Í búðunum íslenskur matur, í baðherberginu vigtin samt ennþá,
og í ræktina þarf ég lengur ekki að fara því nú hjóla ég í vinnuna.
Rófustappa slátur og mysa á borðum og á laugardagskvöldinu eru það
gömlu myndbandsspólurnar úr Góða hirðinum sem fátt toppar.
Ég býð nokkrum góðum vinum í heimsókn,
set snjáðar vínýlplötur á fóninn og 
Johnny Cash syngur 'Peace in the valley'. Hið
andlega lausafé flæðir í gnægtum og fyllir sálarbankana.
Næst fer kvæðamannafélagið Iðunn á fóninn og
við kveðum nokkrar góðar stemmur
- hljómatöfrar heilla rispum blandaðir.
Gömul, nei það erum við sko aldeilis ekki.


Vinnubrögð Útlendingastofnunar í máli Mark Cumara sæta furðu

Í 24 Stundumí dag er greint frá á bls. 4 máli Mark Cumara 23 ára manns í Þorlákshöfn sem kom hingað til lands frá Filippseyjum 17 ára til dvalar hjá móður og fósturföður sem bæði eru íslenskir ríkisborgarar og hafa dvalið hérlendis síðasta áratug. Af fréttinni má ráða að mistök hafi verið gerð í umsókn tilskilinna leyfa fyrir piltinn þegar hann kom hingað til lands en ekkert var gert í málinu þangað til nú að hann fær stuttan frest til að fara úr landi. Í fréttinni segir orðrétt: „Útlendingastofnun segir foreldra bera ábyrgð á því að börn hafi dvalarleyfi þar til þau eru lögráða og eftir það beri þau ábyrgðina sjálf. Stofnunin geti ekki tekið það að sér. Lög kveði á um að útlendingur í ólögmætri dvöl fari úr landi. Mál Marks er ekki í brottvísunarferli, en engu að síður er honum gert að hverfa úr landi fyrir 16. sept. Hann bað um lengri frest en fékk ekki. Sækja þarf skriflega um frest og tilgreina ástæður. “

Nú hef ég áður lýst því í pistlinum Af hverju hugnast mér ekki ESB hvernig erlendu fólki er mismunað eftir því hvort það kemur frá ESB landi eða ekki. Ekki skal það gagnrýnt að embættismenn Útlendingastofnunar geri það sem þeim ber að gera samkvæmt reglum, en greinilegt er að reglurnar eru gallaðar ef rétt er að stofnunin hafi ekki komið foreldrum piltsins í skilning um alvarlega stöðu hans fyrr og gefið þeim tilskilinn frest til að greiða úr málum. Upplýsingaskylda íslenskra stjórnvalda hlýtur að vera einhver og þau geta ekki varpað þessari ábyrgð alfarið yfir á fjölskyldu piltsins. Ef fjölskyldan hefur beðið munnlega um frest en ekki fengið því að formsins vegna verði slíkar beiðnir að vera skriflegar þá hlýtur það að vera stofnunarinnar að aðstoða fólkið að sækja um skriflega. Ef brottvísunin er á þeim forsendum að skriflega umsókn um frest vanti, þá er nærtækast að ætla að stofnunin sé að beita of mikilli hörku í máli þessa pilts. Vonandi kemur hið gagnstæða í ljós og vonandi mun þetta mál hljóta farsælan endi.

 


Nokkur skemmtileg orð

Ég hef verið að hugleiða ýmsa skemmtilega frændsemi orða. Ég hef gaman af því að bera saman orð úr ensku og íslensku sem hljóma næstum því eins en hafa kannski aðra merkingu. Hér eru nokkur. Íslenska orðið kemur fyrst en síðan það enska:

Bað - bath; hljómar alveg eins og merkir það sama.
Flór - floor; hljómar eins en merkir ekki alveg það sama.
Rann - run; hljómar eins en hefur lítilsháttar breytta merkingu.
Fýla - feeling; Fýla í merkingunni að fara í fýlu. Breytt orð en bæði orðin túlka tilfinningar.

Svo er það íslenska orðið kapall í merkingunni hestur eða hryssa frekar. Mér var sagt í dag að í spænsku eða katalónsku þýddi orðið cabal eða caval hestur. Cavalero eða cavalier er þá maður á hesti þó oftar í merkingunni riddari. Kapall og caval hljómar mjög svipað.

California þýðir heitur ofn. Cal er sama hljóð og í kaloríur eða orka. Fornia er ofn.
Florida er blóma-eitthvað og Texas þýðir þök. Sel þetta ekki dýrara en mér var sagt. Leiðréttið mig ef ég fer með rangt mál.


Heklugosið 17. ágúst 1980

Dagurinn 17. ágúst 1980 var sérstakur því þann dag höfðum við nokkrir vinir ákveðið að ganga á Heklu. Við ætluðum þó ekki að fara ef veður yrði óhagstætt og því átti einn okkar að hringja í hina og setja gönguna á eða af eftir aðstæðum. Dagurinn rann upp bjartur og fagur og ég hlakkaði mikið til að fá símtalið góða því mig hafði langað til að ganga á Heklu í mörg ár. Ég hafði þá átt heima alla ævi á Galtastöðum í Gaulverjabæjarhreppi (nú Flóahreppi) og Hekla því í sjónmáli alla daga þegar skyggni var hagstætt. En mínútur urðu að klukkustundum og fyrr en varði var komið hádegi. Ég skildi ekkert í vini mínum að slá fjallgönguna af í þessu góða veðri. En síðar kom í ljós að hann hafði sofið yfir sig. Við pabbi ákváðum því að fara í staðinn á hestamannamót sem var þennan dag á Hellu og lögðum af stað. Þegar við vorum komnir framhjá Skógsnesi stoppaði hann og sagði að Hekla væri farin að gjósa. Og viti menn gosmökkurinn steig hátt í loft og greinilegt að þetta var stórt og mikið gos. Við keyrðum upp að Heklu og skoðuðum gosið frá veginum. Ómar Ragnarsson kom á lítilli flugvél, lenti á veginum og tók svo á loft aftur. Þetta var minnisstæður dagur. Pabbi orti ljóðið Hekla í tilefni hans.

Það var ekki fyrr en síðar sem ég fór að hugsa með æ meira þakklæti til svefngleði vinar míns og er ekki viss um að ég væri til frásagnar ef hann hefði ekki sofið yfir sig. Allar götur síðan hef ég látið mér nægja að dáðst að Heklu úr fjarlægð og hef aldrei síðan ráðgert göngutúr upp á hana og ætla aldrei að fara þangað.

Þessi saga rifjaðist upp fyrir mér enn einu sinni um daginn þegar Magnús Tumi jarðfræðingur sagði að gjósi Hekla á sumardegi eins og árið 1980 geti tugir manna verið á göngu á fjallinu. Hann sagði að ferðamenn hafi verið á fjallinu þegar það gos hófst og þeir hafi átt fótum fjör að launa. Alls ekki sé víst að fólk á fjallinu finni þær hreyfingar sem eru undanfari goss. Hekla sé fræg fyrir hvað eldgosin byrja snöggt. Líklega er þessi drottning íslenskra eldfjalla best og fallegust í fjarlægð.


Hrafnarnir komnir aftur

Nú hef ég fregnað að hrafnar hafi sést hér á Selfossi. Það var á föstudagsmorguninn síðasta 25. júlí sem tveir hrafnar sáust leika sér í uppstreyminu yfir nýja  sjúkrahúsinu á Selfossi.  Þetta eru fyrstu hrafnafréttir sem ég fæ í nokkurn tíma en eins og bloggvinum mínum er kunnugt um þá virtust þeir hafa horfið af svæðinu eftir jarðskjálftana.

Hesturinn minn heitir Flóki

En við höfum ekki sömu lifað árin eins og Blesi og ljóðmælandinn í 'orfeus og evridís' frægu kvæði Megasar af plötunni 'Á bleikum náttkjólum'. Hesturinn þessi er að verða 9 vetra gamall, er fæddur 1999 en ég er fæddur nokkru fyrr. Þetta er eini hesturinn sem ég á og ég er fyllilega sáttur við það því það er töluverð vinna að eiga hest. Maður þarf að vakna snemma á morgnana til að gefa honum hey og svo þarf að fæða hann á kvöldin líka. Síðan þarf að snyrta í kringum hann, hleypa honum út á daginn þegar gott er veður og klóra honum og klappa og skella sér á bak af og til. Þetta er allt skemmtilegt en ég vil ekki margfalda þetta með 2 hvað þá n þar sem n er heil tala stærri en 2.

Ég lít á það sem forréttindi að geta gefið mínum hesti sjálfur og annast hann daglega og þegar vel er að gáð þá þarf einn hestur töluverða athygli. Ég hef því ekki skipst á um að gefa eins og margir gera og er að þessu leyti dálítið sérvitur. Það eru fleiri hestar í hesthúsinu en af því að ég á þá ekki og aðrir hirða um þá þá sýni ég þeim minni athygli heldur en mínum hesti. Þetta finnur hesturinn minn og hann verður æfur af afbrýðisemi ef einhver hinna hestanna stillir sér upp við keðjuna þegar ég er að fara að hleypa honum eða stíufélaga hans inn í húsið.

Hingað til hefur mér fundist Flóki vera frekar lítið gefinn fyrir klappið þó hann vilji greinilega ekki að ég klappi öðrum hestum. En í dag sýndi hann mér merkileg vingjarnlegheit sem hann hefur aldrei gert áður. Ég var að moka snjó frá hesthúsinu til að hægt væri að fara með hjólbörur meðfram húsinu og hvað gerði karlinn? Hann stóð við hliðina á mér allan tímann og rak snoppuna af og til laust í mig á meðan ég mokaði. Þetta var sérlega vingjarnlegt og hann var greinilega að minna á sig og sýna mér samstöðu við moksturinn. Svona getur þetta tekið tíma. Ég eignaðist Flóka í apríl í fyrra og það er fyrst núna eftir níu mánaða samveru sem hann sýnir þessi vingjarnlegheit. Á þessum tíma hefur hann oft látið mig vita að hann sé ekki fyllilega sáttur við mig, bæði finnst honum að ég leyfi allt of mörgum hestum að vera í hesthúsinu, sem hann álítur greinilega vera sitt og honum finnst líka að hann eigi að ráða, af því hann var fyrsti hesturinn til að koma í húsið í haust. Að þessu leyti hef ég brugðist honum, að hans mati. Það er greinilegt. En sumir sættast þó það taki tíma.


Afmæli Braga 2007

Hér kemur mynd úr 10 ára afmæli Braga frá því í júlí í fyrra. Frá vinstri: Ásgeir Halldórsson, Rúnar, Bragi, Ásgeir Guðjónsson, Jón Páll, Böðvar og Trostan. Ef smellt er á myndina þá birtist stærri útgáfa hennar.

Jólin eru alveg að koma - setjum nú upp skeggið

Jæja núna eru jólin alveg að koma og tími til að fara að setja upp jólasveinaskeggið eins og Bragi á þessu YouTube myndskeiði. Við í Baugstjörn 33 sendum okkar bestu óskir um gleðileg jól og farsælt komandi ár með þökkum fyrir liðið.

 


Þannig verða fordómarnir til

Fyrir nokkrum mánuðum fórum við hjónin í matvöruverslun, sem alla jafna er ekki í frásögur færandi en í þetta skiptið gerðist atvik sem hefur orðið mér minnisstætt. En til að skilja það þarf nokkra forsögu.  Þannig er að konan mín er fædd á Filippseyjum en hún kom hingað til lands fyrir 15 árum. Við kynntumst síðan hér á landi og giftum okkur fyrir 13 árum. Skiljanlega er filippseyskur matur í uppáhaldi hjá henni en eins og kunnugir vita er brauðmeti ekki hátt hlutfall af fæðu filippseyskra. Ég aftur á móti borða töluvert brauð og um þetta leyti þá  bakaði ég töluvert í brauðvél.

Í sömu andrá og við gengum inn í búðina benti konan mín spyrjandi á brauðhleif og leit til mín. Ég skildi hana undir eins án þess að hún segði nokkuð. Hún var að spyrja hvort ég vildi kaupa brauð og þá auðvitað um leið hvort ég ætlaði að baka sjálfur. Ég hristi höfuðið og svaraði með snöggu "Nei" - því ég þekkti brauðbirgðir heimilisins betur en hún og var með fyrirætlun um að baka. Hún skildi mig auðvitað strax og fleiri orð fóru ekki á milli okkar eins og oft er hjá hjónum. En í því sem ég sagði þetta gekk hvatskeytlega framhjá okkur ljóshærð ung kona sem varð vitni að öllu sem á milli okkar fór. Skemmst er frá því að segja að hún leit til mín með svo eiturstingandi augnaráði að hjartað missti úr slag. Ég hef með sjálfum mér skemmt mér við þá tilhugsun að ef ég hefði verið fluga þá hefði ég steindrepist. Það sem hún sá var íslenskur karlmaður úti að versla með asískri konu. Konan benti spyrjandi á brauðið og karlinn hreytti út úr sér Nei-i. Því miður sá ég að við hjónin höfðum óafvitandi styrkt verulega þá ímynd í huga þessarar konu að eiginmenn asískra kvenna væru samansaumaðar og fyrirlitlegar karlrembur sem halda fast um pyngjuna og þverskallast við að kaupa brauð handa konum sínum.

Hvað getur fólk gert til að koma í veg fyrir svona atvik. Ég held því miður ekki neitt. Ef til staðar eru neikvæðar staðalmyndir af fólki  þá geta jafnvel smæstu atvik orðið til að styrkja þær í hugum þeirra sem ekki leggja stund á gagnrýna hugsun og horfa aðeins á yfirborðið.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband