Færsluflokkur: Samgöngur

Lækka þarf hámarkshraða á Suðurlandsvegi í Ölfusi

Í október 2007 og í maí 2008 bloggaði ég og lagði til að hámarkshraði á Suðurlandsvegi í Ölfusi yrði lækkaður. Í ágúst 2008 tjáði Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður Árnesinga sig um hraðann á þessum vegarkafla og sagði:

Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður í Árnessýslu, telur nauðsynlegt að lækka hámarkshraðann á Suðurlandsvegi á milli Selfoss og Hveragerðis úr 90 í 70. Segir hann að horfast verði í augu við það að vegurinn þoli ekki þann hraða sem þar sé nú leyfður.  [1]

Í október 2008 tjáði rannsóknarnefnd umferðarslysa sig um ástandið á þessum vegarspotta í svonefndri  varnaðarskýrslu sem fjallar um alvarleg umferðarslys á Suðurlandsvegi árin 2002 til 2008, sjá rnu.is. Þar kemur eftirfarandi fram: 

Rannsóknarnefnd umferðarslysa leggur til að hámarkshraði á Hringveginum milli Hveragerðis og Selfoss verði lækkaður í 70 km/klst. samhliða öflugri löggæslu og að unnið verði að því að bæta tengingar inn á veginn með betri merkingum og auknu rými.  [2]

Í umsögn vegagerðarinnar um þessa tillögu frá 2008 kemur fram að:

lækkun hámarkshraða gæti haft í för með sér meiri framúrakstur og þar með aukna slysahættu. RNU tekur undir þetta en telur að draga megi úr þeirri hætti [svo] með aukinni löggæslu. [2]

Síðan varnaðarskýrslan var gefin út hefur vegurinn verið lagaður kringum afleggjarana þannig að settar hafa verið breikkanir. Einnig hafa verið settar upp hraðamyndavélar þannig að eftirlit á vegkaflanum er mun öflugra en áður var. Hraðinn er eftir sem áður óbreyttur og það hlýtur að vera tímaspurmál hvenær aftanákeyrsla eða alvarlegt slys verður á þessum vegarspotta miðað við óbreytt ástand.  Þau rök Vegagerðarinnar frá 2008 að fleiri muni brjóta lögin ef hraðinn er lækkaður eru afleit. Víða á landinu er hámarkshraði lækkaður þar sem ástæða þykir til. Eiga þá lögbrjótarnir að fá óáreittir að setja hinum löghlýðnu ólög með virðingarleysi sínu fyrir lögunum? Af hverju á að taka meira tillit til þeirra sem brjóta lögin en hinna mörgu sem virða þau? Ef það eru fleiri svona staðir af hverju þá ekki lækka hraðann þar líka ef talið er að það muni draga úr slysatíðni? Minni umferðarhraði stuðlar líka að lægri eldsneytiseyðslu. Látum ökudólgana ekki hræða okkur frá því að taka þessi mál til gagngerrar endurskoðunar. 

 

[1] http://eyjan.is/2008/08/11/olafur-helgi-laekka-tharf-hamarkshradann-a-sudurlandsvegi/

[2] http://www.innanrikisraduneyti.is/sam/frettir/nr/22734


Þjóðráð til sparnaðar á eldsneyti

Nú þegar bensín og díselolía hækkar stöðugt er ekki fráleitt að rifja upp enn einu sinni hvernig best er hægt að draga úr eyðslu.  Ég svipaðist um á netinu og bætti svo við úr eigin ranni og fékk út eftirfarandi punkta. Ég tek fram að ég er áhugamaður um málefnið.

1. Þarf að fara ferðina? Er kannski hægt að hringja, fresta henni eða sameina hana annarri ferð?
2. Er hægt að bjóða einhverjum öðrum með til að deila kostnaði?
3. Aðgætið að réttur loftþrýstingur sé í dekkjum. Athugið að holóttur vegur getur orsakað að loft lekur úr dekkjum.
4. Notið hreinsiefni fyrir eldsneytiskerfið.
5. Reynið að forðast mikla hröðun. Mikill snúningur vélar kallar á meiri eyðslu.
6. Reynið líka að forðast að draga of snögglega úr hraða þar sem slíkt ökulag getur aftur kallað á skyndilega hröðun.
7. Takið óþarfa aukahluti úr bílnum svo hann verði léttari.
8. Virðið hraðatakmörk, þau eru sett til að gæta öryggis og einnig m.t.t. hagkvæmni í eldsneytiseyðslu.
9. Skítug loftsía getur orsakað að vélarafl minnkar og stuðlað að meiri eyðslu. Skiptið reglulega um olíu og látið athuga loftsíuna um leið.
10. Látið stilla og yfirfara bílinn reglulega og athuga eldsneytis- og kveikjukerfi.
11. Fylgist með eyðslunni svo strax verði vart við ef bíllinn fer að eyða óeðlilega miklu eldsneyti. Ef þrjár eða fjórar tankfyllingar koma lélega út þá borgar sig að athuga málið.
12. Akið ekki of hratt. Því meir sem vélin erfiðar til að ýta bílnum móti vindi því meiri verður eyðslan.
13. Skiptið um eldsneytissíu samkvæmt ráðleggingum framleiðandans. Einnig er hægt að láta hreinsa innspýtingu á 40-50 þús. km. fresti.
14. Notið hraðastilli (cruse control) ef það er í boði þar sem jafn hraði á lengri vegalengdum stuðlar að sparnaði.
15. Ef um fjórhjóladrifsbíl er að ræða notið þá ekki fjórhjóladrifið nema þar sem þörf krefur.

Um atriði 8 hér að ofan má segja að víða á höfuðborgarsvæðinu eru hraðatakmörk ekki virt. Algengt er að umferðin á stofn- og tengibrautum sé þetta 10 km. fyrir ofan takmörkin. Þessi mikli og ólöglegi hraði orsakar óþarfa sóun og mengun t.d. svifryksmengun yfir vetrartímann auk þess að vera yfir þeim hraða sem umferðarmannvirki eru hönnuð fyrir. Nú þegar lögreglan hefur minni tíma en áður til að fylgjast með þessu þá kemur það í hlut ábyrgra ökumanna að sjá um að halda hraðanum á þessum brautum innan og við leyfileg mörk.


Lækka þarf hámarkshraða á Suðurlandsvegi strax milli Hveragerðis og Selfoss

Nú hefur Rannsóknarnefnd umferðarslysa gefið út varnaðarskýrslu um Suðurlandsveg. Í nýlegri frétt á mbl.is segir m.a:

Mikilvægt er að brugðist sé við hratt og markvisst því fjöldi slysa og alvarleiki þeirra er slíkur að ekki verður við unað. Undanfarin ár hefur nefndin farið á vettvang alvarlegra umferðarslysa á milli Hveragerðis og Selfoss.

Að mati nefndarinnar er aðgreining akstursstefna áhrifaríkasta leiðin til að auka umferðaröryggi á þessum hættulega vegkafla. Hafin er hönnun tvöföldunar vegarins á þessum stað en Rannsóknarnefnd umferðarslysa hefur miklar áhyggjur af öryggi vegfarenda á þessum kafla vegna eðlis og fjölda slysa sem nefndin hefur rannsakað þar.

Síðastliðin fimm ár hefur nefndin farið fimm sinnum á vettvang alvarlegs umferðarslyss á þessum 12 km kafla, þar af hafa fjögur slys orðið undanfarin tvö ár. Telur nefndin nauðsynlegt að bregðast við sem skjótast með bráðabirgðalausnum til að auka öryggi á veginum og komast hjá frekara manntjóni þar til búið sé að opna veg sem aðskilur akstursstefnur. Í því samhengi leggur nefndin til að hámarkshraði verði lækkaður á kaflanum í 70 km/klst. samhliða öflugri löggæslu og unnið verði að því að bæta tengingar inn á veginn með betri merkingum og auknu rými," að því er segir í skýrslunni. [Leturbr. RGB].

Nú er bara að bíða eftir að samgönguráðherra og vegagerðin taki af skarið hið fyrsta og drífi í því að fara eftir tillögu RNU. Það ætti varla að vera meira en dagsverk að skipta um hraðaskiltin á þessari leið og hver dagur sem líður með 90 km. hámarkshraða á þessum vegi er einum degi of mikið. Þetta hef ég þrisvar bent á hér á blogginu, fyrst með pistli frá í október í fyrra, í pistli sem birtist í maí á þessu ári sem ég endurbirti í ágúst á þessu ári. Mig langar einnig að nota tækifærið og gagnrýna að víða hér á Suðurlandi skuli látið nægja að setja biðskyldumerki á vegi sem koma þvert á veg þar sem er 90 km. hámarkshraði. Á þessum stöðum ætti að vera stöðvunarskylda. Kannski finnst einhverjum það óþarfi en athugið lesendur góðir að ef fólk venur sig á að stöðva þegar það kemur þvert á hraðbrautina, jafnvel þó engin umferð sé þá mun það alltaf gera það undir öllum kringumstæðum og það er mikilvægt að það sé stöðvað undir öllum kringumstæðum, þ.e. að fólk sé ekki vant því að geta keyrt þvert inn á háhraðaveg án þess að stöðva. Biðskyldumerkin ætti aðeins að nota þar sem hraði er 70 eða minni.


Öryggi ferðafólks erlendis er ekki alltaf það sem það virðist vera

Öryggi ferðafólks erlendis er ekki alltaf það sem það virðist vera. Hörmulegt morð á íslenskri konu í Dóminíska lýðveldinu minnir á þetta. Það er svo fjarri því að í ýmsum löndum Afríku, Asíu eða Suður-Ameríku sé öryggi fólks jafn tryggt og það er í Vestur-Evrópu og Bandaríkjunum svo tekið sé dæmi. Við getum ferðast þangað en eitt af því sem við tökum með okkur eru innprentaðar hugmyndir okkar um öryggi og öryggistilfinningu en hætt er við að sú tilfinning geti orðið fallvalt veganesti og geti valdið hættulegu ofmati á eigin öryggi í löndum þar sem stjórnarfar er ekki tryggt eða embættismenn þiggja gjarnan aukagreiðslur fyrir unnin verk. Á þannig stöðum er réttlætið fyrst og fremst réttlæti hins sterka og kannski líka hins forsjála. Undir þannig kringumstæðum er öryggi eitthvað sem er mun meira einkamál en gengur og gerist og þeir sem ekki huga gaumgæfilega að því gætu verið í hættu. Fyrir ekki svo löngu las ég í blaði frétt af tveimur stúdínum sem ákváðu að fara í heimsreisu í tilefni af útskriftinni og völdu Suður-Ameríku til að ferðast um einar, í langan tíma og að því er virðist án skýrrar ferðaáætlunar. Ég trúði varla eigin augum þegar ég sá þetta, en það virðist því miður að verða nokkuð útbreiddur vani að íslensk ungmenni ferðist á eigin spýtur ein saman eða fá um þessi svæði. Þetta er kannski hluti af áhættusækni ungs fólk sem einnig má sjá í áhættuíþróttum, en í þessum tilfellum er áhættan stundum ekkert minni en þess sem hoppar í fallhlíf eða fram af háu húsi eða fjallsbrún í fallhlíf.

Þeir sem þekkja aðstæður í Afríku- eða Asíulöndum vita að miklu máli skiptir að þekkja aðila á staðnum og eiga sem minnst viðskipti eða samskipti við ókunnuga í tilfellum þar sem öryggi getur skipt máli. Einnig er mjög mikilvægt að ferðast ekki einn eða fáir saman heldur hafa traust fylgdarfólk sem gjörþekkir aðstæður á staðnum, helst innfædda. Til að byrja með er þetta óþægilegt, að geta ekki um jafn frjálst höfuð strokið og heima og þurfa helst að vera upp á aðra kominn með fylgd en þetta getur borgað sig til lengri tíma. Það gleymist gjarnan að öryggis- og frelsistilfinning Vesturlandabúa er ekki sjálfsögð heldur er hún afrakstur fullkomins öryggiskerfis þróaðs þjóðfélags. Við skömmumst stundum út í lögregluna en viljum jafnframt ganga óáreitt um götur borga okkar helst á hvaða tíma sólarhrings sem er.  En það er munaður sem er fjarrri því að vera sjálfsagður.


Þarf lögreglan að koma sér upp ódýrari bílaflota?

Nýlegar fregnir um niðurskurð hjá lögreglunni og búsifjar hennar vegna hás eldsneytisverðs vekja upp spurningar hvort ekki sé hægt að haga endurnýjun bílaflota lögreglunnar þannig að sparneytnis- og hagkvæmnissjónarmiðum verði gert hærra undir höfði þó án þess að draga úr öryggiskröfum. Áskorun Geirs Haarde forsætisráðherra í þjóðhátíðarræðunni 17. júní sl. um að þjóðin þurfi að breyta um lífsstíl hlýtur að eiga við um embætti ríkisins sem aðra. Bílar lögreglunnar hafa oftast verið af dýrari tegundum og fátt bendir til að sparneytni og ráðdeild hafi verið stór þáttur í ákvarðanatökunni. Hver man ekki eftir stóru Svörtu Maríu - Chevrolet Suburban skutbílum löggunnar sem hún notaði lengi vel. Því næst komu Volvóarnir, bílar sem fáir eignuðust nýja hérlendis nema betur stæðir borgarar. Sparneytni hefur ekki verið aðaleinkenni þessara bíla heldur fremur öryggi, glæsileiki og vélarafl.

Í fyrrasumar kom ég til London og varð vitni að því hvernig lögreglusveit á hestum stjórnaði umferðinni fyrir framan höll Bretadrottningar við varðskipti lífvarðasveitarinnar, sem reyndar var líka öll á hestum. Hestarnir létu fullkomlega að stjórn og voru greinilega vel nothæfir í þetta verkefni. Á Ítalíu hef ég haft spurnir af því að lögreglumenn séu á vespum! Líklega þykir það ekki merkilegur farkostur í augum þeirra sem aka dags daglega um á Harley Davidson mótorhjólum. Tíðarfarið hérlendis hamlar þó líklega bæði hesta- og vespunotkun lögreglunnar en ég velti fyrir mér af hverju þeir nota ekki meira sparneytna smábíla sem ættu að duga fullvel í flestum aðstæðum, séu þeir bílar styrktir sérstaklega. Nú kann einhver að segja að slíkir bílar hafi ekki afl til að veita eftirför kraftmeiri bílum en í þeim tilfellum þarf hvort sem er að grípa til sérstakra ráðstafana auk þess sem ofsaaksturs-eftirfarir lögreglunnar eru á tíðum sérlega vafasöm athafnasemi hins opinbera sér í lagi ef horft er á að allir eru jafnir fyrir lögunum. Í tilfelli ofsaaksturs eru góð fjarskipti og skipulagning trúlega áhrifaríkari heldur en kraftmiklir bílar. Ef það væri stefna lögreglunnar að elta ekki þá sem hunsa stöðvunarskyldu þá myndu þessar eftirfarir trúlega fljótlega heyra sögunni til. Líkurnar á að handsama ökufantana síðar eru hvort sem er yfirgnæfandi miklar og þeir skapa að líkindum minni hættu fyrir aðra vegfarendur ef þeir vita að þeir verða ekki eltir uppi.


Lækka þarf hámarkshraða á Suðurlandsvegi milli Hveragerðis og Selfoss

Því miður eru litlar líkur á að draga muni úr mikilli slysatíðni á Suðurlandsvegi á þeim köflum þar sem enn er ekki búið að skipta veginum. Vegna ástandsins í efnahagsmálum eru litlar líkur á að Suðurlandsvegur breytist mikið á næstu misserum og því horfa landsmenn sömuleiðis fram á óbreyttar líkur á slysum á þessari leið.

Krossarnir við Kögunarhól eru þögult vitni og áminning um þau sorglegu tíðindi sem verða aftur og aftur á leiðinni. Á þessari leið eru nokkrir kaflar sem eru sérlega áhættusamir. Einn þeirra er kaflinn milli Hveragerðis og Selfoss. Hann er sérmerktur sem slysasvæði enda hlykkjóttur og beygjóttur. Inn á hann liggja líka nokkrir þvervegir sem eru merktir með biðskyldumerkjum.

Það er í rauninni ótrúlegt að á þessum uþb. 10 km. vegarspotta skuli enn vera 90 km. hámarkshraði. Mannfallið á þessari leið virðist ekki hreyfa við neinum öðrum en þeim sem þurfa að syrgja ættingja sína. Sem fyrst þyrfti að lækka hámarkshraða á leiðinni niður í 80 eða jafnvel 70 og sömuleiðis þyrfti að skipta út biðskyldumerkjunum og setja stöðvunarskyldumerki í staðinn á þvervegina. Reyndar þyrfti að skipta út biðskyldumerkum og setja stöðvunarskyldumerki víðast hvar á Suðurlandsveginum og á fleiri stöðum þar sem sveitavegir liggja þvert inn á malbikaða aðalbraut með 90 km. hámarkshraða.

Nú kunna menn að andmæla þessari skoðun með þeim rökum í fyrsta lagi að það sé þjóðhagslega óhagkvæmt að lækka hámarkshraða. Spurning hvort menn hafa tekið háar slysalíkur og tjón sem orsakast af mannfalli með í þann reikning? Bæði er umhverfisvænt að aka á minni hraða og þjóðhagslegi reikningurinn er fljótur að jafna sig upp ef fólki fjölgar í bílum.

Í öðru lagi má reikna með þeim andmælum að fáir muni hlýða fyrirmælum um hámarkshraða. En þau rök eru ekki góð og gild í þessari umræðu. Á að afsaka lögbrot með því að löggæslan sé slæleg? Það væri hægur vandi að koma upp færanlegum löggæslumyndavélum á leiðinni sem væru færðar til með reglulegu millibili auk þess að beita hefðbundnum ráðum.

(Endurbirtur pistill frá 25.5. 2008.)


Lækka þarf hámarkshraða á Suðurlandsvegi milli Hveragerðis og Selfoss

Því miður eru litlar líkur á að draga muni úr mikilli slysatíðni á Suðurlandsvegi á þeim köflum þar sem enn er ekki búið að skipta veginum. Vegna ástandsins í efnahagsmálum eru litlar líkur á að Suðurlandsvegur breytist mikið á næstu misserum og því horfa landsmenn sömuleiðis fram á óbreyttar líkur á slysum á þessari leið.

Krossarnir við Kögunarhól eru þögult vitni og áminning um þau sorglegu tíðindi sem verða aftur og aftur á leiðinni. Á þessari leið eru nokkrir kaflar sem eru sérlega áhættusamir. Einn þeirra er kaflinn milli Hveragerðis og Selfoss. Hann er sérmerktur sem slysasvæði enda hlykkjóttur og beygjóttur. Inn á hann liggja líka nokkrir þvervegir sem eru merktir með biðskyldumerkjum.

Það er í rauninni ótrúlegt að á þessum uþb. 10 km. vegarspotta skuli enn vera 90 km. hámarkshraði. Mannfallið á þessari leið virðist ekki hreyfa við neinum öðrum en þeim sem þurfa að syrgja ættingja sína. Sem fyrst þyrfti að lækka hámarkshraða á leiðinni niður í 80 eða jafnvel 70 og sömuleiðis þyrfti að skipta út biðskyldumerkjunum og setja stöðvunarskyldumerki í staðinn á þvervegina. Reyndar þyrfti að skipta út biðskyldumerkum og setja stöðvunarskyldumerki víðast hvar á Suðurlandsveginum og á fleiri stöðum þar sem sveitavegir liggja þvert inn á malbikaða aðalbraut með 90 km. hámarkshraða.

Nú kunna menn að andmæla þessari skoðun með þeim rökum í fyrsta lagi að það sé þjóðhagslega óhagkvæmt að lækka hámarkshraða. Spurning hvort menn hafa tekið háar slysalíkur og tjón sem orsakast af mannfalli með í þann reikning? Bæði er umhverfisvænt að aka á minni hraða og þjóðhagslegi reikningurinn er fljótur að jafna sig upp ef fólki fjölgar í bílum.

Í öðru lagi má reikna með þeim andmælum að fáir muni hlýða fyrirmælum um hámarkshraða. En þau rök eru ekki góð og gild í þessari umræðu. Á að afsaka lögbrot með því að löggæslan sé slæleg? Það væri hægur vandi að koma upp færanlegum löggæslumyndavélum á leiðinni sem væru færðar til með reglulegu millibili auk þess að beita hefðbundnum ráðum.


Hinn umhverfissinnaði ökumaður

Á netinu má finna ýmis ráð fyrir umhverfissinnaða ökumenn og sjálfsagt sum hver hin ágætustu. Til dæmis það að aka ekki yfir hámarkshraða. Margir ökumenn virðast stóla á að aka á 80 þar sem 70 er hámarkshraði eða 100 þar sem 90 er hámarkið. Af hverju ætli það sé? Það er bæði mun dýrara heldur en að halda sig innan ramma laganna og svo mengar það meira. Getur verið að slæm skipulagning orsaki þetta tímaleysi og þennan hraða?

Nú hef ég heyrt það sjónarmið að tímasparnaður í umferðinni skili sér í aukinni hagsæld, en skyldi ekki góð skipulagning gera það miklu fremur? Hvað ef t.d. tveir eða þrír deila bíl saman frá Reykjavík til Akureyrar og halda sig á eða við hámarkshaða heldur en ef þrír bílar færu sömu leið og væru eins nálægt hundraðinu og Blönduóslöggan leyfði? Sparnaðurinn er strax augljós ef fleiri en einn eru í bílnum og sparnaður er nákvæmlega það sama og minni mengun.

Eitt ráðið sem ég sá var á þá leið að það ætti að létta bílinn eins og kostur er, ekki geyma hluti í bílnum til að rúnta með því öll þynging kallar á aukna eldsneytisnotkun. Einn vildi ganga svo langt að gera aldrei meira en að hálffylla tankinn til að létta bílinn en það er kannski frekar fyrir þá sem hafa tíma til að stoppa oftar á bensínstöðvum.

 


Hinar mörgu hliðar umhverfisstefnunnar - kjörorðin eiga að vera „snjallt“ og „endingargott“ en ekki „nýtt“

Þetta með að offita stuðli á aukinn þátt í loftslagsbreytingum þarf ekki að koma á óvart því allt sem gert er hefur áhrif. Það er ekki nóg að flokka úrgang og skila. Ef við viljum taka betur á þá hreyfum við líka einkabílinn sem minnst og sláum fjórar flugur í einu höggi; fáum hreyfingu og brennum minna af kolefnaeldsneyti auk þess að spara bæði kostnað við líkamsrækt og bensín.

En þannig mætti líka lengi telja. Hversu mikil þörf er ekki á því að hægja á lífsþægindagræðgi nútímans og taka upp siði sem voru aflagðir hér fyrir svo sem hálfri öld eða svo. Þá voru allir hlutir gernýttir og engu hent sem hægt var að endurnýta. Snærisspottar voru geymdir og splæstir saman, allt timbur nýtt til hins ítrasta, gamlar mublur gengu kaupum og sölum þangað til þær liðuðust í sundur. Bílar voru lagaðir og lagaðir og jafnvel handsmíðaðir í þá hlutir.  Þá voru ferðalög ekki svo algeng því þau voru firnadýr og líkur eru á að svo verði í framtíðinni. Fólk, jafnvel ókunnugir sameinuðust um bílferðir. Pælið í því! Þetta var nægjusamara þjóðfélag en það sem við búum í í dag en það var líka umhverfisvænt á sinn hátt þó svo orðið hafi ekki verið til þá.

Með því að kaupa eitthvað, hvort sem það er ferðalag eða hlutur erum við að stuðla að mengun og óþrifnaði í kringum okkur og því meira sem við kaupum því meira sóðum við út. Við sjáum kannski ekki óþverrann, hann getur sem hægast verið að safnast upp hinum megin á jörðinni, en hann er býsna örugglega þarna einhversstaðar.  Hversu mikið er ekki búið að henda af stóru túpusjónvörpunum sem voru vinsæl rétt áður en flatskjáirnir komu? Það eru trúlega einhver ósköp. Í þessu tilliti þarf hver og einn að skoða sitt hugskot og velta orðinu 'nýtt' af stallinum og setja þar frekar eitthvað á borð við 'snjallt' eða 'endingargott'.


mbl.is Offita stuðlar að loftslagsbreytingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband