Færsluflokkur: Ríkisútvarpið

Færa má langbylgjuna yfir á miðbylgju (AM)

Hægt væri að færa langbylgjusendingarnar yfir á miðbylgju (AM). Flest útvarpsviðtæki eru með þeim möguleika enn þann dag í dag. Miðbylgjusendingarnar eru að vísu ekki jafn langdrægar og langbylgjan en til að mæta því mætti e.t.v. auka afl sendanna. Að líkindum er ekki dýrt að breyta Gufuskálasendinum sem og þeim á Eiðum því aðeins þarf að breyta tíðni útsendingarinnar. Síðar mætti svo athuga að bæta við tveim AM sendum í viðbót, einum á Suðurlandi og einum á Norðurlandi. Líklega er hægt að fá svona búnað notaðan í dag, þar sem margar stöðvar eru að skipta yfir í stafrænt. 

Sjá einnig blogg mitt um málefni langbylgjunnar frá árinu 2008: http://ragnargeir.blog.is/blog/ragnargeir/entry/687892/ 
Yfirlit yfir önnur blogg mín um Ríkisútvarpið: http://ragnargeir.blog.is/blog/ragnargeir/category/1661/ 


mbl.is Langbylgjan nauðsynleg landsmönnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framtíð langbylgjuútvarpsins?

Vægi útvarps sem fjölmiðils fer síst minnkandi þrátt fyrir samkeppnina við sjónvarpið og netið. Markaðurinn fyrir útvarpsviðtæki er yfirfullur af prýðilegum AM/FM tækjum og margir símar eða tónspilarar innihalda FM útvarpstæki. 

Útvarpsviðtæki sem bjóða upp á móttöku á langbylgju eru samt sjaldséðari en áður þrátt fyrir að þannig tæki séu enn fáanleg.  Aukið hlutfall viðtækja án langbylgju dregur úr öryggishlutverki  langbylgjustöðvanna.  Ný öryggistækni svo sem SMS sendingar munu líklega bætast við í flóru öryggistækja án þess að draga úr vægi dreifikerfis fjölmiðlanna en í því neti er og verður útvarpið nauðsynlegur þáttur. 

Annað hvort þarf að gera kröfu um að innflutt útvarpsviðtæki séu með langbylgju eða þá að útsendingar verði fluttar af langbylgju yfir á miðbylgju (AM). Fyrri kosturinn er ekki góður því hann myndi skerða valkosti íslenskra neytenda. Hinn síðari er skárri en þá þyrfti líklega að fjölga sendistöðvum um tvær, auk þess að endurnýja tækjakost Gufuskála og Eiða. 

Fleiri pistlar um sama efni:
http://ragnargeir.blog.is/blog/ragnargeir/entry/1066057/
http://ragnargeir.blog.is/blog/ragnargeir/entry/1053046/


Framtíðarfyrirkomulag almannaútvarps þarf að hugsa frá grunni

Stjórn RÚV virðist ekki gera sér grein fyrir því að grundvöll almannaútvarpsins á Íslandi þarf að hugsa upp á nýtt. Með núverandi fyrirkomulagi tekst almannaútvarpinu ekki að rækja lýðræðislegt öryggishlutverk sitt, ég bendi á pistlana Ljósvakinn og lýðræðiðUm hlutverk ríkisvaldsins: Hvernig á að þekkja svanasöng stofnunar? , Framtíðin í ljósvakamálum, og Fjölmiðlarnir, nú þarf að endurræsa, Nú er lag fyrir stjórnvöld að jafna hlut allra ljósvakastöðva, Aðalbjörg Sigurðardóttir um RÚV 1944 og Amy Goodman - orð í tíma töluð í og fyrir RÚV til að nefna nokkra. Fyrir hrun gerðist það ítrekað og það gerist enn að ráðamenn fái að mæta og verja sjónarmið sín gegn spurningum aðeins eins viðmælanda. Einn viðmælandi getur að sjálfsögðu aldrei komið í staðinn fyrir hóp fréttamanna sem ættu að fá að taka leiðtogann á beinið.  Fákeppni á fjölmiðlamarkaði hlýtur alltaf að stuðla að lýðræðislegum sofandahætti, menningalegri fábreytni og elítustjórn. Líkur benda til að önnur öryggissjónarmið með starfsemi RÚV séu einnig ekki nógu traust, sjá pistlana Um öryggishlutverkið og langdrægni sendinga,og  Óviðunandi frammistaða RÚV í óveðrinu á Austurlandi. Ýmislegt bendir einnig til að menningarleg markmið með starfsemi RÚV hafi ekki náðst á undanförnum árum, sjá pistlana Menningarlegt sjálfstæði landsbyggðarinnar er brýnt, Styrkir til fleiri aðila en RÚV stuðla að jafnræði í menningarmálum, Hlúa þarf betur að hljóðrituðum menningararfi, og RÚV - menningarleg Maginotlína til að nefna nokkra. 

Það sem þarf er ný sýn, ný hugsun sem byggir á jafnræði ljósvakamiðla, menningarlegri fjölbreytni og menningarlegu sjálfstæði landsbyggðarinnar sem og uppfærðri áætlun hvað varðar öryggishlutverkið. 


mbl.is Eðlisbreyting á starfsemi RÚV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

RÚV: Um öryggishlutverkið og langdrægni sendinga

Í októberlok 2008 bloggaði ég um öryggishlutverk RÚV og varpaði fram þeirri hugmynd að heppilegt gæti verið að koma á fót fjórum miðbylgjusendum, einum í hverjum landsfjórðungi. Tengill á þessa færslu er hér: Er öryggishlutverk RÚV fyrir borð borið? Þegar ég skrifaði þetta var mér ókunnugt um Skjaldarvíkurstöðina í Eyjafirði sem lögð var niður árið 2000 og hafði sent út á miðbylgju frá því 1950. Ég hafði þá heldur ekki lesið ágætan pistil Egils Héðins Bragasonar sem hann skrifaði árið 2005 og fjallar um sama efni: Öryggishlutverk RÚV – eru Akureyringar og Eyfirðingar afskiptir? Ég bendi lesendum hér með á þessa pistla. Frá því þeir voru skrifaðir hefur ekkert breyst hvað varðar stefnumótun um öryggishlutverk né heldur menningarhlutverk RÚV.

 


Útvarp er sígildur fjölmiðill

Þegar bloggflokkar á blog.is eru skoðaðir sést þegar þetta er skrifað að Sjónvarpið er með sinn sérstaka flokk en útvarp er hvergi sjáanlegt. Ég hef þó sent umsjónarmönnum bloggsins póst og bent þeim á að bæta þessum flokki við. Af hverju?

Útvarp á mikið erindi til samtímans þrátt fyrir mikla athygli sjónvarps, kvikmynda og netsins. Þessu valda nokkur atriði:  

1. Útvarpstæki eru tiltölulega ódýr og meðfærileg, a.m.k. miðað við tölvur, vídeótæki og sjónvarpstæki. Þetta hefur þær afleiðingar að útvarpstæki er að finna víða; á heimilum, í bílum, á vinnustöðum, í verslunum og ýmsum stöðum þar sem fólk safnast saman.

2. Það er hægt að hlusta á útvarp þó fólk sé að gera eitthvað annað, svo sem að aka bíl eða vinna eitthvað í höndunum, en þetta er eiginleiki sem vídeó, sjónvarp eða netið búa ekki yfir.

3. Styrkur útvarpsins er hið talaða orð, sem ekki krefst áhorfs og einnig tónlistarflutningur en sjónvarp er ekki nauðsynlegt til að koma tónlist til skila.

Þessi þrjú atriði benda til að útvarp muni um fyrirsjáanlega framtíð verða bæði vinsæll og ómissandi fjölmiðill og snar þáttur menningar okkar eins og verið hefur síðustu 80 ár eða þar um bil. Ég hef því búið til mínar einkamöppur hér á blogginu, eina um útvarp og undirflokkur hennar er um Ríkisútvarpið. Þar má finna hugleiðingar mínar og hugmyndir um útvarp á Íslandi eins og þær hafa verið að þróast og mótast undanfarin tvö ár.


Framtíðin í ljósvakamálunum

Það má kannski segja að svipað gildi um ljósvakamiðla og  stjórnmálaflokka að það sé heppilegra að þeir séu fleiri en færri svo meiri líkur en minni séu á því að kjósendur og hlustendur finni eitthvað við sitt hæfi. Ef lög tryggðu að smáir ljósvakamiðlar ættu sér tilverugrundvöll og vaxtarmöguleika án þess að eiga á hættu stöðugar sameiningar eða yfirtökur stórra aðila með tilheyrandi róti á starfsmannahaldi og starfsemi þá væri mikið unnið. Samþjöppun á fjölmiðlamarkaði ætti frekar að hindra með því að tryggja tilverurétt smærri aðila heldur en setja strangar og íþyngjandi reglur um eignarhald á fjölmiðlum umfram ákvæði samkeppnislaga.

Ég hef skrifað nokkuð um Ríkisútvarpið. Atburðirnir í kjölfar niðurskurðartillagnanna hjá RÚV þegar fjöldinn allur af félagasamtökum mótmælti því að skera niður á svæðisstöðvum RÚV úti á landi sýna svo ekki verður um villst hvert straumurinn liggur í menningarmálum ljósvakans. Það virðast margir á þeirri skoðun að landsbyggðarstöðvarnar beri að efla frekar en hitt. Þess má geta til upplýsingar að á Suðurlandi er engin slík fjórðungsstöð starfandi. Svo virðist sem þau mótmæli hafi komið bæði þáverandi stjórnvöldum sem og stjórnendum RÚV ohf algerlega í opna skjöldu.

Hugmyndir mínar byggja í stuttu máli á því að byggja upp flóru sjálfstæðra aðila, sem þrátt fyrir að vera ekki stórir eru stöndugir og hafa burði til að vera til í áratugi ef þeir fara vel með fé. Þessir aðilar gætu sem best myndað efnismarkað sín á milli svo að vinsælir útvarpsþættir gætu heyrst á fleiri stöðvum en þeirri sem framleiðir efnið.

Ljósvakamiðlarnir eiga að sitja við sama borð hvað varðar framlög frá ríkinu. Einn þessara miðla getur sem best verið í eigu ríkisins, þ.e. RÚV og þá á þeim forsendum að tryggja þurfi öryggi almennings og dreifingu til fjarlægra staða. Ef þessa jafnræðis er gætt þá geta þeir allir verið á auglýsingamarkaði. Framlög ríkisins til ljósvakamiðlanna ættu síðan að vera í réttu hlutfalli við flutning þessara miðla á innlendu efni eða efni sem tengist Íslandi á einhvern hátt. Þessir
miðlar gætu sem best sameinast um rekstur öflugrar og óháðrar fréttastofu eða notið þeirrar þjónustu frá RÚV en haft frjálsar hendur þar fyrir utan. Það er í rauninni skammarlegt að þeir peningar sem innheimtir voru sem afnotagjöld en núna nefskattur séu notaðir til að flytja landanum textaðar erlendar sápuóperur í ríkissjónvarpinu kvöld eftir kvöld svo árum skiptir.

Í þessu sambandi er nærtækt að horfa til þess að leggja RÚV þær skyldur á herðar að byggja upp starfsstöð í hverjum landsfjórðungi, því auk þess að byggja upp fjölbreytni og menningarlegt sjálfstæði landsbyggðarinnar byggir slíkt fyrirkomulag einnig upp aukið öryggi þegar náttúruhamfarir bresta á. Sjá t.d. pistilinn  þar sem ég mæli með því að öflugum miðbylgjusendum verði komið fyrir í hverjum landsfjórðungi.

Flest útvarpsviðtæki sem seld eru á Íslandi í dag eru bara með AM/FM móttöku sem gerir að verkum að langbylgjustöðvarnar eru smátt og smátt að verða úreltar þó sjómenn og ferðamenn noti þær eflaust mikið. En horfa ber á að öflug miðbylgjustöð er líka langdræg og ef hún er vel staðsett þá gætu fjórar slíkar stöðvar trúlega þjónað jafn vel eða betur en gert er með núverandi fyrirkomulagi tveggja langbylgjustöðva.

Ýmis önnur félagaform en hlutafélagaformið henta trúlega betur til reksturs menningarstarfsemi á vegum ríkisins. Arðurinn af starfseminni kemur fram í auknum lífsgæðum, gagnrýnni hugsun og víðsýni þegnanna og er að því leyti eftirsóknarverður þó erfitt sé að leggja á hann efnahagslegan mælikvarða.

Þegar landið fer að rísa á nýjan leik í efnahagsmálum þarf að stofna ljósvakasafn sem hefur það hlutverk að safna ljósvakaefni sem flutt er á íslensku eða hefur að öðru leyti ótvíræð tengsl við íslenska menningu. Þjóðarbókhlaðan gegnir nú þegar þessu hlutverki hvað varðar prentað mál og ljósvakasafnið yrði því aðeins útvíkkun á sömu hugsun þegar kemur að ljósvakaefni.  Hugsanlega er hægt að fara að athuga þessi mál strax ef vitað er hvert á að stefna.

RÚV yrði þá nokkurs konar þjónustu- og öryggismiðstöð rekin af ríkinu en myndi sjá um rekstur öflugrar fréttastofu þar sem gerðar verða miklar kröfur til menntunar starfsmanna og óhlutdrægni í efnistökum. Þeir myndu einnig vera þjónustuaðilar og sjá um að leigja út efni úr ljósvakabankanum til hinna smærri aðila sem vilja sína til þess að miðla gömlum menningarperlum.

Ef þessar leiðir eru farnar þá gæti landið farið að rísa hjá litlu útvarpsstöðvunum og þær eignast tilverugrundvöll sem annars væri ekki til staðar. Þær gætu boðið upp á prýðilega þjónustu á ýmsum svæðum og byggt upp fjölbreytta og sérstæða en jafnframt sjálfstæða flóru menningar sem ekki er ríkisstýrð þó hún væri ríkisstyrkt að hluta. Fjölbreytt flóra minni en stöndugri aðila ætti líka að stuðla að meiri möguleikum fyrir lýðræðið og þá sem vilja koma skoðunum sínum á framfæri. Með þessu móti yrði jafnræði gert hærra undir höfði en nú er.


Ljósvakinn og lýðræðið

Það má kannski segja að svipað gildi um ljósvakamiðla og stjórnmálaflokka að það sé heppilegra að þeir séu fleiri en færri svo meiri líkur en minni séu á því að kjósendur og hlustendur finni eitthvað við sitt hæfi. Ef lög tryggðu að smáir ljósvakamiðlar ættu sér tilverugrundvöll og vaxtarmöguleika án þess að eiga á hættu stöðugar sameiningar eða yfirtökur stórra aðila með tilheyrandi róti á starfsmannahaldi og starfsemi þá væri mikið unnið.

Ég ef í fyrri pislum skrifað nokkuð um Ríkisútvarpið. Atburðirnir í kjölfar 550 milljón króna niðurskurðartillagnanna hjá RÚV þegar fjöldinn allur af félagasamtökum mótmælti því að skera niður á svæðisstöðvum RÚV úti á landi sýna svo ekki verður um villst hvert straumurinn liggur í menningarmálum ljósvakans. Það virðast margir á þeirri skoðun að landsbyggðarstöðvarnar beri að efla frekar en hitt. Þess má geta til upplýsingar að hér á Suðurlandi er engin slík fjórðungsstöð starfandi.

Hugsast getur að stjórnvöld og stjórnmálaflokkarnir séu að átta sig á því að það þarf að mynda heildstæða stefnu í íslenskum ljósvaka- og fjölmiðlamálum og ná um hana víðtækri og breiðri sátt. Gallinn er bara sá að hvorki stjórnvöld né stjórnmálaflokkarnir virðast hafa skýrar hugmyndir um hvert eigi að stefna. Ég bendi þeim því á að lesa pistlana í efnismöppunni minni um Ríkisútvarpið. Kannski fá þeir einhverjar hugmyndir sem þeir geta byggt á. Þær hugmyndir byggja í stuttu máli á því að byggja upp flóru smærri aðila, sem þrátt fyrir smæðina eru stöndugir og hafa burði til að vera til í áratugi ef þeir fara vel með fé. Þessir aðilar gætu sem best myndað efnismarkað sín á milli svo að vinsælir útvarpsþættir gætu heyrst á fleiri stöðvum en þeirri sem framleiðir efnið.

Í þessu sambandi er nærtækt að horfa til þess að byggja upp útvarpsstöð í hverjum landsfjórðungi, því auk þess að byggja upp fjölbreytni og menningarlegt sjálfstæði landsbyggðarinnar byggir slíkt fyrirkomulag einnig upp aukið öryggi þegar náttúruhamfarir bresta á. Sjá t.d. pistilinn  þar sem ég mæli með því að öflugum miðbylgjusendum verði komið fyrir í hverjum landsfjórðungi. Menningarleg slagsíða í þágu höfuðborgarsvæðisins í dagskrá og áherslum RÚV er greinileg. Nægir þar að nefna langdregin atriði í áramótaskaupinu sem snerust alfarið um argaþras í borgarpólitík Reykjavíkur.

Eignarhald ljósvakastöðva gæti sem best verið blandað. Í raun skiptir það ekki höfuðmáli hver á stöðina ef reksturinn er tryggður og hann má sem best styðja með ríkisframlögum að hluta til eða í hlutfalli við framboð stöðvarinnar af íslensku menningarefni. Samþjöppun á fjölmiðlamarkaði ætti frekar að hindra með því að tryggja tilverurétt smærri aðila heldur en setja strangar og íþyngjandi reglur um eignarhald á fjölmiðlum umfram ákvæði samkeppnislaga.  Það verður þó að segjast að ýmis önnur félagaform en hlutafélagaformið henta trúlega betur til reksturs menningarstarfsemi. Arðurinn af starfseminni kemur fram í auknum lífsgæðum, gagnrýnni hugsun og víðsýni þegnanna og er að því leyti eftirsóknarverður þó erfitt sé að leggja á hann efnahagslegan mælikvarða.

Núverandi frammistaða RÚV á menningarsviðinu er viðunandi eins og hún er en hún gæti verið miklu betri ef fjölbreytninni væri fyrir að fara. Ég bendi t.d. á pistilinn RÚV - Menningarleg Maginotlína í þessu sambandi.

Á sama hátt má líklega segja að til lengri tíma sé heppilegra að stjórnvöld hlúi að tilveru lítilla stjórnmálahreyfinga og þær njóti jafnræðis á við hina stóru. Það tryggir að líkindum fjölbreyttari nýliðun í flokkakerfinu og vinnur gegn stöðnun, klíkumyndun og áhrifum flokkseigendafélaga í hinum stærri og eldri stjórnmálahreyfingum.


Hverjir sitja í starfshópum um málefni RÚV?

Það hefur verið skammt stórra högga á milli hjá RÚV og fréttirnar af 700 milljóna sparnaðinum dundu nokkuð óvænt og snögglega yfir þó fyrirsjáanlegt væri að einhver niðurskurður yrði. Óskandi er að þeir sem fyrir niðurskurðarhnífnum verða muni finna störf sem fyrst. En nokkrar spurningar hafa sótt á mig að undanförnu sem ég hef ekki fundið svör við þrátt fyrir vefleit. Í fyrsta lagi er það hverjir eiga sæti í starfshópnum um málefni RÚV sem greint var frá nýlega að settur hefði verið á laggirnar? Í öðru lagi væri forvitnilegt að fá að vita að hve miklu leyti þessar niðurskurðartillögur tengjast þessum starfshóp? Er það starfshópurinn sem leggur línurnar um niðurskurðinn eða er það útvarpsstjóri?

Fyrir liggur líka að eftirlitsstofnun EFTA, ESA vinnur í því í samráði við íslensk stjórnvöld að finna framtíðarfyrirkomulag fyrir RÚV sem fallið geti að reglum EES.

Að sögn Inge Hausken Thygesen, upplýsingafulltrúa ESA, vinna starfsmenn ESA að málinu í samvinnu við íslensk stjórnvöld. Unnið sé með það markmið í huga að íslensk stjórnvöld og ESA komist að sameiginlegri niðurstöðu um hvernig þessum málum skuli háttað í framtíðinni. [1]

Hér virðist svo vera önnur nefnd eða starfshópur starfandi og sú spurning vaknar óhjákvæmilega hvort um sé að ræða sama starfshópinn? Það er líklegt að svo sé ekki því ESA málið hefur verið til skoðunar síðan 2002 en nýi starfshópurinn var skipaður í þessum mánuði [2]. Það væri  forvitnilegt að fá upplýst hverjir eiga sæti í ESA starfshópnum því ef rétt er að hann sé að huga að langtímafyrirkomulagi ljósvakamála hérlendis þá er sá starfshópur áhrifamikill.

Í rauninni skiptir kannski ekki höfuðmáli hvaða einstaklingar eiga hér í hlut heldur hitt að það er pólitískur menntamálaráðherra sem í þessa starfshópa skipar. Í rauninni má segja að málefni RÚV og ljósvakamiðlunar almennt séu þess eðlis að það sé óheppilegt að sérpólitísk sjónarmið fái að ráða ferðinni varðandi framtíðarstefnumótun. Í því sambandi væri heppilegra að skipa þverpólitískt ráð til að leggja línurnar og til að sátt náist til framtíðar um ljósvakamenningu. Einnig væri heppilegt að í svona ráðum sitji ekki bara fólk skipað af stjórnmálaflokkum heldur einnig fólk skipað af hagsmunasamtökum listamanna og annarra hagsmunaaðila.  Það vekur því nokkra furðu að ekki hefur komið skýrt fram á almennum vettvangi hverjir eiga sæti í þessum starfshópum og einnig er furðulegt að Alþingi skuli ekki hafa kallað eftir þessum upplýsingum. Það má þó vera að svo sé án þess að ég hafi tekið eftir því en þá hafa þingfréttamenn ekki enn miðlað þeim fróðleik út á netið því þegar orðin RÚV og starfshópur eru gúgluð þá birtist mitt eigið blogg efst á blaði. Afgangurinn eru fréttir almenns eðlis.

[1] http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/11/20/skodun_a_ruv_lykur_bratt/
[2
] http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item234572/


Tímabær starfshópur um málefni RÚV

Í fréttum síðustu viku var greint frá því að menntamálaráðherra hefði sett á laggirnar starfshóp um málefni RÚV. Starfshópur þessi á annars vegar að fjalla um stöðu RÚV á auglýsingamarkaði og hins vegar að fjalla um eignarhald á öðrum fjölmiðlum. Þetta er þarft og tímabært framtak hjá ráðherranum og ber að lofa. Gera má ráð fyrir að starfshópur þessi láti langtímasjónarmið móta starfshætti sína og taki tillit til ýmissa sjónarmiða stjórnarskrárinnar svo sem jafnræðisreglu. Í því sambandi þarf að huga að því að ríkið styrki menningarstarfsemi annarra fjölmiðla svo ekki þurfi að koma til samþjöppunar á eignarhaldi þeirra sem gæti stangast á við samkeppnislög. Þar með myndi verða lagður grunnur að fjölbreyttri flóru sjálfstæra en stöndugra fjölmiðla sem gætu haft samstarf t.d. um rekstur fréttastofu og með ríkisstyrk væri hægt að tryggja að innlendri menningu yrði sýndur sá sómi sem löngu er tímabær. Með þessu móti væri komið í veg fyrir að fjöreggi ljósvakamenningarinnar verði komið fyrir hjá einum aðila sem er viðhorf sem hefur sýnt sig að duga illa, jafnvel svo mjög að hægt er að tala um Menningarlega Maginotlínu þar sem RÚV- Sjónvarpið er.

Stórskemmtileg Eivör í Góðu kvöldi Sjónvarpsins

Laugardagskvöldið 15. 11. sl. var færeyska söngkonan Eivör Pálsdóttir gestur Ragnhildar Steinunnar í skemmtiþættinum Góðu kvöldi. Eivör er greinilega hæfileikaríkur og fjölhæfur listamaður og það sem gerði þennan þátt líka eftirminnilegan var flutningur hennar á færeyskum þjóðlögum. Sungnar sagnaþulur og sagnadansar er að heita má horfið úr menningu okkar en lifir enn í Færeyjum. Við eigum að vísu enn rímurnar þrátt fyrir að þær hafi legið undir ámæli menningarvita þjóðarinnar í um 170 ár eða frá því Jónas Hallgrímsson hóf andóf gegn þeim sem hefur staðið þeim fyrir þrifum í menningarlegu tilliti allar götur síðan. Sagnadansar og vikivakar fóru sömu leið og líklega af sömu ástæðum, þ.e. leiðandi andans mönnum þjóðarinnar féllu þeir ekki í geð og því fór sem fór. Það má því segja að túlkun Eivarar á hinum fornu sagnaljóðum opni okkur dýrmæta sýn inn í fortíð okkar og uppruna, sýn sem tekin hefur verið frá okkur. Mér sárnaði því mjög þegar þáttastjórnandinn tilkynnti að auglýsingahlé yrði gert á útsendingunni einmitt þegar færeyski dansinn var byrjaður að duna og hléið varði á meðan dansað var. Þetta var ótrúleg óvirðing bæði við list Eivarar sem og færeysku og forn-norrænu dansmenninguna. Andlegir leiðtogar sjónvarpsins hafa því greinilega lítt þokast áleiðis í átt til nútímans hvað varðar viðhorf til þessara dansmenningar og talið að hún yrði best geymd bakvið auglýsingar. Að sjálfsögðu átti að taka upp þráðinn frá því sem frá var horfið og leyfa sjónvarpsáhorfendum að sjá þennan dans og heyra danskvæðið kveðið, það hefði verið verðug uppreisn æru þessa merkilega menningarforms.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband