Færsluflokkur: Ferðalög

Öryggi ferðafólks erlendis er ekki alltaf það sem það virðist vera

Öryggi ferðafólks erlendis er ekki alltaf það sem það virðist vera. Hörmulegt morð á íslenskri konu í Dóminíska lýðveldinu minnir á þetta. Það er svo fjarri því að í ýmsum löndum Afríku, Asíu eða Suður-Ameríku sé öryggi fólks jafn tryggt og það er í Vestur-Evrópu og Bandaríkjunum svo tekið sé dæmi. Við getum ferðast þangað en eitt af því sem við tökum með okkur eru innprentaðar hugmyndir okkar um öryggi og öryggistilfinningu en hætt er við að sú tilfinning geti orðið fallvalt veganesti og geti valdið hættulegu ofmati á eigin öryggi í löndum þar sem stjórnarfar er ekki tryggt eða embættismenn þiggja gjarnan aukagreiðslur fyrir unnin verk. Á þannig stöðum er réttlætið fyrst og fremst réttlæti hins sterka og kannski líka hins forsjála. Undir þannig kringumstæðum er öryggi eitthvað sem er mun meira einkamál en gengur og gerist og þeir sem ekki huga gaumgæfilega að því gætu verið í hættu. Fyrir ekki svo löngu las ég í blaði frétt af tveimur stúdínum sem ákváðu að fara í heimsreisu í tilefni af útskriftinni og völdu Suður-Ameríku til að ferðast um einar, í langan tíma og að því er virðist án skýrrar ferðaáætlunar. Ég trúði varla eigin augum þegar ég sá þetta, en það virðist því miður að verða nokkuð útbreiddur vani að íslensk ungmenni ferðist á eigin spýtur ein saman eða fá um þessi svæði. Þetta er kannski hluti af áhættusækni ungs fólk sem einnig má sjá í áhættuíþróttum, en í þessum tilfellum er áhættan stundum ekkert minni en þess sem hoppar í fallhlíf eða fram af háu húsi eða fjallsbrún í fallhlíf.

Þeir sem þekkja aðstæður í Afríku- eða Asíulöndum vita að miklu máli skiptir að þekkja aðila á staðnum og eiga sem minnst viðskipti eða samskipti við ókunnuga í tilfellum þar sem öryggi getur skipt máli. Einnig er mjög mikilvægt að ferðast ekki einn eða fáir saman heldur hafa traust fylgdarfólk sem gjörþekkir aðstæður á staðnum, helst innfædda. Til að byrja með er þetta óþægilegt, að geta ekki um jafn frjálst höfuð strokið og heima og þurfa helst að vera upp á aðra kominn með fylgd en þetta getur borgað sig til lengri tíma. Það gleymist gjarnan að öryggis- og frelsistilfinning Vesturlandabúa er ekki sjálfsögð heldur er hún afrakstur fullkomins öryggiskerfis þróaðs þjóðfélags. Við skömmumst stundum út í lögregluna en viljum jafnframt ganga óáreitt um götur borga okkar helst á hvaða tíma sólarhrings sem er.  En það er munaður sem er fjarrri því að vera sjálfsagður.


Salzburgarnautið

Salzburgarnautið eða Salzburg Stier er heiti á  hljómpípuorgeli sem geymt er í kastalanum í Salzburg, nánar tiltekið Hohensalzburg virkinu stærsta kastalavirki í Evrópu sem gnæfir í meira en 100 metra hæð yfir borginni og sem byrjað var að byggja á 11. öld. Það var erkibiskupinn í Salzburg, Leonard von Keutschach sem jafnframt var hertogi og stjórnandi Salsburgar sem í þá tíð var sjálfstætt hertogadæmi sem lét byggja Salzburgarnautið árið 1502 til að nota það sem klukku og sírenu fyrir borgina. Til að byrja með gat orgelið aðeins gefið frá sér fáa hljóma og þegar þeir glumdu minnti hljómurinn á nautsbaul. Salzborgarar voru því fljótlega farnir að kalla spilverkið í kastalanum 'nautið'. Frá árinu 1502 hefur nautið baulað þrisvar á dag til að gefa borgarbúum til kynna hvað tímanum líður. Fyrir 500 ára afmælið árið 2002 var nautið tekið í gegn og lagfært.

Á þessum tíma hefur nautið þróast talsvert frá því að geta spilað fá tóna yfir í að geta spilað lög. Meðal þeirra sem sömdu lög fyrir Salzburgarnautið var Leopold Mozart faðir Wolfgangs Amadesusar Mozart. Hann endurbætti nautið þannig að hægt var að koma tólf lögum fyrir á tromlunni sem stjórnar spilverkinu og því var hægt að skipta um lag sem nautið spilaði fyrir hvern mánuð ársins.

Nýlega var ég á ferðalagi á þessum slóðum og á skoðunarferð um kastalann var stöðvað við lítinn glugga þar sem hægt var að sjá inn í herbergi nautsins. Ég varð svo hissa yfir því sem ég sá að ég steingleymdi að taka mynd en þetta var eins og að horfa á risavaxna spiladós. Þarna var tromla sem pinnar gengu út úr rétt eins og í litlum spiladósum nema þessi var mjög stór. Á netinu fann ég að tromlan er 5 fet og 7 tommur á lengd og 9,8 tommur í þvermál! Hljómurinn kemur frá orgelpípum sem eru um meter á hæð það mesta. Ekki heyrði ég í nautinu í þetta skiptið en kannski verður það síðar. Gaman væri ef einhver lesenda þessara orða hefur heyrt í því hljóðið.  Frá árinu 1997 hefur Salzburgarnautið verið á heimsminjaskrá UNESCO.

Heimildir:
http://www.salzstier.com/
http://www.salzstier.com/stierpics.htm


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband