Framtíðarmöguleikar RÚV

Páll Magnússon hinn dugmikli stjórnandi RÚV hefur sannarlega markað spor í rekstri stofnunarinnar undanfarna mánuði og líklegt er að honum sé alveg við það að takast að endurvekja trú landsmanna á að ríkisstofnun geti verið leiðandi og dugmikil í ljósvakamiðlun og menningarmálum. Við höfum líka ekki langt að sækja fyrirmyndir - en það er til breska ríkisútvarpsins. BBC virðist talandi dæmi um það að ríkisstofnun sem byggir á kerfi afnotagjalda hafi meiri möguleika á að sinna menningarhlutverki en frjálsar og óháðar stöðvar. Ekki þekki ég nægilega mikið til bresks þjóðfélags til að geta haft skoðun á því hvort eitthvað annað fyrirkomulag sé betra þar í landi en jafn sannfærður er ég um að það fyrirkomulag sem nú er á stjórn Ríkisútvarpsins ohf hér á Íslandi er alveg jafn gallað og það sem hefur verið undanfarna áratugi og er meginatriðum hið sama og Aðalbjörg Sigurðardóttir gagnrýndi árið 1944, og Jón úr Vör og Gunnar M. Magnúss ritstjórar Útvarpstíðinda tók undir, jafnvel þó formbreyting hafi orðið og Ríkisútvarpið sé núna opinbert hlutafélag. Sjá þessa bloggfærslu. Í núverandi útvarpslögum stendur:

 8. gr. Stjórn Ríkisútvarpsins ohf.
Stjórn félagsins skal kosin á aðalfundi sem haldinn skal fyrir lok maímánaðar ár hvert. Hana skulu skipa fimm menn og jafnmargir til vara. Áður en kosið er til stjórnar á aðalfundi skulu fimm menn kjörnir hlutbundinni kosningu á Alþingi ásamt jafnmörgum til vara og skulu þeir kosnir í stjórn félagsins.

Þessi aðalfundur virðist nánast vera til málamynda því hin raunverulega kosning fer fram á Alþingi og því er Alþingi hin eiginlega stjórn Ríkisútvarpsins og menntamálaráðherra í raun stjórnarformaður. Áfram er því alveg tryggt að ráðandi stjórnmálaöfl hafa álíka stjórn á Ríkisútvarpinu og stjórn hefur á hlutafélagi. Sú stjórn er jafnvel enn tryggari en áður var ef eitthvað er.  Það er að mínu mati ógæfa Íslands að svo skuli komið því orð Aðalbjargar Sigurðardóttur frá 1944 eru enn í fullu gildi:

Eins og kunnugt er fara þessar kosningar í útvarpsráð fram á Alþingi, eins og kosningar í margar aðrar merkilegar nefndir, sem mikil ábyrgðarstörf eiga að hafa með höndum, og stendur fulltrúatala hvers flokks í hlutfalli við þingmannafjölda hans ... Við þetta bætist svo, að það sýnist stundum vera siður flokkanna að veita gæðingum sínum uppreisn með því að setja þá í einhver trúnaðarstörf, ef álitið er að þeir hafa beðið einhvern opinberan hnekki. Má nærri geta, hversu óheppilegt þetta allt er fyrir þá stofnun eða það starf sem leysa á af hendi, og þar sem engin önnur sjónarmið en hagur stofnunarinnar eða starfsins ætti að ráða.

Sem fyrst ætti að rjúfa þennan nána samruna Ríkisútvarpsins við valdstjórnina og stofna ríkisstofnun sem hefði með höndum að safna ljósvakaefni og varðveita þann menningararf sem safnast hefur upp hjá RÚV frá upphafi. Að því búnu þyrfti að selja báðar útvarpsrásirnar og sjónvarpsrásina og bjóða fólki síðan upp á að velja hvert það vill að afnotagjald sitt renni. Þessir peningar ættu síðan að renna óskiptir til stöðvanna í réttu hlutfalli við það efni sem flutt er á íslensku og í hlutfalli við upptökur af innlendum menningarviðburðum. Erlent efni yrði ekki styrkt með þessu móti. Allar útvarpsstöðvar landsins hefðu síðan aðgang að menningarbankanum hjá ríkisstofnuninni og gætu því gengið að drjúgum sjóði sem eflaust yrði fengur að. Þannig myndi metnaður og frumkvæði mun fleiri aðila fá að njóta sín en ekki bara þeirra sem eru svo heppnir að fá að vera ráðnir hjá RÚV eða þeirra sem taldir eru vel þóknanlegir ríkjandi valdhöfum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eiríkur Harðarson

Þrátt fyrir að þetta eigi að heita opinber ríkisstofnun (OHF), finnst mér að mikið vanti uppá, til dæmis gagnrýna fréttaumfjöllun er skýrist vafalaust af þægingarstefnu við ráðandi stjórnaröfl. Síðan er að manni virðist nóg að hafa rétta rétta flokksstimpilinn til að hlotnast "djobb" þarna upp í Efstaleiti, sem er að mínu mati ávísun á frekari kranafréttamennsku. Innlent efni er slíkt að einungis nokkrar klukkustundir á viku duga manni í að horfa á allt það efni sem boðið er uppá. þá er framboð svo einhæft að manni líst ekki orðið á.

Eiríkur Harðarson, 7.11.2007 kl. 20:50

2 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir innlitið og athugasemdina Eiríkur. Já þetta er ekki nógu gott.  Á meðan allt leikur í lyndi og við stjórnvölinn á landsstjórninni eru menn sem njóta víðtæks trausts þá getur þetta gengið en ef viðlíka trúnaðarbrestur verður aftur og varð sumarið 2004 milli ríkisvaldsins og þjóðarinnar um fjölmiðlafrumvarpið, þ.e. þegar forsetinn neitaði að undirrita fjölmiðlalögin eða jafnvel enn alvarlegri sem gæti eins gerst einhvern tíma í framtíðinni þá er hætt við að fáir treysti RÚV.  Eins er með öryggisrökin. Því er haldið að okkur að RÚV sé nauðsynlegt öryggis okkar vegna en það hefur sýnt sig t.d. í jarðskjálftunum á Suðurlandi að það er tilviljunin ein sem ræður hvaða stöðvar detta út í náttúruhamförum og því tryggir ein öflug stöð ekki upplýsingastreymi heldur sem mestur fjöldi þeirra. Með menningarhlutverkinu mætti allt eins úthluta frjálsu stöðvunum slíkum öryggiskvöðum, þ.e. að yfirvöld gætu í tilfellum hamfara fengið aðgang að þeim til að tryggja almannahagsmuni og öryggi. Og í minni jarðskjálftum þá minnast þeir ekki einu sinni á þá. Þeim er sama þótt titri og skjálfi á Selfossi ef skjálftinn finnst ekki í Reykjavík og birta á sama tíma fréttir af járnplötum sem fjúka af skúr á Fáskrúðsfirði.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 7.11.2007 kl. 22:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband