Færsluflokkur: Ljóð

Hið andlega lausafé

Fyrir einu ári birti ég ljóðið Ellimörkin? hér á blogginu. Þetta var á meðan góðærið svokallaða var enn hér á landi og fjöldinn allur af gljáandi nýjum pallbílum með stórar innfluttar hestakerrur í eftirdragi eða fjórhjólavagna renndi stoltur eftir götunum. Í kjölfar bankahrunsins er þetta orðið sjaldgæfari sjón og því ákvað ég að yrkja ljóðið upp í tilefni af breyttum tímum:

Ellimörkin - einu ári síðar.

Glæsikonur líta ekki lengur glaðlega til mín
og pallbílar góðærisins eru horfnir af götunum, hestakerrurnar líka.
Í búðunum íslenskur matur, í baðherberginu vigtin samt ennþá,
og í ræktina þarf ég lengur ekki að fara því nú hjóla ég í vinnuna.
Rófustappa slátur og mysa á borðum og á laugardagskvöldinu eru það
gömlu myndbandsspólurnar úr Góða hirðinum sem fátt toppar.
Ég býð nokkrum góðum vinum í heimsókn,
set snjáðar vínýlplötur á fóninn og 
Johnny Cash syngur 'Peace in the valley'. Hið
andlega lausafé flæðir í gnægtum og fyllir sálarbankana.
Næst fer kvæðamannafélagið Iðunn á fóninn og
við kveðum nokkrar góðar stemmur
- hljómatöfrar heilla rispum blandaðir.
Gömul, nei það erum við sko aldeilis ekki.


Gamalt húsgangskvæði úr Flóanum

Tíkin hennar Leifu
tók hún frá mér margt
nýja skaflaskeifu
skinn - og vaðmál svart.
Tíkin sú var ekki ein
því Óðinn var með henni.
Át hún flot og feitt ket
feikilega sú lét
kapalinn og kaupskip
kálfa tólf og Þórólf,
Ingólfsfjall og allan Flóa
aftur lét hún kjaftinn mjóa
þó var hún ekki hálffull.

Brynjólfur Guðmundsson skráði 2005.
(„Kapall“ er í merkingunni „hestur“).


Bragi - Óðfræðivefur - merkilegt framtak til miðlunar menningararfsins

Eins og kunnugt er eiga Íslendingar ekki aðgengilegar útgáfur af bestum trúarlegum skáldskap íslenskum fram að Hallgrími Péturssyni en þó hafa Norðmenn gefið sum þessara kvæða út í myndskreyttum hátíðarútgáfum í þýðingum, en nú hillir undir bragarbót í þessum málum. Undanfarin ár hefur Kristján Eiríkssonverkefnisstjóri á handritasviði hjá Árnastofnun unnið að óðfræðivef á netinu. Ein eining vefjarins ber heitið 'Ljóðasafn' og er meiningin að safna smám saman í hana sem flestum ljóðum íslenskum sem ort hafa verið fyrir 1800. Slóðin á vefinn er http://tgapc05.am.hi.is/bragi/. Best er að byrja á að fara inn á "Bragþing" á neðri línu í haus og síðan inn á einstakar einingar. Þegar helgikvæðin væru flest komin inn í ljóðasafnið á vefnum með nútímastafsetningu og dálítilli greinargerð fyrir geymd hvers og eins þá mætti gefa kvæðin út á bók af þeim myndarskap sem þeim hæfir og þá til dæmis með myndskreytingum eins og Norðmenn hafa gert. Óskandi er að þetta merka framtak fái þá athygli og stuðning sem það verðskuldar svo landsmenn þurfi ekki þurfi að leita út fyrir landsteinana til að nálgast upplýsingar um svo sjálfsagða hluti sem gömul helgikvæði af þeirri ástæðu einni að enginn hérlendur aðili hefur gefið þau út á aðgengilegu formi.

Þessi færsla birtist áður á vefsetrinu kirkju.net hér.


Óðurinn til lífsins og vináttunnar

Flestir þekkja hið geysivinsæla lag 'Wonderful world' sem Louis Armstrong gerði heimsfrægt. Hægt er að sjá óborganlegan og einstæðan flutning hans á því á eftirfarandi YouTube myndskeiði sem nú þegar hefur fengið yfir 3 milljónir heimsókna:

Texti þess er í stuttu máli óður til lífsins, vináttunnar og æskunnar og var hugsunin á bakvið hann sú að auka bjartsýni fólks í Bandaríkjunum árið 1967 þegar lagið var gefið út. Þetta var á tímum kynþáttatogstreitu og Víetnamstríðs. Lífsgleðin og vináttan getur sameinað alla, bæði unga og gamla, fólk af ólíkum þjóðum, litarhætti og trú, karla og konur. Í tilefni af því langaði mig að gera tilraun að texta við þetta lag sem gæti komist eitthvað nálægt því að ná þeim hughrifum sem enski textinn kemur svo vel til skila. Hvort það hefur tekist verða aðrir að dæma um. Ég lýk því þessari síðustu bloggfærslu ársins með því að birta textann hér fyrir neðan og þakka ykkur lesendur góðir samfylgdina á árinu. Megið þið njóta blessunar, lífsgleði og friðar á árinu sem nú gengur í garð.

Vinarþel 

Ég sé laufguð tré  - [og] rauðrósa beð,
í blóma þær  -  lífg' okkar geð.
[Já] ég heillatákn tel - okkar vinarþel.

Himinbláminn skær - og skýjabær
dagur mér kær - [og] nóttin svo vær.
[Já] ég heillatákn tel - okkar vinarþel.

Í litum regnboganna - mér birtist hljómur skýr
í andlitunum ljómar - þá vonarlogi nýr.
Vinir heilast hlýtt segja; blessun sé þín
úr augum þeirra - ánægjan skín.

Barnahlátur tær - [mér] hjarta er nær
blessun sá fær - er eyra þeim ljær.
[Já] ég heillatákn tel - okkar vinarþel.

(tónlist)

Í litum regnboganna - mér birtist hljómur skýr
í andlitunum ljómar - þá vonarlogi nýr.
Vinir heilast hlýtt segja; blessun sé þín
úr augum þeirra - ánægjan skín.

Barnahlátur tær - [mér] hjarta er nær
blessun sá fær - er eyra þeim ljær
[Já] ég heillatákn tel - okkar vinarþel. 

Ath. [] merktan texta er hægt að fella niður ef það fer betur í söngnum.

Sjá: http://en.wikipedia.org/wiki/What_a_Wonderful_World


Höldum vöku okkar - gefum Grýlu og jólakettinum engin færi

Grýla reið fyrir ofan garð
hafði hala fimmtán,
en á hverjum hala
hundrað belgi,
en í hverjum belg
börn tuttugu.
Þar vantar í eitt,
og þar skal far í barnið leitt.

Svona er Grýlu kerlingunni lýst í gömlu kvæði. Grýla er fornu fari talin einhver hinn versti óvættur. Hún er bæði mannæta og leggst á þá sem minnst mega sín og leggur til atlögu þar sem garðurinn er lægstur ásamt annarri óvætt - jólakettinum. Hún er því tákn einhverrar þeirrar mestu ómennsku og illsku sem hægt er að hugsa sér. Þegar koma jólasveinanna sona hennar er skoðuð sést að fyrst koma tiltölulega meinlitlir sveinar, Stekkjastaur sem gerir ekkert annað en reyna að sjúga ærnar, Giljagaur sem reynir að sleikja mjólkurfroðu og Stúfur sem hirðir agnir af pönnu. Síðari sveinarnir eru þeim mun ógurlegri. Skyrjarmur eða Skyrgámur sá áttundi stal skyri, Bjúgnakrækir bjúgum. Ketkrókur sá tólfti stelur aðal matarbirgðunum kjötinu og Kertasníkir sá þrettándi rænir ljósunum sjálfum. Þarna má sjá ákveðna stigmögnun illskunnar og klækjanna eftir því sem nær dregur jólunum. Kertasníkir kemur á aðfangadagskvöld þann 24. desember. Það sem vantar inn í þessa mynd er óvætturin sjálf Grýla hin skelfilega móðir allra hinna, mun hún birtast eða ekki á jóladaginn sjálfan 25. desember? Sú mynd sem þarna er dregin upp er eins og púsluspil þar sem hlustandinn á sjálfur að setja síðasta stykkið og spurning er hvernig stykki það verður. Í frægu jólasveinakveri Jóhannesar úr Kötlum og í fleiri heimildum er Grýla aflögð trúlega vegna þess að sú venja er aflögð að hræða börn til hlýðni og sagt er að Grýla sé dauð. Þetta er merkileg heimild um umskipti og viðhorfsbreytingu menningarinnar gagnvart táknmyndum ómennsku og illsku.

Trúlega hefur fátækt og ýmis óáran fyrri tíma valdið því að skil mennsku og ómennsku hafa verið skarpari en þau eru í dag. Svangt fólk eða sveitarómagar sem veslast upp úr hor eru sem betur fer ekki lengur hluti af raunveruleikanum. Á þeim tíma sem jafnframt er tími fábreyttari uppeldisaðferða hefur kannski þótt nauðsynlegt að draga upp skýrar myndir ómennskunnar til að vekja fólk á öllum aldri til vitundar um náunga sinn og leggja áherslu á ábyrgð hvers og eins.

Ef marka má þann kraft sem settur er í vegsömun mennskunnar og ljóssins í dag hérlendis og í nágrannalöndum okkar um þessar mundir ættum við í engu að þurfa að kvíða né óttast þann raunveruleika sem Grýla táknar - amk. ekki í okkar heimshluta. Það þýðir samt ekki að við megum sofna á verðinum og halda að fyrst Grýla sé dauð þá muni hún alltaf vera það áfram. Þau forréttindi að búa við Grýlulaust land eru hvorki sjálfsögð né sjálfgefin. Þau eru undir því komin að við höfum vara á okkur og veljum gaumgæfilega þau púsl sem við notum til að móta mynd lífsins og samfélagsins.


Ljómi barnsins - nýr jólatexti við þekkt lag

Flestir muna eftir eða kannast við Procol Harum lagið 'A whiter shade of pale'. Hægt er að skoða það á YouTube hérna. Lagið er bæði dramatískt og hátíðlegt og í því má merkja ákveðið ris sem nær hámarki í sérlega grípandi og fagurri laglínu sem varð heimsfræg 1967 í flutningi hljómsveitarinnar þar sem leikur á Hammond orgel var áberandi. Þannig vildi til að fyrir nokkrum vikum hafði ég veður af því að það vantaði íslenskan texta við lagið og í framhaldi af því bjó ég til texta sem á sunnudagskvöldið var frumfluttur og sunginn á aðventutónleikum í Selfosskirkju af Gunnari Guðna Harðarsyni við undirleik strengjasveitar Tónlistarskóla Árnessýslu og Esterar Ólafsdóttur sem lék á orgel. Stjórnandi var Greta Guðnadóttir. Íslenski textinn er eins og sjá má ekki byggður á enska textanum heldur er hann sjálfstæð smíð við lagið og er byggður í kringum þema sem er heimsókn vitringanna að vöggu Jesúbarnsins.

 Ljómi barnsins

Við ferðuðumst um nætur
í ljóma stjörnunnar
um eyðisand og merkur
í von að fá nú svar
Kynngimagnað næturhúmið
kvað sitt huldudjúpa ljóð
um óræð hinstu örlög manna
-en við misstum ekki móð-

En svo gerðist það - yfir hellinum var stjarnan kyrr
og birtan þýddi hjarta hjarn
hún kom frá stjörnuhimni heiðum
og frá ásýnd - lítils barns

Í ómi mildrar þagnar
þú færir okkur von
Í stjörnuskini huggar
ung kona lítinn son
gull reykelsi og myrru
við berum þér að gjöf
um jörðina fer gleðistraumur
um hjörtun hlýleg svör

En svo gerðist það - yfir hellinum var stjarnan kyrr
og birtan þýddi hjarta hjarn
hún kom frá stjörnuhimni heiðum
og frá ásýnd - lítils barns

Og fjárhirðarnir komu
og fluttu þessi boð
Um englaraddir bjartar
vefa gullna orðavoð
Mikinn frið ég ykkur færi
og fögnuð hér í dag
ykkur frelsari er fæddur
syngjum lof- og dýrðarlag


Ásbúðir

Ljóð eftir Brynjólf Guðmundsson: 

Ásbúðir 

Borgarís skammt frá
Konungur íshallarinnar
andar köldu á landið
þoka breiðist yfir ströndina

Kvöldganga
fjörugrjótið
syngur við
fætur okkar

Hafið leikur
undir sinn
þunga óð við
sker og klappir

Kollur á eggjum
blikar við bakkann
bíða eftir að
ungar gári vatnið

Í fjarlægð
gagg í lágfótu
bíður færis að
færa björg í bú

Ásbúðir
töfraland
náttúrunnar
á Skaga

Birtist fyrst í júní 2005: http://www.vina.net/index.php/brynjolfur/2005/07/07/asbueir


Í sumarbústaðnum

Ekki er laust við að á mig sæki uggur,
Bærðust jú ekki þessar heytuggur?
Hví finnst mér ég hvorki heill né hálfur,
getur verið að á mig stari pínulítill álfur?
Ég gjóa augum órólega upp á fjöllin,
eru þau kannski að horfa á mig tröllin?

Ellimörkin?

Glæsikona lítur glaðlega til mín 

en gullfallegur og gljáandi pallbíll með nýrri tveggja hesta kerru í eftirdragi

sem rétt í þessu brunar líka hjá fangar samt athyglina.

Í búðunum litríkur matur, í baðherberginu vigtin

og á stöðinni einkaþjálfarinn sem glaðbeittur kemur mér í kjörþyngd.

Sykurlaust ávaxtamauk og dietkóla. 

Og á laugardagskvöldinu er það letistóllinn og

gömlu myndbandsspólurnar sem ekkert toppar.

Ég set vínýlinn á fóninn og nýt þess að hlusta á

Johnny Cash syngja 'Peace in the valley' og

hljómatöfrar heilla rispum blandaðir

eða kvæðamannafélagið Iðunn kveða nokkrar

góðar stemmur.  Gamall? - Nei - ekki ég.

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband