Færsluflokkur: Tónlist

Er frægð Jackson 5 hópsins hérlendis ofmetin?

Óvænt fráfall Michaels Jackson var reiðarslag fyrir tónlistarheiminn og aðdáendur hans. Hæfileikar hans voru miklir og framinn glæstur þrátt fyrir ýmis sérviskuleg uppátæki söngvarans.

Mér hefur í þessu sambandi fundist nokkuð mikið vera gert úr frægð Jackson 5 hópsins og í því sambandi rétt að taka fram að þá er líklega verið að tala um frægð þeirra í Bandaríkjunum þó það sé ekki sérstaklega tekið fram. Þetta gæti valdið nokkrum misskilningi hjá þeim sem muna ekki vel eftir 8. áratugnum eða eru fæddir á þeim árum.  Ég minnist þess nefnilega ekki að hafa heyrt minnst á Jackson 5 hópinn fyrr en eftir að Michael Jackson sló rækilega í gegn með sólóferli sínum um og eftir 1980. 

Sönghópur sem sló aftur á móti í gegn hér á landi var Osmond fjölskyldan. Þetta var nokkuð áþekkur hópur og Jackson fjölskyldan og sumir litu á þá sem keppinauta þó svo virðist sem vinátta hafi einkennt samskipti þeirra. eins og þessi tengill bendir til.  Báðir voru hóparnir stórir bandarískir systkinahópar, sprottnir upp úr trúarlegum jarðvegi, í rauninni ekki svo ólíkir hinni kaþólsku og austurrísk-bandarísku Trapp fjölskyldu sem er fyrirmynd persóna Söngvaseiðs. Móðir Jackson systkinanna var/er (?) vottur Jehóva og ól börnin skv. þeirra venjum, en Osmond fjölskyldan er í Kirkju Jesú Krists hinna síðari daga heilögu, betur þekktri sem Mormónasöfnuðinum. 

Ég minnist þess sérstaklega t.d. að sumarið 1973 var lagið Long Haired Lover from Liverpool  með Little Jimmy Osmond vinsælt og fékk mikla spilun í óskalagaþáttum útvarpsstöðvarinnar Útvarps Reykjavík, sem núna er betur þekkt sem Rás-1. Þá var þetta eina útvarpsstöðin sem útvarpaði á íslensku og var hún alltaf kölluð Útvarpið. Lagið ásamt fleiri lögum sem hljómaði þetta sólríka sumar er mér minnisstætt því þá byggðu foreldrar mínir fjós á Galtastöðum og útvarpið var haft í gangi á meðan við unnum að byggingunni ásamt duglega vinnuflokknum hans Guðna í Kirkjulækjarkoti.

Önnur sumur var ekki hlustað jafn mikið á útvarp því þá var lítið um að útvarpstæki væru í traktorum og reyndar ekki mikið um traktora með húsi. Rosasumrin þegar rigndi gafst meiri tími til að hlusta og einnig á hljómplötur. Eitt slíkt sumar er t.d. rosasumarið 1975 þegar Pink Floyd, Melanie og Simon & Garfunkel urðu fjölskylduvinir, en Erlingur gat keypt þessar og ýmsar fleiri plötur eftir að hann fór á sjóinn. Hann kom með þær heim að Galtastöðum og þær voru nánast spilaðar í gegn rigningarsumrin sem urðu á Suðurlandi um miðbik áratugarins. 

Annar svona sönghópur var skáldaður í kringum sjónvarpsþáttaröð og hét Partridge fjölskyldan. Í henni var m.a. þekktur söngvari David Cassidy. Þessi sjónvarpsþáttaröð var sýnd hérlendis í sjónvarpsstöðinni Sjónvarpinu, núna þekktri sem Ríkissjónvarpinu, sem þá var eina íslenska sjónvarpsstöðin hérlendis.

Hvort það var skortur minn á tíma til hlustunar eða hugsanlega lítil spilun á Jackson 5 í ríkisfjölmiðlunum á fyrri hluta 8. áratugarins sem olli vanþekkingu minni á Jackson 5 þangað til eftir 1980 veit ég ekki, en mér finnst nauðsynlegt að halda þessum punkti til haga. Hafa ber í huga að útgáfufyrirtæki Jackson fjölskyldunnar var öflugt og það, ásamt síðari útgáfum Michaels Jackson hefur að líkindum ekki gert minna úr frægð fjölskyldubandsins á þessum árum en efni stóðu til. Ég tek fram að ég hlustaði ekki bara á Útvarpið á þessum árum heldur einnig Kanaútvarpið sem og Radio Luxembourg sjá þessa færslu

Þó ég segi þetta þá er ég ekki að halda því fram að Jackson 5 hópurinn hafi verið óþekktur hérlendis. Líklegt er að hljómplötur með þeim hafi borist hingað þrátt fyrir að meira hafi borið á öðrum áþekkum fjölskyldusönghópum. Hugsanlega hefur hópurinn verið þekktur meðal tónlistaráhugamanna sem og efnameiri einstaklinga sem gátu leyft sér þann munað að kaupa hljómplötur af áhuga einum saman yfir lengra tímabil.  Einnig getur verið að hópurinn hafi fengið spilun en bara ekki slegið í gegn í óskalagaþáttum á borð við þætti Jóns B. Gunnlaugssonar Eftir hádegið*, Óskalögum sjómanna, Lögum unga fólksins eða Óskalögum sjúklinga. 

 

* Mig minnir að þetta hafi verið nafn þáttarins. Hann var geysivinsæll en ég finn engar heimildir um hann. 


Amazing Blondel og gamlar LP plötur

Ein af þeim hljómsveitum sem ég hélt upp á á árum áður og geri enn er hljómsveitin Amazing Blondel. Ein af þeirra frægustu plötum bar heitið Fantasia Lindum  og kom hún út árið 1971. Þegar ég fór nýlega í gegnum gamalt snældusafn sem ég átti rifjaðist þessi ágæta tónlist upp fyrir mér. Upptakan á snældunni var gölluð og því langaði mig til að athuga hvort ég gæti ekki eignast betri upptöku og fór að athuga með það á netinu. Á Ebay fann ég fljótlega útgefna diska sem flestir kostuðu milli 10 og 15 dollara, en þar var líka upprunalega platan Fantasia Lindum í tveim eintökum og í báðum tilfellum var fyrsta boð minna en 5 dollarar (um 400 kr.) Ég ákvað að bjóða í plötuna og fékk hana hingað komna á um 1000 krónur og eintakið sem ég fékk var mjög gott. Seljendur LP platna á Ebay nota gæðastaðal sem þeir bera plöturnar við og þessi plata var merkt VG++. Út frá orðspori seljenda er hægt að meta hvort umsögn þeirra sé treystandi. Í þessu tilfelli fannst mér að ég hefði gert mjög góð kaup, bæði er það að platan var gott eintak sem og að þegar ég heyri góða og lítið skemmda LP plötu spilaða þá tek ég hljóminn gjarnan fram yfir stafræna hljóðritun. Kannski er þetta einhver sérviska í mér en mér finnst þessi hljómur ekki gefa stafrænu upptökunum neitt eftir og oft finnst mér ég nema einhverja dýpt eða breidd sem ég sakna í stafrænu hljóðritununum eins og sjá má á þessari færslu.

Ég gæti látið móðan mása hér um Amazing Blondel en læt staðar numið að sinni. Langar þó ljúka þessum pistli með tveim tengingum á upptökur hljómsveitarinnar á YouTube.

Amazing Blondel - Swift,Swains,Leafy Lanes af Fantasia Lindum á YouTube.

Amazing Blondel - Celestial Light (var líka á Fantasia Lindum) á YouTube. Nýleg upptaka.


Úr snjó og vetri og aftur til sumarsins '73:

Víkjum nú aðeins athygli okkar frá snjó og vetri og hverfum aftur til sumarsins 1973. Þetta var sólríkt og gott sumar. Útvarpið var oft haft í gangi og þar voru leikin vinsælustu lögin. Eitt laganna sem oft hljómaði var glænýtt lag: "Tie a yellow ribbon round the old oak tree". Höfundar lagsins eru Irwin Levine og L. Russel Brown og flutt af Tony Orlando og Dawn. Mér fannst þá og finnst þetta enn vera frábærlega skemmtilegt og hlýlegt lag og fannst það þá auðvitað vera spilað allt of sjaldan. Þá skildi ég minnst af textanum en hreifst af bjartsýninni sem stafar frá laglínunni og flutningnum. Textinn fjallar um fanga sem búinn er að afplána fangavist og hann kemur heim í rútu. Hann hefur skrifað á undan sér til sinnar heittelskuðu og sagt henni að binda gulan borða um stóra eikartréð og ef hún geri það þá viti hann að hann megi snúa aftur. Ef borðinn verði ekki á sínum stað þá muni hann ekki fara úr rútunni en halda áfram og taka á sig alla sök. Þegar hann kemur heim blasa við honum hundrað gulir borðar í kringum eikartréð.

Það að fagna heimkomu með gulum borða á sér ýmis tilefni og hefðir eins og sjá má á Wikipedia slóðinni fyrir neðan. Lagið sjálft var geysivinsælt. Platan seldist í meira en 3 milljónum eintaka í maí '73 og þegar vinsældir þess rénuðu var áætlað að það hefði verið spilað um 3 milljón sinnum.

 

Heimildir:
http://en.wikipedia.org/wiki/Yellow_ribbon
http://en.wikipedia.org/wiki/Tony_Orlando_and_Dawn


Lagið „Mañana“ með Bay City Rollers

Ég ætlaði að fara að blogga um lagið góða „Mañana“ með Bay City Rollers sem fékk mjög mikla spilun í útvarpi árið 1972 og 1973 og fór að leita á því á YouTube en fann ekki þrátt fyrir nokkra leit. „Mañana“ sló í gegn í söngkeppni sem Radio Luxembourg hélt árið 1972. Á Wikipediu kemur fram að lagið hafi fengið mikla spilun á nokkrum stöðum í Evrópu og í Ísrael. Það kom mér nokkuð á óvart að 45 snúninga plata lagsins hafði ekki komist á lista í Bretlandi yfir söluhæstu plöturnar, a.m.k. miðað við þá miklu spilun sem lagið fékk á Íslandi og á Radio Luxembourg.

Það voru nokkur lög sem heyrðust mjög oft hér á landi þessi árin og „Mañana“ var eitt þeirra. Þetta var fyrir daga rásar 2 og Ríkisútvarpið reyndi að standa sig vel og koma til móts við óskir um vinsæl lög með þætti sem Jón B. Gunnlaugsson stjórnaði en hlustendur hringdu inn og báðu um óskalög. Ég man ekki lengur hvað þátturinn hét en man ekki betur en hann hafi verið mjög vinsæll, alla vega man ég að á útvarpið var oftast á í skólabílnum sem keyrði okkur krakkana úr skólanum á Selfossi í Gaulverjabæjarhreppinn og þá var þessi þáttur hlustaður upp til agna.

Heimildir:

http://en.wikipedia.org/wiki/Bay_City_Rollers
http://en.wikipedia.org/wiki/Radio_Luxembourg_%28English%29


Forleikur að Holberg svítu nr. 40 eftir Edvard Grieg

Holberg svítan eftir Edvard Grieg sem skrifuð var 1884 í tilefni af tvö hundruðustu ártíð dansk-norska leikskáldsins Ludwig Holberg er áheyrilegt verk og þó það hafi öðlast minni frægð en t.d. tónlist úr Pétri Gaut er það ekki síður athyglisvert og fallegt. Upprunalega var verkið samið fyrir píanó en í dag er það oft flutt af strengjasveit. Eftirfarandi upptöku fann ég á YouTube og valdi hana af nokkrum sem í boði voru vegna þess að upptakan nær töluverðri breidd, nær t.d. djúpu strengjunum vel og pizzicato köflunum sem virðast hverfa nánast alveg í öðrum upptökum sem ég fann þarna. YouTube upptökur eru yfirleitt 'teknar á staðnum' á litlar vélar og því er ekki að búast við miklum upptökugæðum en þó skilar tónlistin sér oft furðanlega miðað við aðstæður. Hérna er verkið flutt af strengjasveit Corelli tónlistarskólans "Pinarolium Sinfonietta". Stjórnandi er Claudio Morbo.


 

 

Heimild: Wikipedia: http://en.wikipedia.org/wiki/Holberg_Suite


David Lloyd flytur konsert fyrir víólu nr. 1 í G dúr eftir Telemann

Ég fann upptöku af þessum áheyrilega konsert eftir Telemann á YouTube. David Lloyd leikur á víólu við undirleik strengjasveitar. Stjórnandi er Richard Tomes.

Óðurinn til lífsins og vináttunnar

Flestir þekkja hið geysivinsæla lag 'Wonderful world' sem Louis Armstrong gerði heimsfrægt. Hægt er að sjá óborganlegan og einstæðan flutning hans á því á eftirfarandi YouTube myndskeiði sem nú þegar hefur fengið yfir 3 milljónir heimsókna:

Texti þess er í stuttu máli óður til lífsins, vináttunnar og æskunnar og var hugsunin á bakvið hann sú að auka bjartsýni fólks í Bandaríkjunum árið 1967 þegar lagið var gefið út. Þetta var á tímum kynþáttatogstreitu og Víetnamstríðs. Lífsgleðin og vináttan getur sameinað alla, bæði unga og gamla, fólk af ólíkum þjóðum, litarhætti og trú, karla og konur. Í tilefni af því langaði mig að gera tilraun að texta við þetta lag sem gæti komist eitthvað nálægt því að ná þeim hughrifum sem enski textinn kemur svo vel til skila. Hvort það hefur tekist verða aðrir að dæma um. Ég lýk því þessari síðustu bloggfærslu ársins með því að birta textann hér fyrir neðan og þakka ykkur lesendur góðir samfylgdina á árinu. Megið þið njóta blessunar, lífsgleði og friðar á árinu sem nú gengur í garð.

Vinarþel 

Ég sé laufguð tré  - [og] rauðrósa beð,
í blóma þær  -  lífg' okkar geð.
[Já] ég heillatákn tel - okkar vinarþel.

Himinbláminn skær - og skýjabær
dagur mér kær - [og] nóttin svo vær.
[Já] ég heillatákn tel - okkar vinarþel.

Í litum regnboganna - mér birtist hljómur skýr
í andlitunum ljómar - þá vonarlogi nýr.
Vinir heilast hlýtt segja; blessun sé þín
úr augum þeirra - ánægjan skín.

Barnahlátur tær - [mér] hjarta er nær
blessun sá fær - er eyra þeim ljær.
[Já] ég heillatákn tel - okkar vinarþel.

(tónlist)

Í litum regnboganna - mér birtist hljómur skýr
í andlitunum ljómar - þá vonarlogi nýr.
Vinir heilast hlýtt segja; blessun sé þín
úr augum þeirra - ánægjan skín.

Barnahlátur tær - [mér] hjarta er nær
blessun sá fær - er eyra þeim ljær
[Já] ég heillatákn tel - okkar vinarþel. 

Ath. [] merktan texta er hægt að fella niður ef það fer betur í söngnum.

Sjá: http://en.wikipedia.org/wiki/What_a_Wonderful_World


Billy Swan: „I can help“

Hver man ekki eftir þessu skemmtilega lagi frá '74? Í athugasemdakerfinu með laginu stendur að Presley hafi flutt það. Aldrei hef ég heyrt kónginn syngja það og hef þó hlustað á margt lagið með honum. Hvað svo sem er satt í því máli þá fer Billy mjúkum höndum um lagið og það er mín trú að flestir sem heyrðu hann flytja það muni betur eftir þeim flutningi. Það var spilað aftur og aftur í útvarpinu árið '74.

René Pape syngur Ó Isis og Ósiris úr Töfraflautunni

Ég fann þetta skemmtilega myndskeið á YouTube af René Pape þar sem hann syngur aríu Sarastrós úr Töfraflautunni eftir Mozart. Njótið vel. Getur nokkur vísað mér á íslenska textann við þessa aríu?

Ljómi barnsins - nýr jólatexti við þekkt lag

Flestir muna eftir eða kannast við Procol Harum lagið 'A whiter shade of pale'. Hægt er að skoða það á YouTube hérna. Lagið er bæði dramatískt og hátíðlegt og í því má merkja ákveðið ris sem nær hámarki í sérlega grípandi og fagurri laglínu sem varð heimsfræg 1967 í flutningi hljómsveitarinnar þar sem leikur á Hammond orgel var áberandi. Þannig vildi til að fyrir nokkrum vikum hafði ég veður af því að það vantaði íslenskan texta við lagið og í framhaldi af því bjó ég til texta sem á sunnudagskvöldið var frumfluttur og sunginn á aðventutónleikum í Selfosskirkju af Gunnari Guðna Harðarsyni við undirleik strengjasveitar Tónlistarskóla Árnessýslu og Esterar Ólafsdóttur sem lék á orgel. Stjórnandi var Greta Guðnadóttir. Íslenski textinn er eins og sjá má ekki byggður á enska textanum heldur er hann sjálfstæð smíð við lagið og er byggður í kringum þema sem er heimsókn vitringanna að vöggu Jesúbarnsins.

 Ljómi barnsins

Við ferðuðumst um nætur
í ljóma stjörnunnar
um eyðisand og merkur
í von að fá nú svar
Kynngimagnað næturhúmið
kvað sitt huldudjúpa ljóð
um óræð hinstu örlög manna
-en við misstum ekki móð-

En svo gerðist það - yfir hellinum var stjarnan kyrr
og birtan þýddi hjarta hjarn
hún kom frá stjörnuhimni heiðum
og frá ásýnd - lítils barns

Í ómi mildrar þagnar
þú færir okkur von
Í stjörnuskini huggar
ung kona lítinn son
gull reykelsi og myrru
við berum þér að gjöf
um jörðina fer gleðistraumur
um hjörtun hlýleg svör

En svo gerðist það - yfir hellinum var stjarnan kyrr
og birtan þýddi hjarta hjarn
hún kom frá stjörnuhimni heiðum
og frá ásýnd - lítils barns

Og fjárhirðarnir komu
og fluttu þessi boð
Um englaraddir bjartar
vefa gullna orðavoð
Mikinn frið ég ykkur færi
og fögnuð hér í dag
ykkur frelsari er fæddur
syngjum lof- og dýrðarlag


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband