Færsluflokkur: Bækur

„Margt býr í fjöllunum“ - 70 ára útgáfuafmæli

Árið 1937, sama árið og hann tók kennarapróf sendi Ármann Kr. Einarsson frá sér sína fyrstu barnabók. Þetta var ævintýrið Margt býr í fjöllunum.  Þetta var þó ekki frumraun hans því þremur árum fyrr, þegar Ármann var 19 ára gamall kom út eftir hann smásagnasafnið Vonir. Margt býr í fjöllunum er þrátt fyrir ungan aldur Ármanns þegar hann skrifaði það heilsteypt verk sem skilur engan eftir ósnortinn. Í sögunni greinir frá Bjössa litla, föðurlausum sveitapilt sem bjó ásamt móður sinni í litlum bæ í fallegum fjalladal - og að sjálfsögðu uxu blóm á þakinu. Bjössi situr yfir ánum og vingast við bláklædda huldukonu með því að líta eftir syni hennar um leið.  Þrátt fyrir þessa hamingju hvílir dökkur skuggi yfir dalnum hans Bjössa því sögur ganga um ógurlega illvætti - norn eða tröllkvendi sem áður hafði búið í dalnum en síðar horfið til fjalla. Illkvendi þetta sóttist eftir skrauti og auðæfum, var ákaflega nísk og þegar hún var orðin gömul, var hún búin að safna „kynstrum öllum af peningum og skartgripum." 

„Það er þannig mál með vexti, hélt Þuríður [móðir Bjössa] áfram, að börn hafa horfið héðan úr dalnum og aldrei fundist aftur, hvernig sem leitað hefur verið. Það er einkennilegt, að það hafa alltaf verið telpur, sem hafa horfið, og oftast hafa þær verið tíu til tólf ára að aldri ... Þegar kerlingin var orðin mjög gömul, hræðilega hrukkótt og skökk, og menn héldu að hún mundi bráðum fara að deyja, þá hvarf hún einn góðan veðurdag með öll auðæfi sín, og hefur aldrei spurzt til hennar síðan. Litlu síðar fór að bera á hinum dularfullu telpnahvörfum, og það höfðu menn fyrir satt, að Nánös gamla norn ætti einhvern þátt í þeim."

Svo vill einmitt til að vinkona Bjössa, Sólrún Sumarrós á Bjargi stúlka á líku reki og hann hverfur skyndilega. Hennar er leitað víða en allt kemur fyrir ekki, Rúna litla á Bjargi finnst hvergi. Bjössi leggur hart að móður sinni að fá að leita og fær loks að fara fyrir þrábeiðni. Hann leggur fyrst leið sína til bláklæddu huldukonunnar og fær hjá henni töfragripi góða sem koma honum að góðum notum síðar.  Hún vísar honum einnig leiðina að felustað Nánasar og þannig búinn leggur Bjössi af stað. Hann finnur eftir nokkra leit fjallið þar sem illkvendið býr og kemst inn í klettasali hennar. Þar verður hann undir huliðshjálmi vitni að dansi sveitameyjanna bergnumdu í kringum illkvendið:

„Hirðmeyjarnar hneigðu sig að nýju og hlýddu skipuninni þegjandi og á svipstundu. Þær tóku höndum saman og byrjuðu að dansa hringinn í kringum hásætið. Þær sungu og æptu með undarlegustu hljóðbrigðum, og dansinn var alls konar fettur og brettur, hopp og stökk. Skrukkurnar dönsuðu sífellt tryllingslegar, hraðar og hraðar, snertu varla gólfið og fóru í loftköstum. Þær voru eldrauðar af áreynslunni, froðufelldu og ranghvolfdu vitfyrringslega náhvítum augunum. Fótasparkið, ópin og óhljóðin bergmáluðu í hellinum, og það var eins og allt ætlaði af göflunum að ganga.  Nú var Nánös gömlu norn fyrst skemmt. Hún brosti, svo að tranturinn náði út undir eyru og neri saman krumlunum af ánægju."

Áfram heldur Bjössi í leit sinni að Rúnu og finnur hana loks bundna og keflaða í afhelli. Hún segir Bjössa sögu einnar af þernum nornarinnar sem hafði fært henni matinn. Sagan var á þessa leið:

„Margt hefur á daga mína drifið, síðan ég kom hingað inn í fjallið, hélt hún áfram, en en enginn dagur er mér jafn minnisstæður, eins og þegar Nánös dró mig inn í afhellinn, sem er hérna beint á móti í ganginum. Þar batt hún mig niður á flatan, aflangan stein, tók sprautu og stakk nál í handlegginn á mér og dró blóð upp í sprautuna. Loks dældi hún í mig einhverjum töfravökva í staðinn fyrir blóðið, sem hún tók. Það hafði sínar verkanir. Ég hætti að stækka, og allar góðar og göfugar tilfinningar hurfu úr hjarta mínu. Ég hætti að gleðjast og hryggjast, ég brosti ekki lengur og gat ekki framar grátið. Ég fór að hata birtuna og sólskinið og kærði mig ekki lengur um að komast til mannabyggða. Nú varð það mitt eina takmark að þjóna Nánös norn dyggilega og lifa í trylltum dansi og villtum fögnuði í veizlusölum hennar.“

Sögunni lýkur svo þannig að með hjálp töfragripa huldukonunnar nær Bjössi að sigra töframátt Nánasar nornar og frelsa Rúnu á Bjargi úr heljargreipum hennar. En Nánös sjálf, þernurnar og bústaður hennar eyðist í miklum hamförum.

Segja má að sagan sé á mörkum þess að vera barnasaga og vel samin nútímaleg þjóðsaga. Auk bláklæddu huldukonunnar og töfragripanna sem bera sterka drætti þjóðsögunnar koma í persónu Nánasar fyrir þættir sem gjarnan eru eignaðir persónum trölla. Hún er fyrrum mennsk kona sem hefur gengið í björg og hennar eina skemmtun er að lokka fleiri þangað til að stytta sér stundir. Mennskan er henni með öllu horfin og fyllingu tilveru sinnar sækir hún í óhemjuskap sinn, fláræði og tröllskap. Boðskapurinn með sögunni er skýr. Það er kærleikur Bjössa til Rúnu, trúmennska hans og lítillæti - ásamt hjálp frá góðum vinum, hinni bláklæddu konu sem nær að sigrast á þessu illa afli. Og spyrja verður hvort þetta séu ekki ævarandi sannindi sem sveitapilturinn ungi  úr Biskupstungum, Ármann Kr. Einarsson benti á með svo áhrifaríkum hætti fyrir 70 árum?

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband