RÚV - og hin rausnarlegi styrkur Björgólfs

Hinn rausnarlegi styrkur sem Björgólfur Guðmundsson hefur lofað RÚV er lofsvert framtak og sýnir að meðal íslenskra athafnamanna fyrirfinnst menningarlegur metnaður og áræði. Viðbrögðin við styrknum eru blendin. Formaður Hollvinasamtakanna lýsti efasemdum sínum og Ögmundur Jónasson hefur sömuleiðis lýst efasemdum. Þetta sýnir svo ekki verður um villst að RÚV er enn í erfiðri aðstöðu. Sem ríkisfyrirtæki getur það ekki þegið og sem einkafyrirtæki getur það ekki hafnað. Þróun mála er einnig auðsæ. Íslensk menning er arðbær og trúlega mjög arðbær þegar upp er staðið en það sem mun leysa hana úr læðingi er frelsi hennar úr faðmi ríkisvaldsins og stjórnmálaleiðtoganna. Óskandi er að fjármunir Björgólfs muni nýtast vel til menningarlegra og góðra verka. 

Ef staðan hefði verið sú á tímum Fjölnismanna að danska ríkið hefði eitt átt öflugasta fjölmiðilinn hér á landi hver hefðu áhrif þeirra þá orðið? Hverjir eru kostir Fjölnismanna nútímans, þ.e. þeirra manna sem vilja efla menningarlegt sjálfstæði þjóðarinnar og sjálfstæði hennar á öllum sviðum. Eiga þeir sitt athvarf í ranni ríkisvaldsins?  Það skulum við vona miðað við stöðu mála í dag.

Auðvitað þarf sem fyrst að koma málum þannig fyrir að ljósvakaarfurinn verði ekki seldur með rekstri stöðvanna þegar þar að kemur, sem trúlega er bara tímaspursmál, rétt eins og listaverkasafn Landsbankans var selt með rekstri hans. Sem fyrst þyrfti að aðskilja rekstur ljósvakabankans frá rekstri ríkisstöðvanna og af-oheffa þann rekstur. Hann gæti sem best heitað RÚV áfram en hlutverk hans yrði einungis að varðveita ljósvakaarfinn og miðla honum, sem og að vera efnisbanki fyrir það íslenskt efni sem yrði styrkt af ríkinu og útvarpað og sjónvarpað af frjálsum og óháðum stöðvum.

Íslenskir stjórnmálamenn verða að finna það þor og þann dugnað sem þarf til að geta horfst í augu við þann veruleika að ráðherra ríkisstjórnarinnar sé ekki hæstráðandi og í raun stjórnarformaður yfir öflugasta ljósvakamiðlinum. Það er aðeins fjöldinn einn og fjölbreytnin sem mun hámarka menningarlegan sköpunarkraft þjóðarinnar og þjóna öryggishlutverkinu sem best.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband