Færsluflokkur: Tölvur og tækni

Þarf ekki að koma á óvart

Þessi frétt af tapi Microsoft sem er til komið vegna afskrifta á virði þjónustuþátta á vefnum þarf ekki að koma á óvart. Google hefur verið leiðandi á sviði þessara þjónustuþátta sem eru atriði á borð við leitarvélina velþekktu en auk hennar eru í boði hjá Google vefpóstur, gagnageymsla á netinu, aðstaða fyrir netvinnuhópa auk fleiri atriða.

Google nýtur frumkvöðlastarfs síns á þessu sviði og Microsoft hefur ekki tekist að skáka þeim nægilega vel. Microsoft leitarvélin Bing hefur ekki náð almennri hylli á borð við leitarvél Google þó hún hafi ákveðna kosti. Hún er til dæmis góð til leitar á Microsoft vefnum sjálfum.

Það má einnig gera ráð fyrir því að samkeppnin við opnu kerfin, svo sem Ubuntu Linux muni harðna á næstu misserum hvað varðar stýrikerfi fyrir vinnustöðvar. Ubuntu 12.04 LTS kerfið sem var gefið út fyrr á þessu ári verður t.d. stutt hvað varðar kerfisuppfærslur til ársins 2017 og það gjaldfrjálst. Sjá hér: http://wiki.ubuntu.com/LTS/


mbl.is Google græðir, Microsoft tapar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðráð til sparnaðar - 2. hluti: Sjónvarpið

Vinur minn einn sem fer reglulega með efni í brotajárnsgáminn sagði mér að fyrstu dagana eftir hrunið síðasta haust hefðu verið stór nýleg túpusjónvarpstæki í gáminum nánast í hvert skipti sem hann fór. Þegar leið á veturinn dró úr þessu en þessa vikuna byrjaði þetta aftur. Í gáminum voru stór og reyndar stundum lítil túpusjónvörp. Hvað veldur og hver er ávinningurinn?

Þessi athugun á ruslinu bendir því til að viðbrögð margra við kreppufréttunum hafi verið þau að endurnýja raftækin, henda túpusjónvarpinu, og kaupa flatskjá á gamla verðinu. Ótrúlegt er að öll þessi nýlegu túpusjónvörp hafi verið ónýt áður en þau lentu í ruslinu. Þessi vinur minn hirti reyndar eitt lítið tæki sem lá efst í gáminum og það var í lagi þrátt fyrir nokkrar rispur sem hafa líklega komið þegar tækið lenti í gáminum.

Hvað það er sem orsakar þessa bylgju núna er ekki gott að segja en hugsast getur að einhverjir nýti skattaafsláttinn til að koma tímabærri endurnýjun á sjónvarpstækinu í framkvæmd. En hver er ávinningurinn af því að henda túpusjónvarpi sem er í lagi og kaupa flatskjá?

Þó hugsast geti að flatskjá fylgi betri sjálfsímynd og hagkvæmari nýting á plássi þá gefa myndgæði túpusjónvarpa og viðbragðsflýtir flatskjáum lítið ef nokkuð eftir. Sumir telja þau reyndar betri. Rafmagnseyðsla gömlu túpusjónvarpanna er líka yfirleitt minni en flatskjáa, sérstaklega stóru plasma skjáanna.  Hinu spánnýja, flata sjónvarpstæki fylgja því að líkindum hærri rafmagnsreikningar ef ekki er hugað að ákveðnum sparnaðarráðum. Hér koma nokkur slík tekin af netinu ásamt smá kryddi frá undirrituðum:

1. Slökkvið á sjónvarpinu þegar hætt er að horfa á það. Ekki nota Standby. Slökkvið einnig á tengdum tækjum svo sem DVD spilara eða leikjatölvu. Heppilegt getur verið að hafa fjöltengi með rofa og rjúfa strauminn inn á þessi tæki þegar búið er að slökkva á þeim. Þá er örugglega slökkt.

2. Slökkvið á Quick Start möguleika. Þessi möguleiki eykur rafmagnseyðslu ef Standby er notað.

3. Dragið úr baklýsingu LCD skjáa. Þetta dregur úr ljómun og birtu skjásins en á móti er kannski hægt að draga úr birtunni í herberginu.  Mikil birta hjá sjónvarpi er óþörf hvort sem er og spillir bíótilfinningunni.

4.  Ef tækið er með orkusparandi ham hafið þá stillt á hann. Nýrri flatskjáir gætu verið með þessum möguleika.

5.  Ef ekki er enn búið að kaupa flatskjáinn reynið þá að komast af með eins lítinn skjá og hægt er. Hægt er að færa sjónvarpsstólana nær og ná sömu áhrifum og ef stór skjár er notaður. Við það sparast líka dýrmætir fermetrar af húsplássi.

6. Notið ekki mörg sjónvörp í sama húsi heldur reynið að sameina fjölskylduna fyrir framan eitt tæki. Barnaefni getur verið mjög skemmtilegt og yngri fjölskyldumeðlimum mun þykja þú bæði viðræðubetri og skemmtilegri ef þú getur talað við þá um uppáhalds sjónvarpsefnið þeirra.

7. Horfið minna á sjónvarp eða notið sjónvarpstímann til að vinna eitthvað í höndunum svo sem strauja, brjóta saman föt eða prjóna.  Þá nýtist tíminn betur og borgar sig upp.

8. Athugið heildaráhorf ykkar og metið hvort hægt sé að segja upp áskrift sem hugsanlega er lítið notuð. Talsvert er í boði af innlendu efni í opinni dagskrá. Gervihnattabúnaður gæti borgað sig upp á einu ári ef vel er haldið um budduna og á t.d. Astra 2 hnettinum eru nokkrar erlendar stöðvar í opinni dagskrá, svo sem SkyNews, CNN að ógleymdri föndurrásinni Create and Craft.

Byggt á: http://reviews.cnet.com/green-tech/tv-power-saving-tips/?tag=greenGuideBodyColumn.0

Höfundur er áhugamaður um málefnið.


Rafrænt kosningakerfi gæti auðveldað þjóðaratkvæðagreiðslur til muna

Nýlegir stórviðburðir í stjórnmálaheimi landsins þar sem ríkisstjórn þurfti að víkja í kjölfar mikilla almennra mótmæla sýna svo ekki verður um villst að á einhvern hátt þarf lýðræðið að vera virkara en það er og stjórnvöld að geta endurnýjað umboð sitt til þjóðarinnar á skilvirkari hátt en í núverandi kerfi leiki nokkur vafi á því að það sé til staðar. Rafrænar kosningar gætu leikið þar stórt hlutverk.

Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að vegna nútímatækni er auðveldara og raunar auðveldara en nokkru sinni áður að kanna hug þjóðarinnar. Núverandi kerfi sem byggir á handvirkri talningu atkvæðaseðla úr pappír er býsna öruggt, stendur fyrir sínu en er þungt í vöfum og dýrt. Með lítilli fyrirhöfn ætti að vera hægt að koma upp rafrænum kosningastöðvum þar sem kjósandi fær afhentan kóða. Þennan kóða myndi hann stimpla inn á tölvu og þá myndi birtast honum rafrænn atkvæðaseðill sem hann gæti merkt við og skilað.

Með nægilegri fyrirhyggju ætti að vera hægt að búa til bæði einfalt og öruggt kerfi. Að sjálfsögðu þyrfti kerfið síðan að virka þannig að ekki væri hægt að rekja einstök atkvæðaskil til staðar og tíma. Niðurstöðurnar yrðu sendar dulkóðaðar til miðstöðvar landskjörstjórnar. Hægt er að hugsa sér að nýta venjulegar tölvur til framkvæmdarinnar og ættu t.d. tölvur í skólum landsins að geta dugað í flestum tilfellum. Þannig þyrfti þjóðin ekki að leggja út í stórfelldan kostnað við tækjakaup.  

Atkvæðaseðlar á pappír geta síðan verið til staðar á hverjum kjörstað ef alvarlegar tæknibilanir verða svo sem rafmagnsleysi. Rafræna kerfið ætti því að geta tekið við og talið mjög stórt hlutfall atkvæðaseðla og ólíklegt er að hlutfall pappírsseðla yrði yfir 10% af heildarfjölda greiddra atkvæða, trúlega mun lægra. Þetta fyrirkomulag myndi spara kostnað við talningu og niðurstöður gætu legið fyrir mun fyrr en í núverandi kerfi.

Með þessu fyrirkomulagi ættu þjóðaratkvæðagreiðslur að geta verið mun fyrirhafnarminni, ódýrari og því hægt að halda þær oftar en með núverandi fyrirkomulagi. Þessu þyrftu stjórnvöld að huga að.

 


Um tillögur og aðgerðaráætlun íslenskrar málnefndar

Tillögur íslenskrar málnefndar (ÍM) um íslensku í tölvuheiminum sem finna má á vef menntamálaráðuneytisins [2] eru almennt séð góðra gjalda verðar. Þar eru settar fram metnaðarfullar og tímabær aðgerðaráætlanir til að styðja við íslenskt mál. Þetta er gott mál en sumt í aðgerðaráætluninni má þó trúlega taka til nákvæmari athugunar. Sérstaklega þótti mér ein forsenda nefndarinnar athugunarefni:



Þetta [að Windows sé á ensku] er gerólíkt því sem gerist í flestum
grannlöndum okkar þar sem almennir tölvunotendur nota undantekningarlítið flestan hugbúnað á móðurmáli sínu. [2, bls. 48]

Ég leyfi mér að efast um að þetta sé nákvæmt stöðumat hjá ÍM hvað Grænland eða Færeyjar varðar sem eru okkar næstu grannlönd. Hvað varðar fjarlægari grannlönd á þetta trúlega betur við en þó ef orðinu "algengan" er skotið inn milli orðanna "flestan" og "hugbúnað" og lýsingarorðin "gerólíkt" og "undantekningarlítið" eru felld niður eða lágstemmdari orð sett í þeirra stað. Flóra þess hugbúnaðar sem í boði er er svo mikil og fjölbreytt að hæpið er að ætla að almennir tölvunotendur geti undantekningarlítið notað flestan hugbúnað eða vefþjónustur á móðurmáli sínu. Það má aftur á móti segja að almennir og útbreiddir hugbúnaðarpakkar sem komnir eru í mikla dreifingu bjóða yfirleitt upp á þýðingar og val á tungumálum. Það er því ekki fráleitt og að gefa sér sem forsendu að ætla að stýrikerfi og algengur hugbúnaður sé á tungumáli viðkomandi þjóða, en þegar kemur út fyrir algengustu forrit minnka líkurnar á að hægt sé að tryggja að notendur fái forrit á sinni þjóðtungu. Að mínu mati þyrfti því að umorða stöðumat ÍM til að fyrirbyggja misskilning á fyrrgreindan hátt. Í framhaldinu setur ÍM svo fram eftirfarandi markmið:



Að íslensk tunga verði nothæf - og notuð - á öllum þeim sviðum innan tölvu- og upplýsingatækninnar sem varða daglegt líf almennings.


Þetta er hægt að taka undir en í framhaldinu setur ÍM fram aðgerðaáætlun í nokkrum liðum. Fyrsta atriði í aðgerðaráætlun hennar sem hún leggur til við Menntamálaráðuneytið er:


Að allur almennur notendahugbúnaður í íslensku skólakerfi, frá leikskólum til háskóla, verði á íslensku innan þriggja ára.

Ef þessi tillaga til aðgerðar verður sett á lagafrumvarps-færiband stjórnarinnar sem er afkastamikið og verður orðið að lögum innan skamms tíma óbreytt þá er má ætla að það geti sett ráðamenn skólanna í nokkurn vanda. Ef það verður ólöglegt að þrem árum liðnum að setja upp almennan hugbúnað sem ekki er á íslensku allt frá leikskólum upp í háskóla er líklegt að það verði ekki gert. Starfsmenn skólanna munu ekki hætta á að setja upp óþýdd forrit af ótta við að þeir séu með því að fremja lögbrot. Þetta kemur til af því að orðið "almennt" er nokkuð teygjanlegt og erfitt er að halda því fram að einhver forrit séu ekki almenn. Þetta mun þá gilda jafnt um hin ýmsu "almennu" hjálparforrit í tækni og raungreinum sem eru bæði mörg og fjölbreytt sem og ýmis "almenn" sérforrit iðngreina. Þetta eru "almenn" forrit sem tiltölulega fáir nota en þau eru þrátt fyrir það nauðsynleg kennslutæki til að kynna nýjustu tækni fyrir nemendum. Augu tunguvarðanna eru bæði mörg og árvökul og því gætu komið upp árekstrar ef erlendu orði sést bregða fyrir. Jafnvel þó ríkisstjórnin myndi ákveða að koma á fót öflugu þýðingarteymi, sem er raunhæft til að standa við metnaðarfullan viljann sem tillögurnar endurspegla og þýða flest þessi almennu forrit, þá er ekki sjálfgefið að þýðingarteymið myndi fá nauðsynlegt fé til verkefnanna eða þá geta brugðist nógu hratt við. Sér í lagi er nærtækt að ætla þetta í ljósi nýjustu fjárlaga. Þó stjórnvöld ætli sér að styrkja mannaflsfrekar framkvæmdir þá er ólíklegt að hún styrki þýðingarvinnu, jafnvel þó sú vinna sé ekki síður mannaflsfrek heldur en malbikunarvinna eða vegagerð. Reynslan hefur sýnt það að þegar íslenskir stjórnmálamenn tala um framkvæmdir þá þýðir það oftast að átt er við verklegar framkvæmdir svo sem vegagerð eða steypuvinnu af einhverju tagi.

Hið opinbera getur vissulega komið á laggirnar þýðingarteymi ef viljinn er fyrir hendi. Hægt væri að ráða verktaka eða ganga til samninga við sprotafyrirtæki sem sérhæfir sig á þessu sviði eða fjölga í starfsliði ráðuneytisins allt eftir því hvernig hinn pólitíski vindur blæs. Þannig væri hægt að þýða algengustu og útbreiddustu forritin og þau sem flestir eru að nota í skólunum. Þýðingarteymi af þessu tagi er reyndar tímabært. Nú þegar eru dæmi um að aðilar innan skólakerfisins hafi sótt um styrki til þýðingar á mikið notuðum forritum, sumir hafa fengið styrk en aðrir fengið synjun. Hér væri hægt að gera betur og von mín er að metnaðarfull aðgerðaráætlun ÍM verði ekki til þess að leggja hömlur á skólamenn eins og stefnir í ef hún verður að lögum óbreytt heldur til þess að ráðuneyti menntamála og fjármála taki sjálf sinnaskiptum. Bæði er raunæft að þýða seldan sem og opinn hugbúnað en þar eru miklir möguleikar því margir hugbúnaðarpakkar sem dreift er eru með opnu leyfi og bíða þess eins að vera þýddir en eru samt ekki til á íslensku því framkvæmdin hefur hingað til eingöngu hvílt á herðum áhugamanna sem sjaldnast hafa fengið nokkurn pening fyrir þýðingar sínar. Slíkt framtak er bæði brýnt og þarft og í samhljómi við stefnu stjórnvalda um opinn hugbúnað sem sjá má hér. [1]

Afleiðingar af því að búa við strangan lagabókstaf hvað forrit í skólum varðar en ónógar fjárheimildir til þýðingarverkefna er samt ástand sem gæti varað lengi og haft mótandi áhrif svo árum skiptir. Þetta hefði kannski ekki svo alvarlegar afleiðingar í leik- eða grunnskólum en í framhalds- og háskólum er hætt við að þetta gæti sett þróun og rannsóknum stólinn fyrir dyrnar. Ef starfsmenn skólanna sjá fram á minnstu hættu á áminningum í starfi eða jafnvel dómum og sektargreiðslum stofnana sinna fyrir að setja upp forrit sem talin eru nauðsynleg en ekki á íslensku þá er nærtækt að ætla að ýmis góð en óþýdd forrit verði hvorki sett upp né notuð.

[1] Stefna ríkisstjórnar Íslands um upplýsingasamfélagið 2008-2012 á pdf.formi : http://www.forsaetisraduneyti.is/media/frettamyndir/NETRIKID_ISLAND_stefnuskra.pdf


[2] Íslenska til alls : tillögur Íslenskrar málnefndar að íslenskri málstefnu: http://bella.mrn.stjr.is/utgafur/islenska_til_alls.pdf


Var FM væðing landsbyggðarinnar mistök?

Þeir lesenda sem muna þann tíma þegar Útvarp Reykjavík var eina útvarpsstöðin muna líka eftir langbylgjustöðinni stóru á Vatnsendahæð sem síðar var flutt vestur á Snæfellsnes og er þar enn. Núna er sú stöð rekin fyrst og fremst á öryggisforsendum sem og til að þjóna dreifðum byggðum þar sem ekki næst til FM senda. En áður en FM sendarnir komu var langbylgjustöðin sú eina hér á Suðvesturhorninu og síðan minnir mig að það hafi verið stöð á Austurlandi sem sendi út á miðbylgju. Þ.e. það voru aðeins tveir sendar sem þjónuðu mest öllu landinu og miðunum eða því sem næst.

Þegar FM (Frequency Modulation) tæknin kom til sögunnar náði hún skjótt miklum vinsældum, fyrst og fremst vegna þess að tóngæðin í FM útsendingunum tóku útsendingargæðum AM (Amplitude modulation) langt fram. En bæði langbylgjan og miðbylgjan flokkast sem AM sendingar. Ókostur FM sendinganna er aftur á móti sá hve skammdrægir sendarnir eru og að fjöll skyggja á útsendinguna. Fyrstu FM sendar RÚV voru greinilega vandaðir og öflugir en í seinni tíð hefur sendistyrk þeirra að líkindum farið aftur. Fyrstu FM sendarnir voru Mono sendar en sendar nútímans eru Stereo sendar sem eru enn viðkvæmari fyrir truflunum, löngum vegalengdum og mishæðum í landslaginu. Það er orðið erfitt að ná nægum tóngæðum úr meðalgóðum útvarpstækjum, t.d. hér á Selfossi og í nágrenni og einnig spillir fyrir að alltaf þarf að vera að skipta um tíðni á útvarpstækjunum þegar farið er á milli staða t.d. á bíl. Suð og truflanir frá tölvum er orðið áberandi truflanavaldur og það svo mjög að það er orðið erfitt að hlusta á FM útsendingar RÚV hér á Suðurlandi nema í góðum tækjum. 

FM tæknin hefur trúlega orðið ofan á fyrst og fremst vegna þess hve tónlist hljómar miklu betur í FM sendingu heldur en í AM sendingu en í útvarpi sem byggir að stórum hluta á töluðu orði eru þessar forsendur ekki jafn sterkar.  Í seinni tíð grunar mig að þeir sem á útvarp hlusta hlusti ekki á það vegna tónlistarinnar fyrst og fremst heldur vegna hins talaða orðs ekki síður. Í dag eru svo fjölmargar leiðir fyrir tónlistarunnendur að eignast eða hlusta á sína uppáhaldstónlist að útvarp er ekki jafn mikilvægt hvað það varðar og áður. Hægt er að hluta á stafræna tónlist af diskum, tölvum, netinu og tónhlöðum í miklum tóngæðum og algengt er að í bílum séu t.d. geislaspilarar.

Í þessu ljósi langar mig að velta upp þeirri spurningu hvort ekki væri heppilegast að RÚV sem á að þjóna mikilvægu öryggishlutverki komi upp öflugum AM sendi í hverjum landsfjórðungi, t.d. miðbylgjusendi frekar en langbylgjusendi? Það helgast af því að í mörgum tækjum er ekki langbylgja eins og var áður heldur aðeins miðbylgja og FM bylgja. Þannig sendir myndi vera öruggari hvað varðar langdrægni en hinir strjálu FM sendar sem eru á fjölmörgum tíðinssviðum sem fáir muna eftir hvar eru. Það yrði því auðveldara að finna þessa senda á AM tíðnissviðinu, muna hvar þeir eru og staðsetning á landinu skiptir minna máli því öflugur miðbylgjusendir, t.d. í Vestmannaeyjum ætti að nást vel um mest allt Suðurland og einnig langt út á sjó. Kostnaður við öflugan miðbylgjusendi ætti ekki að vera svo miklu meiri en við FM sendana sem væri þá hægt að fækka á móti eða takamarka þá við þéttbýlisstaðina þar sem skammdrægni þeirra kemur ekki jafn mikið að sök. Þessi tæknilega uppbygging gæti haldist í hendur við áherslubreytingu í starfsemi RÚV sem þarf auðvitað að felast í því að það verði raunverulegt ríkisútvarp en ekki bara Reykjavíkurútvarp með máttvana hjáleigur fyrir vestan, norðan og austan og enga hér fyrir sunnan.


Tæknin breytir stöðunni varðandi ljósvakamiðlun til dreifðra byggða

Ein af þeim meginröksemdum sem færðar hafa verið fyrir ríkisútvarpi er að enginn einn aðili hafi bolmagn til að halda uppi útvarps- eða sjónvarpsrás sem náist um allt land, í afskekktustu sveitum og á fjarlægustu miðum. Þetta ásamt öryggisrökum, þ.e. að vegna öryggis og almannahagsmuna þá sé öflugasta ljósvakamiðlinum best fyrir komið í tryggri umsjón ríkisvaldsins. Ný tækni hefur í för með sér að hægt er að senda ljósvakaefni í gegnum símalínur og eftir því sem dreifikerfi símans batnar og tekur framförum og æ fleiri notendur hans geta nýtt sér ADSL þjónustu þá fjölgar um leið þeim sem geta tekið á móti ljósvakamiðluninni á sama hátt. Ég geri mér grein fyrir því að ástand símalagna er ekki jafn gott alls staðar á landinu og enn eru eflaust margir staðir sem geta ekki nýtt sér þá þjónustu, en með tíð og tíma ætti þetta að batna og verða hagkvæmara. Einnig má nefna að með gervihnattasendingum er hægt að ná víða og sömuleiðis er trúlegt að eftir því sem tímar líða þá verði sá möguleiki hagkvæmari. Tæknin vinnur því hægt en örugglega gegn rökum þeirra sem kjósa óbreytt ástand í ljósvakamálunum.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband