Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Indland: Ofsóknir brjótast út gegn kristnum í Orissa

Síðustu dagana hafa borist fregnir af því að vargöld hafi ríkt í Orissa á Norð-Austur Indlandi í kjölfar þess að róttækur hindúaleiðtogi var veginn af skæruliðum maóista. Í kjölfarið brutust út að því er virðist skipulagðar ofsóknir gegn kristnum í héraðinu. Ráðist var á kirkjur, hæli, skóla og heimili. Fregnir herma að þúsundir hafi flúið heimili sín. Biskuparáðstefna Indlands tók þá ákvörðun að loka öllum kaþólskum skólum í landinu mótmælaskyni við ofbeldinu. Þetta eru meira en 25.000 skólar og fóru nemendur þeirra og kennarar í mótmælagöngur.  Bæði hófsamir hindúar sem og múslímar hafa fordæmt ofbeldið. Margir friðarsinnar og félagasamtök sem oft eru fljótir til að vernda aðra hópa, minnihlutahópa eða dýr í útrýmingarhættu hafa kosið þögnina í þetta skipti. Hugsanlega óttast þeir að á bakvið ásakanir róttækra hindúa um sálnaveiðar kristinna liggi sannleikskorn. Ítalskir biskupar hafa boðað að morgundagurinn 5. september skuli vera helgaður bænum og föstum fyrir kristnum í Orissa.

Fordómar í fjölmiðlum - hvar stendur RÚV?

Grein Joanna Dominiczak í Mbl. föstud. 10. okt. 2007 er athyglisverð en hún segir að neikvæð umfjöllun í fjölmiðlum um útlendinga hafi í för með sér afleiðingar fyrir saklaust fólk sem vilji lifa venjulega lífi. Í þessu sambandi er vert að rifja upp að á föstudaginn langa árið 2005 og nú síðast árið 2007 hefur því verið haldið fram í RÚV - Sjónvarpi að hápunktur páskahátíðarinnar á Filippseyjum felist í blóðugum krossfestingum. Orðrétt var sagt 6. apríl síðastliðinn:

„Þúsundir Filippseyinga og erlendra ferðamanna fylgdust með því þegar sjálfboðaliðar létu negla sig á kross í þorpinu San Petro Cudud á Filippseyjum í dag. Krossfestingin er hápunktur páskahátíðarinnar í þessu eina kaþólska ríki Asíu.“[Leturbr. RGB]

Nánari umfjöllun um þessar fréttir má sjá á á eftirfarandi tengli og í athugasemdum þar á eftir: [1] Í meginmálinu sem á eftir var lesið kom fram að kaþólska kirkjan á Filippseyjum fordæmdi þessar athafnir. Jafnvel þó þannig hafi verið reynt að gæta hlutleysis verður að segjast að með engu móti er hægt að líta svo á að feitletraða setningin geti skoðast sem raunsannur fréttaflutningur af trúarlífi á Filippseyjum. Þó það sé greinilega margbreytilegt þá er það samt svo að flestir Filippseyingar minnast krossfestingar Krists á föstudaginn langa rétt eins og aðrar kristnar og kaþólskar þjóðir, en ekki með því að horfa á krossfestingu eða að láta krossfesta sig. Það að ríkissjónvarpið stendur á þennan hátt að fréttinni núna þriðja árið í röð (og líklega eru árin enn fleiri) hlýtur að vekja furðu. Er áhuginn á trúarlífi þessarar þjóðar ekki meiri en svo að þessi frétt ein er talin nægja af því á árinu? Þetta orðalag fréttarinnar gefur líka tilefni til að óttast að þessi vanhugsaði fréttaflutningur hafi sett Filippseyinga í neikvætt ljós hér á landi og sér í lagi þá Filippseyinga sem aðhyllast kaþólska trú.

Þetta sýnir svo ekki verður um villst að skylduaðild landsmanna að einum fjölmiðli er úrelt og einnig sú hugmynd að ríkið styrki aðeins einn fjölmiðil. Þessi menningarstyrkur á að renna til útvarps- og sjónvarpsstöðva í réttu hlutfalli við hlutfall efnis sem flutt er á íslensku og það ætti að vera neytendum í sjálfsvald sett hvert þeir vilja að sinn styrkur renni.  Eins og staðan er í dag er RÚV algerlega án beins aðhalds neytenda, þar mæta áhrifamiklir stjórnmálamenn og auðmenn á 'drottningarpallinn' og útkoman er farin að verða næsta pínleg, ekki bara fyrir RÚV heldur fyrir okkur landsmenn í heild. Óskandi er að þessu ástandi linni sem allra fyrst.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband