Ríkisútvarp þarf ekki að vera það sama og almannaútvarp

Við lestur pistla minna um Ríkisútvarpið kynni einhver að halda að mér þætti dagskrá þess léleg eða að ég forðaðist að hlusta eða horfa á það. Svo er ekki. Ég hef um langt árabil verið aðdáandi Rásar - 1 og í kvöld hlustaði ég af og til á rásina frá kl. 18 og til um kl. 22. Skrapp samt aðeins frá smástund. Dagskráin var mjög áheyrileg og fróðleg en trúlega hefur hún höfðað mest til fólks á miðjum aldri og þar fyrir ofan en um það er allt gott að segja. Rás - 1 byggir á langri hefð sem er áratuga mótandi starf sem unnið var í Útvarpi Reykjavík af hæfu og góðu starfsfólki. Þó ýmislegt megi finna að lagaramma þeim sem stofnunin starfi eftir þá er ég á þeirri skoðun að þessi fornfræga og rótgróna stöð eigi að fá að vera til í sinni núverandi mynd áfram og ég sé ekkert athugavert við það að ríkið eigi hana áfram að því gefnu að útvarpslögin tryggi fjölbreytni og jafna aðstöðu allra stöðva.  Það er ekki hægt að rífa fullvaxin og falleg tré upp með rótum og planta þeim annars staðar. Þau eiga að fá að standa áfram eins og þau eru og á þeim stað sem þau eru. Ég er aftur á móti á þeirri skoðun að hæpið sé að landsstjórnin standi í sjónvarpsrekstri sem og rekstri skemmtistöðvarinnar Rásar - 2.  Um þetta hef ég fjallað t.d. í pistlinum Rúv - Menningarleg Maginotlína og fleiri pistlum sem sjá má á þessu yfirliti. Hvað það varðar er ég sannfærður um að með því að hygla einum aðila umfram aðra þá hindri núverandi lög heilbrigðan vöxt og framtak á þessu sviði. Allir sem standa að rekstri útvarps og sjónvarps eiga að fá greitt fyrir efni flutt á íslensku - ekki bara Ríkisútvarpið. Með þessu móti myndu allar útvarpsstöðvarnar taka á sig að vera almannaútvarp auk þess að gegna öryggishlutverki. Líkur eru á því að landsbyggðin fengi með þessu fyrirkomulagi löngu tímabært tækifæri til að færa miðlun menningarinnar heim í hérað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband