Þarf aukna ímyndarvitund í barnatímum RÚV Sjónvarps?

Eitt af þeim atriðum sem RÚV - Sjónvarp á hrós skilið fyrir eru góðir barnatímar. Þar hafa margar skemmtilegar persónur bæði raunverulegar og leiknar stigið á stokk og skemmt börnum landsins síðustu áratugina með söng, sögum og fróðleik. Þetta er þarft starf og nauðsynlegt enda er mælt fyrir um það í lögum um RÚV en þar segir í 6. grein:

   6. Að flytja fjölbreytt skemmtiefni við hæfi fólks á öllum aldri. Sérstaklega skal þess gætt að hafa á boðstólum fjölbreytt efni við hæfi barna, jafnt í hljóðvarpi sem sjónvarpi.[1]

Þó ég sé ekki sammála því að það sé hlutverk ríkisútvarps að flytja fjölbreytt skemmtiefni við hæfi fólks á öllum aldri þá er síðari hluti málsgreinarinnar vel við hæfi.

En það er eitt atriði sem hefur valdið mér nokkrum áhyggjum í gegnum árin en það er ímynd þeirra barna sem koma fram í barnatímanum. Oft eru þetta ljóshærð börn og gjarnan stúlkur. Það þyrfti að hyggja að því að í hópi áhorfenda eru ungir þeldökkir Íslendingar og það er mikilvægt að þeir eigi sína fulltrúa líka í barnatímunum svo þeir eigi jafna möguleika að byggja upp jákvæða sjálfsmynd til jafns við hina. Því þyrftu þeldökk börn, eða dökkhærð að sjást oftar í barnatímum RÚV - Sjónvarps og einnig þarf að huga að því að kynjahlutfall þeirra sem fram koma sé jafnt svo hvorki halli á stúlkur né pilta, konur eða karla.  

[1] Lög um Ríkisútvarpið ohf.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heyr, heyr.  Algjörlega sammála!

Hrefna Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 24.10.2008 kl. 11:29

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Nei nú fæ ég ekki orða bundist, vinsamlegast ekki meira af þessari einfeldni, það sem þú ert að tala um er í raun aðeins eitt form ritskoðunar. Kynjakvótar og tala nú ekki um kynþáttakvótar af einhverju tagi hafa sýnt sig að leiða bara á endanum til meiri mismununar. Fylgismenn slíks hafa þá reynt að fegra það með því að kalla það "jákvæða mismunun" sem er bara ein leið til að segja að vont sé gott en það stenst auðvitað ekki skoðun. Ef fólk af tilteknum kynþætti (eða háralit sem þú vogar þér að blanda inn í þetta) kemst ekki í tiltekið starf eða tiltekna stöðu, gæti verið að það sé vegna þess að það hafi: a) einfaldlega ekki sóst eftir þeirri stöðu? Eða b) hafi sóst eftir því en einfaldlega verið hafnað vegna þess að annar umsækjandi hafi verið metinn hæfari, burtséð frá kynþætti, lífsviðhorfum eða skóstærð ömmu þinnar. Eða eigum við kannski að gera hæfileikaminni einstaklingum hærra undir höfði með hliðsjón af húðlit eða öðrum líkamseinkennum, og hvernig væri það þá ekki mismunun??? Persónulega þætti mér t.d. móðgandi ef mér væri boðin staða sem ég hefði ekkert erindi í, en væri samt valinn eingöngu vegna þess að ég er skolhærður, eða þá að einhver annar væri ráðinn framyfir mig vegna þess að hann gengur í réttri tegund af fötum... þannig þjóðfélagi vil ég ekki búa í, og ég held það vilji það enginn. Hæfasti maðurinn í verkið ætti alltaf að vera meginreglan, en ef eitt af hæfnisskilyrðunum er að hafa tiltekinn húðlit eða önnur útlitseinkenni þá er slíkt sem betur fer bannað með lögum, og það ekki af ástæðulausu!

Hvað er annars "ímyndarvitund", á það eitthvað skylt við ímyndunarveiki? Þ.e. að halda að eitthvað sé óeðlilegt þegar það er í rauninni í góðu lagi. Þetta minnir helst á hugtök eins og "neikvætt eiginfjárhlutfall" (sem er werðbréfamál yfir að vera gjaldþrota) eða "bókfært virði óefnislegra eigna" (Hverskonar eignir eru eiginlega óefnislegar? Jú, ímyndanir og hugarburður!) Afhverju getum við ekki bara kallað hlutina það sem þeir eru, og hætt að fela okkur á bakvið orðskrúð, það er enginn munur á hægðum og kúk þó annað orðið hljómi e.t.v. betur í (óþarflega viðkvæmum) eyrum. Persónulega hef ég meiri áhuga á innihaldi hlutanna en "ímynd" eða "umbúðum", slík yfirborðsmennska er orðin gjaldþrota og sá hugsunarháttur er löngu orðinn úreltur!

Guðmundur Ásgeirsson, 25.10.2008 kl. 11:05

3 identicon

Guðmundur, Ragnar er ekki að tala um neina kvóta. Það sem hann er að segja að dagskrárstjórar verða að hugsa um þetta efni er ætlað öllum börnum hér á landi og því um að gera að reyna að sýna sem breiðast svið. Er eitthvað að því að vera meðvitaður um að það halli á einhvern? Ég vona að ég fari rétt með, en Ragnar ertu ekki að tala um að dagskrárgerð fyrir börn er hérna kannski svolítið föst í þeirri gömlu hugmynd að á Íslandi búa ekki margir aðfluttir? Sem var kannski reyndin fyrir 20 til 30 árum en ekki í dag og því um að gera að vekja athygli á því.

Anna

Anna Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 25.10.2008 kl. 11:22

4 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir innlitið og athugasemdir.

Bofs: Ef horft er á barnaefni t.d. frá BBC þá er greinilega séð til þess að allir eigi sinn fulltrúa meðal barnanna. Þar eru ekki allir þátttakendur með tiltekinn húðlit eða háralit heldur sést greinilega fjölbreytni. Þar eru þeldökk börn, asísk börn og evrópsk börn að skemmta sér saman. Ég held að það sé ekki sambærilegt að blanda þessari umræðu saman við umræðu um starfsumsóknir, en þar sýnist mér þín rök eiga við frekar en í þessu samhengi. Ímyndarvitund er meðvitund um að verið sé að búa til ímynd af börnum með því að láta þau vera þáttakendur í tilbúnu sjónvarpsefni fyrir börn.

Anna: Já, meining mín er einmitt sú að ég er að fjalla um dagskrárgerð fyrir börn og það viðhorf sem ég held á lofti er að efnið eigi að vera ætlað sem breiðustum hópi barna og þau þurfi því sem allra flest að geta samsamað sig sjálf því sem fram fer á skjánum ef það á að höfða til þeirra.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 25.10.2008 kl. 14:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband