Er öryggishlutverk RÚV fyrir borð borið?

Við skulum vona að nú rætist ekki gamla orðtækið að allt sé þá þrennt er. Suðurlandsskjálfti, bankahrun og hvað svo? Vonandi ekki harðindavetur, Kötlugos, eða einhver önnur óáran sem alltaf má búast við hérlendis. Undir slíkum kringumstæðum getur verið mjög mikilvægt að öll útvarpsviðtæki sem hægt er að nálgast geti náð útsendingum og séu með algengu tíðnissviði. Á mörgum útvarpstækjum er engin langbylgja en á þeim öllum er FM bylgja og miðbylgja (AM).  Í nýlegum pistli Var FM væðing landsbyggðarinnar mistök? færi ég rök fyrir því að heppilegast sé fyrir RÚV að koma upp öflugum miðbylgjusendi (AM) í hverjum landsfjórðungi ásamt því að efla staðbundna dagskrárgerð. Þetta væri hægt að fjármagna með því að selja skemmti- og afþreyingarstöðina Rás-2 eða breyta henni og flytja út á land og dreifa starfsemi hennar á þessa staði. Ástæðan fyrir því að ég tel nauðsynlegt að setja miðbylgjusendi í hvern landsfjórðung er sú að þeir eru mun langdrægari en FM sendar og ef einn nálægur dettur út þá ætti að vera hægt að ná amk. einum öðrum slíkum sendi vegna langdrægninnar. Ég minni á að undir góðum kringumstæðum má ná miðbylgjusendingum færeyska útvarpsins en þær nást vel á Austurlandi og ég hef náð þeim hér á Selfossi.

Áherslur stjórnvalda hvað varðar stefnumótun fyrir RÚV hin síðari ár sæta nokkurri furðu svo vægt sé til orða tekið og segja má að lítið hafi breyst frá því Rás 2 hóf göngu sína. Jú, gamla öfluga langbylgjustöðin á Vatnsendahæð var orðin úrelt og því lögð niður og nú hefur lítil langbylgjustöð á Snæfellsnesi átt að þjóna landinu og miðunum hvað öryggi og langdrægni varðar. Þegar rök fyrir áframhaldandi stuðningi ríkisvaldsins fyrir RÚV eru skoðuð sést að ekki er lítið gert úr öryggishlutverki stofnunarinnar og stjórnmálamenn hafa þetta gjarnan á takteinum sem rök fyrir gjaldtöku og skattlagningu almennings í formi afnotagjalda. En greinilegt er að aðrir fjölmiðlar standa sig ekki síður vel þegar kemur að þessum þætti. Í jarðskjálftunum hér á Suðurlandi árið 2000 var það fyrsta sem datt út FM sendir RÚV. Í óveðrum síðasta vetrar voru nokkur dæmi þar sem frjálsir fjölmiðlar komu betur til móts við öryggisþarfir fólks heldur en RÚV gerði. Sem dæmi um þetta má nefna óveður á Austurlandi í lok desember sem og hér á Suðurlandi í janúar. Um þessa atburði skrifaði ég pistlana Óviðunandi frammistaða RÚV í óveðrinu á Austurlandi og Af hverju kemur vonda veðrið okkur alltaf jafn mikið á óvart?

Ég lýk þessum pistli með því að taka fram að gagnrýni minni er ekki beint gegn starfsfólki RÚV sem vinnur gott starf heldur er henni beint gegn hinu pólitíska valdi sem ábyrgð ber á stofnuninni og lagaramma hennar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Mig langar að leiðrétta mig hvað varðar langbylgjustöðina á Snæfellsnesi en á vefsíðu RÚV segir:

Langbylgjustöðvarnar á Gufuskálum og Eiðum þjóna nú landinu öllu og miðum. Sendirinn á Gufuskálum, 300 kW að afli, var formlega tekinn í notkun 8. september 1997, og sendirinn á Eiðum, 100 kW, var formlega tekinn í notkun 18. nóvember 1999. Fljótlega eftir að útsendingar hófust frá nýju langbylgjustöðvunum kom í ljós mun meiri langdrægni en frá eldri stöðvum. Ríkisútvarpinu hafa borist staðfestingar á móttöku frá Færeyjum, Írlandi, Þýskalandi, Hollandi og austurströnd Bandaríkjanna. Áhafnir á íslenskum skipum hafa heyrt sendingarnar í Smugunni og á Flæmska hattinum.

Langbylgjustöðin á Gufuskálum sendir á 189 kHz og Eiðum á 207 kHz.

Á langbylgjunni er í boði úrval dagskrár Rásar 1 og Rásar 2:
Langbylgjustöðin á Gufuskálum er því ekki lítil og ekki skal dregið í efa að hún sé langdræg en gæði merkisins er samt orðið lítið hér á Suðurlandi, það lítið að til að ná stöðinni svo vel fari þarf gott tæki og loftnet. Einnig þyrfti að  efla svæðisútvörpin að miklum mun. Rök fyrir miðbylgju eru fyrst og fremst þau að miðbylgja er í öllum útvarpstækjum en ekki langbylgja. Sífellt erfiðara er að fá tæki með innbyggðri langbylgju og það heyrir til undantekninga núorðið að stofutæki séu með langbylgju.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 21.10.2008 kl. 18:33

2 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Í vetur sem leið frétti ég af óveðri sem skollið var á í Grindavík einn morguninn vegna þess að rútubílstjóri hringdi inn á Útvarp Sögu og sagði frá því. Vera má að boðið sé upp á frásagnir af slíku í RÚV en ég veit ekki til að dagskrá sé rofin til þess að leyfa innhringjendum slíkra tilkynninga að tala. Í morgunútvarpi RÚV er yfirleitt verið að spila skemmtilega tónlist, flytja fróðlega pistla, ræða við þennan spegulantinn eða gleðipinnann eða hinn og svoleiðis viðtöl eru ekki rofin. Þarna flaskar RÚV illilega á hlutverki sínu. Á dögum þegar fjöldi bíla festist í ófærð á fjallvegum þá hefur eitthvað brugðist alvarlega í þjóðfélagi sem býr við jafn fullkomna fjarskiptamöguleika og okkar, með þéttriðnu gsm farsímaneti og öflugu dreifikerfi útvarps sem þó virðist ganga erfiðlega að nýta til fullnustu í þágu öryggis almennings.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 21.10.2008 kl. 19:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband