Ríkisútvarpið í nýju ljósi efnahagsmála

Í ljósi atburða í efnahagsmálum landins sem orðið hafa síðustu daga og vikur er ólíklegt að formlegt eignarhald ríkisins breytist að neinu marki hvað RÚV varðar. Í þessari stöðu er því lítið annað að gera en horfa fram á óbreytt ástand en með einni breytingu þó. Ef RÚV ætlar að vera jafn mikið inni á auglýsingamarkaði og það hefur verið er ekkert sjálfsagðara en að hinir ljósvakamiðlarnir fari líka á ríkisstyrki þannig að allir fjölmiðlar sitji við sama borð hvað varðar slíka styrki óháð eignarhaldi. Þ.e. ríkisstofnunin fengi þá framlag í réttu hlutfalli við framlag sitt af innlendu efni rétt eins og aðrir ljósvakamiðlar. Rökin fyrir því að ríkisvaldið haldi uppi almannaútvarpi eru aðallega af menningarlegum toga og einnig er öryggishlutverk útvarpsins ótvírætt. Hægt að álykta að ekki ætti að greiða ljósvakamiðlum neitt fyrir flutning á erlendu afþreyingarefni svo sem sápuóperum og skemmtiefni heldur fyrir flutning á innlendu efni og hugsanlega einnig fyrir flutning á vönduðu erlendu fræðslu- og menningarefni. Einnig er bráðnauðsynlegt að efla starfsstöðvar útvarpsins í landsfjórðungunum fjórum utan höfuðborgarsvæðisins. Í síðasta pistli mínum Var FM væðing landsbyggðarinnar mistök? kem ég inn á það að til að halda uppi tryggri almannaþjónustu þurfi sterka miðbylgjusenda í alla landsfjórðunga og einnig sjálfstæða dagskrárgerð. Það væri ein öflugasta leiðin og jafnframt ódýrasta sem hægt væri að fara til að efla menningarlegt sjálfstæði landsbyggðarinnar. Fjölbreytt dagskrárgerð sem bæri einkenni hvers landsfjórðungs gæti einnig orðið eftirsóknarvert ljósvakaefni á höfuðborgarsvæðinu og þannig yrði það ekki lengur bara veitandi heldur einnig þiggjandi í menningarmálum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband