Lúðvík Bergvinsson og ríkislögreglustjóraembættið

Nýlegt innlegg Lúðvíks Bergvinssonar í umræðu á Alþingi þess efnis að hann vilji að embætti ríkislögreglustjóra verði lagt niður í núverandi mynd er erfitt að skilja. Ég skil umræðuna um sýslumannsembættið á Keflavíkurflugvelli en tel reyndar að hávær afskipti nokkurra þingmanna af því máli orki tvímælis og hyggilegra væri að láta af harðskeyttri gagnrýni og leyfa ráðuneytisfólki að leysa þetta deilumál í friði í samvinnu við embættið á Suðurnesjum. Innlegg Lúðvíks um ríkislögreglustjóraembættið kemur inn í þessa umræðu en erfitt er að sjá hvernig það tengist umræðunni efnislega. Þessi tvö embætti tengjast ekki sérstaklega umfram önnur og það flækir frekar málin fremur en hitt að blanda þessu saman. Málflutningurinn ber frekar vott um pólitísk átök og svo virðist sem Lúðvík sé kominn í stjórnarandstöðu.

Forsendur Lúðvíks um að efla þurfi grenndarlöggæslu eru góðar og gildar eins og t.d. ályktun Lögreglufélags Árnessýslu frá í nóvember sýnir en aftur er erfitt að sjá hvernig þær forsendur eiga að leiða af sér að ríkislögreglustjóraembættið verði lagt niður í núverandi mynd.

Nýleg frétt Fréttablaðsins frá því í fyrradag staðfestir þrálátan grun síðustu missera um að erlendir glæpahópar hafi náð fótfestu hér á landi og þeim sé stjórnað erlendis frá, árásin í Keilufelli í Breiðholti sem og árás á lögreglumenn að störfum, Fáskrúðsfjarðarmálið og fleiri atburðir ættu að nægja til að sannfæra flesta um að þörf er á miðlægu lögregluembætti og að það þarf að vera nægilega öflugt til að takast á við þessi verkefni.

Ekki trúi ég að Lúðvík vilji láta þessar samfélagsvarnir niður falla þó hann vilji ríkislögreglustjóraembættið feigt, en telur hann í alvöru enga hættu á að hann stofni vinnu undangenginna missera og ára sem lögð hefur verið í uppbyggingu embættisins í hættu með svona málflutningi?

Lætur Lúðvík málefnalegan ágreining sinn við Björn Bjarnason hlaupa með sig  í gönur í þessu máli eða vill hann ríkisstjórnina einfaldlega feiga? Fær hann málefnum sínum ekki framgengt í ríkisstjórnarsamstarfinu? Svo virðist vera því einbeittur og harðskeyttur málflutningur hans sem er síendurtekinn í málefnum dómsmála bendir til þess. En ef baráttumálin eru á þessa leið, þ.e. að leggja beri heilu embættin niður í núverandi mynd þá er nú skiljanlegt að lítið sé gert.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband