Ljómi barnsins - nýr jólatexti við þekkt lag

Flestir muna eftir eða kannast við Procol Harum lagið 'A whiter shade of pale'. Hægt er að skoða það á YouTube hérna. Lagið er bæði dramatískt og hátíðlegt og í því má merkja ákveðið ris sem nær hámarki í sérlega grípandi og fagurri laglínu sem varð heimsfræg 1967 í flutningi hljómsveitarinnar þar sem leikur á Hammond orgel var áberandi. Þannig vildi til að fyrir nokkrum vikum hafði ég veður af því að það vantaði íslenskan texta við lagið og í framhaldi af því bjó ég til texta sem á sunnudagskvöldið var frumfluttur og sunginn á aðventutónleikum í Selfosskirkju af Gunnari Guðna Harðarsyni við undirleik strengjasveitar Tónlistarskóla Árnessýslu og Esterar Ólafsdóttur sem lék á orgel. Stjórnandi var Greta Guðnadóttir. Íslenski textinn er eins og sjá má ekki byggður á enska textanum heldur er hann sjálfstæð smíð við lagið og er byggður í kringum þema sem er heimsókn vitringanna að vöggu Jesúbarnsins.

 Ljómi barnsins

Við ferðuðumst um nætur
í ljóma stjörnunnar
um eyðisand og merkur
í von að fá nú svar
Kynngimagnað næturhúmið
kvað sitt huldudjúpa ljóð
um óræð hinstu örlög manna
-en við misstum ekki móð-

En svo gerðist það - yfir hellinum var stjarnan kyrr
og birtan þýddi hjarta hjarn
hún kom frá stjörnuhimni heiðum
og frá ásýnd - lítils barns

Í ómi mildrar þagnar
þú færir okkur von
Í stjörnuskini huggar
ung kona lítinn son
gull reykelsi og myrru
við berum þér að gjöf
um jörðina fer gleðistraumur
um hjörtun hlýleg svör

En svo gerðist það - yfir hellinum var stjarnan kyrr
og birtan þýddi hjarta hjarn
hún kom frá stjörnuhimni heiðum
og frá ásýnd - lítils barns

Og fjárhirðarnir komu
og fluttu þessi boð
Um englaraddir bjartar
vefa gullna orðavoð
Mikinn frið ég ykkur færi
og fögnuð hér í dag
ykkur frelsari er fæddur
syngjum lof- og dýrðarlag


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband