Jarðskjálftinn undir Ingólfsfjalli 29. maí 2008

Þegar jarðskjálftinn reið yfir var ég að labba út úr FSu að fara heim í kaffi og var staddur við útidyrnar kennaramegin. Þá byrjaði húsið að titra með miklum hamagangi og hávaða. Ég beið á meðan þetta reið yfir og reyndi að hafa vara gegn fallandi hlutum sem voru þó engir. Þetta er þriðji jarðskjálftinn sem ég upplifi í þessari byggingu og alltaf finnst mér eins og húsið sé eins og skip í sjó. Í þetta skiptið var eins og húsið ruggaði til hliðanna. Það er mikið járnabundið og ruggaði í heilu lagi eins og skip sem fékk á sig hliðaröldu. Fyrir utan dyrnar voru málarar að störfum sem flýttu sér niður úr stigum sínum. Við litum til Ingólfsfjalls og þá sá ég sjón sem mig langar ekki að sjá aftur. Allt fjallið var þakið skriðum frá toppi og niðurúr og það mátti greina mikinn fjölda hnullunga og bjarga á hraðferð niður. Af þessu steig mikill reykur upp og drunur. Myndirnar sem voru sýndar í sjónvarpinu sýndu aðeins reykinn sem lá í loftinu eftir að ósköpin gengu yfir.  Það hefði verið mjög óspennandi að vera staddur uppi í Ingólfsfjalli þessar mínútur og ég vona sannarlega að enginn hafi verið þar.

Árið 2000 urðu skjálftarnir í miklu meiri fjarlægð hér fyrir austan og höggið af þeim var ekki eins mikið og höggið af þessum. Á undan þeim skjálfta heyrði ég þó hvin en á undan þessum heyrði ég ekkert, líklega af því hversu nálægt hann var.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þetta hefur verið hrikalegt, Ragnar, að upplifa þetta og sjá svo fjallið allt á reiðiskjálfi með björgin fallandi. Ég vona að fjölskylda þín hafi ekki orðið fyrir neinu tjóni í skjálftanum. Með kærri kveðju og ósk um Guðs blessun,

Jón Valur Jensson, 30.5.2008 kl. 12:18

2 Smámynd: Magnús Magnússon

Það er fyrir mestu að lítil sem engin meiðsl hafi orðið á fólki, dauða hluti, s.s,innbú og þvíumlíkt er alltaf hægt að bæta.

Ég held samt að þó ytri meiðsl séu kannski ekki svo ýkja mikil þá er ég viss um að þessi atburður hefur komið við innrabyrði hjá mörgu fólkinu, ekki síst eldra íbúum.

Var að hlusta á þá félaga í Reykjavík síðdegis í gær og þá hringdi Sturla Jónsson (VÖRUBÍLISTI) inn og tilkynnti að þeir væru samankomnir einhversstaðar og að mótmæli þeirra væru nú aldeilis að hrista upp í landanum. Persónulega fannst mér þetta mjög óviðeigandi á þessum tímapunkti, þar sem lítið var vitað um aðstæður og margt fólk ekki á þeir tímapunkti komist til sína heima til að athuga stöðu mála hjá því.  Hann hefði kannski getað hugsað sér annan og betri tíma til að framkvæma þennan gjörning.

Hann hefur sjálfsagt séð þetta sem eitthvað voða sniðugan tímapunkt að koma þessu á framfæri, talandinn hafi yfirtekið hugsandann.

Magnús Magnússon, 30.5.2008 kl. 13:20

3 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Sælir, takk fyrir innlitið og góðar kveðjur frá þér Jón. Við urðum
ekki fyrir miklu tjóni. 

Skriðurnar í fjallinu voru ótrúlegar. Þær náðu frá vestri til austurs
eftir endilöngu fjallinu. Ég hef heyrt að menn hafi verið staddir í
malarnámunni og þeir hafi sloppið naumlega. Einnig ýtumaðurinn sem var
að störfum uppi í fjallinu. Það væri eflaust athyglisvert að heyra
frásögn þessara manna af því hvernig var þarna uppfrá.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 30.5.2008 kl. 19:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband