Færsluflokkur: Ríkisútvarpið
Mánudagur, 23.3.2009
Framtíðin í ljósvakamálunum
Það má kannski segja að svipað gildi um ljósvakamiðla og stjórnmálaflokka að það sé heppilegra að þeir séu fleiri en færri svo meiri líkur en minni séu á því að kjósendur og hlustendur finni eitthvað við sitt hæfi. Ef lög tryggðu að smáir ljósvakamiðlar ættu sér tilverugrundvöll og vaxtarmöguleika án þess að eiga á hættu stöðugar sameiningar eða yfirtökur stórra aðila með tilheyrandi róti á starfsmannahaldi og starfsemi þá væri mikið unnið. Samþjöppun á fjölmiðlamarkaði ætti frekar að hindra með því að tryggja tilverurétt smærri aðila heldur en setja strangar og íþyngjandi reglur um eignarhald á fjölmiðlum umfram ákvæði samkeppnislaga.
Ég hef skrifað nokkuð um Ríkisútvarpið. Atburðirnir í kjölfar niðurskurðartillagnanna hjá RÚV þegar fjöldinn allur af félagasamtökum mótmælti því að skera niður á svæðisstöðvum RÚV úti á landi sýna svo ekki verður um villst hvert straumurinn liggur í menningarmálum ljósvakans. Það virðast margir á þeirri skoðun að landsbyggðarstöðvarnar beri að efla frekar en hitt. Þess má geta til upplýsingar að á Suðurlandi er engin slík fjórðungsstöð starfandi. Svo virðist sem þau mótmæli hafi komið bæði þáverandi stjórnvöldum sem og stjórnendum RÚV ohf algerlega í opna skjöldu.
Hugmyndir mínar byggja í stuttu máli á því að byggja upp flóru sjálfstæðra aðila, sem þrátt fyrir að vera ekki stórir eru stöndugir og hafa burði til að vera til í áratugi ef þeir fara vel með fé. Þessir aðilar gætu sem best myndað efnismarkað sín á milli svo að vinsælir útvarpsþættir gætu heyrst á fleiri stöðvum en þeirri sem framleiðir efnið.
Ljósvakamiðlarnir eiga að sitja við sama borð hvað varðar framlög frá ríkinu. Einn þessara miðla getur sem best verið í eigu ríkisins, þ.e. RÚV og þá á þeim forsendum að tryggja þurfi öryggi almennings og dreifingu til fjarlægra staða. Ef þessa jafnræðis er gætt þá geta þeir allir verið á auglýsingamarkaði. Framlög ríkisins til ljósvakamiðlanna ættu síðan að vera í réttu hlutfalli við flutning þessara miðla á innlendu efni eða efni sem tengist Íslandi á einhvern hátt. Þessir
miðlar gætu sem best sameinast um rekstur öflugrar og óháðrar fréttastofu eða notið þeirrar þjónustu frá RÚV en haft frjálsar hendur þar fyrir utan. Það er í rauninni skammarlegt að þeir peningar sem innheimtir voru sem afnotagjöld en núna nefskattur séu notaðir til að flytja landanum textaðar erlendar sápuóperur í ríkissjónvarpinu kvöld eftir kvöld svo árum skiptir.
Í þessu sambandi er nærtækt að horfa til þess að leggja RÚV þær skyldur á herðar að byggja upp starfsstöð í hverjum landsfjórðungi, því auk þess að byggja upp fjölbreytni og menningarlegt sjálfstæði landsbyggðarinnar byggir slíkt fyrirkomulag einnig upp aukið öryggi þegar náttúruhamfarir bresta á. Sjá t.d. pistilinn þar sem ég mæli með því að öflugum miðbylgjusendum verði komið fyrir í hverjum landsfjórðungi.
Flest útvarpsviðtæki sem seld eru á Íslandi í dag eru bara með AM/FM móttöku sem gerir að verkum að langbylgjustöðvarnar eru smátt og smátt að verða úreltar þó sjómenn og ferðamenn noti þær eflaust mikið. En horfa ber á að öflug miðbylgjustöð er líka langdræg og ef hún er vel staðsett þá gætu fjórar slíkar stöðvar trúlega þjónað jafn vel eða betur en gert er með núverandi fyrirkomulagi tveggja langbylgjustöðva.
Ýmis önnur félagaform en hlutafélagaformið henta trúlega betur til reksturs menningarstarfsemi á vegum ríkisins. Arðurinn af starfseminni kemur fram í auknum lífsgæðum, gagnrýnni hugsun og víðsýni þegnanna og er að því leyti eftirsóknarverður þó erfitt sé að leggja á hann efnahagslegan mælikvarða.
Þegar landið fer að rísa á nýjan leik í efnahagsmálum þarf að stofna ljósvakasafn sem hefur það hlutverk að safna ljósvakaefni sem flutt er á íslensku eða hefur að öðru leyti ótvíræð tengsl við íslenska menningu. Þjóðarbókhlaðan gegnir nú þegar þessu hlutverki hvað varðar prentað mál og ljósvakasafnið yrði því aðeins útvíkkun á sömu hugsun þegar kemur að ljósvakaefni. Hugsanlega er hægt að fara að athuga þessi mál strax ef vitað er hvert á að stefna.
RÚV yrði þá nokkurs konar þjónustu- og öryggismiðstöð rekin af ríkinu en myndi sjá um rekstur öflugrar fréttastofu þar sem gerðar verða miklar kröfur til menntunar starfsmanna og óhlutdrægni í efnistökum. Þeir myndu einnig vera þjónustuaðilar og sjá um að leigja út efni úr ljósvakabankanum til hinna smærri aðila sem vilja sína til þess að miðla gömlum menningarperlum.
Ef þessar leiðir eru farnar þá gæti landið farið að rísa hjá litlu útvarpsstöðvunum og þær eignast tilverugrundvöll sem annars væri ekki til staðar. Þær gætu boðið upp á prýðilega þjónustu á ýmsum svæðum og byggt upp fjölbreytta og sérstæða en jafnframt sjálfstæða flóru menningar sem ekki er ríkisstýrð þó hún væri ríkisstyrkt að hluta. Fjölbreytt flóra minni en stöndugri aðila ætti líka að stuðla að meiri möguleikum fyrir lýðræðið og þá sem vilja koma skoðunum sínum á framfæri. Með þessu móti yrði jafnræði gert hærra undir höfði en nú er.
Ríkisútvarpið | Breytt 21.3.2009 kl. 23:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 24.1.2009
Ljósvakinn og lýðræðið
Það má kannski segja að svipað gildi um ljósvakamiðla og stjórnmálaflokka að það sé heppilegra að þeir séu fleiri en færri svo meiri líkur en minni séu á því að kjósendur og hlustendur finni eitthvað við sitt hæfi. Ef lög tryggðu að smáir ljósvakamiðlar ættu sér tilverugrundvöll og vaxtarmöguleika án þess að eiga á hættu stöðugar sameiningar eða yfirtökur stórra aðila með tilheyrandi róti á starfsmannahaldi og starfsemi þá væri mikið unnið.
Ég ef í fyrri pislum skrifað nokkuð um Ríkisútvarpið. Atburðirnir í kjölfar 550 milljón króna niðurskurðartillagnanna hjá RÚV þegar fjöldinn allur af félagasamtökum mótmælti því að skera niður á svæðisstöðvum RÚV úti á landi sýna svo ekki verður um villst hvert straumurinn liggur í menningarmálum ljósvakans. Það virðast margir á þeirri skoðun að landsbyggðarstöðvarnar beri að efla frekar en hitt. Þess má geta til upplýsingar að hér á Suðurlandi er engin slík fjórðungsstöð starfandi.
Hugsast getur að stjórnvöld og stjórnmálaflokkarnir séu að átta sig á því að það þarf að mynda heildstæða stefnu í íslenskum ljósvaka- og fjölmiðlamálum og ná um hana víðtækri og breiðri sátt. Gallinn er bara sá að hvorki stjórnvöld né stjórnmálaflokkarnir virðast hafa skýrar hugmyndir um hvert eigi að stefna. Ég bendi þeim því á að lesa pistlana í efnismöppunni minni um Ríkisútvarpið. Kannski fá þeir einhverjar hugmyndir sem þeir geta byggt á. Þær hugmyndir byggja í stuttu máli á því að byggja upp flóru smærri aðila, sem þrátt fyrir smæðina eru stöndugir og hafa burði til að vera til í áratugi ef þeir fara vel með fé. Þessir aðilar gætu sem best myndað efnismarkað sín á milli svo að vinsælir útvarpsþættir gætu heyrst á fleiri stöðvum en þeirri sem framleiðir efnið.
Í þessu sambandi er nærtækt að horfa til þess að byggja upp útvarpsstöð í hverjum landsfjórðungi, því auk þess að byggja upp fjölbreytni og menningarlegt sjálfstæði landsbyggðarinnar byggir slíkt fyrirkomulag einnig upp aukið öryggi þegar náttúruhamfarir bresta á. Sjá t.d. pistilinn þar sem ég mæli með því að öflugum miðbylgjusendum verði komið fyrir í hverjum landsfjórðungi. Menningarleg slagsíða í þágu höfuðborgarsvæðisins í dagskrá og áherslum RÚV er greinileg. Nægir þar að nefna langdregin atriði í áramótaskaupinu sem snerust alfarið um argaþras í borgarpólitík Reykjavíkur.
Eignarhald ljósvakastöðva gæti sem best verið blandað. Í raun skiptir það ekki höfuðmáli hver á stöðina ef reksturinn er tryggður og hann má sem best styðja með ríkisframlögum að hluta til eða í hlutfalli við framboð stöðvarinnar af íslensku menningarefni. Samþjöppun á fjölmiðlamarkaði ætti frekar að hindra með því að tryggja tilverurétt smærri aðila heldur en setja strangar og íþyngjandi reglur um eignarhald á fjölmiðlum umfram ákvæði samkeppnislaga. Það verður þó að segjast að ýmis önnur félagaform en hlutafélagaformið henta trúlega betur til reksturs menningarstarfsemi. Arðurinn af starfseminni kemur fram í auknum lífsgæðum, gagnrýnni hugsun og víðsýni þegnanna og er að því leyti eftirsóknarverður þó erfitt sé að leggja á hann efnahagslegan mælikvarða.
Núverandi frammistaða RÚV á menningarsviðinu er viðunandi eins og hún er en hún gæti verið miklu betri ef fjölbreytninni væri fyrir að fara. Ég bendi t.d. á pistilinn RÚV - Menningarleg Maginotlína í þessu sambandi.
Á sama hátt má líklega segja að til lengri tíma sé heppilegra að stjórnvöld hlúi að tilveru lítilla stjórnmálahreyfinga og þær njóti jafnræðis á við hina stóru. Það tryggir að líkindum fjölbreyttari nýliðun í flokkakerfinu og vinnur gegn stöðnun, klíkumyndun og áhrifum flokkseigendafélaga í hinum stærri og eldri stjórnmálahreyfingum.
Sunnudagur, 30.11.2008
Hverjir sitja í starfshópum um málefni RÚV?
Það hefur verið skammt stórra högga á milli hjá RÚV og fréttirnar af 700 milljóna sparnaðinum dundu nokkuð óvænt og snögglega yfir þó fyrirsjáanlegt væri að einhver niðurskurður yrði. Óskandi er að þeir sem fyrir niðurskurðarhnífnum verða muni finna störf sem fyrst. En nokkrar spurningar hafa sótt á mig að undanförnu sem ég hef ekki fundið svör við þrátt fyrir vefleit. Í fyrsta lagi er það hverjir eiga sæti í starfshópnum um málefni RÚV sem greint var frá nýlega að settur hefði verið á laggirnar? Í öðru lagi væri forvitnilegt að fá að vita að hve miklu leyti þessar niðurskurðartillögur tengjast þessum starfshóp? Er það starfshópurinn sem leggur línurnar um niðurskurðinn eða er það útvarpsstjóri?
Fyrir liggur líka að eftirlitsstofnun EFTA, ESA vinnur í því í samráði við íslensk stjórnvöld að finna framtíðarfyrirkomulag fyrir RÚV sem fallið geti að reglum EES.
Að sögn Inge Hausken Thygesen, upplýsingafulltrúa ESA, vinna starfsmenn ESA að málinu í samvinnu við íslensk stjórnvöld. Unnið sé með það markmið í huga að íslensk stjórnvöld og ESA komist að sameiginlegri niðurstöðu um hvernig þessum málum skuli háttað í framtíðinni. [1]
Hér virðist svo vera önnur nefnd eða starfshópur starfandi og sú spurning vaknar óhjákvæmilega hvort um sé að ræða sama starfshópinn? Það er líklegt að svo sé ekki því ESA málið hefur verið til skoðunar síðan 2002 en nýi starfshópurinn var skipaður í þessum mánuði [2]. Það væri forvitnilegt að fá upplýst hverjir eiga sæti í ESA starfshópnum því ef rétt er að hann sé að huga að langtímafyrirkomulagi ljósvakamála hérlendis þá er sá starfshópur áhrifamikill.
Í rauninni skiptir kannski ekki höfuðmáli hvaða einstaklingar eiga hér í hlut heldur hitt að það er pólitískur menntamálaráðherra sem í þessa starfshópa skipar. Í rauninni má segja að málefni RÚV og ljósvakamiðlunar almennt séu þess eðlis að það sé óheppilegt að sérpólitísk sjónarmið fái að ráða ferðinni varðandi framtíðarstefnumótun. Í því sambandi væri heppilegra að skipa þverpólitískt ráð til að leggja línurnar og til að sátt náist til framtíðar um ljósvakamenningu. Einnig væri heppilegt að í svona ráðum sitji ekki bara fólk skipað af stjórnmálaflokkum heldur einnig fólk skipað af hagsmunasamtökum listamanna og annarra hagsmunaaðila. Það vekur því nokkra furðu að ekki hefur komið skýrt fram á almennum vettvangi hverjir eiga sæti í þessum starfshópum og einnig er furðulegt að Alþingi skuli ekki hafa kallað eftir þessum upplýsingum. Það má þó vera að svo sé án þess að ég hafi tekið eftir því en þá hafa þingfréttamenn ekki enn miðlað þeim fróðleik út á netið því þegar orðin RÚV og starfshópur eru gúgluð þá birtist mitt eigið blogg efst á blaði. Afgangurinn eru fréttir almenns eðlis.
[1] http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/11/20/skodun_a_ruv_lykur_bratt/
[2] http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item234572/
Laugardagur, 22.11.2008
Tímabær starfshópur um málefni RÚV
Föstudagur, 21.11.2008
Stórskemmtileg Eivör í Góðu kvöldi Sjónvarpsins
Miðvikudagur, 12.11.2008
Fjölmiðlarnir - nú þarf að endurræsa
Stundum gerist það í tölvum að kerfið verður svo laskað í keyrslu að ekki dugir neitt annað en endurræsing. Þá er ýtt á "Reset" takkann eða bara slökkt og svo er kveikt aftur og þá næst upp keyrslufrítt kerfi sé ekkert að tölvunni á annað borð.
Atburðir síðustu vikna benda til að ekki þurfi bara að endurræsa sumt í efnahags- og stjórnkerfinu okkar heldur líka þá umgjörð sem fjölmiðlum er búin. Til að gera það þarf trúlega að endurskoða samkeppnislögin til að fyrirbyggja fákeppni, of mikinn samruna sem og að endurskoða útvarpslögin og þann ramma sem RÚV vinnur eftir. Því miður hefur skort skýra framtíðarsýn stjórnmálaflokkanna í þessum málaflokki og skyndiplástrahugsunin er allsráðandi. Og það eru gamlir skyndiplástrar. Í leiðara MBL frá 8. nóv. sl. er því haldið fram að best færi á því að RÚV færi af auglýsingamarkaði og nýtti þá peninga sem það fær frá skattgreiðendum til að sinna almannaþjónustuhlutverkinu. Við þetta er helst að athuga að nú þegar fær RÚV háar fjárhæðir frá skattgreiðendum og einnig að aðrir ljósvakamiðlar hafa staðið sig ágætlega í almannaþjónustu. Það er vandséð að RÚV geti dregið úr eyðslunni m.v. núverandi útvarpslög og það er líka vandséð að RÚV setji stefnuna fyrir alvöru á almannaþjónustuna. Til þess er stofnunin of upptekin af því að hafa ofan af fyrir landsmönnum, enda mælt svo fyrir um í skyndiplásturslögum frá 2007, lögum þar sem fátt er gert annað en að spinna hinn bráðum 80 ára gamla þráð um RÚV með nýju bandi.
6. Að flytja fjölbreytt skemmtiefni við hæfi fólks á öllum aldri. Sérstaklega skal þess gætt að hafa á boðstólum fjölbreytt efni við hæfi barna, jafnt í hljóðvarpi sem sjónvarpi.[1]
Við skemmtum okkur því á hverju kvöldi lesendur góðir í boði ríkisins og sérlega vel um helgar þegar hin bráðskemmtilega Spaugstofa kemur á skjáinn. En er þetta í alvöru það sem við viljum fá frá hinu opinbera? Viljum við láta skemmta okkur og segja okkur fréttir í 100% boði stjórnvalda? Eins og ég hef oft bent á þá er það að líkindum fjölbreytnin sem tryggir öruggasta, óháðasta og ferskasta fjölmiðlun en hana skortir m.a. vegna stærðar og umfangs RÚV ekki bara á auglýsingamarkaði heldur líka á skemmti- og afþreyingarmarkaðnum. Í síðasta pistli mínum um ljósvakamiðla setti ég fram hugmyndir um hvað hægt er að gera í kjölfar endurræsingar á starfsumhverfi fjölmiðla en það er í stuttu máli á þá leið að ríkið á að gæta jafnræðisreglu hvað varðar fjölmiðla sem og aðra og úthluta þeim fjármunum jafnt mt.t. framboðs þeirra af menningarefni og þá helst innlendu. RÚV getur sem best verið til áfram og þá sem almannaþjónustustöð með höfuðáherslu á öryggishlutverkið. Sjá nýlega pistla um það málefni, og þá helst þennan: [Tengill]
Ég tek fram að ég álít að starfsfólk RÚV vinni gott starf og gagnrýni minni er ekki beint gegn því heldur ábyrgðaraðilum stöðvarinnar sem eru ríkisvaldið, Alþingi og að endingu við sjálf lesendur góðir sem höfum með þögulli meðvirkni látið leiða okkur allt of lengi þessa gömlu leið.
[1] Lög um Ríkisútvarpið, 3. febrúar 2007.
Þriðjudagur, 4.11.2008
Nú er lag fyrir stjórnvöld að jafna hlut allra ljósvakastöðva
Það má segja að það sé óeðlilegt hvað alla markaði varðar að þar ríki fákeppni. Samkeppnislög ættu því að nægja til að hindra of mikinn samruna á þessum markaði og ef þau duga ekki þá þarf að laga samkeppnislögin. Allir aðilar eiga að vera jafnir fyrir lögunum og því ætti að gæta þess líka að RÚV verði ekki of ráðandi t.d. á sjónvarpsmarkaðnum. Allir ljósvakamiðlar eiga einfaldlega að sitja við sama borð hvað varðar framlög frá ríkinu. Einn þessara miðla getur sem best verið í eigu ríkisins, þ.e. RÚV og þá á þeim forsendum að tryggja þurfi öryggi almennings og dreifingu til fjarlægra staða. Ef þessa jafnræðis er gætt þá geta þeir allir verið á auglýsingamarkaði. Framlög ríkisins til ljósvakamiðlanna ættu síðan að vera í réttu hlutfalli við flutning þessara miðla á innlendu efni sem og vönduðu erlendu menningarefni. Ekki ætti að styrkja flutning af erlendum íþróttaviðburðum eða öðru erlendu afþreyingar- og skemmtiefni nema sérstök rök styðji þá ákvörðun. Þessir miðlar gætu sem best sameinast um rekstur öflugrar og óháðrar fréttastofu en haft frjálsar hendur þar fyrir utan. Ógæfulegt fjölmiðlafrumvarp stjórnarinnar 2004 hefði líklega aldrei komið til ef málum hefði verið skipað strax með þessum hætti þegar frjálsir miðlar voru leyfðir um miðjan 9. áratuginn.
Rosabaugur Jóns Ásgeirs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 2.11.2008
Nú er lag fyrir stjórnvöld að jafna hlut allra ljósvakastöðva
Uggvænlegar fregnir af uppsögnum starfsfólks hvaðanæva að úr þjóðfélaginu hafa borist undanfarna daga og ekki er hægt annað en biðja og vona að úrræði finnist á málum allra. Ein þeirra uppsagnarfregna sem barst í liðinni viku er af uppsögnum alls starfsfólks Skjásins. Eflaust má líka gera ráð fyrir samdrætti hjá Stöð 2 þó vonandi þurfi ekki að koma til uppsagna þar því þeir sem vilja spara munu að líkindum byrja að spara í kaupum á fjölmiðlum og afþreyingarefni.
Í ljósi þessara hræringa sést enn betur að núverandi fyrirkomulag í ljósvakamálum er ábótavant og það þarf að laga. Því miður eru einu hugmyndirnar sem fram hafa komið í þá veru að RÚV þurfi að fara af auglýsingamarkaði. Enginn virðist vilja ympra á þeirri leið að allir ljósvakamiðlar eigi einfaldlega að sitja við sama borð hvað varðar framlög frá ríkinu. Einn þessara miðla getur sem best verið í eigu ríkisins, þ.e. RÚV og þá á þeim forsendum að tryggja þurfi öryggi almennings og dreifingu til fjarlægra staða. Um þetta hef skrifað af og til og komið með tillögur um síðastliðið eina og hálfa ár en svo virðist sem þessar hugmyndir hafi ekki skilað sér til hugsuða stjórnmálaflokkanna. Framlög ríkisins til ljósvakamiðlanna eiga að vera í réttu hlutfalli við flutning þessara miðla á innlendu efni sem og vönduðu erlendu menningarefni. Ekki ætti að styrkja flutning af erlendum íþróttaviðburðum eða öðru erlendu afþreyingar- og skemmtiefni nema sérstök rök styðji þá ákvörðun. Þessir miðlar gætu sem best sameinast um rekstur öflugrar og óháðrar fréttastofu en haft frjálsar hendur þar fyrir utan. Ógæfulegt fjölmiðlafrumvarp stjórnarinnar 2004 hefði líklega aldrei komið til ef málum hefði verið skipað strax með þessum hætti þegar frjálsir miðlar voru leyfðir um miðjan 9. áratuginn.
Sunnudagur, 26.10.2008
Útvarp Saga: Einn besti útvarpsþátturinn
Síðastliðin ár hef ég átt þess kost að fylgjast með Útvarpi Sögu og hlusta þá gjarnan á endurflutning um helgar. Þar er einn útvarpsþáttur sem er sérlega athyglisverður og það er þáttur Sigurðar G. Tómassonar og Guðmundar Ólafssonar hagfræðings þar sem þeir spjalla saman og spila tónlist. Eins og alþjóð er kunnugt eru þeir báðir fjölfróðir og víðlesnir og því gaman að fylgjast með samtali þeirra sem er áheyrilegt og skemmtilegt. Ég giska á að þetta geti margir tekið undir þó þeir séu ekki sammála þeim félögum um allt enda felst skemmtun og fróðleiksfýsn ekki endilega í því að vera sammála ræðumönnum.
Eitt af því sem borið hefur á góma í spjalli þeirra félaga er efnahagsmál og gagnrýni á stjórnvöld sem er rökstudd og ennfremur er ágengra spurninga spurt sem ég heyri sjaldan eða aldrei svarað þó vera megi að það hafi verið gert. Styrkur Útvarps Sögu sem frjálsrar og óháðrar útvarpsstöðvar hefur komið betur og betur í ljós með þessu og nú er svo komið að stjórnmálamenn úr ýmsum áttum hafa sóst eftir að flytja pistla í stöðinni og á hana er hlustað sem stöð hins talaða máls og til að heyra skoðanir af ýmsu tagi viðraðar. Þessi eiginleiki er nánast alveg horfinn úr RÚV-Rás1 og þessi efnisþáttur hefur flust yfir í Sjónvarpið að hluta til. Margir muna enn eftir þáttum á Rás-1 þar sem hver sem vildi gat komið og flutt pistil. Um daginn og veginn minnir mig að þessir þættir hafi heitið. Því miður er þetta horfið og verið getur að þetta hafi lognast út af hugsanlega vegna þess að menn vildu vera settlegir í Ríkisútvarpinu, ég veit það ekki en athyglisvert væri að fregna af hverju málin þróuðust þannig, sérstaklega í ljósi útvarpslaganna en samkvæmt þeim á Ríkisútvarpið einmitt að vera vettvangur ólíkra skoðana en í dag er það Útvarp Saga sem ber höfuð og herðar yfir hinar útvarpsstöðvarnar hvað varðar hið frjálsa talaða orð á Íslandi í dag.
Sunnudagur, 26.10.2008
Langbylgjustöðin á Eiðum nægir ekki þegar Gufuskálar detta út
Nýlega var tilkynnt á langbylgjustöð RÚV á Gufuskálum að vegna viðhalds og viðgerða ætti að fella niður útsendingar um nokkra stund og á meðan var fólki bent á að stilla á langbylgjustöðina á Eiðum sem sendir út á 207 khz með 100 kw sendistyrk en það er þriðjungur af afli stöðvarinnar á Gufuskálum. Nú er það svo að langbylgjuútvörp eru misjöfn að gæðum. Ég hef verið að prófa móttökuskilyrði Eiðastöðvarinnar hér á Selfossi og þau eru misjöfn eftir útvarpsviðtækjum. Ég náði Eiðum prýðilega á bílútvarp en á tveimur innitækjum voru móttökuskilyrðin slæm. Þetta sýnir að þessar tvær langbylgjustöðvar eru tæplega nægilegar til að halda uppi öryggisþjónustu til fjarlægra staða landsins. Ekki þarf annað en Gufuskálar detti út og þá er stór hluti af landinu án öruggra útvarpssendinga og þurfa að reiða sig á fjarlæga og skammdræga FM senda eða Eiðastöðina sem er of afllítil til að geta þjónað vesturhluta landsins nægilega vel.
Ég hef haldið því fram í nýlegum pistlum að það þurfi að setja miðbylgjusenda í alla landsfjórðunga. Bæði er það til að ná vel til sem flestra tækja því mörg eru ekki með langbylgju og einnig myndu fjórir sendar tryggja meira öryggi en tveir. Langdrægni miðbylgjunnar er að vísu minni en langbylgjunnar en hún er þó þokkalega góð og fullnægjandi til að þjóna einum landsfjórðungi. Ef sendir dettur út ættu nálægustu sendar líka að geta dekkað það svæði sem dettur út.
Það má samt segja að það sé miður hve mörg útvarpstæki eru án langbylgjunnar því hún hentar trúlega best til langdrægra sendinga sem nýtast vel hérlendis, en þetta er raunveruleikinn og það verður að horfast í augu við hann. Það gæti samt verið hægt að halda langbylgjusendunum við líka þó þessum fjórum miðbylgjusendum yrði bætt við. Kannski væri hægt að fjármagna þetta með því að draga úr fjölda FM senda og takmarka þá við þéttbýlissvæðin. Ávinningurinn yrði aukið öryggi og hljómgæðin yrðu viðunandi vegna nálægðar við sendinn þrátt fyrir að um miðbylgjusendingu væri að ræða.