Færsluflokkur: Ríkisútvarpið

Um hlutverk ríkisvaldsins - hvernig á að þekkja svanasöng stofnunar?

Atburðir síðustu daga í fjármálaheiminum sem felast í öflugu inngripi bandaríska ríkisins til viðreisnar fjármálamarkaðnum þar í landi varpa ljósi á hlutverk ríkisvaldsins: Það á að grípa inn í þegar enginn annar getur bjargað málunum og það á að aðhafast þegar enginn annar hefur bolmagn til framkvæmda. Að öðru leyti er að líkindum heppilegast að það haldi sig til hlés, a.m.k. á mörgum sviðum eins og önnur dæmi sýna þó ákveðin rök séu fyrir því að ríkið haldi uppi samgöngum og dreifikerfum, svo sem vegakerfis, veitna, raf eða símalína og sjái um að gæta hagsmuna almennings þegar kemur að öryggi og auðlindum jarðar. Kostir frjáls markaðar eru frumkvæði, sköpunarkraftur og hagsæld en kostir ríkisframtaks eru öryggi og góð hæfni til að viðhalda óbreyttu ástandi. Ókostir frjáls markaðar eru því að líkindum sveiflur og óöryggi en höfuðókostur ríkisframkvæmda er fyrst og fremst stöðnun.  Öryggi og óbreytt ástand annars vegar og sköpunarkraftur og frumkvæði hins vegar virðast því vera andstæður sem togast á og pendúll efnahags- og menningarumræðu sveiflast á milli.

Í þessu ljósi ætti frumkvæði ríkisins sem það tók með stofnun Ríkisútvarpsins að geta talist innan marka eðlilegs inngrips, þó svo  tvær sjálfstæðar útvarpsstöðvar hafi þá þegar verið stofnaðar og a.m.k. önnur þeirra hafi þurft að hætta starfsemi vegna útvarpslaganna sem var auðvitað ekki gott. Það er því kannski frekar spurningin um það hvenær á að hætta sem er erfiðari? Kannski er það þegar lýðum er ljóst að einkaaðilar eru fullfærir um að uppfylla þau skilyrði sem sett eru til starfseminnar? Hvað varðar ljósvakamiðla ætti flestum að vera ljóst að vegna stórstígra tækniframfara síðustu áratuga þá ættu nokkrir einkaaðilar að hafa bolmagn til að rækja bæði menningarlegt hlutverk ríkisins á ljósvakasviðinu sem og öryggishlutverkið. Það frumkvæði og sköpunarkraftur sem slíkt fyrirkomulag leysir úr læðingi myndi fljótlega koma í ljós.

Annmarkar núverandi kerfis eru orðnir býsna áberandi og ég hef bent á þá nokkra eins og yfirlit yfir pistla mína um RÚV sýnir, sem og nokkrir nýrri pistlar. Í fyrradag, föstudaginn 19. september 2008 kemur Morgunblaðið inn á svipuð rök í síðari forystugrein sinni. Þar stendur m.a:

RÚV á frekar að setja peninga skattgreiðenda í að texta fréttir og annað innlent efni í þágu heyrnarskertra (sem eru um 25.000 manns á Íslandi) en að kaupa erlent afþreyingarefni, sem það sýnir í samkeppni við einkareknar sjónvarpsstöðvar.

Þetta tek ég undir, jafnvel þó svo að textað erlent afþreyingarefni komi líka til móts við þarfir heyrnarskertra (vegna textans). Hugsunin er sú að þetta dýrmæta fjármagn á að nota í þágu íslenskrar menningar og frétta af henni en ekki í erlent afþreyingarefni fyrir vel heyrandi fólk sem býðst næg afþreying á frjálsu stöðvunum - og það jafnvel á töluðu íslensku máli.  Nú kann einhver að nefna hinar dreifðu byggðir í þessu sambandi en tækniframfarir síðustu missera eru einnig að bæta stöðu þeirra, og það hljóta flestir að sjá að það er ekki hægt að tefja og standa í vegi fyrir framþróun vegna misskilins velvilja í þágu þeirra sem kjósa að búa afskekkt. Enda var það svo að það var mbl.is en ekki RÚV sem kom fólki til hjálpar í óveðrinu á Austurlandi síðasta vetur þegar síminn komst í lag andartak og fólkið komst inn á mbl.is.

Ég lýk þessum pistli með því að ítreka enn  einu sinni að þó ég gagnrýni RÚV þá beinist sú gagnrýni ekki að starfsfólki stofnunarinnar, né að því sem vel er gert á þeim bæ og vel hefur verið gert, heldur að lagaramma þeim sem stofnunin býr við sem ég tel vera undirrót flest þess sem úrskeiðis fer á þeim bæ.  Ég tek líka fram að vegna sögulegra ástæðna tel ég ekki nauðsynlegt að ríkið losi sig við Útvarp Reykjavík sem hin síðari ár hefur gengið undir nafninu Rás 1 þó að ýmsu megi hyggja hvað þá útvapsrás varðar.


Ríkisútvarp þarf ekki að vera það sama og almannaútvarp

Við lestur pistla minna um Ríkisútvarpið kynni einhver að halda að mér þætti dagskrá þess léleg eða að ég forðaðist að hlusta eða horfa á það. Svo er ekki. Ég hef um langt árabil verið aðdáandi Rásar - 1 og í kvöld hlustaði ég af og til á rásina frá kl. 18 og til um kl. 22. Skrapp samt aðeins frá smástund. Dagskráin var mjög áheyrileg og fróðleg en trúlega hefur hún höfðað mest til fólks á miðjum aldri og þar fyrir ofan en um það er allt gott að segja. Rás - 1 byggir á langri hefð sem er áratuga mótandi starf sem unnið var í Útvarpi Reykjavík af hæfu og góðu starfsfólki. Þó ýmislegt megi finna að lagaramma þeim sem stofnunin starfi eftir þá er ég á þeirri skoðun að þessi fornfræga og rótgróna stöð eigi að fá að vera til í sinni núverandi mynd áfram og ég sé ekkert athugavert við það að ríkið eigi hana áfram að því gefnu að útvarpslögin tryggi fjölbreytni og jafna aðstöðu allra stöðva.  Það er ekki hægt að rífa fullvaxin og falleg tré upp með rótum og planta þeim annars staðar. Þau eiga að fá að standa áfram eins og þau eru og á þeim stað sem þau eru. Ég er aftur á móti á þeirri skoðun að hæpið sé að landsstjórnin standi í sjónvarpsrekstri sem og rekstri skemmtistöðvarinnar Rásar - 2.  Um þetta hef ég fjallað t.d. í pistlinum Rúv - Menningarleg Maginotlína og fleiri pistlum sem sjá má á þessu yfirliti. Hvað það varðar er ég sannfærður um að með því að hygla einum aðila umfram aðra þá hindri núverandi lög heilbrigðan vöxt og framtak á þessu sviði. Allir sem standa að rekstri útvarps og sjónvarps eiga að fá greitt fyrir efni flutt á íslensku - ekki bara Ríkisútvarpið. Með þessu móti myndu allar útvarpsstöðvarnar taka á sig að vera almannaútvarp auk þess að gegna öryggishlutverki. Líkur eru á því að landsbyggðin fengi með þessu fyrirkomulagi löngu tímabært tækifæri til að færa miðlun menningarinnar heim í hérað.


Radio Luxembourg - minningar

Þa er ekki víst að yngri lesendur bloggsins kannist við  Radio Luxembourg. Þetta var frjáls og óháð útvarpsstöð sem útvarpaði aðallega á ensku frá furstadæminu Luxembourg og var fjármögnuð með sölu auglýsinga. Þessi útvarpsstöð á sér langa sögu en hún og aðrar frjálsar stöðvar sem staðsettar voru á skipum umhverfis Bretlandseyjar áttu að líkindum sinn þátt í því að einokun BBC á útvarpsrekstri var afnumin 1973.

Ég minnist þess hvað það var heillandi tilfinning að reyna að ná Luxembourgarútvarpinu. Til þess þurfti sérstakan útbúnað sem var á þá leið að ferðaútvarp var tekið og um það var vafið góðum spotta af koparvír. Annar endi vírsins lá gjarnan út um glugga og virkaði sem loftnet en hinn endinn í ofn og virkaði sem jarðtenging.  Þannig útbúið náðust líka fleiri stöðvar á útvarpstækið svo sem útvarp flotastöðvar Bandaríkjamanna í Keflavík skst. AFRTS (American Forces Radio and Television Service Keflavik Iceland), nefnd Kanaútvarpið í daglegu tali. Þegar svo stöðin náðist og þekktist af kallmerkinu sem var "Two - ooh - eight - lets take you higher..." var takmarkinu náð. Stöðin sendi út á 208 metrum á miðbylgju en á þeim árum voru skalar tækjanna yfirleitt í metrum en ekki kílóriðum eða megariðum eins og nú er.

Þorvaldur Halldórsson sagði fyrir nokkru frá því á Útvarpi Sögu að þau í Hljómsveit Ingimars Eydal hefðu hlustað á Radio Luxembourg og heyrt þar nýjustu lögin og gátu því verið tilbúin með þau þegar lögin nokkru síðar fengu spilun í Útvarpi Reykjavík (núna RÚV- Rás 1) og urðu þar með vinsæl á Íslandi. 

Ég man að á tímum þorskastríðsins þá voru fréttamenn Luxembourgarútvarpsins duglegir að segja frá því að "Icelandic gunboats" hefðu gert þetta og hitt og mér þótti furðulegt að varðskipin skyldu vera kölluð þessu nafni því hér heima var tíundað kyrfilega að fallbyssurnar væru frá tímum síðasta Búastríðsins í Suður-Afríku.  Það var athyglisvert að upplifa þetta fjölmiðlastríð og sjá hvernig deiluaðilar útbúa og matreiða sinn málstað í fjölmiðlum og hefur alla tíð síðan orðið mér mikið umhugsunarefni.

Luxembourgarstöðin spilaði mest vinsældalista og skaut auglýsingum og fréttum inn á milli þess sem málglaðir diskótekararnir þeyttu skífum.   Margir aðdáendur stöðvarinnar sem og Keflavíkurstöðvarinnar voru því vanir því að heyra efni af vinsældalistum því Keflavíkurstöðin spilaði gjarnan vinsælustu sveitalögin. Þetta hefur sjálfsagt valdið því að sú eftirvænting sem byggðist upp þegar Rás 2 byrjaði breyttist brátt í vonbrigði. A.m.k. varð svo hjá mér. Rás 2 var á fyrstu árunum aðallega í framúrstefnupoppi og því að spila nýútkomnar plötur og ég gafst mjög fljótlega upp á stöðinni, enda vanur poppinu úr Radio Luxembourg, sveitavinsældalistanum í Kanaútvarpinu sem og gullaldarrokkinu sem var mikið spilað af hljómplötum og snældum á þessum árum. Ég var of ungur fyrir Þjóðarsálina (þó svo ég hlusti á Sigga Tomm með mikilli ánægju núna á Útvarpi Sögu) og því fór sem fór. Ég slökkti á Rás 2 fljótlega eftir að hún byrjaði og hef aldrei fundið ástæðu til að gefa henni annað tækifæri.


Menningarlegt sjálfstæði landsbyggðarinnar er brýnt

í nýlegum niðurskurðaráætlunum RÚV sést glöggt að RÚV er í kjarnann það sem það hefur alltaf verið og heitið: Útvarp Reykjavík. Ekki er nóg með að nú sé skorið niður á svæðisstöðvunum fyrir vestan, norðan og austan. Hér fyrir sunnan er engin stöð til að loka eða skera niður hjá. Ríkisútvarpið hefur af skiljanlegum ástæðum sinnt nágrenni sínu mest og best í menningarlegu tilliti. Þetta þarf að breytast og það getur breyst því forsendur ljósvakamiðla eru allar aðrar  en þær voru árið 1930 en í grunninn er hugmyndafræðin á bakvið RÚV enn sú sama og þá. Menningarlegt sjálfstæði landsbyggðarinnar mun ekki nást nema landsbyggðin eignist sína eigin fjölmiðla og menningarlegt sjálfstæði er forsenda fyrir öðru sjálfstæði. Þeir sem styðja áframhaldandi stjórnlausan vöxt borgarinnar á suðvesturhorninu geta haldið áfram að styðja RÚV. Þeir sem eru á annarri skoðun ættu að fara fram á það að þeir peningar sem núna renna til RÚV renni til fjölmiðla sem staðsettir eru í þeirra eigin nágrenni.


Styrkir til fleiri aðila en RÚV stuðla að fjölbreytni og jafnræði í menningarmálum

Ráðleggingar OECD til íslensku ríkisstjórnarinnar um að hún eigi að draga úr ríkisumsvifum ættu að geta verið ríkisstjórninni kærkomið tækifæri og rökstuðningur fyrir því að dreifa áherslum sínum í menningarmálum. Til dæmis gæti hún skorið á náin tengsl sín við RÚV og dreift þeim styrk sem þessi eina stóra stofnun hlýtur til allra ljósvakamiðlanna í réttu hlutfalli við framboð þeirra af innlendu efni. Slíkt fyrirkomulag myndi tryggja bæði fjölbreytni og jafnræði og engin sérlög þyrfti að smíða fyrir RÚV.

Yfirlit yfir pistla mína um RÚV

Á síðastliðnum mánuðum hef ég tekið saman nokkra pistla sem varða málefni Ríkisútvarpsins. Þeir eru sem hér segir í tímaröð, nýjasti fyrst og sá elsti síðast:

Pistlarnir  Af hverju kemur vonda veðrið okkur alltaf á óvart og Óviðunandi frammistaða RÚV í óveðrinu á Austurlandi koma inn á öryggishlutverk RÚV í þeim tilgangi að rökstyðja það að öryggi er betur tryggt með fleiri og fjölbreyttari ljósvakamiðlum frekar en fáum og einhæfum.

Pistillinn Enn birtast vankantar á fyrirkomulagi Ríkisútvarpsins ohf fjallar um erfiða stöðu RÚV í kjölfar nýju ohf laganna en með þeim flýtur stofnunin í tómarúmi milli hins opinbera og einkageirans.

Hlúa þarf betur að hljóðrituðum menningararfi og Stofnun ljósvakasafns er löngu tímabær fjalla um nauðsyn þess að ríkið tryggi hljóðritasafn RÚV með öðrum hætti en að varðveita hann hjá stofnuninni. Það myndi skjóta öruggari fótum undir menningararfinn auk þess að tryggja jafnan aðgang að honum.

RÚV - og hin rausnarlegi styrkur Björgólfs fjallar einnig um erfiða stöðu RÚV eftir ohf-væðinguna.

RÚV - Menningarleg Maginotlína fjallar um það að menningarleg markmið RÚV eru ekki að nást því hugmyndafræðin að baki stofnuninni þarfnast endurskoðunar. Komið er með tillögur til úrbóta.

Tæknin breytir stöðunni varðandi ljósvakamiðlun til dreifðra byggða fjallar um það hvernig tæknin breytir stöðunni hvað varðar miðlun efnis til dreifðari byggða og dregur þannig úr mikilvægi þess að einn mjög öflugur aðili sjái bæði um framleiðslu og dreifingu efnis.

Framtíðarmöguleikar RÚV fjallar um gallað fyrirkomulag RÚV m.v. nýju ohf lögin og nauðsyn þess að rjúfa tengsl stofnunarinnar við valdstjórnina, en nýju ohf lögin staðfesta þessi tengsl.

Aðalbjörg Sigurðardóttir um RÚV árið 1944 er yfirlit yfir gagnrýni merkrar kvenréttindakonu og óháðrar menntakonu Aðalbjargar Sigurðardóttir á RÚV sem hún flutti í útvarpinu árið 1944. Í rauninni er gagnrýni hennar ennþá gild því lítið hefur breyst síðustu 64 árin.

Amy Goodman - orð í tíma töluð í og fyrir RÚV fjallar um athugasemdir bandarísku fréttakonunnar Amy Goodman um fjölmiðla og nauðsyn þess að þeir séu óháðir og kalli valdamenn til ábyrgðar.

Jóra í Jórukleif slær í borðið - ástæðan var léleg dagskrá RÚV sjónvarpsins var pistill sem ég skrifaði í tilefni af jarðskjálfta sem varð nálægt Selfossi í október 2007 en frásögn af honum rataði ekki inn í kvöldfréttir RÚV Sjónvarps.

Fordómar í fjölmiðlum - hvar stendur RÚV? er pistill sem skrifaður var í tilefni af síendurteknum fréttum RÚV af furðumennum á Filippseyjum, fréttum sem voru valdar í erlent fréttayfirlit á föstudaginn langa ár eftir ár.

 


Af hverju kemur vonda veðrið okkur alltaf jafn mikið á óvart?

Á Selfossi var ástandið ekki slæmt hvað varðar samgöngur í gærmorgun, þar voru götur ruddar og lítið fjúk en strax og kom út fyrir bæinn var ástandið mun verra, skafrenningur og skafbylur, skyggni lítið, hálka, myrkur og þæfingsfærð fyrir fólksbíla.  Ástandið á Eyrarbakkaveginum var ekki burðugt. Á móts við Stekka hafði snjóplógur farið útaf og fyrir sunnan var þæfingsfæri. Á móts við snjóplóginn voru fólksbílar að festast í snjó á veginum. Ég var á jeppa og keyrði niður að Stokkseyri snemma á 8. tímanum og lagði af stað uppúr aftur rétt fyrir 8. Þá voru komnar langar raðir á móts við Stekka, bílar voru fastir og einn hafði lent útaf. Ef fólkið í fólksbílunum hefði vitað hvernig aðstæður voru þarna þá er ég nokkuð viss að margir hefðu frestað för sinni en ekkert heyrðist um þetta í RÚV, en talað var um erfiðleika á Reykjanesbraut, á Hellisheiði og í Þrengslum. Enn og aftur þarf ég að greiða afnotagjaldið með það á tilfinningunni að ég sé ekki að fá andvirðið til baka í því öryggi sem lögboðið er svo sem sjá má í 8. gr. laga nr. 6 frá 2007 um RÚV.

Þegar svona gerist þá vakna efasemdir um að samfélagið sé að nýta sér þær upplýsingar sem fáanlegar eru bæði með veðurspám og svo um aðstæður á hverjum stað frá fólki á staðnum. Bæði eru veðurspár orðnar mun öruggari en áður var og svo hefur farsímatæknin breytt miklu. Í síðasta óveðurskafla sem varð fyrir 8 árum hér á Suðurlandi hefur farsímaeign örugglega ekki verið jafn útbreidd og hún er núna. Veðurspáin kvöldið áður varaði við stormi á bilinu 13-20 metrum og að verst yrði við ströndina. Snjór var jafnfallinn og laus um 20 sentimetra þykkur á þessu svæði og því nokkuð fyrirsjáanlegt hvað myndi gerast.  Við býsnumst gjarnan yfir því fólki sem leggur á fjöll í slæmri spá en gerum sjálf svo nákvæmlega það sama við okkar eigin bæjardyr þó fyrirsjáanlegt sé að aðstæður geti orðið bæði hættulegar og heilsuspillandi ekkert síður en á fjöllum og ætlumst jafnframt til að aðrir geri slíkt hið sama. Af hverju er öryggi og heilsa fólks ekki látin njóta alls mögulegs vafa? Hér er þörf á bæði umræðu og hugarfarsbreytingu sem fyrst.

 


Óviðunandi frammistaða RÚV í óveðrinu á Austurlandi

Í óveðrinu sem gekk yfir Austurland 30. 12. síðastliðinn var það ekki RÚV heldur mbl.is sem varð haldreipi fólks sem setið hafði tímunum saman í rafmagnsleysi. Sjá þessa bloggfærslu hér.

Er hið margumrædda öryggishlutverk RÚV kannski í og með það að vera pólitískt öryggistæki ráðandi stjórnmálaafla þegar þau þurfa að koma viðhorfum sínum á framfæri? Segja má að enn ein röksemdin fyrir frjálsum ljósvakamiðlum sé sú að heppilegast sé að þeir séu óháðir ríkisvaldinu. Sjá nánar greinina þar sem vitnað er í Amy Goodman í efnisflokknum um Ríkisútvarpið á þessari bloggsíðu.

Ég tek fram að ekki ber að skilja þessi spurningarorð sem gagnrýni á það fólk sem núna situr í Stjórnarráðinu né heldur ber að skoða þetta sem gagnrýni á starfsfólk Ríkisútvarpsins.


Enn birtast vankantar á fyrirkomulagi Ríkisútvarpsins ohf

Enn eitt dæmið um það hve fyrirkomulag ríkisútvarpsins er óheppilegt er að með hlutafélagsvæðingunni þá flýtur þessi hálf- opinbera stofnun í tómarúmi á milli opinbera geirans og einkageirans. Hvers konar hlutafélag er það sem þarf að standa fjölmiðlum skil á launum starfsfólks síns opinberlega? Þegar laun útvarpsstjórans voru hvað mest í umræðunni á dögunum kom í ljós að samkvæmt upplýsingalögum sem gilda um opinberar stofnanir verður stofnunin/fyrirtækið að upplýsa um launakjör yfirmannsins. Þetta er ótrúlegt en satt og hlýtur að vera sérlega óþægilegt fyrir fyrirtæki sem á að starfa á samkeppnismarkaði - að vísu með veglegum heimanmundi þó. Tími er til að þessu ástandi linni og heppilegra félagsform verði fundið fyrir stofnunina eigi hún að vera áfram undir handarjaðri ríkisins. Hinn kosturinn og hann væri ekki síðri væri að stíga einkavæðingarskrefið til fulls. Þessi hálfkveðna vísa getur trauðla gengið til lengdar.  

Jafnframt þyrfti að koma á fót öflugu hljóðritasafni undir handarjaðri ríkisvaldsins. Hvað afnotagjaldið varðar þá ættu neytendur að fá að kjósa hvert sá styrkur rennur og hann gæti runnið til frjálsra útvarps- og sjónvarpsstöðva í réttu hlutfalli við framboð þeirra af innlendu efni. Sjá t.d. fyrri pistla mína um þetta efni undir efnisflokknum 'Ríkisútvarpið'


Hlúa þarf betur að hljóðrituðum menningararfi

Í grein 3 í lögum nr. 6 frá 1. febrúar 2007 um Ríkisútvarpið ohf segir um hlutverk almannaútvarps, en það er m.a:

 Að varðveita til frambúðar frumflutt efni, enda sé gengið frá samningum við aðra rétthafa efnis um að slíkt sé heimilt.

Í 4. grein segir svo:

Ríkisútvarpinu ohf. er heimilt að taka saman, gefa út og dreifa hvers konar efni, án endurgjalds eða gegn endurgjaldi, sem stuðlar að því að miðla áður framleiddu efni í eigu félagsins, svo sem rituðu máli, hljómplötum, hljóðsnældum, geisladiskum, myndböndum og margmiðlunarefni.

Í þessum málsgreinum felst enn ein mismununin gagnvart frjálsu útvarpsstöðvunum sem fyrir bera skarðan hlut hvað varðar menningarstyrk frá ríkisvaldinu. Ekki er nóg með að RÚV fái styrk til að varðveita frumflutt efni heldur getur stofnunin líka hagnast á því að gefa það út.  Með ólíkindum er að frjáls og fullvalda þjóð skuli koma menningarmálum sínum fyrir á þennan hátt og láta einn aðila njóta þvílíkra forréttinda. Margþætt hlutverk RÚV hlýtur líka að vera ráðamönnum þar á bæ nokkur vandi. Ekki er nóg með að stofnunin þurfi að sinna umfangsmiklum útvarpsrekstri heldur ber henni að varðveita mestan part af hljóðrituðum menningararfi þjóðarinnar!

Heppilegast væri að koma á fót sjálfstæðu hljóðritasafni eða auka við starfsemi Kvikmyndasafnsins þannig að þessum þætti menningarinnar væri sinnt af sjálfstæðri og óháðri stofnun. Jafnframt þyrfti að gefa öllum jafnan aðgang að þessu efni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband