Fjölmiðlarnir - nú þarf að endurræsa

Stundum gerist það í tölvum að kerfið verður svo laskað í keyrslu að ekki dugir neitt annað en endurræsing. Þá er ýtt á "Reset" takkann eða bara slökkt og svo er kveikt aftur og þá næst upp keyrslufrítt kerfi sé ekkert að tölvunni á annað borð.

Atburðir síðustu vikna benda til að ekki þurfi bara að  endurræsa sumt í efnahags- og stjórnkerfinu okkar heldur líka þá umgjörð sem fjölmiðlum er búin. Til að gera það þarf trúlega að endurskoða samkeppnislögin til að fyrirbyggja fákeppni, of mikinn samruna sem og að endurskoða útvarpslögin og þann ramma sem RÚV vinnur eftir. Því miður hefur skort skýra framtíðarsýn stjórnmálaflokkanna í þessum málaflokki og skyndiplástrahugsunin er allsráðandi. Og það eru gamlir skyndiplástrar. Í leiðara MBL frá 8. nóv. sl. er því haldið fram að best færi á því að RÚV færi af auglýsingamarkaði og nýtti þá peninga sem það fær frá skattgreiðendum til að sinna almannaþjónustuhlutverkinu. Við þetta er helst að athuga að nú þegar fær RÚV háar fjárhæðir frá skattgreiðendum og einnig að aðrir ljósvakamiðlar hafa staðið sig ágætlega í almannaþjónustu. Það er vandséð að RÚV geti dregið úr eyðslunni m.v. núverandi útvarpslög og það er líka vandséð að RÚV setji stefnuna fyrir alvöru á almannaþjónustuna. Til þess er stofnunin of upptekin af því að hafa ofan af fyrir landsmönnum, enda mælt svo fyrir um í skyndiplásturslögum frá 2007, lögum þar sem fátt er gert annað en að spinna hinn bráðum 80 ára gamla þráð um RÚV með nýju bandi.

  6. Að flytja fjölbreytt skemmtiefni við hæfi fólks á öllum aldri. Sérstaklega skal þess gætt að hafa á boðstólum fjölbreytt efni við hæfi barna, jafnt í hljóðvarpi sem sjónvarpi.[1]

Við skemmtum okkur því á hverju kvöldi lesendur góðir í boði ríkisins og sérlega vel um helgar þegar hin bráðskemmtilega Spaugstofa kemur á skjáinn. En er þetta í alvöru það sem við viljum fá frá hinu opinbera? Viljum við láta skemmta okkur og segja okkur fréttir í 100% boði stjórnvalda?  Eins og ég hef oft bent á þá er það að líkindum fjölbreytnin sem tryggir öruggasta, óháðasta og ferskasta fjölmiðlun en hana skortir m.a. vegna stærðar og umfangs RÚV ekki bara á auglýsingamarkaði heldur líka á skemmti- og afþreyingarmarkaðnum. Í síðasta pistli mínum um ljósvakamiðla setti ég fram hugmyndir um hvað hægt er að gera í kjölfar endurræsingar á starfsumhverfi fjölmiðla en það er í stuttu máli á þá leið að ríkið á að gæta jafnræðisreglu hvað varðar fjölmiðla sem og aðra og úthluta þeim fjármunum jafnt mt.t. framboðs þeirra af menningarefni og þá helst innlendu. RÚV getur sem best verið til áfram og þá sem almannaþjónustustöð með höfuðáherslu á öryggishlutverkið. Sjá nýlega pistla um það málefni, og þá helst þennan: [Tengill]

Ég tek fram að ég álít að starfsfólk RÚV vinni gott starf og gagnrýni minni er ekki beint gegn því heldur ábyrgðaraðilum stöðvarinnar sem eru ríkisvaldið, Alþingi og að endingu við sjálf lesendur góðir sem höfum með þögulli meðvirkni látið leiða okkur allt of lengi þessa gömlu leið.

[1] Lög um Ríkisútvarpið, 3. febrúar 2007.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband