Stórskemmtileg Eivör í Góðu kvöldi Sjónvarpsins

Laugardagskvöldið 15. 11. sl. var færeyska söngkonan Eivör Pálsdóttir gestur Ragnhildar Steinunnar í skemmtiþættinum Góðu kvöldi. Eivör er greinilega hæfileikaríkur og fjölhæfur listamaður og það sem gerði þennan þátt líka eftirminnilegan var flutningur hennar á færeyskum þjóðlögum. Sungnar sagnaþulur og sagnadansar er að heita má horfið úr menningu okkar en lifir enn í Færeyjum. Við eigum að vísu enn rímurnar þrátt fyrir að þær hafi legið undir ámæli menningarvita þjóðarinnar í um 170 ár eða frá því Jónas Hallgrímsson hóf andóf gegn þeim sem hefur staðið þeim fyrir þrifum í menningarlegu tilliti allar götur síðan. Sagnadansar og vikivakar fóru sömu leið og líklega af sömu ástæðum, þ.e. leiðandi andans mönnum þjóðarinnar féllu þeir ekki í geð og því fór sem fór. Það má því segja að túlkun Eivarar á hinum fornu sagnaljóðum opni okkur dýrmæta sýn inn í fortíð okkar og uppruna, sýn sem tekin hefur verið frá okkur. Mér sárnaði því mjög þegar þáttastjórnandinn tilkynnti að auglýsingahlé yrði gert á útsendingunni einmitt þegar færeyski dansinn var byrjaður að duna og hléið varði á meðan dansað var. Þetta var ótrúleg óvirðing bæði við list Eivarar sem og færeysku og forn-norrænu dansmenninguna. Andlegir leiðtogar sjónvarpsins hafa því greinilega lítt þokast áleiðis í átt til nútímans hvað varðar viðhorf til þessara dansmenningar og talið að hún yrði best geymd bakvið auglýsingar. Að sjálfsögðu átti að taka upp þráðinn frá því sem frá var horfið og leyfa sjónvarpsáhorfendum að sjá þennan dans og heyra danskvæðið kveðið, það hefði verið verðug uppreisn æru þessa merkilega menningarforms.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jens Guð

  Það er bara gleði og gaman þar sem Eivör er.  Kirkjan bannaði hringdansinn og allar evrópskar þjóðir hlýddu banninu.  Færeyingar fréttu á hinn bóginn ekki af banninu fyrr en eftir að því var aflétt. 

Jens Guð, 21.11.2008 kl. 20:30

2 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir innlitið Jens. Ég fór að leita að heimildum um þetta og svo virðist sem sú lausung sem fylgdi hinum svokölluðu gleðum hafi verið ástæða þess að sagnadansarnir lögðust af. Wikipedia er með færslu bæði um hringdansinn sem og gleðina. Um dansinn er hér:

http://is.wikipedia.org/wiki/Vikivaki#Kv.C3.A6.C3.B0in

og um gleðina hér:

http://is.wikipedia.org/wiki/Gle%C3%B0i_(veisla)

Hér kemur fram að gleðir þessar voru bannaðar með dómi á 18. öld hér á landi og þær síðustu hélt sýslumaðurinn Bjarni Halldórsson á Þingeyrum á jólum 1755, 1756 og 1757. Um bann kirkjunnar á danslist á meginlandinu og í Skandinavíu sem allar evrópskar þjóðir hafi hlýtt hef ég ekki heyrt áður. Hvaða heimild hefurðu fyrir þessu Jens?

Í biblíunni, líklega í sálmunum er talað um dans Guði til dýrðar og trúarlegir lofgjörðardansar hafa svo ég viti til aldrei verið gerðir útlægir úr kaþólsku kirkjunni þó þeir séu ekki hluti messunnar. Ég minnist þess að hafa t.d. heyrt frásögn af trúarlegri danssýningu í Landakotskirkju. Vikivakar og gleðidansar eru annað mál. Frásögnin af dansinum í Hruna kann einmitt að vera dæmigerð fyrir varnarbaráttu andlegra leiðtoga gegn gleðidönsum sem fóru úr böndunum. Það er reyndar líklegt að kirkjuhúsin hafi í einhverjum tilfellum verið notuð til gleðidansa á miðöldum þó svo að leiðtogar kirkjunnar hafi að líkindum bannað notkun kirkna og kapella til slíks þar sem þeir hafa réttilega skilgreint vikivakann sem veraldlegan gleðidans en ekki trúarlegan dans. Mér finnst því ótrúlegt að kaþólska kirkjan hafi amast mikið við gleðidönsum sem fóru fram annars staðar en í kirkjunum þó svo að klerkarnir hafi eflaust fordæmt lauslæti sem og aðra hegðun sem fór úr böndunum.  En ég skal fúslega skipta um skoðun sjái ég áreiðanlegar heimildir um annað.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 22.11.2008 kl. 07:47

3 Smámynd: Jens Guð

  Ég nenni ekki að leita uppi heimildir.  Þetta er ekki neitt sem skiptir mig máli.  Ég er oft í Færeyjum og það er heilmikið skrifað um hringdansinn í allskonar túristabæklingum sem þar liggja frammi.  Einhvernveginn hefur mér tekist að læra söguna svona í grófum dráttum.  Það má líka vel vera að þetta sé bara "skemmtilegri" útgáfan af sögunni.

Jens Guð, 22.11.2008 kl. 22:12

4 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Mér finnst trúlegt að yfirvöld á ýmsum stöðum hafi litið gleðidansa hornauga eða lauslæti tengdum þeim, sbr. söguna af Jörfagleði, en allsherjardansbann hef ég ekki heyrt um. Skýringin að sagan sé betri þannig er prýðileg.

Já, Færeyingar eiga í sagnadönsunum auðvitað stórkostlegan menningarfjársjóð sem ferðamenn fá að njóta. Það að hann skyldi falinn bakvið auglýsingahlé finnst mér því alveg ótrúlegt. Væri t.d. hægt að sjá fyrir sér að Íslenska dansflokknum væri boðið í Gott kvöld og auglýsingum skellt inn þegar hann færi að dansa? Trúlega ekki. Þarna sjáum við muninn á viðurkenndri menningu og þeirri menningu sem ekki er viðurkennd eða jafnvel fordæmd.

Tökum sem dæmi Abba. Allt frá því þeir byrjuðu hefur þeim verið hallmælt af ýmsum menningarvitum og tónlistarspegúlöntum en þrátt fyrir það hefur það ekki náð að kveða tónlist þeirra eða vinsældir niður - sem betur fer því Abba vakningin núna sýnir að þarna er tímalaus  og frábær list á ferðinni.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 23.11.2008 kl. 12:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband