Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2011
Mánudagur, 18.7.2011
Lækka þarf hámarkshraða á Suðurlandsvegi í Ölfusi
Í október 2007 og í maí 2008 bloggaði ég og lagði til að hámarkshraði á Suðurlandsvegi í Ölfusi yrði lækkaður. Í ágúst 2008 tjáði Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður Árnesinga sig um hraðann á þessum vegarkafla og sagði:
Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður í Árnessýslu, telur nauðsynlegt að lækka hámarkshraðann á Suðurlandsvegi á milli Selfoss og Hveragerðis úr 90 í 70. Segir hann að horfast verði í augu við það að vegurinn þoli ekki þann hraða sem þar sé nú leyfður. [1]
Í október 2008 tjáði rannsóknarnefnd umferðarslysa sig um ástandið á þessum vegarspotta í svonefndri varnaðarskýrslu sem fjallar um alvarleg umferðarslys á Suðurlandsvegi árin 2002 til 2008, sjá rnu.is. Þar kemur eftirfarandi fram:
Rannsóknarnefnd umferðarslysa leggur til að hámarkshraði á Hringveginum milli Hveragerðis og Selfoss verði lækkaður í 70 km/klst. samhliða öflugri löggæslu og að unnið verði að því að bæta tengingar inn á veginn með betri merkingum og auknu rými. [2]
Í umsögn vegagerðarinnar um þessa tillögu frá 2008 kemur fram að:
lækkun hámarkshraða gæti haft í för með sér meiri framúrakstur og þar með aukna slysahættu. RNU tekur undir þetta en telur að draga megi úr þeirri hætti [svo] með aukinni löggæslu. [2]
Síðan varnaðarskýrslan var gefin út hefur vegurinn verið lagaður kringum afleggjarana þannig að settar hafa verið breikkanir. Einnig hafa verið settar upp hraðamyndavélar þannig að eftirlit á vegkaflanum er mun öflugra en áður var. Hraðinn er eftir sem áður óbreyttur og það hlýtur að vera tímaspurmál hvenær aftanákeyrsla eða alvarlegt slys verður á þessum vegarspotta miðað við óbreytt ástand. Þau rök Vegagerðarinnar frá 2008 að fleiri muni brjóta lögin ef hraðinn er lækkaður eru afleit. Víða á landinu er hámarkshraði lækkaður þar sem ástæða þykir til. Eiga þá lögbrjótarnir að fá óáreittir að setja hinum löghlýðnu ólög með virðingarleysi sínu fyrir lögunum? Af hverju á að taka meira tillit til þeirra sem brjóta lögin en hinna mörgu sem virða þau? Ef það eru fleiri svona staðir af hverju þá ekki lækka hraðann þar líka ef talið er að það muni draga úr slysatíðni? Minni umferðarhraði stuðlar líka að lægri eldsneytiseyðslu. Látum ökudólgana ekki hræða okkur frá því að taka þessi mál til gagngerrar endurskoðunar.
[1] http://eyjan.is/2008/08/11/olafur-helgi-laekka-tharf-hamarkshradann-a-sudurlandsvegi/
[2] http://www.innanrikisraduneyti.is/sam/frettir/nr/22734