Hverjir sitja í starfshópum um málefni RÚV?

Það hefur verið skammt stórra högga á milli hjá RÚV og fréttirnar af 700 milljóna sparnaðinum dundu nokkuð óvænt og snögglega yfir þó fyrirsjáanlegt væri að einhver niðurskurður yrði. Óskandi er að þeir sem fyrir niðurskurðarhnífnum verða muni finna störf sem fyrst. En nokkrar spurningar hafa sótt á mig að undanförnu sem ég hef ekki fundið svör við þrátt fyrir vefleit. Í fyrsta lagi er það hverjir eiga sæti í starfshópnum um málefni RÚV sem greint var frá nýlega að settur hefði verið á laggirnar? Í öðru lagi væri forvitnilegt að fá að vita að hve miklu leyti þessar niðurskurðartillögur tengjast þessum starfshóp? Er það starfshópurinn sem leggur línurnar um niðurskurðinn eða er það útvarpsstjóri?

Fyrir liggur líka að eftirlitsstofnun EFTA, ESA vinnur í því í samráði við íslensk stjórnvöld að finna framtíðarfyrirkomulag fyrir RÚV sem fallið geti að reglum EES.

Að sögn Inge Hausken Thygesen, upplýsingafulltrúa ESA, vinna starfsmenn ESA að málinu í samvinnu við íslensk stjórnvöld. Unnið sé með það markmið í huga að íslensk stjórnvöld og ESA komist að sameiginlegri niðurstöðu um hvernig þessum málum skuli háttað í framtíðinni. [1]

Hér virðist svo vera önnur nefnd eða starfshópur starfandi og sú spurning vaknar óhjákvæmilega hvort um sé að ræða sama starfshópinn? Það er líklegt að svo sé ekki því ESA málið hefur verið til skoðunar síðan 2002 en nýi starfshópurinn var skipaður í þessum mánuði [2]. Það væri  forvitnilegt að fá upplýst hverjir eiga sæti í ESA starfshópnum því ef rétt er að hann sé að huga að langtímafyrirkomulagi ljósvakamála hérlendis þá er sá starfshópur áhrifamikill.

Í rauninni skiptir kannski ekki höfuðmáli hvaða einstaklingar eiga hér í hlut heldur hitt að það er pólitískur menntamálaráðherra sem í þessa starfshópa skipar. Í rauninni má segja að málefni RÚV og ljósvakamiðlunar almennt séu þess eðlis að það sé óheppilegt að sérpólitísk sjónarmið fái að ráða ferðinni varðandi framtíðarstefnumótun. Í því sambandi væri heppilegra að skipa þverpólitískt ráð til að leggja línurnar og til að sátt náist til framtíðar um ljósvakamenningu. Einnig væri heppilegt að í svona ráðum sitji ekki bara fólk skipað af stjórnmálaflokkum heldur einnig fólk skipað af hagsmunasamtökum listamanna og annarra hagsmunaaðila.  Það vekur því nokkra furðu að ekki hefur komið skýrt fram á almennum vettvangi hverjir eiga sæti í þessum starfshópum og einnig er furðulegt að Alþingi skuli ekki hafa kallað eftir þessum upplýsingum. Það má þó vera að svo sé án þess að ég hafi tekið eftir því en þá hafa þingfréttamenn ekki enn miðlað þeim fróðleik út á netið því þegar orðin RÚV og starfshópur eru gúgluð þá birtist mitt eigið blogg efst á blaði. Afgangurinn eru fréttir almenns eðlis.

[1] http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/11/20/skodun_a_ruv_lykur_bratt/
[2
] http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item234572/


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég endurbirti á bloggi mínu um daginn grein eftir mig um RÚV, sem birtist í Morgunblaðinu fyrir réttu ári. Þar sem mitt blogg fer óvíða, birtist t.d. aldrei á mbl.is að því er ég best fæ séð, leyfi ég mér að benda á hana hér; greinina má nálgast með því að smella hér

Í þessari grein fer ég yfir skuldastöðu RÚV, fullyrðingar ráðamanna um að breytingin í hf myndi verða til að laga stöðuna, þótt aldrei væri sagt hvernig, og bendi í lokin á að framundan sé annað hvort gjaldþrot RÚV eða stórfelldur niðurskurður. Það hefur nú orðið ofan á.

Með kveðju, Þorgrímur Gestsson, formaður Hollvinasamtaka Ríkisútvarpsins.

Þorgrímur Gestsson (IP-tala skráð) 30.11.2008 kl. 13:25

2 Smámynd: Guðmundur Magnússon

Eyjan skýrði frá því hverjir sætu í fjölmiðlanefndinni og birti erindisbréf nefndarinnar 28. nóv. eins og hér má lesa.

Guðmundur Magnússon, 30.11.2008 kl. 17:08

3 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir innlitin Þorgrímur og Guðmundur og fyrir greinargóðar ábendingar og tilvísanir. Tengillinn á blogg Þorgríms og greinina er einnig hér: [Tengill]

Ragnar Geir Brynjólfsson, 30.11.2008 kl. 19:30

4 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Á tenglinum á Eyjunni sem Guðmundur vísar á má m.a. lesa:

Eyjan aflaði sér upplýsinga um hverjir sætu í nefndinni og hvert skipunarbréf hennar væri.

Nefndarmenn eru: Steingrímur Sigurgeirsson aðstoðarmaður ráðherra, sem er formaður, Sigurður Kári Kristjánsson frá Sjálfstæðisflokki, Skúli Helgason frá Samfylkingu, Pétur Gunnarsson frá Framsóknarflokki, Kolbrún Halldórsdóttir frá Vinstri grænum og Magnús Þór Hafsteinsson frá Frjálslynda flokknum.

Hafi Eyjan þökk fyrir þessa upplýsingaöflun. Spurningum mínum í pistlinum er þá svarað að hluta. Þarna er greinilega um þverpólitíska nefnd að ræða og er það skref í rétta átt. Það hefði þó verið heppilegra þar sem leggja á línurnar um stöðu RÚV á auglýsingamarkaði að hafa fulltrúa fleiri aðila en stjórnmálaflokkanna í nefndinni.  Málefni íslenskrar ljósvakamiðlunar virðast nú sem endranær hin síðari ár vera í ólagi. Kannski það sé vegna þess að þar hafa of fáir um vélað og fulltrúar hagsmunasamtaka listamanna hafa ekki verið kallaðir til ráðagerða um mótun langtímastefnu í þessum málum heldur hafa stjórnmálamennirnir fengið nánast frítt spil á þessu sviði og sjá nú allir hvernig málefnum íslenskrar ljósvakamenningar er komið á tíma þegar hægt hefði verið að hafa hana öflugri, frumlegri og meira skapandi en nokkru sinni fyrr.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 30.11.2008 kl. 19:40

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Á þessari vefsíðu er mikil umræða starfsmanna Rúv o.fl. um þessar samdráttar- og uppsagnaraðgerðir. Sjálfur er ég eins lítill Rúv-maður og hægt er að vera, sem sjá má á eftirfarandi innleggi mínu þar (enn óbirt, þegar ég slæ þessu inn hjá þér, Ragnar):

  • Rúv hefur verið rekið sem sjálfstýriapparat starfsmanna allt of lengi – og til þjónkunar við ýmist valdhafa eða pólitískar hreyfingar af öðrum toga. Þrír milljarðar eru hrifsaðir af þjóðinni til þessa illa rekna bákns, þar sem eiginfé stöðvarinnar er komið niður í núll. Þjóðin hefur ekki efni á þessum fjáraustri lengur. Það er engin þörf á því að reka (hlutdrægt) Sjónvarp né Rás 2. Látið okkar skattpeninga vera, það veitir ekkert af þeim í aðra skuldahít!

    Sjá ennfremur þessa pistla mína: Ótrúverðugir 'sjálfstæðismenn' drepa niður samkeppni – og: 70% niðurskurður Rúv hefði verið nær lagi.
Með góðri kveðju,

Jón Valur Jensson, 30.11.2008 kl. 20:17

6 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir innlitið Jón. Umræðan á vefsíðunni sem þú vísar á er athyglisverð. Innlegg RÚV-aranna eru einkar upplýsandi.

Spámaður: Ert þú Herbert Sveinbjörnsson dagskrárgerðarmaður hjá RÚV? Ég býð ég þig velkominn á síðuna. Mig grunar að Jón sé ekki einn um þá skoðun sem hann lýsir yfir þarna og er ekki hissa þó hann sé harðorður. Það hefur verið haldið að landsfólki í langan tíma að fjárstreymið til RÚV sé nauðsynlegt t.d. vegna öryggis okkar. En það kemur aftur og aftur á daginn að mbl.is stendur sig  ekki síður vel m.t.t. til miðlunar á óveðurfréttum og veðuraðstæðum en RÚV. Í jarðskjálftunum á Suðurlandi aldamótaárið 2000 var FM sendir RÚV t.d. eitt það fyrsta sem gaf sig. Aftur og aftur er talað um öryggi landslýðs og sagt á hinu háa Alþingi að RÚV sé nauðsynlegt öryggis vegna en í óveðrinu á austurlandi á gamlársdag 2007 var það mbl.is sem kom fólki til hjálpar en ekki RÚV. Fólk má hírast í köldum bifreiðum í kafaldsbyljum á heiðum og hlusta á menúetta í d-moll, spegulanta eða sérfræðinga tjá sig um flest milli himins og jarðar á langbylgjustöð RÚV en fær litlar fréttir af björgun eða ástandi fjallvega nema bíða þolinmótt lengi vel. Útvarp Saga stendur sig jafnvel betur þar, sbr. Grindavíkuróveðrið síðasta vetur. Í rauninni má segja að öryggishlutverk Sjónvarpsins felist fyrst og fremst í að gæta pólitísks öryggis stjórnvalda, skemmta landsfólkinu þegar illa árar og sjá um að ekki sé hallað um of á stjórnvöld í pólitískri gagnrýni. Það er hið eina öryggishlutverk sem ég hef komið auga á sem raunverulega hefur verið uppfyllt.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 30.11.2008 kl. 23:21

7 Smámynd: Jón Valur Jensson

Snarpur ertu í þessu innleggi þínu, Ragnar, ekki sízt um öryggismálin; þökk fyrir það.

Ekki set ég það að "vera dipló" ofar sannleikskröfunni, Herbert/Spámaður, en samt var nú ekki tilgangur minn að "sparka í liggjandi mann." Ég hef margsinnis áður – í mörg ár raunar – gagnrýnt bruðlið á Rúv og meðferð frétta þar, ef þú skyldir ekki vita það. Samúð hef ég þó með öllum, sem missa vinnu sína, en við getum ekki lengur haft þessa stofnun eins og hún tíðkaðist að vera og óx í ríkisútgjöldum eins og eftir Parkinsonslögmáli. Hefði hún verið vel rekin fjárhagslega, með stöðugu aðhaldi samhliða gæðum, hefði það gegnt öðru máli, en að nú sé öll eign hennar upp urin (þ.m.t. húsið mikla), það segir nú sína sögu.

Menn eru líka mjög sárir út í þessi sérréttindi Rúv vegna afar laks hlutar annarra stöðva, og þar á ofan bætist ágangur þessarar stofnunar á auglýsingamarkaðnum, sem er að kyrkja aðra fjölmiðla.

En ég átti reyndar annað innlegg fyrr í nótt, þar sem mér láðist ekki að geta um góðu hliðarnar á málunum (eins og mönnum má sýnast ég hafa gert hér ofar). Þar var sami textinn og í fyrra innleggi mínu hér, en endað m.a. á þessu:

  • Margt gott og dýrmætt þjóðarsálinni hefur þó komið frá útvarpinu, svo sannarlega, en Rás 1 á að nægja – látum aðra um rekstur poppstöðvar og skemmtisjónvarps! Það þarf ekki ríkið til þess, ekki fremur en að láta það sjá um að bera út póst.

Jón Valur Jensson, 1.12.2008 kl. 03:57

8 Smámynd: Jón Valur Jensson

Greinilega hefur Rúvararinn á vefslóðinni, sem ég gaf hér upp á liðnu kvöldi (þ.e. á þessari vefslóð), ekki þolað þá tilhugsun, að innlegg mitt fengi að sjást þar (ég sendi það þangað inn kl. 18.19 í gær, 30/11). Ég er svo sem vanur slíku hjá Rúvinu – þar blómstra ekki frjáls skoðanaskipti hlustenda – aðrar stöðvar verða að sjá um það.

Jón Valur Jensson, 1.12.2008 kl. 04:10

9 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Já, ég tek undir með þér Jón. Að sjálfsögðu hefur margt verið vel gert hjá RÚV og þar starfar gott og hæft starfsfólk. Það er vert að taka það fram. En aðstæður kalla á breytingar og jafnræði aðila gagnvart ríkisstyrkjum til ljósvakamiðla. Bæði hindrar slíkt fyrirkomulag ofvöxt og vandræði á borð við þau sem við sjáum núna hjá RÚV og myndi einnig koma í veg fyrir of mikla samþjöppun í einkageiranum. Þetta verkefni hafa stjórnvöld sannarlega fengið tækifæri til að takast á við á undanförnum árum en mistekist hrapallega - því miður svo sem útvarpslögin frá 2007 eru talandi dæmi um. Svo virðist vera að bæði skorti langtímasýn um það hvernig fjölmiðlaflóru menn vilji sjá og einnig virðist skorta þor til að leyfa fleirum að taka þátt í stefnumótum en ráðherraskipuðum stjórnmálamönnum.  

Ragnar Geir Brynjólfsson, 1.12.2008 kl. 21:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband