Útvarp Saga: Einn besti útvarpsþátturinn

Síðastliðin ár hef ég átt þess kost að fylgjast með Útvarpi Sögu og hlusta þá gjarnan á endurflutning um helgar. Þar er einn útvarpsþáttur sem er sérlega athyglisverður og það er þáttur Sigurðar G. Tómassonar og Guðmundar Ólafssonar hagfræðings þar sem þeir spjalla saman og spila tónlist. Eins og alþjóð er kunnugt eru þeir báðir fjölfróðir og víðlesnir og því gaman að fylgjast með samtali þeirra sem er áheyrilegt og skemmtilegt. Ég giska á að þetta geti margir tekið undir þó þeir séu ekki sammála þeim félögum um allt enda felst skemmtun og fróðleiksfýsn ekki endilega í því að vera sammála ræðumönnum.

Eitt af því sem borið hefur á góma í spjalli þeirra félaga er efnahagsmál og gagnrýni á stjórnvöld sem er rökstudd og ennfremur er ágengra spurninga spurt sem ég heyri sjaldan eða aldrei svarað þó vera megi að það hafi verið gert. Styrkur Útvarps Sögu sem frjálsrar og óháðrar útvarpsstöðvar hefur komið betur og betur í ljós með þessu og nú er svo komið að stjórnmálamenn úr ýmsum áttum hafa sóst eftir að flytja pistla í stöðinni og á hana er hlustað sem stöð hins talaða máls og til að heyra skoðanir af ýmsu tagi viðraðar. Þessi eiginleiki er nánast alveg horfinn úr RÚV-Rás1 og þessi efnisþáttur hefur flust yfir í Sjónvarpið að hluta til. Margir muna enn eftir þáttum á Rás-1 þar sem hver sem vildi gat komið og flutt pistil. Um daginn og veginn minnir mig að þessir þættir hafi heitið. Því miður er þetta horfið og verið getur að þetta hafi lognast út af hugsanlega vegna þess að menn vildu vera settlegir í Ríkisútvarpinu, ég veit það ekki en athyglisvert væri að fregna af hverju málin þróuðust þannig, sérstaklega í ljósi útvarpslaganna en samkvæmt þeim á Ríkisútvarpið einmitt að vera vettvangur ólíkra skoðana en í dag er það Útvarp Saga sem ber höfuð og herðar yfir hinar útvarpsstöðvarnar hvað varðar hið frjálsa talaða orð á Íslandi í dag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband