Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Hverjir sitja í starfshópum um málefni RÚV?

Það hefur verið skammt stórra högga á milli hjá RÚV og fréttirnar af 700 milljóna sparnaðinum dundu nokkuð óvænt og snögglega yfir þó fyrirsjáanlegt væri að einhver niðurskurður yrði. Óskandi er að þeir sem fyrir niðurskurðarhnífnum verða muni finna störf sem fyrst. En nokkrar spurningar hafa sótt á mig að undanförnu sem ég hef ekki fundið svör við þrátt fyrir vefleit. Í fyrsta lagi er það hverjir eiga sæti í starfshópnum um málefni RÚV sem greint var frá nýlega að settur hefði verið á laggirnar? Í öðru lagi væri forvitnilegt að fá að vita að hve miklu leyti þessar niðurskurðartillögur tengjast þessum starfshóp? Er það starfshópurinn sem leggur línurnar um niðurskurðinn eða er það útvarpsstjóri?

Fyrir liggur líka að eftirlitsstofnun EFTA, ESA vinnur í því í samráði við íslensk stjórnvöld að finna framtíðarfyrirkomulag fyrir RÚV sem fallið geti að reglum EES.

Að sögn Inge Hausken Thygesen, upplýsingafulltrúa ESA, vinna starfsmenn ESA að málinu í samvinnu við íslensk stjórnvöld. Unnið sé með það markmið í huga að íslensk stjórnvöld og ESA komist að sameiginlegri niðurstöðu um hvernig þessum málum skuli háttað í framtíðinni. [1]

Hér virðist svo vera önnur nefnd eða starfshópur starfandi og sú spurning vaknar óhjákvæmilega hvort um sé að ræða sama starfshópinn? Það er líklegt að svo sé ekki því ESA málið hefur verið til skoðunar síðan 2002 en nýi starfshópurinn var skipaður í þessum mánuði [2]. Það væri  forvitnilegt að fá upplýst hverjir eiga sæti í ESA starfshópnum því ef rétt er að hann sé að huga að langtímafyrirkomulagi ljósvakamála hérlendis þá er sá starfshópur áhrifamikill.

Í rauninni skiptir kannski ekki höfuðmáli hvaða einstaklingar eiga hér í hlut heldur hitt að það er pólitískur menntamálaráðherra sem í þessa starfshópa skipar. Í rauninni má segja að málefni RÚV og ljósvakamiðlunar almennt séu þess eðlis að það sé óheppilegt að sérpólitísk sjónarmið fái að ráða ferðinni varðandi framtíðarstefnumótun. Í því sambandi væri heppilegra að skipa þverpólitískt ráð til að leggja línurnar og til að sátt náist til framtíðar um ljósvakamenningu. Einnig væri heppilegt að í svona ráðum sitji ekki bara fólk skipað af stjórnmálaflokkum heldur einnig fólk skipað af hagsmunasamtökum listamanna og annarra hagsmunaaðila.  Það vekur því nokkra furðu að ekki hefur komið skýrt fram á almennum vettvangi hverjir eiga sæti í þessum starfshópum og einnig er furðulegt að Alþingi skuli ekki hafa kallað eftir þessum upplýsingum. Það má þó vera að svo sé án þess að ég hafi tekið eftir því en þá hafa þingfréttamenn ekki enn miðlað þeim fróðleik út á netið því þegar orðin RÚV og starfshópur eru gúgluð þá birtist mitt eigið blogg efst á blaði. Afgangurinn eru fréttir almenns eðlis.

[1] http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/11/20/skodun_a_ruv_lykur_bratt/
[2
] http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item234572/


Tímabær starfshópur um málefni RÚV

Í fréttum síðustu viku var greint frá því að menntamálaráðherra hefði sett á laggirnar starfshóp um málefni RÚV. Starfshópur þessi á annars vegar að fjalla um stöðu RÚV á auglýsingamarkaði og hins vegar að fjalla um eignarhald á öðrum fjölmiðlum. Þetta er þarft og tímabært framtak hjá ráðherranum og ber að lofa. Gera má ráð fyrir að starfshópur þessi láti langtímasjónarmið móta starfshætti sína og taki tillit til ýmissa sjónarmiða stjórnarskrárinnar svo sem jafnræðisreglu. Í því sambandi þarf að huga að því að ríkið styrki menningarstarfsemi annarra fjölmiðla svo ekki þurfi að koma til samþjöppunar á eignarhaldi þeirra sem gæti stangast á við samkeppnislög. Þar með myndi verða lagður grunnur að fjölbreyttri flóru sjálfstæra en stöndugra fjölmiðla sem gætu haft samstarf t.d. um rekstur fréttastofu og með ríkisstyrk væri hægt að tryggja að innlendri menningu yrði sýndur sá sómi sem löngu er tímabær. Með þessu móti væri komið í veg fyrir að fjöreggi ljósvakamenningarinnar verði komið fyrir hjá einum aðila sem er viðhorf sem hefur sýnt sig að duga illa, jafnvel svo mjög að hægt er að tala um Menningarlega Maginotlínu þar sem RÚV- Sjónvarpið er.

Stórskemmtileg Eivör í Góðu kvöldi Sjónvarpsins

Laugardagskvöldið 15. 11. sl. var færeyska söngkonan Eivör Pálsdóttir gestur Ragnhildar Steinunnar í skemmtiþættinum Góðu kvöldi. Eivör er greinilega hæfileikaríkur og fjölhæfur listamaður og það sem gerði þennan þátt líka eftirminnilegan var flutningur hennar á færeyskum þjóðlögum. Sungnar sagnaþulur og sagnadansar er að heita má horfið úr menningu okkar en lifir enn í Færeyjum. Við eigum að vísu enn rímurnar þrátt fyrir að þær hafi legið undir ámæli menningarvita þjóðarinnar í um 170 ár eða frá því Jónas Hallgrímsson hóf andóf gegn þeim sem hefur staðið þeim fyrir þrifum í menningarlegu tilliti allar götur síðan. Sagnadansar og vikivakar fóru sömu leið og líklega af sömu ástæðum, þ.e. leiðandi andans mönnum þjóðarinnar féllu þeir ekki í geð og því fór sem fór. Það má því segja að túlkun Eivarar á hinum fornu sagnaljóðum opni okkur dýrmæta sýn inn í fortíð okkar og uppruna, sýn sem tekin hefur verið frá okkur. Mér sárnaði því mjög þegar þáttastjórnandinn tilkynnti að auglýsingahlé yrði gert á útsendingunni einmitt þegar færeyski dansinn var byrjaður að duna og hléið varði á meðan dansað var. Þetta var ótrúleg óvirðing bæði við list Eivarar sem og færeysku og forn-norrænu dansmenninguna. Andlegir leiðtogar sjónvarpsins hafa því greinilega lítt þokast áleiðis í átt til nútímans hvað varðar viðhorf til þessara dansmenningar og talið að hún yrði best geymd bakvið auglýsingar. Að sjálfsögðu átti að taka upp þráðinn frá því sem frá var horfið og leyfa sjónvarpsáhorfendum að sjá þennan dans og heyra danskvæðið kveðið, það hefði verið verðug uppreisn æru þessa merkilega menningarforms.

Að skila auðu eða velja af handahófi - hugleiðing um orð dr. Aliber

Nýlega sagði mætur maður, dr. Robert Z. Aliber prófessor í Chigago að fólk valið af handahófi úr símaskrá hefði að líkindum ekki getað valdið jafn miklum efnahagslegum glundroða hérlendis og þeir sem núna eru við völd. Hér hefur dr. Aliber að líkindum talað í víðum skilningi og átt við bæði embættismenn og stjórnmálamenn. Svo virðist sem margir gætu tekið undir þetta álit um þessar mundir. Atburðir síðustu vikna sýna svo ekki verður um villst að óánægja almennings er mikil og hún brýst fram í friðsömum mótmælum. Í þessu ljósi er vart annað hægt en að velta opinskátt fyrir sér hvernig þessar aðstæður urðu til.

Um langa hríð hefur svo verið hér á Íslandi að stjórnmálaflokkarnir hafa verið áhrifamiklir og áhrif þeirra hafa vaxið í réttu hlutfalli við stærð. Þessar aðstæður hafa valdið því að til liðs við flokkana hefur gengið fólk sem gjarnan hefur átt takmörkuðu gengi að fagna annars staðar. Þetta er fólk sem oft hefur hætt skólagöngu snemma, átt stuttan eða snubbóttan starfsframa á ýmsum stöðum en er samt framagjarnt, metnaðargjarnt og á gott með að koma fyrir sig orði. Það gengur til liðs við einhvern stjórnmálaflokk, fylgir sínum leiðtoga af trúmennsku og nákvæmni og gætir sín að fara ekki út fyrir þær línur sem gefnar eru af leiðtoganum. Fólk þetta er leiðtoganum  jafn nauðsynlegt og leiðtoginn er þeim. Eftir nokkurra ára dygga þjónkun við flokkinn og markviss en beinskeytt olnbogaskot til keppinautanna innan flokksins blasa verðlaunin við en það er oft á tíðum bitlingur í formi embættis innan ríkis eða bæjarfélags eða stofnunum tengdum þeim.  Þeir sem hafa viðrað sjálfstæðar skoðanir innan flokkanna eða eru 'óþægir' flokksforystunni virðast ekki hafa átt frama að fagna innan flokkanna. Þeir verða undir í málefnabaráttu og þar með áhrifalausir þó þeir starfi oft áfram á þessum vettvangi í von um að tillit verði tekið til þeirra síðar.

Almenningur lítur þetta hornauga og orðin 'framagosi' eða 'flokksdindill' eru lesendum að líkindum ekki framandi. Með tíð og tíma verða þessir einstaklingar svo að vonarstjörnum og geta trúlega náð langt innan flokkanna. Eftir ævilanga þjónustu þarf svo að gera vel við viðkomandi, annað hvort með góðum starfslokasamningi eða háu, virðulegu og gjarnan rólegu embætti með von um góð eftirlaun. Þegar á móti blæs er treyst á samtryggingu flokksins og ítök hans í þjóðfélaginu og það heyrir til undantekninga ef stjórnmálamenn segi af sér. Þeir vita sem er að lítillar gagnrýni er að vænta frá hinum flokkunum því þeir búa við svipað fyrirkomulag og samtryggingu þeirra um aðgengi að kjötkötlunum er ekki hróflað við. Það eina sem getur breytt þessu fyrirkomulagi er pólitískur þrýstingur almennings en almenningur hefur verið lítilþægur og leiðitamur enda hefur pólitísk umræða og vitund fólks utan stjórnmálaflokka ekki verið mikil hér á landi síðustu áratugi.

Það sem hefur gerst í seinni tíð er að með auknum áhrifum flokksveldisins hefur þetta fyrirkomulag gengið út í öfgar. Framagosakerfið hefur þann ókost að nálægt toppi valdapýramídans, á toppinn og í valdamiklar áhrifastöður getur komist fólk sem þangað á ekki erindi. Svo virðist sem þetta hafi verið að gerast síðustu árin hér á landi og að flokkshollusta sé orðin æðri hagsmunum almennings og hagsmunum þjóðarinnar.  Flest bendir til að umburðarlyndi almennings gagnvart þessu framferði sé á þrotum

Við þessar aðstæður er erfitt að sjá að lausnin felist í því að kjósa nokkurn stjórnmálaflokk en miklu fremur í því að höfða til forseta lýðveldisins sem getur veitt framkvæmdavaldinu aðhald og einnig í því að skila auðu atkvæði í þingkosningum. Hvað sem hver segir þá eru þetta þeir öryggisventlar sem stjórnarskráin býður upp á. Oft er sagt, og þá gjarnan af fylgismönnum flokkanna, að með því að skila auðu þá séu menn að kjósa stærsta stjórnmálaflokkinn en því er ég ósammála. Með því að skila auðu þá kjósa menn lýðræðið og lýðveldið en ekki stjórnmálaflokk. Flokkarnir geta eftir sem áður myndað stjórn og haft meirihluta á Alþingi en ef þeir hafa þrátt fyrir það nauman atkvæðameirihluta þjóðarinnar á bak við sig þá standa þeir veikar og geta síður böðlast áfram á kostnað minnihlutans. Með minna atkvæðahlutfall á bakvið sig þurfa þeir frekar að hlusta á hvað fólk segir og taka tillit til margvíslegra sjónarmiða almennings heldur en gert hefur verið.

Einn möguleiki er svo sá sem dr. Aliber nefnir en það er að velja fólk af handahófi. Það er útaf fyrir sig ekki slæmur valkostur sérstaklega ef í boði væri handahófsvalið fólk í þingsæti fyrir ákveðið hlutfall af auðum atkvæðum. Hægt væri að setja skilyrði um aldur og óflekkað mannorð. Ef þingmenn eru miklu fremur bundnir hollustu við stjórnarskrána og þar með þjóðina, sína eigin samvisku og við eigið mannorð en við stjórnmálaflokk þá yrðu afköst Alþingis trúlega minni, þar yrðu meiri, raunverulegri og dýpri umræður og Alþingi myndi færast frá því að vera afgreiðslustofnun fyrir ríkisstjórnina og í þá átt að öðlast heildarsýn yfir það hvert eigi að stefna. Þetta myndi neyða menn til að forðast skammtímalausnir í aðgerðum ríkisvaldsins eða lausnir sem hygla tilteknum sjónarmiðum á kostnað annarra en horfa frekar til hagsmuna þjóðarinnar á sem breiðustum grundvelli og til lengri tíma.


Fjölmiðlarnir - nú þarf að endurræsa

Stundum gerist það í tölvum að kerfið verður svo laskað í keyrslu að ekki dugir neitt annað en endurræsing. Þá er ýtt á "Reset" takkann eða bara slökkt og svo er kveikt aftur og þá næst upp keyrslufrítt kerfi sé ekkert að tölvunni á annað borð.

Atburðir síðustu vikna benda til að ekki þurfi bara að  endurræsa sumt í efnahags- og stjórnkerfinu okkar heldur líka þá umgjörð sem fjölmiðlum er búin. Til að gera það þarf trúlega að endurskoða samkeppnislögin til að fyrirbyggja fákeppni, of mikinn samruna sem og að endurskoða útvarpslögin og þann ramma sem RÚV vinnur eftir. Því miður hefur skort skýra framtíðarsýn stjórnmálaflokkanna í þessum málaflokki og skyndiplástrahugsunin er allsráðandi. Og það eru gamlir skyndiplástrar. Í leiðara MBL frá 8. nóv. sl. er því haldið fram að best færi á því að RÚV færi af auglýsingamarkaði og nýtti þá peninga sem það fær frá skattgreiðendum til að sinna almannaþjónustuhlutverkinu. Við þetta er helst að athuga að nú þegar fær RÚV háar fjárhæðir frá skattgreiðendum og einnig að aðrir ljósvakamiðlar hafa staðið sig ágætlega í almannaþjónustu. Það er vandséð að RÚV geti dregið úr eyðslunni m.v. núverandi útvarpslög og það er líka vandséð að RÚV setji stefnuna fyrir alvöru á almannaþjónustuna. Til þess er stofnunin of upptekin af því að hafa ofan af fyrir landsmönnum, enda mælt svo fyrir um í skyndiplásturslögum frá 2007, lögum þar sem fátt er gert annað en að spinna hinn bráðum 80 ára gamla þráð um RÚV með nýju bandi.

  6. Að flytja fjölbreytt skemmtiefni við hæfi fólks á öllum aldri. Sérstaklega skal þess gætt að hafa á boðstólum fjölbreytt efni við hæfi barna, jafnt í hljóðvarpi sem sjónvarpi.[1]

Við skemmtum okkur því á hverju kvöldi lesendur góðir í boði ríkisins og sérlega vel um helgar þegar hin bráðskemmtilega Spaugstofa kemur á skjáinn. En er þetta í alvöru það sem við viljum fá frá hinu opinbera? Viljum við láta skemmta okkur og segja okkur fréttir í 100% boði stjórnvalda?  Eins og ég hef oft bent á þá er það að líkindum fjölbreytnin sem tryggir öruggasta, óháðasta og ferskasta fjölmiðlun en hana skortir m.a. vegna stærðar og umfangs RÚV ekki bara á auglýsingamarkaði heldur líka á skemmti- og afþreyingarmarkaðnum. Í síðasta pistli mínum um ljósvakamiðla setti ég fram hugmyndir um hvað hægt er að gera í kjölfar endurræsingar á starfsumhverfi fjölmiðla en það er í stuttu máli á þá leið að ríkið á að gæta jafnræðisreglu hvað varðar fjölmiðla sem og aðra og úthluta þeim fjármunum jafnt mt.t. framboðs þeirra af menningarefni og þá helst innlendu. RÚV getur sem best verið til áfram og þá sem almannaþjónustustöð með höfuðáherslu á öryggishlutverkið. Sjá nýlega pistla um það málefni, og þá helst þennan: [Tengill]

Ég tek fram að ég álít að starfsfólk RÚV vinni gott starf og gagnrýni minni er ekki beint gegn því heldur ábyrgðaraðilum stöðvarinnar sem eru ríkisvaldið, Alþingi og að endingu við sjálf lesendur góðir sem höfum með þögulli meðvirkni látið leiða okkur allt of lengi þessa gömlu leið.

[1] Lög um Ríkisútvarpið, 3. febrúar 2007.


Nú er lag fyrir stjórnvöld að jafna hlut allra ljósvakastöðva

Það má segja að það sé óeðlilegt hvað alla markaði varðar að þar ríki fákeppni. Samkeppnislög ættu því að nægja til að hindra of mikinn samruna á þessum markaði og ef þau duga ekki þá þarf að laga samkeppnislögin. Allir aðilar eiga að vera jafnir fyrir lögunum og því ætti að gæta þess líka að RÚV verði ekki of ráðandi t.d. á sjónvarpsmarkaðnum. Allir ljósvakamiðlar eiga einfaldlega að sitja við sama borð hvað varðar framlög frá ríkinu. Einn þessara miðla getur sem best verið í eigu ríkisins, þ.e. RÚV og þá á þeim forsendum að tryggja þurfi öryggi almennings og dreifingu til fjarlægra staða. Ef þessa jafnræðis er gætt þá geta þeir allir verið á auglýsingamarkaði. Framlög ríkisins til ljósvakamiðlanna ættu síðan að vera í réttu hlutfalli við flutning þessara miðla á innlendu efni sem og vönduðu erlendu menningarefni. Ekki ætti að styrkja flutning af erlendum íþróttaviðburðum eða öðru erlendu afþreyingar- og skemmtiefni nema sérstök rök styðji þá ákvörðun. Þessir miðlar gætu sem best sameinast um rekstur öflugrar og óháðrar fréttastofu en haft frjálsar hendur þar fyrir utan. Ógæfulegt fjölmiðlafrumvarp stjórnarinnar 2004 hefði líklega aldrei komið til ef málum hefði verið skipað strax með þessum hætti þegar frjálsir miðlar voru leyfðir um miðjan 9. áratuginn.

 


mbl.is Rosabaugur Jóns Ásgeirs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú er lag fyrir stjórnvöld að jafna hlut allra ljósvakastöðva

Uggvænlegar fregnir af uppsögnum starfsfólks hvaðanæva að úr þjóðfélaginu hafa borist undanfarna daga og ekki er hægt annað en biðja og vona að úrræði finnist á málum allra. Ein þeirra uppsagnarfregna sem barst í liðinni viku er af uppsögnum alls starfsfólks Skjásins. Eflaust má líka gera ráð fyrir samdrætti hjá Stöð 2 þó vonandi þurfi ekki að koma til uppsagna þar því þeir sem vilja spara munu að líkindum byrja að spara í kaupum á fjölmiðlum og afþreyingarefni.

Í ljósi þessara hræringa sést enn betur að núverandi fyrirkomulag í ljósvakamálum er ábótavant og það þarf að laga. Því miður eru einu hugmyndirnar sem fram hafa komið í þá veru að RÚV þurfi að fara af auglýsingamarkaði. Enginn virðist vilja ympra á þeirri leið að allir ljósvakamiðlar eigi einfaldlega að sitja við sama borð hvað varðar framlög frá ríkinu. Einn þessara miðla getur sem best verið í eigu ríkisins, þ.e. RÚV og þá á þeim forsendum að tryggja þurfi öryggi almennings og dreifingu til fjarlægra staða. Um þetta hef skrifað af og til og komið með tillögur um síðastliðið eina og hálfa ár en svo virðist sem þessar hugmyndir hafi ekki skilað sér til hugsuða stjórnmálaflokkanna. Framlög ríkisins til ljósvakamiðlanna eiga að vera í réttu hlutfalli við flutning þessara miðla á innlendu efni sem og vönduðu erlendu menningarefni. Ekki ætti að styrkja flutning af erlendum íþróttaviðburðum eða öðru erlendu afþreyingar- og skemmtiefni nema sérstök rök styðji þá ákvörðun. Þessir miðlar gætu sem best sameinast um rekstur öflugrar og óháðrar fréttastofu en haft frjálsar hendur þar fyrir utan. Ógæfulegt fjölmiðlafrumvarp stjórnarinnar 2004 hefði líklega aldrei komið til ef málum hefði verið skipað strax með þessum hætti þegar frjálsir miðlar voru leyfðir um miðjan 9. áratuginn.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband