Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Sala Filippseyja til Bandaríkjanna eftir spænsk-ameríska stríðið

Eftir spænsk-ameríska stríðið árið 1898 stóð Spánn frammi fyrir því að missa meginhluta nýlenduveldis síns. Eitt af umdeildustu atriðum friðarsamningsins í París, sem var undirritaður 10. desember 1898, var sala Spánar á Filippseyjum til Bandaríkjanna fyrir 20 milljónir Bandaríkjadala. Þessi sala markaði endalok spænskra yfirráða á eyjunum og upphaf bandarískra áhrifa í Asíu.

Áður en til þessa kom hafði spænska heimsveldið glatað lykilnýlendum sínum, þar á meðal Kúbu og Púertó Ríkó, í kjölfar ósigurs gegn Bandaríkjunum. Filippseyjar voru hins vegar enn undir stjórn Spánverja, þrátt fyrir uppreisn heimamanna sem hófst árið 1896. Þegar Bandaríkin hófu hernað gegn Spáni árið 1898, í kjölfar sprengingar á herskipinu USS Maine í höfninni í Havana, breiddust átökin út til Filippseyja. Bandaríski flotinn, undir stjórn George Dewey, sigraði spænska flotann í Manila-flóa í maí sama ár. Með því urðu Bandaríkjamenn herveldi á eyjaklasanum, en Filippseyingar héldu áfram að berjast fyrir sjálfstæði.

Þegar Spánverjar og Bandaríkjamenn settust að samningaborðinu í París höfðu þeir lítinn sem engan ásetning að taka tillit til óska Filippseyinga um sjálfstæði. Spánverjar stóðu frammi fyrir þeirri staðreynd að þeir réðu ekki lengur yfir eyjunum í raun, og Bandaríkjamenn vildu tryggja sér hernaðar- og efnahagslega hagsmuni í Asíu. Lausnin varð sú að Spánn seldi Filippseyjar formlega til Bandaríkjanna fyrir 20 milljónir dala, upphæð sem var aðallega táknræn frekar en raunveruleg endurgreiðsla.

Sala Filippseyja til Bandaríkjanna vakti hörð viðbrögð meðal Filippseyinga. Emilio Aguinaldo, leiðtogi sjálfstæðishreyfingarinnar, lýsti yfir sjálfstæði Filippseyja í júní 1898, en lýðveldið sem hann stofnaði var aldrei viðurkennt af alþjóðasamfélaginu. Þegar Bandaríkin tóku formlega við stjórn eyjanna árið 1899 hófst Filippseyska-frelsisstríðið, þar sem Filippseyingar börðust gegn yfirráðum Bandaríkjanna. Stríðið stóð yfir til 1902 og kostaði hundruð þúsunda manna lífið. Einn af þeim sem börðust í því stríði var Íslendingurinn Jón Stefánsson, eftir það nefndur Filippseyjakappi. 

Að lokum varð sala Spánar á Filippseyjum til Bandaríkjanna táknræn fyrir umskiptin frá spænskri nýlendustefnu til bandarískra yfirráða. Hún markaði einnig upphaf afskipta Bandaríkjanna af málefnum Filippseyja, sem leiddu að lokum til sjálfstæðis landsins árið 1946 eftir seinni heimsstyrjöldina.


Gætu talstöðvar komið sér vel þegar innviðir netsambands bregðast?

Gamall Grímseyingur sagði mér þá sögu að eitt sinn þegar kona var í barnsnauð í eynni var róið eftir hjálp. Eftir margra klukkustunda róður til lands var læknir sóttur og síðan róið til baka. En þegar í eyna var komið var konan látin. Þetta breyttist þegar talstöðin kom í eyna; þá var hægt að kalla til lands og stytta viðbragðstíma til muna. Þessi saga felur í sér lexíu hvað varðar hið mikla traust sem nútíminn ber til innviða sem byggja á netsambandi því eins og þróunin hefur verið síðustu ár er allt traust sett á netsambandið en hvað gerist ef það rofnar?

Það kemur æ betur í ljós að stöðugt netsamband er ekki jafn sjálfsagt og talið hefur verið, ekki einungis vegna ytri ógna sem steðja að sæstrengjum, heldur reynist oft og tíðum vera áskorun hérlendis að halda uppi netsambandi vegna erfiðra náttúruaðstæðna, einkum yfir háveturinn. Illviðri, þar á meðal ísing hafa valdið skemmdum á rafmagnslínum, sem hafa haft bein áhrif á heimili og atvinnurekstur. Slíkar truflanir gætu einnig leitt til þess að FM-öryggisútvarpssendingar og GSM-farsímasamband detti út í þeim tilfellum þar sem netsamband er lykillinn að gagnasamskiptum þessara innviða. 

Nýlegt dæmi er atvik sem varð á Grenivík 20. janúar síðastliðinn, þegar síma- og netsamband rofnaði fyrripart dags vegna bilunar í stofntengingu. Svipað atvik varð einnig á Skagaströnd í síðasta mánuði þegar ljósleiðarinn slitnaði í vatnavöxtum. Þetta olli því að netsamband lagðist af og farsímasamband varð mjög takmarkað. Sveitarstjórinn á Skagaströnd lýsti ástandinu þannig: „Það sem gerist þegar þetta á sér stað er að það verður bara almannahættuástand á Skagaströnd.“ Hún nefndi jafnframt að núverandi lausnir, eins og að keyra á milli gatna með Tetrastöð, væru langt frá því að vera viðunandi. Þótt Tetra-kerfið sé almennt sjálfstætt, getur það orðið fyrir áhrifum ef stærri hlutar innviða þess bregðast. Þetta beinir athyglinni að því hvort ástæða sé til að kanna varaleiðir, þar á meðal VHF-talstöðvakerfið.

Kostnaður við uppbyggingu netsambandsinnviða og áskoranir tengdar fjármögnun gera því miður ólíklegt að ástandið batni mikið á landsvísu í náinni framtíð. Þrátt fyrir að umbætur hafi lengi verið til umræðu, miðar framkvæmdum hægt. Þegar, en ekki ef, netsamband bregst er líklega skárra að fara ekki nema um það bil 30 ár aftur í tímann, til tíma talstöðvanna heldur en að fara yfir 100 ár til baka inn í fortíðina eins og hún var án fjarskipta. Ég læt því Almannavörnum í té þá vinsamlegu ábendingu að kanna hvort ástæða sé til að uppfæra og bæta í leiðbeiningar til íbúa á þessum svæðum og jafnvel víðar. Slíkar leiðbeiningar gætu hugsanlega innihaldið upplýsingar um varaleiðir, varaafl, Starlink gervihnattakerfið, talstöðvar eða annað sem sérfræðingar telja að geti orðið fólki til liðveislu í aðstæðum sem þessum. 

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/01/20/allt_samband_uti_sem_stendur/

https://nyr.ruv.is/frettir/innlent/2025-01-20-vidgerd-a-ljosleidaranum-til-grenivikur-langt-komin-433595

https://nyr.ruv.is/frettir/innlent/2024-12-09-alvarleg-fjarskiptabilun-thegar-ljosleidari-rofnadi-vid-skagastrond-430575


Bætt úr húsnæðisvanda heimilislausra: Sameiginlegt verkefni allra sveitarfélaga

Íslenskt samfélag stendur frammi fyrir flóknu verkefni þegar kemur að lausn á húsnæðisvanda heimilislausra. Reykjavíkurborg og Reykjanesbær hafa tekið skref í rétta átt í því að útvega varanlegt húsnæði í formi smáhýsa fyrir þennan viðkvæma hóp, væntanlega því reynslan sýnir að eldri aðferðir sem hingað til hafa verið notaðar hafa sín takmörk. Sú stefna að koma fólki sem stendur höllum fæti félagslega fyrir í íbúðarblokkum hefur í sumum tilfellum leitt til áskorana sem erfitt hefur verið að leysa. Slík úrræði krefjast mikillar nákvæmni og faglegra lausna sem taka mið af þörfum hvers einstaklings.

Samkvæmt nýlegri frétt frá RÚV hefur Reykjavíkurborg náð árangri í því að bæta úr stöðu margra heimilislausra með því að veita varanlegt húsnæði í formi smáhýsa. Þetta er jákvætt skref, en það dugar ekki til. Þrátt fyrir aukin úrræði er ljóst að vandinn er enn verulegur, og margir eiga enn erfitt með að fá viðunandi húsnæði og þjónustu. Skilaboðin frá borginni eru skýr: önnur sveitarfélög verða að axla meiri ábyrgð og taka þátt í lausn vandans.

Það er óásættanlegt að Reykjavík beri nánast ein ábyrgð á því að sinna heimilislausum einstaklingum, þegar heimilisleysi er samfélagslegur vandi sem snertir allt landið. Sveitarfélög utan höfuðborgarsvæðisins verða að gera meira en að treysta á borgina. Þau þurfa að bjóða fram úrræði, fjárfestingar í félagslegu húsnæði og þjónustu sem hjálpar fólki að fóta sig að nýju í samfélaginu.

Til þess að ná þessum markmiðum geta sveitarfélögin beitt skipulagsvaldinu á mun markvissari hátt en gert hefur verið. Með því að forgangsraða lóðum undir smáhýsi og samþykkja kvaðir í skipulagi er hægt að tryggja fjölbreytt húsnæðisframboð. Sveitarfélög hafa ríka ábyrgð á að nýta þetta vald ekki aðeins til að bregðast við húsnæðisvanda heldur einnig til að skapa samfélög þar sem allir fá tækifæri til að búa við öryggi og reisn.

Að leysa úr húsnæðisvanda heimilislausra krefst víðtæks samstarfs milli ríkis og sveitarfélaga. Með því að vinna saman og deila ábyrgðinni jafnt er hægt að tryggja öllum mannsæmandi húsnæði og tækifæri til betra lífs. Heimilisleysi er ekki verkefni eins aðila – það er sameiginlegt átak sem kallar á samhug og samstöðu.

https://www.ruv.is/frettir/innlent/2025-01-22-meira-varanlegt-husnaedi-fyrir-heimilislausa-433859


Handtaka blaðakonu varpar ljósi á þúsundir 'gleymdra' erlendra fanga í Íran

Handtaka ítölsku blaðakonunnar Cecilíu Sala í Íran hefur vakið athygli á svokölluðu "gíslalýðræði" sem Írönsk stjórnvöld hafa beitt frá stofnun Íslamska lýðveldisins. Sala var handtekin í Teheran í desember 2024 og var haldið í Evin-fangelsinu, sem er þekkt fyrir að hýsa pólitíska fanga og er undir stjórn leyniþjónustunnar.

Þrátt fyrir að handtökur vestrænna ríkisborgara fái mikla athygli, eru þeir aðeins lítill hluti af þeim yfir 8.000 erlendu föngum sem haldið er í írönskum fangelsum. Af þessum fjölda eru um 95% frá Afganistan. Árið 2024 voru yfir 70 afganskir fangar teknir af lífi í Íran, sem er 300% aukning frá fyrra ári. Flestar þessara aftaka tengjast fíkniefnabrotum og fara fram í Qezel Hesar miðfangelsinu.

Írönsk stjórnvöld hafa reynt að semja við afgönsk yfirvöld um að leyfa föngum að afplána dóma í heimalandi sínu. Hins vegar hafa "veikir innviðir" og réttarkerfi sem írönsk yfirvöld telja ófullnægjandi, hindrað þessa áætlun. Auk Afgana eru einnig fangar frá Pakistan, Írak, Tyrklandi, Aserbaídsjan og Indlandi í írönskum fangelsum.

Handtaka Cecilíu Sala kom í kjölfar handtöku svissnesk-íranska verkfræðingsins Mohammad Abedini í Mílanó, sem var handtekinn að beiðni Bandaríkjanna fyrir meintan þátt í að útvega drónatækni til Írans. Þetta hefur leitt til vangaveltna um mögulegt fangaskipti milli Ítalíu og Írans. Ítalska ríkisstjórnin hefur krafist tafarlausrar lausnar Sala og hefur utanríkisráðherra Ítalíu, Antonio Tajani, fundað með móður Sala og unnið að lausn málsins.

Þrátt fyrir að handtökur vestrænna ríkisborgara fái mikla athygli, er mikilvægt að muna að þeir eru aðeins lítill hluti af þeim fjölda erlendra fanga sem haldið er í Íran. Stærstur hluti þeirra eru innflytjendur frá Afganistan sem oft verða fyrir harðri meðferð og jafnvel aftökum. Þetta vekur alvarlegar spurningar um mannréttindabrot og nauðsyn þess að alþjóðasamfélagið bregðist við til að vernda réttindi þessara einstaklinga

Heimild: https://www.asianews.it/news-en/Cecilia-Sala-and-the-thousands-of-forgotten-foreigners-in-Iranian-prisons-62218.html


Eldsvoðinn á Sævarhöfða: Brýnt að bæta aðstæður hjólhýsabúa

Eldsvoðinn sem braust út í hjólhýsabyggðinni á Sævarhöfða í fyrrinótt hefur skilið samfélagið þar eftir í áfalli. Samkvæmt frétt RÚV voru það aðstæður á svæðinu sem urðu til þess að eldurinn breiddist út. Hann kviknaði í einu hjólhýsinu, lagði yfir í húsbíl sem eyðilagðist og stórskemmdi hið þriðja. Sem betur fer björguðust íbúar, en tjón varð á eigum þeirra og tilfinningaleg áhrif atviksins eru mikil.

Atburðurinn undirstrikar nauðsyn þess að endurskoða öryggi hjólhýsabyggða og grípa til viðeigandi ráðstafana. Fyrst og fremst þarf að tryggja að nægilegt bil sé milli hjólhýsa, svo að draga megi úr líkum á að eldur breiðist út. Þétt uppröðun hjólhýsanna á Sævarhöfða gerði að verkum að eldurinn gat breiðst út með slíkum hraða.

Einnig þyrfti að taka til athugunar að koma upp jarðvegsmönum á hjólhýsasvæðum. Slíkar manir eru ekki dýrar eða flóknar í hönnun eða útfærslu og þær myndu ekki aðeins draga úr hættu á útbreiðslu elds heldur veita íbúum aukna vernd gegn veðri og bæta næði. Auk þessa þarf að vinna að því eins og kostur er að íbúar hjólhýsabyggða hafi fullnægjandi eldvarnabúnað, svo sem reyk- gas- og kolmónoxíðskynjara, eldvarnarteppi og slökkvitæki. Regluleg fræðsla um eldvarnir og neyðaráætlanir myndu einnig skipta miklu.

Að búa í hjólhýsum er raunveruleiki margra, hvort sem það er val á einfaldari lífsstíl eða neyðarlausn vegna húsnæðisskorts. Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög bera ábyrgð á því að tryggja öryggi allra íbúa, óháð búsetuformi. Hjólhýsabyggðir mega ekki fá síðri metnað í skipulagi sveitarfélaga en þann sem lagður er í að þjóna öflugum fjárfestum og framkvæmdaaðilum. 

https://www.ruv.is/frettir/innlent/2025-01-08-slaemar-adstaedur-hafi-valdid-hve-hratt-eldurinn-breiddist-ut-432551


Hagkvæmari og öruggari framtíð í útvarpssendingum

Ríkisútvarpið (RÚV) hefur nú þegar hætt langbylgjusendingum og treystir á FM-kerfið fyrir öryggisútsendingar. Fyrir þá sem búa á afskekktum svæðum hefur RÚV jafnframt mælt með lausnum eins og Starlink, sem byggir á gervihnattatengingu. Þó þessar ákvarðanir virðist byggðar á sparnaði og uppfærslu á eldri kerfum, ætti að kanna betur stafrænar útvarpslausnir eins og Digital Radio Mondiale (DRM), sem bjóða upp á bæði hagkvæmni og meiri áreiðanleika. Með DRM er einnig hægt að senda sérstök neyðarboð, eitthvað sem FM og gervihnattalausnir geta ekki veitt með sama öryggi. Með færri sendum, minni viðhaldsþörf og minni orkunotkun gæti RÚV sparað stórfé árlega.

FM-dreifikerfið samanstendur af yfir 230 sendum um land allt, sem tryggir góða þjónustu í þéttbýli. En í dreifbýli og á afskekktum svæðum er oft erfitt að tryggja viðunandi móttöku. Þetta ásamt fjölda FM sendanna kallar á mikið eftirlit, viðhaldsvinnu og mikla orkunotkun með tilheyrandi rekstrarkostnaði. Þrátt fyrir þessa viðleitni eru svæði þar sem FM næst ekki.

RÚV hefur vísað til Starlink sem valkosts fyrir þá sem ekki ná FM merkinu. Starlink, sem er gervihnattanettenging, krefst dýrs búnaðar og áskriftar. Lausnin er háð stöðugu rafmagni, sem getur brugðist í neyðartilvikum eins og óveðrum eða rafmagnsleysi. Þetta skapar aukinn kostnað fyrir notendur og dregur úr aðgengi fyrir þá sem þurfa hugsanlega mest á þjónustunni að halda.

Með DRM30 sem byggir á stafrænni dreifingu á langbylgju eða miðbylgju væri hægt að reka útvarpsdreifingu með 2–4 sendum, sem næði til alls landsins. Þetta myndi leiða til mikils sparnaðar í viðhaldi og orkunotkun. Auk þess gætu þéttbýlissvæði notið góðs af DRM sendingu á hærri tíðni, svokölluðu DRM+ sem býður upp á betri hljóðgæði og þjónustu.

DRM er ekki háð nettengingu eða áskriftarþjónustu. Í stað þess er það sjálfbært kerfi sem getur tryggt útvarpsdreifingu óháð truflunum á netsambandi. Innbyggt neyðarviðvörunarkerfi DRM (EWF) tryggir að útvarpstæki taki sjálfkrafa á móti neyðarboðskap, jafnvel þótt á þeim sé slökkt eða stillt á aðra rás. Slík viðvörun getur innihaldið hljóð, texta og jafnvel myndrænar leiðbeiningar.

DRM-útvarpstæki eru fáanleg á hagkvæmu verði, t.d. á AliExpress. Það þarf ekki áskrift, og notendur geta einfaldlega keypt tækið einu sinni eins og hefðbundin útvarpstæki. DRM-tæki fyrir bíla eru einnig fáanleg. Indverski bílamarkaðurinn hefur t.d. innleitt stafrænt útvarp á tiltölulega skömmum tíma, með yfir 6 milljónir nýrra bíla búna DRM stafrænum útvarpsmóttakara í lok síðasta árs. Þetta væri að líkindum hægt að framkvæma hérlendis með góðum undirbúningi. 

DRM er framtíðin í útvarpsdreifingu fyrir Ísland. Með hagkvæmni, sjálfbærni og innbyggðu neyðarviðvörunarkerfi bætir það öryggi og þjónustu RÚV við landsmenn. Þó FM/Starlink sé áhugaverð lausn, hentar hún ekki vegna kostnaðar, viðhaldsþarfar og óáreiðanleika í neyðartilvikum.

Til að tryggja farsæla yfirfærslu ætti RÚV að innleiða DRM með upplýsingaherferð, stuðningi við notendur og samhliða útsendingum í einhver ár til að aðlaga almenning að breytingunni. Með þessari nálgun myndi RÚV ekki aðeins spara peninga heldur einnig styrkja hlutverk sitt sem almannavarnamiðill fyrir íslenska þjóð.

Erindi sent inn á Samráðsgátt: https://island.is/samradsgatt/mal/3886


Langbylgjan þagnar

Um nokkurra daga skeið hefur ekki heyrst nein sending frá langbylgjusendinum að Gufuskálum sem hefur sent út á 189 khz tíðni. Engin frétt þess efnis finnst á vef Rúv, þar eru allar fréttir um langbylgju ársgamlar eða eldri. Þetta er athyglisvert í ljósi þess að Ríkisútvarpið hefur byggt á þessari tækni frá upphafi. 

Við öryggishlutverkinu eiga að taka um 230 FM sendar dreifðir víðs vegar um landið. Það fyrirkomulag hefur samt þá annmarka að ná ekki sömu dreifingu útvarpsmerkisins um okkar fjöllótta land.

Nú hefur verið rætt um að bæta meiri fjármunum í öryggismál en gert hefur verið vegna ýmissa ógna. Í þessu tilliti er ekki hægt að horfa framhjá því að langbylgjan er án hliðstæðu þegar kemur að því að dreifa öryggisboðum. Langdrægni hennar verður ekki mætt á neinn sambærilegan hátt, hvorki með FM sendum né kerfum sem byggja á netsambandi. Raunar er ofurtrú nútímans á netsambandi byggð á sandi því það sýnir sig æ ofan í æ að á meðal þess fyrsta sem fer þegar vá ber að dyrum er einmitt netsamband með öllum sínum þægilegheitum, hvort sem þau heita 4G, 5G eða GSM.  

Sú leið hefur því miður ekki verið farin að uppfæra langbylgjumerkið í stafrænar útsendingar, sem eru með þeim hætti að hægt er að nýta gömlu sendana áfram en með minni orkuþörf. Sérstaklega er þetta miður því í dag er fáanlegt sérhannað kerfi fyrir langdrægni og neyðarboð á langbylgju eða miðbylgju svokallað DRM


Framburður gervigreindar og íslenskan: Tækifæri til breytinga?

Nú þegar framburður gervigreindar stefnir óðfluga í að verða svo góður að litið verði til hans sem fyrirmyndar, er ekki úr vegi að staldra við. Það er vert að skoða þá möguleika sem þetta býður upp á, til dæmis að einfalda og leiðrétta atriði sem samkomulag gæti náðst um að laga. Dæmi um það er "kv"-hljóðbreyting þar sem skrifað er "hv". Með "kv"-hljóðbreytingunni verður ekki bara "hvar" og "hvenær" að "kvar" og "kvenær" heldur verða "hvalir" að "kvalir", "hveiti" að "kveiti" og "hvalaskoðun" að "kvalaskoðun"! Fyrir utan það að valda misskilningi í samskiptum geta svona hljóðbreytingar mjög líklega valdið erfiðleikum hjá fólki sem er að læra íslensku. 

Sú hugmynd að búa til staðlaðan framburð þekkist hjá nágrannaþjóðum okkar, bæði í Danmörku og í Bretlandi, þar sem "Received Pronunciation" (RP) er formlegasta útgáfa af ensku og gjarnan kölluð "The Queen´s English" eða "BBC English". Hún hefur verið notuð sem staðall í mörgum kerfum sem byggja á samræmdum framburði. Í Danmörku er til ákveðin samsvörun við Received Pronunciation (RP), sem kallast oft "Standard Danish" eða á dönsku rigsdansk ("ríkisdanska"). Rigsdansk vísar til málfars sem almennt er talið hlutlausasta eða formlegasta afbrigði danskrar tungu og er gjarnan notað í opinberum tilgangi, fjölmiðlum og kennslu. 

Á íslandi hefur ekki verið innleiddur neinn einn staðall, og framburður hefur alltaf leyft ákveðna fjölbreytni. Þrátt fyrir það hafa ýmsir haft þá tilfinningu að til sé „ríkismál“ eða „útvarpsmál“ sem tengist fréttaþulum og opinberum ræðum. Íslenskan hefur þó almennt verið opnari fyrir fjölbreyttum framburði en mörg önnur tungumál, líklega vegna þess hve lítill munur er á framburði eftir landsvæðum.

Þó staðan sé þessi í dag, þá hefur verið reynt að koma á samræmdum íslenskum framburði. Fyrir nokkrum árum hlustaði ég á útvarpsþátt þar sem sagt var frá verkefni sem fólst í því að fjármagna för nokkurra leikara til London, þar sem þeir lásu samræmdan framburð inn á hljómplötur. Þetta var líklega á 6. áratugnum. Þetta framtak fjaraði þó út að mestu, þó áhrifa þess hafi mögulega gætt innan leikarastéttarinnar. Ekki þarf annað en hlusta á hljómplötuna Dýrin í Hálsaskógi sem tekin er upp árið 1967 til að sannfærast um það. Á henni má heyra úrvalsframburð leikaranna Árna Tryggvasonar, Bessa Bjarnasonar, Baldvins Halldórssonar, Nínu Sveinsdóttur, Jóns Sigurbjörnssonar, Emilíönu Jónasdóttur, Ævars Kvaran, Gísla Alfreðssonar, Klemensar Jónssonar, Lárusar Ingólfssonar, Önnu Guðmundsdóttur og Margrétar Guðmundsdóttur. Athyglisvert er að enginn þeirra notar "kv"-framburð. Allir viðhalda góðum "hv"-framburði, þó heyrist hjá einhverjum að þessi framburður sé þeim ekki eðlislægur, sem gæti bent til að hann hafi verið tileinkaður með æfingu fremur en lærður frá barnæsku. 

Ástæður þess að þetta átak fjaraði út er að líkindum að finna í hinu pólitíska landslagi en töluverðan styrk og samstöðu þarf til að koma á einhverju í líkingu við þetta. Á síðari hluta 20. aldar varð áhersla á þjóðlega þætti að pólitísku feimnismáli að líkindum vegna áhrifa frá Seinni heimsstyrjöld. Það hefur líka verið viðkvæmt mál að skilgreina einhvern einn landshlutaframburð þannig að hann stæði framar öðrum og höfuðborgin var enn það ung að þar hafði ekki myndast sterkt málsvæði eins og hafði gerst í borgum erlendis. 

En þegar um er að ræða rödd vélræns talgervis þá er í raun ekki verið að mismuna neinum ef forsendurnar sem lagðar til grundvallar eru að skýra málið og lagfæra atriði sem bæði geta torveldað nám í íslensku og geta þar að auki valdið misskilningi milli þeirra sem færir eru í tungumálinu. 

 

 


Yfirburðir Digital Radio Mondiale (DRM) yfir hefðbundið FM-útvarp

Digital Radio Mondiale (DRM) er fjölhæfur stafrænn staðall sem hefur marga kosti umfram hefðbundið FM-útvarp. Hann býður upp á betri hljóðgæði og aukna fjölbreytni í þjónustu, sem gerir hann að kjörnum valkosti fyrir nútíma útsendingar. 

Staðallinn skiptist í DRM og DRM+. Munurinn felst í því tíðnisviði og notkunarmöguleikum sem hvor tækni er hönnuð fyrir:

DRM

  • Er hannaður fyrir AM tíðnisviðin (Langbylgju, Miðbylgju og Stuttbylgju).
  • DRM á langdrægnisviðinu nýtir AM- og SW-tíðnir til að ná til víðáttumikilla svæða. Þetta er sérstaklega gagnlegt fyrir dreifbýli eða alþjóðlegar útsendingar þar sem langdrægni er nauðsynleg til að ná til margra hlustenda og getur þjónað stórum svæðum með góðri orkunýtingu. 

DRM+

  • Er hannaður fyrir FM tíðnisviðið (Band II) og býður upp á stafræna útvarpssendingu innan hefðbundinna FM tíðna.
  • Með DRM+ nást hljóðgæði á FM-tíðnisviðinu, sem jafnast á við stafrænar tónlistarþjónustur. Þetta tryggir að hlustendur fá tært stereo hljóð án suðs eða truflana, ólíkt hefðbundnu FM-kerfi.
  • Hefur svipaða eiginleika og DRM, s.s. neyðarvirkni en er sérstaklega sniðinn fyrir svæði þar sem FM er nú þegar í notkun.

FM-kerfið (Frequency Modulation) sem RÚV byggir núverandi öryggiskerfi sitt á, er hliðrænt (analog) útvarpskerfi. Það hefur verið í notkun síðan á fjórða áratugnum (erlendis) og byggir á því að breyta tíðni burðarbylgjunnar (carrier wave) í samræmi við hljóðmerkið. Þessi hliðræna tækni hefur þann kost að skila góðum hljóðgæðum innan skamms radíuss frá sendinum, en er háð truflunum og hefur takmarkaðan rásafjölda miðað við stafrænar útvarpslausnir eins og DAB+ eða DRM.

DRM gerir kleift að senda margar rásir á einni tíðni og birta upplýsingar eins og texta og myndir á skjáum tækja. Þessi eiginleiki gerir útsendingar meira upplýsandi og skemmtilegri fyrir hlustendur. Neyðarvirkni DRM (Emergency Warning Functionality, EWF) býður upp á neyðarboð á textaformi. Að auki notar DRM minni orku en FM, sem gerir útsendingar umhverfisvænni og hagkvæmari til langs tíma litið. Með þessum eiginleikum sameinar DRM gott hljóð og langdrægni.

Norðurlöndin hafa einbeitt sér að DAB+ tækni í stað DRM eða DRM+ fyrir stafræna útvarpsuppbyggingu. Í Noregi hefur verið lögð áhersla á að úrelda FM-kerfið og skipta yfir í DAB+ fyrir landsútvarp. Á sama tíma hafa Svíþjóð og Danmörk einnig haldið sig við DAB+ sem sína aðalstafrænu útvarpstækni.

Áhersla þessara landa á DAB+ er m.a. vegna þess að hún býður upp á fjölbreyttari rásir og notkunargildi á þéttbýlum svæðum. DRM hefur hins vegar verið vinsælt í öðrum löndum fyrir langdrægni og einstaka eiginleika eins og álagsstýringu og neyðarviðvaranir, sem gæti mögulega haft notagildi á afskekktari svæðum í norðurhluta Skandinavíu.

Val á milli þessara kerfa ræðst af landfræðilegum og markaðstengdum þáttum.
 

Húsnæðisáætlanir sem gleyma fólkinu

„Það er verið að byggja rangar íbúðir. Við erum ekki að byggja fyrir íbúðamarkaðinn, við erum að byggja fyrir fjárfestingamarkaðinn,“ segir Finnbjörn A. Hermannsson, forseti Alþýðusambands Íslands. Þarna hittir Finnbjörn naglann á höfuðið. En hvernig getur þetta gerst, þrátt fyrir að sveitarfélög séu skylduð til að gera húsnæðisáætlun?

Í reglugerð um húsnæðisáætlun segir:

„Sveitarfélög skulu gera húsnæðisáætlun til tíu ára í senn og skal hún staðfest af sveitarstjórn. Skal hún byggja á greiningum um þörf fyrir íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu með tilliti til mismunandi búsetuforma. Við greininguna skal m.a. skoða framboð og eftirspurn eftir mismunandi búsetuformum og hvort jafnvægi ríki á húsnæðismarkaði. Þá skal meta þörf fyrir húsnæði til að mæta þörfum einstakra hópa, s.s. fatlaðs fólks, aldraðra, tekju- og eignaminni og námsmanna, auk húsnæðisþarfar á almennum markaði.“

Það verður ekki fram hjá því litið að skipulagsvaldið er í höndum sveitarfélaganna. Stjórnendur þeirra hafa völd til að beita skipulagsvaldinu í þágu tekjulægri hópa. Þetta er vel framkvæmanlegt, jafnvel í landlitlum sveitarfélögum, þar sem hægt er að beina skipulagsumsóknum landeigenda í þær áttir sem henta samfélaginu best.

Hins vegar væri líklega skynsamlegt að styrkja löggjöfina á þessu sviði. Skýrari lagasetning gæti veitt sveitarstjórnarmönnum þann stuðning sem þeir þurfa hugsanlega á að halda í samskiptum við fjárfesta, sem oft hafa eigin hagsmuni í forgrunni.

 


mbl.is „Það er verið að byggja rangar íbúðir“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband