Að skila auðu eða velja af handahófi - hugleiðing um orð dr. Aliber

Nýlega sagði mætur maður, dr. Robert Z. Aliber prófessor í Chigago að fólk valið af handahófi úr símaskrá hefði að líkindum ekki getað valdið jafn miklum efnahagslegum glundroða hérlendis og þeir sem núna eru við völd. Hér hefur dr. Aliber að líkindum talað í víðum skilningi og átt við bæði embættismenn og stjórnmálamenn. Svo virðist sem margir gætu tekið undir þetta álit um þessar mundir. Atburðir síðustu vikna sýna svo ekki verður um villst að óánægja almennings er mikil og hún brýst fram í friðsömum mótmælum. Í þessu ljósi er vart annað hægt en að velta opinskátt fyrir sér hvernig þessar aðstæður urðu til.

Um langa hríð hefur svo verið hér á Íslandi að stjórnmálaflokkarnir hafa verið áhrifamiklir og áhrif þeirra hafa vaxið í réttu hlutfalli við stærð. Þessar aðstæður hafa valdið því að til liðs við flokkana hefur gengið fólk sem gjarnan hefur átt takmörkuðu gengi að fagna annars staðar. Þetta er fólk sem oft hefur hætt skólagöngu snemma, átt stuttan eða snubbóttan starfsframa á ýmsum stöðum en er samt framagjarnt, metnaðargjarnt og á gott með að koma fyrir sig orði. Það gengur til liðs við einhvern stjórnmálaflokk, fylgir sínum leiðtoga af trúmennsku og nákvæmni og gætir sín að fara ekki út fyrir þær línur sem gefnar eru af leiðtoganum. Fólk þetta er leiðtoganum  jafn nauðsynlegt og leiðtoginn er þeim. Eftir nokkurra ára dygga þjónkun við flokkinn og markviss en beinskeytt olnbogaskot til keppinautanna innan flokksins blasa verðlaunin við en það er oft á tíðum bitlingur í formi embættis innan ríkis eða bæjarfélags eða stofnunum tengdum þeim.  Þeir sem hafa viðrað sjálfstæðar skoðanir innan flokkanna eða eru 'óþægir' flokksforystunni virðast ekki hafa átt frama að fagna innan flokkanna. Þeir verða undir í málefnabaráttu og þar með áhrifalausir þó þeir starfi oft áfram á þessum vettvangi í von um að tillit verði tekið til þeirra síðar.

Almenningur lítur þetta hornauga og orðin 'framagosi' eða 'flokksdindill' eru lesendum að líkindum ekki framandi. Með tíð og tíma verða þessir einstaklingar svo að vonarstjörnum og geta trúlega náð langt innan flokkanna. Eftir ævilanga þjónustu þarf svo að gera vel við viðkomandi, annað hvort með góðum starfslokasamningi eða háu, virðulegu og gjarnan rólegu embætti með von um góð eftirlaun. Þegar á móti blæs er treyst á samtryggingu flokksins og ítök hans í þjóðfélaginu og það heyrir til undantekninga ef stjórnmálamenn segi af sér. Þeir vita sem er að lítillar gagnrýni er að vænta frá hinum flokkunum því þeir búa við svipað fyrirkomulag og samtryggingu þeirra um aðgengi að kjötkötlunum er ekki hróflað við. Það eina sem getur breytt þessu fyrirkomulagi er pólitískur þrýstingur almennings en almenningur hefur verið lítilþægur og leiðitamur enda hefur pólitísk umræða og vitund fólks utan stjórnmálaflokka ekki verið mikil hér á landi síðustu áratugi.

Það sem hefur gerst í seinni tíð er að með auknum áhrifum flokksveldisins hefur þetta fyrirkomulag gengið út í öfgar. Framagosakerfið hefur þann ókost að nálægt toppi valdapýramídans, á toppinn og í valdamiklar áhrifastöður getur komist fólk sem þangað á ekki erindi. Svo virðist sem þetta hafi verið að gerast síðustu árin hér á landi og að flokkshollusta sé orðin æðri hagsmunum almennings og hagsmunum þjóðarinnar.  Flest bendir til að umburðarlyndi almennings gagnvart þessu framferði sé á þrotum

Við þessar aðstæður er erfitt að sjá að lausnin felist í því að kjósa nokkurn stjórnmálaflokk en miklu fremur í því að höfða til forseta lýðveldisins sem getur veitt framkvæmdavaldinu aðhald og einnig í því að skila auðu atkvæði í þingkosningum. Hvað sem hver segir þá eru þetta þeir öryggisventlar sem stjórnarskráin býður upp á. Oft er sagt, og þá gjarnan af fylgismönnum flokkanna, að með því að skila auðu þá séu menn að kjósa stærsta stjórnmálaflokkinn en því er ég ósammála. Með því að skila auðu þá kjósa menn lýðræðið og lýðveldið en ekki stjórnmálaflokk. Flokkarnir geta eftir sem áður myndað stjórn og haft meirihluta á Alþingi en ef þeir hafa þrátt fyrir það nauman atkvæðameirihluta þjóðarinnar á bak við sig þá standa þeir veikar og geta síður böðlast áfram á kostnað minnihlutans. Með minna atkvæðahlutfall á bakvið sig þurfa þeir frekar að hlusta á hvað fólk segir og taka tillit til margvíslegra sjónarmiða almennings heldur en gert hefur verið.

Einn möguleiki er svo sá sem dr. Aliber nefnir en það er að velja fólk af handahófi. Það er útaf fyrir sig ekki slæmur valkostur sérstaklega ef í boði væri handahófsvalið fólk í þingsæti fyrir ákveðið hlutfall af auðum atkvæðum. Hægt væri að setja skilyrði um aldur og óflekkað mannorð. Ef þingmenn eru miklu fremur bundnir hollustu við stjórnarskrána og þar með þjóðina, sína eigin samvisku og við eigið mannorð en við stjórnmálaflokk þá yrðu afköst Alþingis trúlega minni, þar yrðu meiri, raunverulegri og dýpri umræður og Alþingi myndi færast frá því að vera afgreiðslustofnun fyrir ríkisstjórnina og í þá átt að öðlast heildarsýn yfir það hvert eigi að stefna. Þetta myndi neyða menn til að forðast skammtímalausnir í aðgerðum ríkisvaldsins eða lausnir sem hygla tilteknum sjónarmiðum á kostnað annarra en horfa frekar til hagsmuna þjóðarinnar á sem breiðustum grundvelli og til lengri tíma.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þetta er óvenjuleg, en afar athyglisverð tillaga sem kristallast hér í lokaklausunni – og hefði aldrei komið fram nema af því, að augljóst er, hve illa Alþingi og ríkisstjórn hefur tekizt að stýra hér málum farsællega.

Gaman að sjá, að þú ert kominn á völdu bloggin (Umræðuna), Ragnar, til hamingju með það, og að verðleikum hafa ítrekað birzt bloggdæmi frá þér á síðum Morgunblaðsins.

Með góðum óskum um framhaldið! 

Jón Valur Jensson, 16.11.2008 kl. 14:11

2 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir innlitið Jón og góðar óskir til þín og þinna sömuleiðis.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 16.11.2008 kl. 14:17

3 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Mjög áhugavert innlegg sem ég get að mörgu leiti tekið undir.  Við það skipbrot sem þjóðin hefur nú lent af völdum spilltra og óhæfra valdhafa myndast tækifæri til uppgjörs og endurmats á ríkjandi gildum.

Það fyrirkomulag við val á þingmönnum vil ég ekki kenna við lýðræði, heldur stjórnræði.  Stjórnræði felst í samþjöppun og samtryggingu valds.  Raunverulega er bara einn kostur í boði, fjórflokkurinn, sem skiptist í fjórar megindeildir, Framsóknar og Sjálfstæðisflokk auk VG og Samfylkingar.  Hver virðist verja sitt bein og að einhver þurfi að sæta ábyrgð á gerðum sínum er þessu fólki gjörsamlega hulið.

Framkvæmdavaldið er algjört og þingið eins og lummuleg afgreiðslustofnun þess, þ.e. þingmenn virka eins og aðstoðarmenn ráðherranna.  Aldrei hefur þetta orðið manni ljósara en einmitt núna. 

Takk fyrir góða færslu.

Sveinn Ingi Lýðsson, 17.11.2008 kl. 09:03

4 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir innlitið Sveinn.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 19.11.2008 kl. 21:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband