Um ágreining hagfræðinga austan hafs og vestan og aðferðir þeirra

Aðgerðir hinnar nýju ríkisstjórnar Obama vestanhafs sem byggja á innspýtingu fjármagns inn í hagkerfið sem og seðlaprentun virðast vera umdeildar meðal hagfræðinga sérstaklega hérna megin Atlantsála þó svo að Þorvaldur Gylfason sé greinilega ekki einn þeirra ef marka má nýlegan Fréttablaðspistil hans. Í lokaorðum pistilsins má merkja að hann telji að hagfræðingar í Evrópu ættu að fara að dæmi starfsbræðra sinna Vestanhafs, en eftirtektarvert er að þeir virðast, sumir hverjir vera á öndverðum meiði og vara eindregið við skuldasöfnun ríkisins á krepputímum. Nýlega kom einn þeirra í sjónvarpið og hélt þeim viðhorfum fram.

Erfitt er fyrir leikmenn að gera sér grein fyrir forsendum hagfræðinganna og þessa ágreinings, en skiljanlegt er að Bandaríkjamenn byggi á reynslu sinni af kreppunni miklu og New Deal áætlun Roosevelt forseta sem almennt er talið að hafi rofið vítahring víxlverkandi lækkana og hruns. Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að kreppan mikla hófst með hruni í október 1929 en efnahagsáætlun forsetans var ekki hrundið í framkvæmd fyrr en á árunum 1933-1938.

Hugsast getur að báðar fylkingarnar hafi rétt fyrir sér að nokkru leyti en tímasetningin á því hvenær gripið skuli inn í sé lykilatriði. Hugsast getur að það sé ekki skynsamlegt að verja miklum fjármunum í varnaraðgerðir á meðan hrunið er enn í gangi en þeim mun skynsamlegra að hefjast handa þegar ljóst er að markaðir eru farnir að verða stöðugir á nýjan leik og gjaldþrot eru orðin fátíð.

Málið er að hagfræðingar virðast ekki hafa meiru úr að moða en kenningum en ekkert hefur heyrst af því að þeir notist við nein sérstök spálíkön eða hermiforrit. Síðan geta menn fátt annað gert en aðhyllast kenningarnar eða vera ósammála þeim.

Það er í rauninni merkilegt að enn skuli ekki vera búið að búa til raunhæf spá- eða hermilíkön af efnahagskerfum þjóðanna. Verkefnið er að vísu stórt en hvorki óviðráðanlegt né óraunhæft. Það sýna veðurspárkerfin og einnig fullkomnir tölvuleikir svo sem skákforrit. Með því að byggja ýmsar breytur inn í slík líkön og með aðgengi að nægu vélarafli ætti að vera hægt að segja fyrir um hvaða áhrif ýmsar efnahagslegar aðgerðir og breytistærðir hafa á markaði og þjóðfélagshópa með meiri áreiðanleika en áður hefur þekkst.  Hugsanlega er þarna sóknarfæri og mögulegur samstarfsflötur fyrir rannsóknarstofnanir í tölvufræðum og efnahagsfræðum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Sverrisson

Já það er umhugunarefni að hagfræðingar virðast aldrei geta verið sammála um nein hagfræðileg úrlausnarefni, jafnvel það sem manni finnst að ættu að vera grundvallaratriði.  Sérstaklega er það athyglisvert í ljósi þeirrar kröfu að seðlabankastjórar verði að hafa hagfræðimenntun!!!

Enda er það líklega svo að hagfræði er náttúruvísindi og hagkerfin eru óútreiknanleg eins og veðurkerfin og vistkerfin.

Einhverju sinni var sagt að það ætti að höggva báðar hendurnar af frægum hagfræðingi því hann endaði alltaf fyrir lestra sína á "but on the other hand....."

Þorsteinn Sverrisson, 25.3.2009 kl. 21:35

2 identicon

Athyglisverð pæling hjá þér. Það er að minnsta kosti einn mjög mikilvægur munur á hermilíkani af veðri og hermilíkani af hagkerfi og hann er sá að vindar og ský lesa ekki útkomuna úr því að keyra líkanið og breyta hegðun sinni í ljósi hennar. (Kannsi má líta á hagkerfið sem hraðvirkasta mögulegt líkan af sjálfu sér því ef vitað er að eitthvað muni t.d lækka í verði á morgun þá lækkar það strax í dag. Það má líka orða þetta svo að í hagkerfi geti enginn birt spár um framtíðina án þess að hætta sé að að spáin breyti þessar sömu framtíð.)

Atli Harðarson (IP-tala skráð) 25.3.2009 kl. 21:56

3 identicon

Veðurmælar ljúga ekki um stöðu sína.

Gummi (IP-tala skráð) 25.3.2009 kl. 22:39

4 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Þakka þér þennan skemmtilega póst Ragnar.

Nokkrar "staðreyndir" um kreppur og hagfræðinga

Hagfræðingar eru alltaf ósammála um flest því það eiga þeir einmitt að vera. Ef þeir eru mikið sammála þá er eitthvað verulega bogið við þá eða það hagkerfi sem þeir vinna við. Hagfræðingar (handverksmennirnir) og seðlabankar (meistararnir) geta yfirleitt ekki séð kreppur fyrir því þá væru þær alls ekki kreppur heldur einungis verkefni á borð við annan daglegan rekstur. Raunverulekinn er sá að enginn gat séð þessa kreppu fyrir, því ef allir hefðu séð þetta fyrir þá værum við öll betur sett í dag og það væri engin fjármálakreppa í gangi núna, en svo er alls ekki. Þetta er alltaf sagt um allar kreppur og krísur sem koma.

En það sem kanski á betur við um marga sem þóttust sjá þetta fyrir er það að þeir ÓTTUÐUST. Sumir hagfræðingar og seðlabankar óttuðust kreppu. En það er allt annað en að sjá hlutina fyrir. Að óttast er ekki það sama og sjá fyrir.

En núna er allt lok og læs. Það er sem sagt komin kreppa. Eina lækning þessarar kreppu er kreppan sjálf. Það er hún sem mun lækna efnahaginn. Kreppur eru gagnlegar. Þær lækna nefnilega efnahag. Vinda ofan af andstæðu kreppunnar, bólunni.

GRUNNATRIÐI ÓVISSU, ÓTTA og ÁHÆTTU

Áhætta: þegar talað er um áhættu í fjármálaheiminum þá þarf að hafa í huga að í þeim heimi taka einungis fáir stórir aðilar áhættu nema að það sé hægt að reikna hana út (calculated risk)

Óvissa: þetta er alger andstæða áhættunnar. Óvissa er ástand þar sem enginn tekur áhættu því það er ekki hægt að reikna hana út. Öll áhættutaka hættir. Það ríkir því óvissa. Enginn tekur áhættu fyrr en það er hægt að reikna hana út. Því þarf að útrýma óvissinni fyrst áður en menn fara að taka áhættu aftur.

Bankar í kreppu: Enginn banki mun lána öðrum banka peninga nema að hann sé viss um að lánþeginn verði á lífi þegar það þarf að greiða lánið til baka. Bankar vilja ekki þurfa að eiga við þrotabú. Í óvissuástandi mun því enginn lána neinum neitt nema viðkomandi geti fært sönnur fyrir að hann verði á lífi þegar það þarf að greiða lánið til baka. Þetta var fjármagnsþurrðin sem ríkti í haust. En næstum allt er þó ennþá læst og lokað. Allir halda að allir verði dauðir eftir óákveðinn tíma. Þeir bíða því og sitja á peningunum. Bíða eftir að það drepist nógu margir til að óvissan geti minnkað og breytst í áhættu aftur. Áhættu sem er hægt að reikna út á ný. Þetta er ástandið núna og það er búið að ríka í eitt ár. Það getur ríkt í eitt til tvö ár í viðbót.

Sá (hagfræðingar/seðlabankar/ríkisstjórnir) sem óttast eitthvað getur aldrei tekið upp mótvægisaðgerðir byggðar á ótta sínum einum því þá hefði hann verið kominn út í spámennsku. Það er í raun miklu erfiðaða að spá fyrir um næstu 3 mínúturnar í fjármálaheiminum en það er að spá fyrir um veðrið, því veðrinu er alveg sama um hverju þú munt spá. Veðrið mun ekki rigna á þig bara af því að þú spáðir þurrki. Því er alveg sama. En á fjármálamörkuðunum (og á fleiri mörkuðum) þá munu allir bregðast við spám allra og 1900 miljón heilar, hver um sig með miljarða af hugsanamöguleikum - og sem hugsa á 400 tungumálum samtímis - munu einnig hefja aðgerðir einmitt byggðar á þessari spá um framtíðina og gera spá þína að athlægi, oftast.

Það var vegna þessa sem eðlisfræðingurinn Isaac Newton gafst upp á hlutabréfabraski sínu í gamla daga. Hann sagðist geta reiknað út gang himintungla og pláneta af miklu öryggi fyrir næstu þúsundir ára. En hann gat ekki reiknað út aðgerðir og viðbrögð "hálf-brjálaðra og öskrandi manna" í kauphöllinni næstu þrjár mínúturnar. Svo Isaac Newton yfirgaf markaðinn og fór út í svartagaldur. Hvað annað?

Núna erum við stödd á sprengjusvæði þar sem enginn hagfræðingur hefur áður stigið fæti. Þökk sé hnattvæddum fjármálum Jarðar. Hnattvædd fjármál munu deyja núna og aldrei koma til baka í sömu mynd aftur. Því er lítið að marka hagfræðinga akkúrat núna. En þeir munu samt koma og segja þér frá hvað gerðist þegar allt er um garð gengið og hversvegna það rættist aldrei sem þeir sögðu að myndi gerast. En þeir munu þó alltaf segja þér það eftirá. Aldrei fyrirfram.

En það versta er að gera ekki neitt núna. Margir bíða eftir Bandaríkjunum núna. Bíða eftir að það virki sem þeir eru að reyna að gera. Bandaríkjamenn eru nefnilega ekki lamaðir af hræðslu, ekki ennþá allavega. Þeir eru do'ers því í þeirra hugarheimi er ekki um neitt annað að ræða. Evrópubúar fara hér oft að hugsa um "alternative útgönguleiðir" - t.d. "þriðju leiðina", eða vinstri vinstri komma komm eða eitthvað álíka.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 25.3.2009 kl. 22:42

5 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Sælir og takk fyrir innlitin og athugasemdirnar.

Það sem ég hef í huga er fyrst og fremst hermilíkan af efnahagskerfi, ekki spálíkan sem á að segja fyrir um hegðun markaðar. Hið fyrra er trúlega einfaldara viðfangs þó tiltölulega lítið hafi heyrst af þess konar verkefnum. Spálíkön um hegðun markaðar eru nokkuð algeng og þeim hefur vegnað misvel.

Ef grunneiningin í þess konar efnahagskerfi er einstaklingur þá ætti að vera hægt að herma eftir efnahagslegri hegðun hvers einstaklings, láta hann kaupa inn, hafa tekjur, eldast og sýna af sér hverja þá sýndarhegðun sem búast má við. Ef inn í þetta yrði tekið reglugerðarverk stjórnvalda og jafnframt búin til líkön af þeim fyrirtækjum sem til eru, jafnframt því að margfalda sýndareinstaklingana þangað til þeir eru jafn margir og þjóðin öll þá ætti að vera hægt að gera ýmsar athuganir t.d. á áhrifum reglugerðabreytinga, innspýtingu opinbers fjármagns eða takmörkunum af hálfu stjórnvalda. Með því að gera athuganir og spár og bera saman við raunverulega röð atburða ætti fljótlega að vera hægt að safna upp reynslu og leiðrétta líkanið m.t.t. raunveruleikans. Hafa ber í huga að allt sem fengist út úr slíku reikniverki væri að sjálfsögðu spá. Mig grunar þó að svona áhald eða áhöld gætu haft þó nokkur áhrif á aðferðafræði hagfræðinnar.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 26.3.2009 kl. 21:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband