Færsluflokkur: Þjóðtrúin

Er regntíminn hafinn?

Veðurfarið síðustu daga er farið að verða nokkuð líkt því sem það var fyrir ári. Fyrirsjáanleg væta suðvestan lands næstu dagana. Vætutíð haustsins er búin að stimpla sig inn sem nokkuð árvisst fyrirbæri, sem og þurrkarnir á vormánuðum. Getum við kannski farið að tala um regntíma og þurrkatíma hér á Fróni í viðbót við hefðbundnar árstíðir?

Hrafnarnir komnir aftur

Nú hef ég fregnað að hrafnar hafi sést hér á Selfossi. Það var á föstudagsmorguninn síðasta 25. júlí sem tveir hrafnar sáust leika sér í uppstreyminu yfir nýja  sjúkrahúsinu á Selfossi.  Þetta eru fyrstu hrafnafréttir sem ég fæ í nokkurn tíma en eins og bloggvinum mínum er kunnugt um þá virtust þeir hafa horfið af svæðinu eftir jarðskjálftana.

Hvar eru hrafnarnir á Selfossi?

Mér var nýlega bent á af manni* sem hefur gaman af að fylgjast með hröfnum að hann hefði ekki séð neina hrafna á Selfossi eftir jarðskjálftana. Eru einhverjir Selfyssingar sem lesa þessar línur sem hafa séð hrafna á Selfossi eftir 29. maí síðastliðinn? Eins og menn vita þá hefur hingað til verið talsvert af hröfnum á Selfossi. Þeir halda trúlega til í fjallinu og fljúga niður í byggðina í leit að æti. Oft eru þeir á sveimi yfir háum húsum á svæðinu svo sem Selfosskirkju, húsi Fjölbrautaskólans og Hótelinu en núna er eins og himininn hafi gleypt þá.

 --

* Hann heitir Brynjólfur Guðmundsson og var áður bóndi á Galtastöðum í Gaulverjabæjarhreppi (nú Flóahreppi).


Um örnefnið „Almannagjá“ og kenningar um staðsetningu almennings á Alþingi hinu forna

Sumrin 1984-1986 var ég sumarstarfsmaður í Þjóðgarðinum á Þingvöllum og vann þar ýmis störf svo sem að tína rusl í Almannagjá og nágrenni. Þá fór ég að velta fyrir mér kenningum sem hingað til hafa verið viðteknar um að lögsögumaðurinn á Alþingi hinu forna hafi staðið á Lögbergi og talað til mannfjölda sem á að hafa staðið niðri í hlíðinni austan megin við gjána, dreifður um þar fyrir neðan og allt niður að Öxará. Balarnir þar stóðu hærra á miðöldum því land seig á Þingvöllum eins og kunnugt er í jarðskjálftunum miklu undir lok 18. aldar.  Þessar kenningar rifjuðust upp í fyrrakvöld þegar ég sá Sigurð Líndal í sjónvarpinu reifa þetta við danska kóngafólkið og þar minntist hann líka á þá kenningu sína að lögsögumaðurinn hafi snúið baki í fólkið í hlíðinni og talað í áttina að gjárveggnum til að nýta hljómburðinn í hinum háa vestari bakka gjárinnar.

Nú er það svo að sá sem leggur leið sína um Almannagjá og Lögberg og grenndina þar fyrir neðan, og fer þarna um í alls konar veðri veitir því auðveldlega athygli að það sem sagt er í gjánni berst sérlega vel eftir henni endilangri nema veðurhljóð sé þeim mun meira. En reyndar er það svo að ef hvasst er þarna þá er besti og skjólsælasti staðurinn bæði fyrir rigningu og roki niðri í gjánni, þ.e. niðri í Almannagjá.  Þetta geta menn sem best prófað sjálfir því umferð gangandi vegfarenda er umtalsverð og tal fólksins heyrist best niðri í gjánni sjálfri og berst vel. Við góðar aðstæður gerist það jafnvel að það sem sagt er stundarhátt niðrundir Haki heyrist alla leið að beygjunni sem verður á gjánni skömmu áður en komið er að Öxará og það án þess að menn ætli að reyna mikið á röddina.

Þessar voru hugleiðingar mínar þegar ég dundaði við ruslatínsluna og í framhaldi af því fór ég að velta fyrir mér örnefninu 'Almannagjá' og hvað það segði. Ég velti því fyrir mér spurningunni: Hver er í Almannagjá ef ekki almenningur? En eins og kunnugt er þá er talið að talsverður fjöldi fólks hafi verið á þinginu að hlýða á lögin og dómana eins og sjá má hér:

Alþingi Íslendinga er í senn elsta stofnun þjóðarinnar og sú æðsta. Það er talið stofnað á Þingvöllum árið 930, og markar sá atburður upphaf þjóðríkis á Íslandi. Í upphafi var Alþingi allsherjarþing þar sem æðstu höfðingjar komu saman til löggjafarstarfa og til að kveða upp dóma. Auk þess var öllum frjálsum mönnum og ósekum heimilt að koma áþingið, og þangað sóttu auk goða bændur, málsaðilar, kaupmenn, iðnaðarmenn, sagnaþulir og ferðalangar. Oft hefur því verið fjölmennt á Alþingi.Þeir sem sóttu Alþingi dvöldust í búðum á Þingvöllum um þingtímann. Innan þinghelgiskyldu allir njóta griða og frelsis til að hlýða á það sem fram fór.Miðstöð þinghaldsins var Lögberg. Þar átti lögsögumaðurinn fast sæti, en hann var æðsti maður þingsins. Hlutverk hans var meðal annars að fara upphátt með gildandi lög Íslendinga, þriðjung þeirra ár hvert. Lögin um þinghaldið, þingsköpin, fór hann með fyrir þingheim árlega. [Leturbr. RGB] [1]

Vegna þessara hugleiðinga minna við ruslatínsluna forðum hef ég alltaf fundið til efa þegar ég hef heyrt hinar viðteknu kenningar um að almenningur hafi staðið niðri í hlíðinni og á bölunum við Öxará og hef með sjálfum mér ekki trúað þeim. Ég leyfi mér þvert á móti að halda fram að fólkið - almenningur hafi miklu fremur staðið niðri í Almannagjá eins og nafnið bendir til því þar er bæði skjólsælast og hljóðbærast  og að Lögberg hafi verið á gjárbarminum, kannski skammt frá þeim stað þar sem talið er núna að það sé en mér finnst líklegt að það hafi verið heldur ofar og nánast á brúninni því ef maður stendur á austari og lægri brúninni þá nýtur hann góðs hljómburðar til jafns við þá sem eru niðri í gjánni en því fjær sem maður fer frá brúninni og niður í hlíðina þá dregur úr hljómburðinum. Vera má líka að fólk hafi verið dreift úti um allt eins og gengur og gerist þar sem mannfjöldi kemur saman, kannski slangur af fólki í hlíðinni og jafnvel niðri við Öxará en fleiri niðri í Almannagjá sjálfri, og þegar veðrið versnaði er líklegt að flestir hafi safnast upp í gjána til að hlýða á lögsögumanninn á meðan enn var fært að þinga vegna veðurs.

[1] Sjá: http://www.althingi.is/pdf/isl.pdf


Gamalt húsgangskvæði úr Flóanum

Tíkin hennar Leifu
tók hún frá mér margt
nýja skaflaskeifu
skinn - og vaðmál svart.
Tíkin sú var ekki ein
því Óðinn var með henni.
Át hún flot og feitt ket
feikilega sú lét
kapalinn og kaupskip
kálfa tólf og Þórólf,
Ingólfsfjall og allan Flóa
aftur lét hún kjaftinn mjóa
þó var hún ekki hálffull.

Brynjólfur Guðmundsson skráði 2005.
(„Kapall“ er í merkingunni „hestur“).


Höldum vöku okkar - gefum Grýlu og jólakettinum engin færi

Grýla reið fyrir ofan garð
hafði hala fimmtán,
en á hverjum hala
hundrað belgi,
en í hverjum belg
börn tuttugu.
Þar vantar í eitt,
og þar skal far í barnið leitt.

Svona er Grýlu kerlingunni lýst í gömlu kvæði. Grýla er fornu fari talin einhver hinn versti óvættur. Hún er bæði mannæta og leggst á þá sem minnst mega sín og leggur til atlögu þar sem garðurinn er lægstur ásamt annarri óvætt - jólakettinum. Hún er því tákn einhverrar þeirrar mestu ómennsku og illsku sem hægt er að hugsa sér. Þegar koma jólasveinanna sona hennar er skoðuð sést að fyrst koma tiltölulega meinlitlir sveinar, Stekkjastaur sem gerir ekkert annað en reyna að sjúga ærnar, Giljagaur sem reynir að sleikja mjólkurfroðu og Stúfur sem hirðir agnir af pönnu. Síðari sveinarnir eru þeim mun ógurlegri. Skyrjarmur eða Skyrgámur sá áttundi stal skyri, Bjúgnakrækir bjúgum. Ketkrókur sá tólfti stelur aðal matarbirgðunum kjötinu og Kertasníkir sá þrettándi rænir ljósunum sjálfum. Þarna má sjá ákveðna stigmögnun illskunnar og klækjanna eftir því sem nær dregur jólunum. Kertasníkir kemur á aðfangadagskvöld þann 24. desember. Það sem vantar inn í þessa mynd er óvætturin sjálf Grýla hin skelfilega móðir allra hinna, mun hún birtast eða ekki á jóladaginn sjálfan 25. desember? Sú mynd sem þarna er dregin upp er eins og púsluspil þar sem hlustandinn á sjálfur að setja síðasta stykkið og spurning er hvernig stykki það verður. Í frægu jólasveinakveri Jóhannesar úr Kötlum og í fleiri heimildum er Grýla aflögð trúlega vegna þess að sú venja er aflögð að hræða börn til hlýðni og sagt er að Grýla sé dauð. Þetta er merkileg heimild um umskipti og viðhorfsbreytingu menningarinnar gagnvart táknmyndum ómennsku og illsku.

Trúlega hefur fátækt og ýmis óáran fyrri tíma valdið því að skil mennsku og ómennsku hafa verið skarpari en þau eru í dag. Svangt fólk eða sveitarómagar sem veslast upp úr hor eru sem betur fer ekki lengur hluti af raunveruleikanum. Á þeim tíma sem jafnframt er tími fábreyttari uppeldisaðferða hefur kannski þótt nauðsynlegt að draga upp skýrar myndir ómennskunnar til að vekja fólk á öllum aldri til vitundar um náunga sinn og leggja áherslu á ábyrgð hvers og eins.

Ef marka má þann kraft sem settur er í vegsömun mennskunnar og ljóssins í dag hérlendis og í nágrannalöndum okkar um þessar mundir ættum við í engu að þurfa að kvíða né óttast þann raunveruleika sem Grýla táknar - amk. ekki í okkar heimshluta. Það þýðir samt ekki að við megum sofna á verðinum og halda að fyrst Grýla sé dauð þá muni hún alltaf vera það áfram. Þau forréttindi að búa við Grýlulaust land eru hvorki sjálfsögð né sjálfgefin. Þau eru undir því komin að við höfum vara á okkur og veljum gaumgæfilega þau púsl sem við notum til að móta mynd lífsins og samfélagsins.


Hvernig breyttust jólasveinarnir og af hverju?

Oft hef ég hugsað um þá algeru umbreytingu sem varð á gömlu íslensku jólasveinunum, Stúf, Stekkjastaur, Skyrgámi og þeim bræðrum öllum sonum Grýlu og líklega Leppalúða. 

Umbreytingu þessara karla má líkja við algera viðhorfsbyltingu eða umsnúning á lífsgildum. Þeir leggja af tröllskap sinn og fláræði Grýlu kerlingarinnar sem var eitthvert versta tröllaskass sem sögur fara af og verða þess í stað alger andstæða þess sem þeir voru áður. Þeir umbreytast í glaðlega karla sem keppast við að gleðja mann og annan en þó aðallega börnin. Hvað svo sem það var sem gerðist þá má segja að það hljóti að hafa verið eitthvað gott. Fóru þeir kannski í skóla eða var það skóli lífsins sem hafði þessi góðu áhrif? Þeir hafa að sögn verið til í mörg hundruð ár og enginn skyldi vanmeta lífsreynsluna - en það skrýtna er að það er ekki lengra síðan en á fyrri hluta síðustu aldar sem þeim bræðrum var lýst sem sísvöngum matarþjófum og hrekkjakörlum í landsfrægum jólasveinavísum Jóhannesar úr Kötlum.

Ég hallast því að því að þeir bræðurnir hafi gengið í skóla eða að minnsta kosti farið á námskeið þar sem markmiðið með náminu hefur verið breytt viðhorf og bætt hegðun. Ef þetta er ekki raunin þá hlýt ég að hyggja að þeir hafi kynnst einhverjum sem hefur haft þessi góðu áhrif á þá.


Hulduhundurinn

Saga þessi gerist á síðari helmingi 20. aldar á sveitabæ á sunnanverðu Íslandi í héraði því sem stundum er nefnt Flói. Það var á dimmu vetrarkvöldi. Það snjóaði og kyngdi snjónum niður í stórum flyksum. Bóndinn á bænum hafði farið út í fjósið til að mjólka kýrnar ásamt tengdaföður sínum. Á þessum árum rann mjólkin ekki í rörum eins og síðar varð heldur þurfti að bera mjaltavélaföturnar með mjólkinni í út í mjólkurhúsið í hvert skipti þegar þær fylltust. Þar var mjólkinni hellt í gegnum sigti niður í stóra brúsa, svonefnda mjólkurbrúsa. Þannig var það líka þetta tiltekna kvöld. Mennirnir mjólkuðu þegjandi, hlustuðu á útvarpið og skellina í mjaltavélunum. Mjólkurhúsið á þessum bæ lá rétt við útidyr fjóssins og var beygt til hægri inn í mjólkurhúsið strax og komið var út úr fjósinu.

Einu sinni sem oftar fór bóndinn með fulla mjaltavélarfötu út í mjólkurhúsið og hellti úr henni í mjólkursigtið. Þegar hann snýr sér við til að ganga út úr mjólkurhúsinu þá sér hann að í dyrum mjólkurhússins stendur stór og fallegur alhvítur hundur, loðinn með lafandi eyru og horfir á hann. Bóndinn sneri inn í fjósið og kallaði á tengdaföður sinn að koma og sjá hundinn.

Hundurinn bakkaði aðeins á meðan bóndinn fór framhjá honum og hann horfði á bóndann með vinarglampa í augunum. Bóndinn kenndi í brjósti um hundinn sem var einn á ferð. Það snjóaði mikið og honum datt í hug að hundinum hlyti að vera kalt og réttast væri að gefa honum einhverja hressingu. Mjólkurhúsið var lítið og bóndinn þurfti ekki annað en snúa sér við til að teygja sig í mjólkurdreytil í dalli sem þarna var. Við það sneri hann baki í hundinn andartak. Þegar hann sneri sér við aftur var hundurinn horfinn og engin fótspor eða nein önnur ummerki um að þarna hefði dýr verið á ferð var að sjá í nýföllnum snjónum við mjólkurhúsdyrnar. Í því bili kom tengdafaðir hans innan úr fjósinu til að sjá hundinn. Bóndanum og tengdaföður hans þótti þetta að vonum mjög undarlegt en þeir höfðu ekki mörg orð um þetta.

Leið nú tíminn með sínu daglega lífi veturinn og vorið. Engar sýnir né neitt óvenjulegt bar fyrir bóndann þangað til sumarnótt eina. Dreymir hann þá að tengdamóðir hans sem einnig var búsett á bænum kemur til hans og segir honum að maður sé kominn á bæinn sem vilji finna hann. Í því bili vaknaði bóndinn því sonur hans á barnsaldri sem svaf í rúmi við hliðina á bóndanum vakti hann til að fara með sig á snyrtinguna. Bóndinn sinnir barninu og sofnar aftur vært. Dreymir hann þá enn að hann sé á gangi á leið að fjárhúsunum á bænum. Í draumnum kemur þá í veg fyrir hann hvítur hundur. Þá fannst bóndanum að hann þekkti í draumnum hundinn sem hann sá í mjólkurhúsdyrunum um veturinn. Bóndanum finnst hundurinn vilja að hann komi með sér og man hann þá eftir tengdamóður sinni úr fyrri draumnum og að maður sé kominn að finna sig. Fer hann þá heim að bænum. Finnst honum þá að á hlaðinu standi stórvaxinn maður, hörkulegur í yfirbragði með tvo hvíta hesta með sér búna reiðtygjum. „Það er ekki auðvelt að ná í þig“ sagði maðurinn. Ég vil biðja þig að koma með mér og hjálpa konunni minni sem ekki getur fætt.“ „Heldur þú að ég sé rétti maðurinn til þess?“ varð bóndanum að orði. Maðurinn svaraði því játandi. „En ég þarf að sinna drengnum og ég er ekki mikið klæddur - er bara á nærskyrtunni“ sagði bóndinn. „Þú hefur þegar sinnt drengnum - hann vaknar ekki sagði maðurinn. Það er sumarnótt og þér mun ekki verða kalt.“ Sá bóndinn þá að best væri að vera ekki með fleiri mótbárur og steig á bak öðrum hestinum. Riðu þeir nú af stað og fóru krókaleið nokkra frá bænum. Bóndanum fannst sem hann hefði aldrei komið á bak eins góðum hesti. Honum fannst reiðleiðin nokkuð dulúðug en áttaði sig þó á því hvar leið þeirra lá. „Ég sé að þú veist hvert þú ert að fara“ sagði maðurinn en ég varð að taka áhættuna. Riðu þeir nú sem leið lá að stað nokkrum í sveitinni þar sem ekkert var venjulega nema hóll nokkur. En nú brá svo við að bóndanum sýndist hóllinn vera lítill og snyrtilegur bær.

Gengu þeir inn í bæinn. Þar inni lá kona í rúmi og gat hún ekki fætt. Bóndanum virtist hún nokkru yngri en maðurinn sem sótti hann. Bóndinn var enn undrandi í draumnum yfir því að hann hefði verið valinn til þessa hjálparstarfs og fannst sér nokkur vandi á höndum þar sem hann hafði aldrei aðstoðað við barnsfæðingar þó verið hefði viðstaddur eina slíka. Honum datt því loks í hug að segja við konuna: „Ef þú nærð að slaka á milli hríða þá kemur þetta.“ Að svo búnu lagði hann hönd á kvið konunnar. Konan reyndi að fara eftir þessu ráði og fljótlega fæddist barnið sem var drengur. Bóndanum fannst sem ósýnilegar hendur tækju á móti því og það var farið með það frá. Eftir það tók konan til máls og sagði: „Ég veit að þú vilt ekkert þiggja fyrir þetta, en ef þér snýst hugur og þú vilt einhvern tíma þiggja aðstoð þá skaltu hengja rúmteppið af hjónarúminu út þrjá daga í röð og þriðja daginn skaltu brjóta teppið saman á sérstakan hátt.“ En daginn áður en bóndann dreymdi drauminn hafði rúmteppi hjónanna á bænum einmitt verið þvegið og hengt út á snúru. Konan hélt áfram og lýsti fyrir bóndanum hvernig teppið ætti að vera brotið saman á snúrunni. Eftir það kvaddi bóndinn og maðurinn sem hann hafði séð fyrst fylgdi honum heim á hestunum. Morguninn eftir vaknaði bóndinn, mundi hann drauminn og þótti hann all-raunverulegur í minningunni.

Liðu nú árin. Ekki kom til þess að bóndinn teldi sig þurfa á því að halda að leita á náðir draumkonunnar með eitt né neitt. Bæði var að hann var vantrúaður á að það breytti neinu en einnig var til staðar efi um að rétt væri að leita á náðir afla sem ef til væru, væru jafn framandi og efni draumsins hafði gefið til kynna. Nokkrum árum síðar ákváðu þau hjónin samt að prófa að hengja rúmteppið út á snúru og brjóta það samkvæmt fyrirmælum draumkonunnar. Skömmu síðar dreymir bóndann að hann sé á gangi á vegi. Mætir hann þá draumkonunni og leiddi hún við hlið sér ungan dreng. Konan snýr sér að honum og sagði: „Ég skal reyna að liðsinna þér í þessu, en ég veit ekki hvort ég get gert mikið.“ Við svo búið endaði draumurinn en bóndinn mundi hann samt vel þegar hann vaknaði og var fyrst í stað ekki alveg viss hvort þetta hefði borið fyrir í vöku eða draumi.

Lengri er þessi saga ekki. Bóndinn var ófáanlegur að segja frá hvaða úrlausnarefni það var sem hann bar upp við draumkonuna, né heldur hvort liðsinni hennar hefði borið árangur. En hvað hundinn varðar þá hefur hann ekki sést í Flóanum hvorki fyrr né síðar til þessa dags svo vitað sé.

Birtist áður á slóðinni: http://www.vina.net/index.php/ragnar/2006/02/13/hulduhundurinn


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband