Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Fimmtudagur, 28.2.2013
Hagsmuni hverra er Ögmundur að vernda?
Í Kastljósinu í gær var Ögmundur andvígur því að hér yrði komið upp leyniþjónustu eins og gert hefur verið á hinum Norðurlöndunum en staðhæfir þó að fyllsta öryggis sé gætt og eftirlitið sé sambærilegt og þar. Er þetta þá bara spurning um orðanotkun og nafngift? Það er ótrúlegt að svo sé.
Ég hef sagt það áður að ef heiðarlegur maður ætti að velja milli þess að vera rannsakaður af yfirvöldum á þeirra kostnað eða þess að vera sprengdur í loft upp af öfgamönnum eða drepinn af glæpagengi þá yrði ákvörðun hans fyrirsjáanleg. Ég endurtek: Hagsmuni hverra er verið að vernda með því að draga lappirnar í öryggismálum?
Þriðjudagur, 1.1.2013
Skotvopn á ekki að geyma á heimilum
Skylda þarf eigendur skotvopna til að geyma öll vopn í byssuskáp. Þeir gætu sem best átt þessa skápa saman til að komast hjá miklum útgjöldum og vopnaskápana á að vista á öðrum mun öruggari stöðum en heimilum, geymslum eða frístundahúsum.
Öll skotvopn eiga að sjálfsögðu að vera í læstum byssuskápum og skotfærin í öðrum jafn öruggum læstum hirslum. Að því búnu þyrfti löggjafinn að koma á reglulegu eftirliti með því að farið væri eftir þessum reglum en sem stendur er ekkert slíkt eftirlit. Það ætti þó enginn að velkjast í vafa að slíkt eftirlit á fullan rétt á sér eins og t.d. bifreiðaeftirlit eða heilbrigðiseftirlit. Þetta eftirlit þyrfti að lögbinda. Þeir sem ekki færu eftir reglunum myndu missa byssuleyfið og yrðu að skila inn sínum vopnum strax við fyrsta brot.
Sjá fyrri pistil um þetta málefni: http://ragnargeir.blog.is/blog/ragnargeir/entry/1274726
Sérsveitin kölluð út | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 30.12.2012
Skotvopnalöggjöfina þarf að herða til muna
Mikil umræða hefur átt sér stað um skotvopnalöggjöfina í kjölfar skelfilegra atvika sem orðið hafa erlendis. Í umræðunni hér heima hafa sumir farið mikinn við að gagnrýna ástandið Vestanhafs en hvernig er staðan í raun og veru hérlendis? Innanríkisráðherra hefur látið hafa eftir sér að málið sé í skoðun og líklega er nýtt frumvarp í smíðum ef marka má fréttir en gengur það nógu langt? Nýlegt atvik þar sem strokufangi komst auðveldlega yfir hættulegan riffil sem geymdur var í sumarbústað sýnir svo ekki verður um villst að hér þarf miklu að breyta. Fleiri dæmi væri hægt að nefna í þessu sambandi.
Skylda þyrfti eigendur skotvopna til að geyma vopn sín í byssuskáp. Þeir gætu sem best átt þessa skápa saman til að komast hjá miklum útgjöldum og hugsanlega fengið að vista þá annars staðar en á heimilum sínum. Markmiðið væri að öll skotvopn væru í læstum byssuskápum og skotfærin í öðrum jafn öruggum læstum hirslum. Að því búnu þyrfti að koma á reglulegu eftirliti með því að farið væri eftir reglum en sem stendur er ekkert slíkt eftirlit. Það ætti þó enginn að velkjast í vafa að slíkt eftirlit á fullan rétt á sér eins og t.d. bifreiðaeftirlit eða heilbrigðiseftirlit. Þetta eftirlit þyrfti að lögbinda. Þeir sem ekki færu eftir reglunum myndu missa byssuleyfið og yrðu að skila inn sínum vopnum strax við fyrsta brot.
Samhliða þessu þyrfti að auka umræðu um ofbeldi í afþreyingariðnaði svo sem kvikmyndum og tölvuleikjum og fara fram á að áhrif þessa efnis á samfélagið og neytendur verði rannsakað. Að baki efnisins standa öflugir aðilar sem hagnast að líkindum verulega á því að sýna gróft ofbeldi. Þetta er iðnaður og að baki iðnaðarins er mikið fjármagn. Þessu þarf almenningur að gera sér grein fyrir og vera vakandi gagnvart.
Mánudagur, 18.7.2011
Lækka þarf hámarkshraða á Suðurlandsvegi í Ölfusi
Í október 2007 og í maí 2008 bloggaði ég og lagði til að hámarkshraði á Suðurlandsvegi í Ölfusi yrði lækkaður. Í ágúst 2008 tjáði Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður Árnesinga sig um hraðann á þessum vegarkafla og sagði:
Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður í Árnessýslu, telur nauðsynlegt að lækka hámarkshraðann á Suðurlandsvegi á milli Selfoss og Hveragerðis úr 90 í 70. Segir hann að horfast verði í augu við það að vegurinn þoli ekki þann hraða sem þar sé nú leyfður. [1]
Í október 2008 tjáði rannsóknarnefnd umferðarslysa sig um ástandið á þessum vegarspotta í svonefndri varnaðarskýrslu sem fjallar um alvarleg umferðarslys á Suðurlandsvegi árin 2002 til 2008, sjá rnu.is. Þar kemur eftirfarandi fram:
Rannsóknarnefnd umferðarslysa leggur til að hámarkshraði á Hringveginum milli Hveragerðis og Selfoss verði lækkaður í 70 km/klst. samhliða öflugri löggæslu og að unnið verði að því að bæta tengingar inn á veginn með betri merkingum og auknu rými. [2]
Í umsögn vegagerðarinnar um þessa tillögu frá 2008 kemur fram að:
lækkun hámarkshraða gæti haft í för með sér meiri framúrakstur og þar með aukna slysahættu. RNU tekur undir þetta en telur að draga megi úr þeirri hætti [svo] með aukinni löggæslu. [2]
Síðan varnaðarskýrslan var gefin út hefur vegurinn verið lagaður kringum afleggjarana þannig að settar hafa verið breikkanir. Einnig hafa verið settar upp hraðamyndavélar þannig að eftirlit á vegkaflanum er mun öflugra en áður var. Hraðinn er eftir sem áður óbreyttur og það hlýtur að vera tímaspurmál hvenær aftanákeyrsla eða alvarlegt slys verður á þessum vegarspotta miðað við óbreytt ástand. Þau rök Vegagerðarinnar frá 2008 að fleiri muni brjóta lögin ef hraðinn er lækkaður eru afleit. Víða á landinu er hámarkshraði lækkaður þar sem ástæða þykir til. Eiga þá lögbrjótarnir að fá óáreittir að setja hinum löghlýðnu ólög með virðingarleysi sínu fyrir lögunum? Af hverju á að taka meira tillit til þeirra sem brjóta lögin en hinna mörgu sem virða þau? Ef það eru fleiri svona staðir af hverju þá ekki lækka hraðann þar líka ef talið er að það muni draga úr slysatíðni? Minni umferðarhraði stuðlar líka að lægri eldsneytiseyðslu. Látum ökudólgana ekki hræða okkur frá því að taka þessi mál til gagngerrar endurskoðunar.
[1] http://eyjan.is/2008/08/11/olafur-helgi-laekka-tharf-hamarkshradann-a-sudurlandsvegi/
[2] http://www.innanrikisraduneyti.is/sam/frettir/nr/22734
Föstudagur, 1.4.2011
Varhugavert að stefna á forréttindi auðmanna
Ef leggja á mælikvarða á það hverjir ættu að fá ríkisborgararétt aðrir en þeir sem uppfylla eðlileg skilyrði, þá ætti sá kvarði ekki að vera efnahagslegur. Auðgildið á ekki að vera í öndvegi heldur jákvæð gildi menningarinnar á borð við mannúð, manngildi, þekkingu, atorku, fjölbreytni, samhjálp eða upplýsingu. Hætt er við að réttlætiskennd margra verði misboðið ef auðgildinu verður hampað og samasemmerki sett milli auðs og forréttinda.
Íslenskir ríkisborgarar frá upprunalandi utan Evrópu þurfa að sætta sig við að landið er lokað fyrir ættingjum þeirra s.s. börnum á lögaldri fæddum erlendis. Jafnvel þó að atvinna væri í boði þá njóta Evrópubúar forgangs að henni. Hætt er við að réttlætiskennd þessa fólks verði misboðið og íslensk sjálfsmynd þeirra skaddist ef auðmenn fá að kaupa ríkisfang. Einnig er athugunarefni hvort forréttindi fárra standist jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 31.3.2011
Framtíð langbylgjuútvarpsins?
Vægi útvarps sem fjölmiðils fer síst minnkandi þrátt fyrir samkeppnina við sjónvarpið og netið. Markaðurinn fyrir útvarpsviðtæki er yfirfullur af prýðilegum AM/FM tækjum og margir símar eða tónspilarar innihalda FM útvarpstæki.
Útvarpsviðtæki sem bjóða upp á móttöku á langbylgju eru samt sjaldséðari en áður þrátt fyrir að þannig tæki séu enn fáanleg. Aukið hlutfall viðtækja án langbylgju dregur úr öryggishlutverki langbylgjustöðvanna. Ný öryggistækni svo sem SMS sendingar munu líklega bætast við í flóru öryggistækja án þess að draga úr vægi dreifikerfis fjölmiðlanna en í því neti er og verður útvarpið nauðsynlegur þáttur.
Annað hvort þarf að gera kröfu um að innflutt útvarpsviðtæki séu með langbylgju eða þá að útsendingar verði fluttar af langbylgju yfir á miðbylgju (AM). Fyrri kosturinn er ekki góður því hann myndi skerða valkosti íslenskra neytenda. Hinn síðari er skárri en þá þyrfti líklega að fjölga sendistöðvum um tvær, auk þess að endurnýja tækjakost Gufuskála og Eiða.
Fleiri pistlar um sama efni:
http://ragnargeir.blog.is/blog/ragnargeir/entry/1066057/
http://ragnargeir.blog.is/blog/ragnargeir/entry/1053046/
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 30.3.2011
Sveitarstjórnarmenn Árborgar: Hyggilegast er að fresta áformum um virkjanir í Ölfusá
Í máli forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur í Kastljósi í gærkvöldi kom fram að vegna alvarlegrar stöðu er fyrirhugað að fresta virkjanaframkvæmdum. Ástæður þess eru helstar að þær eru áhættusamar og einnig að þær eiga ekki að fara fram í óskiptu búi Orkuveitunnar að mati forstjórans.
Í þessu ljósi getur það vart dulist almenningi að virkjanaáform geta verið áhættusöm, í besta falli fylgja þeim útgjöld vegna umhverfismats sem síðan getur orðið neikvætt.
Undanfarið hafa íbúum Suðurlands borist þær fréttir að bæjarstjórn Árborgar sé að athuga í fullri alvöru að ráðast í virkjanaframkvæmdir á Ölfusá fyrir ofan Selfoss. Þessi áform sveitarstjórnarinnar eru óvænt því málið var ekki á dagskrá í aðdraganda síðustu kosninga sem snerust að stórum hluta um hvernig bæri að fást við erfiða skuldastöðu sveitarfélagsins. Því er hyggilegast í ljósi aðstæðna að fresta virkjanaáformum þangað til hugur Árborgarbúa er ljós í málinu. Það er engin vissa fyrir því að meirihluti kjósenda sé hlynntur því að leggja fé í þessar framkvæmdir eða undirbúning þeirra.
Þriðjudagur, 29.3.2011
Miðjan Selfossi: Fallið frá hálfs milljarðs skaðabótakröfu
Í fundargerð 41. fundar bæjarráðs Árborgar kemur fram að sveitarfélagið kaupir sig frá skaðabótakröfu vegna svokallaðs Miðjusamnings upp á 531 milljón auk dráttarvaxta. Lögfræðilegt mat bendir til þess að sveitarfélagið kunni að vera skaðabótaskylt. Þetta gerir sveitarfélagið með því að kaupa lóðir Miðjunnar fyrir 175 milljónir króna. Með þessum kaupum er jafnframt gengið frá samkomulagi um fullnaðaruppgjör vegna Miðjusamninga og verða ekki uppi frekari kröfur á hendur sveitarfélaginu vegna þeirra segir í fundargerðinni.
Miðjusamningarnir gengu eins og kunnugt er út á uppbyggingu stórhýsa í miðbæ Selfoss á árunum fyrir hrun. Nú væri fróðlegt og upplýsandi fyrir kjósendur í Árborg ef einhver af þessum efnisatriðum yrðu gerð aðgengileg almenningi svo hægt verði að skilja hvað það var sem brást. Í þessu sambandi væri gott ef hægt væri að fá yfirlit yfir forsendur Miðjunnar og hvort um forsendubrest af hálfu sveitarfélagsins var að ræða. Síðast en ekki síst væri fróðlegt ef lögfræðimatið yrði gert opinbert.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 16.1.2011
Stjórnlagaþingmenn athugið: Beint lýðræði er raunhæfur valkostur
Árið 2008 skrifaði ég pistil um gildi þess að skila auðu í Alþingiskosningum. Ástæðan er sú að það sýnir sig aftur og aftur að stjórnmálamönnum fulltrúalýðræðisins er ekki treystandi. Annað hvort ganga þeir á bak orða sinna eða þeir gera málamiðlanir sem kjósendum þeirra hugnast ekki. Ég man t.d. eftir manni sem galt VG atvæði sitt fyrir síðust kosningar því hann er eindreginn fullveldissinni og taldi að atkvæði hans nýttist best þannig til að koma í veg fyrir aðildarumsókn að ESB. Eftirleikinn þekkja allir. Nú stuðlar atkvæði þessa manns að því að Ísland er í miðju umsóknarferli að ESB aðild.
Önnur rök eru þau að stjórnmálamenn fulltrúalýðræðisins taka gjarnan frumkvæði að íþyngjandi og stefnumarkandi ákvörðunum í heimildaleysi og án umboðs frá kjósendum. Dæmi um þetta eru nýjar hugmyndir stjórnvalda um vegatolla. Fyrir síðustu kosningar bar ekki mikið á umræðu vegatolla, a.m.k. fór hún alveg framhjá mér, en núna virðist fátt geta stöðvað þær fyrirætlanir og leitun er að því fólki sem er hlynnt vegatollum. Þetta er gott dæmi um hvernig fulltrúarnir eigna sér valdið og í raun taka sér vald sem þeir hafa ekki. Í þessu tilfelli væri sáraeinfalt að komast að vilja almennings t.d. með góðri skoðanakönnun, en það hugnast valdhöfum ekki.
Þriðju rökin má tína til en þau eru að stjórnmálamenn fulltrúalýðræðisins hafa orðið berir að því að setja hagsmuni flokksins í fyrsta sæti en hagsmuni þjóðarinnar í annað sæti. Lægra verður vart sokkið og þetta sýnir svo um villst að vankantar fulltrúalýðræðisins eru að leiða þjóðina aftur og aftur í meiriháttar vandræði.
Það má með nokkrum rökum halda því fram að fulltrúalýðræðið sé arfur síðustu þriggja alda og tími sé kominn til að nýta stórbætta samskiptatækni sem og samgöngur til að byggja upp beint lýðræði. Beint lýðræði ætti að vera eitt af verkefnum nýja stjórnlagaþingsins og vonandi verður nýja stjórnarskráin þannig upp byggð að ef um fulltrúalýðræði verði að ræða að þá geti fulltrúarnir hvorki komist upp með svik, undanbrögð né látalæti af neinu tagi gagnvart kjósendum.
Sunnudagur, 16.1.2011
Wikilekinn - nýjustu fréttir?
Mál Wikileaks hefur fengið mikla umfjöllun og athygli í fjölmiðlum hérlendis og því er eðlilegt að menn velti fyrir sér að hve miklu leyti það á erindi við landsmenn. Lánabók Kaupþings var eðlilega áhugaverð en spurning hvort rannsóknarmenn sérstaks saksóknara hefðu ekki komið höndum yfir hana hvort sem var fyrr eða síðar.
Einnig hefur komið í ljós að sendimenn Bandaríkjanna spá í stjórnmál og stjórnmálamenn þess lands sem þeir eru í og eru ýmsar lýsingar þeirra hentar á lofti. En hvað er nýtt við það? Er það ekki hlutverk sendimanna og sendiráða að verða sérfræðingar ríkisstjórnar sinnar í stjórnmálum og menningu þess lands sem þeir eru í?
Myndbandið með skotárásinni í Írak var vitaskuld hræðileg uppljóstrun og sýndi að því er virðist fram á óhugnanlegan stríðsglæp. En hvað er nýtt við stríðsglæpi? Þeir eiga sér stað í hverju einasta stríði, það er gömul saga og ný. M.a. af þeim sökum eru margir algerlega á móti hernaðarlegri valdbeitingu í hvaða formi sem hún birtist. Af þeim sökum er fjöldi manna í Bandaríkjunum og Vestur-Evrópu á móti þess háttar valdbeitingu. Í stríði getur enginn komið í veg fyrir stríðsglæpi nema hermennirnir sjálfir, það nægir ekki að hóta kæru eða símtali við sýslumanninn.
Leki myndbandsins endurspeglar kannski fyrst og fremst brotalöm í bandarísku herréttarkerfi. Það endurspeglar óánægju hermanns með framferði hersins og vantrú hans á því að herinn geti tekið á þessu máli og öðrum þeim líkum á viðunandi hátt.
Á meðan landsmenn þurfa að sameinast um endurreisn landsins þá ættu hvorki þingmenn né fréttamenn RÚV, sem allir eru á launum almennings, að blanda sér í mál af þessu tagi sem bæði koma þeim sjálfum í vandræði sem og dreifa athygli landsmanna frá nauðsynlegum verkefnum. Það að um opinbera starfsmenn er að ræða getur einnig misskilist af aðilum utan landsins.