Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Skeiðað framhjá skýjakljúfum - II

Vegna áforma um byggingarframkvæmdir Miðjunnar á Selfossi skrifaði ég 13. janúar 2007 pistilinn Skeiðað framhjá skýjakljúfum.  Þær framkvæmdir sem þá voru fyrirhugaðar komust aldrei lengra en á teikniborðið. Nú greinir Sunnlenska fréttablaðið frá því að Árborg bjóðist að kaupa land Miðjunnar á 175 milljónir.

Greint er frá því að með því að gera þessi kaup verði hugsanlegt skaðabótamál Miðjunnar á hendur sveitarfélaginu úr sögunni en þetta skaðabótamál sé tilkomið vegna þess að tillaga Miðjunnar gerði ekki ráð fyrir nægilegu byggingamagni á landinu. 

Það er illskiljanlegt út frá  frásögn blaðsins hvernig sveitarfélagið getur orðið skaðabótaskylt vegna þess að fyrirtækið, hinn aðili samningsins stendur ekki við sinn hluta.  Nú er skuldastaða Árborgar afleit og í því ljósi er líklega hyggilegast að ráðast ekki í nýjar fjárskuldbindingar.

Í sama blaði Sunnlenska er greint frá því að kostnaður sveitarfélagsins vegna Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri sé kominn yfir 800 milljónir en upphaflegur áætlaður byggingakostnaður hafi verið 477 milljónir króna. Það er ótrúlegt að þetta hús sem er á mörkum þess að geta talist stórhýsi skuli mögulega geta kostað svona mikið. Það mál þyrfti að rannsaka sérstaklega til koma í veg fyrir að hliðstæð mistök eigi sér stað aftur. 

 

 


Af hverju er skaupið svona spennandi?

Ég velti því fyrir mér af hverju áramótaskaupsins er alltaf beðið með svo mikilli eftirvæntingu og hallast helst að því að ástæðunnar sé að leita í þeirri tegund gríns sem skaupið einkennist af.  Þetta eru mestan part brandarar með pólitísku ívafi og gjarnan pólitískri ádeilu.

Ástæða þess að grín af þessari tegund er vinsælt er að öllum líkindum sú að pólitísk umræða er ófullburða hérlendis. Hún einkennist ótrúlega oft af ásökunum um fordóma eða öfgar, deilum, ádeilu eða jafnvel árásum. Af þeim sökum eru trúlega margir sem sitja á sínum skoðunum og flíka þeim ekki ótilneyddir. Þegar kemur að gríninu er umburðarlyndið meira og þar brýst þessi pólitíska spenna út og líklega líka í öðrum skapandi listum.

Skemmst er að minnast hvernig listamenn og aðrir menntamenn fyrrum Sovétríkjanna, sérstaklega rithöfundar þurftu annað hvort að að flýja land vegna ádeilu sinnar á stjórnvöld eða laga list sína að ritskoðun og rétthugsun stjórnvalda. Þá blómstruðu bókmenntir sem komu skoðunum á framfæri undir rós með einhverjum hætti. 

Af þessum sökum er það líklega ekki tilviljun að borgarstjóri Reykjavíkur er fyrrum atvinnugrínisti. Hann tók ríkan þátt í því að finna pólitískri gremju fólks farveg með list sinni og uppskar velþóknun og virðingu fólks í staðinn. Sigur flokks hans sýnir svo ekki verður um villst að sú velþóknun og aðdáun sem hann hafði unnið sér inn var af pólitískum toga, að minnsta kosti að hluta til.  

 


Forvirkar rannsóknarheimildir ætti að leyfa

Í umræðu liðinna daga hefur borið á efasemdum um nauðsyn forvirkra rannsóknarheimilda. Slíkar heimildir eru nýttar t.d. þegar fylgst er með hópum sem talið er að séu að skipuleggja glæpi. Skemmst er að minnast þess að norska lögreglan kom nýverið upp um hóp sem lagði á ráðin um sprengjutilræði. Meðan á rannsókninni stóð var hópnum sem fylgst var með m.a. afhent annað duft en þeir höfðu beðið um og var nauðsynlegt til sprengjugerðarinnar. Þó þeir hefðu getað sett sprengjuna saman þá hefði hún ekki sprungið, þökk sé hinni forvirku rannsókn.

Ef lögreglan hefur ekki svona forvirkar heimildir þá má segja að samfélagið sé ekki nægilega í stakk búið til að verjast þeim sem leggja á ráðin um og skipuleggja ofbeldisglæpi og hryðjuverk. Það að sakborningur er ekki dæmdur í fangelsi nema sekt sé sönnuð byggir á varúðarreglu sem tryggir að saklausum sé ekki refsað. Þessi varúðarregla ætti að tryggja réttarstöðu manna.

Að vísu er nokkuð skammt um liðið frá uppljóstrunum um hleranir á símum stjórnmálamanna á kaldastríðsárunum  og ekki er hægt að útiloka að svona hleranir verði misnotaðar gegn pólitískum andstæðingum, en það er spurning hvort sú áhætta verði ekki að skrifast á reikning þess að þurfa að byggja upp viðunandi varnir gegn ofbeldi og hryðjuverkum.  Til að stemma stigu við þessu væri hægt að kveða á um innra eftirlit með starfseminni. 

 


Ríkið greiðir fyrir kynskiptiaðgerðir en ekki tannréttingar

Vísir.is greinir frá því hér að hver kynskiptiaðgerð sem framkvæmd er kosti ríkissjóð um eina milljón króna. Samkvæmt fréttinni er fenginn erlendur læknir til að framkvæma fjórar slíkar aðgerðir hér heima. Aðgerðirnar flokkast undir lýtaaðgerðir.

Við þessar fréttir er ekki laust við að spurningar vakni um forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu. Lýtaaðgerðir eru ekki nauðsynlegar til að viðhalda lífi fólks en þær geta samt bætt  lífsgæði. Nú eru tannréttingar í mörgum tilfellum ekkert annað en lýtaaðgerðir en samt endurgreiðir hið opinbera mest 150 þúsund krónur vegna þeirra. Stærsta hlutann sem getur numið um 5-700 þús. króna þurfa foreldrar og aðstandendur barna að bera. 

Hverjir ætli það séu sem ákveða hvaða lýtaaðgerðir skuli greiddar af ríkinu og hverjar ekki? Eru það ráðherrar, embættismenn í ráðuneytinu, heilbrigðisstarfsfólk, eða eru það málefnahópar þeirra stjórnmálaflokka sem eru við völd hverju sinni? 


Þjóðráð til sparnaðar - 3. hluti: Kalda vatnið

Nú á vordögum bárust sú tíðindi til okkar Árborgarbúa að kaldavatnsbirgðir sveitarfélagsins færu minnkandi og við vorum vinsamlegast beðin um að spara vatn.  Þessi tíðindi koma mér ekki á óvart og ég hef reynt að fara að þessum tilmælum bæjarstarfsmanna. Nútímaíslendingar eru flestir aldir upp við að hafa alltaf yfrið nóg af köldu vatni. Það hefur ekki verið selt til einkaaðila gegn mæli heldur hefur vatnsskattur verið látinn nægja.

Vatn er eitt af auðlindum jarðar og nauðsynlegt öllu lífi. Hreint vatn er fágæti og í raun munaðarvarningur. Í ösku- og rykmekki síðustu daga hafa sumir Árborgarbúar sýnt mikinn dugnað við þvotta á bílum og öðrum eigum sínum og notað til þess eitthvert besta neysluvatn sem fáanlegt er á Suðurlandi og sem kemur úr borholum við Ingólfsfjall. 

Nú hafa tíðir þvottar á öskunni sem inniheldur litlar gleragnir og virkar því í raun sem slípimassi líklega þau áhrif að yfirborð spegilgljáandi hluta verður smátt og smátt matt og missir gljáa sinn ef nuddað er yfir efnið með kústi. Hugsanlega væri betra ekki bara frá sjónarhóli vatnssparnaðar heldur líka frá sjónarhóli þeirra sem vilja gljáann mestan og bestan til lengri tíma að þvo bíla ekki af mikilli atorku eða oft núna þessa daga á meðan öskufjúkið er hvað mest. 

Frá sjónarhóli vatnssparnaðar er líka hægt að hreinsa bíla og ná góðum árangri með því að setja vatn í bala og nota það betur frekar en að láta bununa ganga allan tímann sem hreinsunin fer fram. Það sama mætti eins segja um handþvotta og uppþvott. Í þessu sambandi má minna á að vaskar eru upprunalega ætlaðir til þannig nota, þ.e. að setja tappann í, láta vatnið renna í laugina (handlaug er annað og eldra orð yfir vask) og hefja síðan þvott. Sumir tíðka það að láta vatn renna úr krana þangað til það er orðið nægilega kalt til drykkjar. Alveg eins gott og jafnvel betra er að hafa það fyrir vana að láta vatn renna í könnu og setja hana í kæliskápinn. 

Garðaúðanir eru munaður sem margir láta eftir sér af því „nóg“ er af ómældu vatninu. Ég hef ekki lausn á því hvað gæti komið í staðinn fyrir góða úðun. Hugsanlega er hægt að láta renna í garðkönnur í stað þess að láta renna daglangt og færa til úðara. Hugsanlega væri líka hægt að gera ráðstafanir til að safna rigningarvatni til þessara hluta en ólíklegt er að fólk hugleiði slíka kosti á meðan vatnið er ekki selt í lítratali. 

Nýrri klósettskálar bjóða yfirleitt upp á vatnssparnað og er sjálfsagt að huga að því að kynna þá möguleika fyrir fjölskyldumeðlimum ef þeir hafa ekki nú þegar áttað sig á þeim. Það að fara í bað (kerlaug) er líka algengur munaður en sama árangri frá sjónarhóli þrifnaðar má ná með því að fara í sturtu. Eitt sinn þegar ég var í Danmörku heyrði ég brandara um hagsýnan mann sem sparaði með því að taka óhreina leirtauið með sér í sturtuna. Þegar það verður orðinn raunveruleiki er líklega nóg að gert í vatnssparnaði. 

 

 


Besti flokkurinn hefur framtíðarsýn

Margt hefur verið skrafað og skrifað síðustu daga vegna nýlegs kosningasigurs Besta flokksins í Reykjavík og sýnist sitt hverjum. Reynt er að finna allar mögulegar skýringar á þessari skyndilegu pólitísku pólveltu höfuðborgarinnar.  Menn hafa nefnt skýringar eins og óánægju vegna hrunsins og fleira í þeim dúr sem líklega er rétt, en það er jafnframt líklegt að skýringarnar séu fleiri.

Eitt er það sem Besti flokkurinn hefur og sem hefur komið fram í máli Jóns Gnarr en það er ákveðin og einföld framtíðarsýn eða lífsviðhorf. Það er sú sýn að lífið í borginni eigi að vera skemmtilegt þrátt fyrir allt mótlæti. Kjósendur virðast hafa sætt sig við það að bíða með að fá að vita hvernig Besti flokkurinn hyggst hrinda þessari sýn í framkvæmd enda vita menn að það er fátt leiðinlegra en brandari sem búið er að leka út og menn vita hvernig endar, eða spennusaga þar sem einhver hefur, óumbeðið sagt frá endinum. 

Ég horfði nokkrum sinnum á Jón Gnarr í aðdraganda kosninganna þar sem þessi viðhorf komu fram. Viðmót hans var áberandi annað en hinna þrautreyndu pólitísku athesta sem bitust af mikilli fimi frammi fyrir sjónvarpsvélunum. Þeir höfðu hina tæknilegu útfærslu alveg á hreinu og orðaat þeirra snérist að lang mestu leyti um tæknilegar útfærslur hinna ýmsu málefna. Áberandi var hve líkur málflutningur þeirra var og því miður fannst mér ég ekki fá skýra mynd af því hvernig þeir vildu sjá lífið í borginni, hvorki í nútíð né framtíð. 

Umræða reynsluboltanna snérist um flugvöll, leikskóla, niðurskurð, frístundaheimili, skóla eða fólk á einhverjum aldri eða sem hafði einhverja sérstaka eiginleika.  Umræðan bar því miður með sér að takmarkið væri ekki ákveðin sýn eða markmið um mannlíf heldur frekar völd og áhrif. 

Jón Gnarr og Besti flokkurinn kom inn í þetta umhverfi án þess að hafa að því er virðist  eina einustu tæknilegu lausn og alveg án þess að vilja völd valdanna vegna. Það sem var alveg skýrt frá upphafi var þeirra sérstaka, einfalda og skýra mynd og lífssýn að fólk eigi að vera glatt og að lífið í borginni eigi að vera skemmtilegt. Þrátt fyrir að engin skýr svör fengjust um hin eða þessi tæknilegu útfærsluatriði frá Jóni þá hafði hann það sem þurfti og það sem fólk vildi fá; framtíðarsýn og lífsviðhorf. Þarna kom líka inn fólk sem hafði ekki fortíð í stjórnmálum, en fortíð í stjórnmálum í dag virðist vera frekar erfiður farangur. 

Þetta lífsviðhorf og óttaleysi við að hafa ekki tæknilegar útfærslur á takteinum kristallaðist  í nokkrum meitluðum svörum frá Jóni. Þegar hann var spurður hvað honum fyndist um úrslit kosninganna sagði hann að þau væru súrrealísk og þar sem hann væri ekki sérfræðingur í súrrealisma þá ætlaði hann ekki að segja mikið. Þegar spyrillinn spurði hann um hvort það að stjórna Besta flokknum yrði eins og kattasmölun sagði hann að það vissi hann ekki því hann hefði aldrei smalað köttum! Þegar hann var spurður hvort hann vissi hvað það kostaði að flytja flugvöllinn sagði hann að hann vissi það ekki því hann hefði ekki flutt flugvöll. Þegar hann var spurður að því hvort hann ætlaði að hefja viðræður við einhvern flokkanna á kosninganóttina svaraði hann því til að hann ætlaði engar ákvarðanir að taka í nótt.  

Síðasta svarið fannst mér einkar skynsamlegt því líklegt er að ýmsar ákvarðanir stjórnvalda og stjórnmálamanna hin síðustu ár hafi verið teknar með hraði eða annars staðar en átti að taka þær. Kjósendur hafa treyst því að lífssýnin myndi fleyta Besta flokknum framhjá boðaföllum erfiðra ákvarðana og útfærsluatriða.  Megi traust þeirra bera verðugan ávöxt. 

 


Vel mælt Steingrímur!

Þessi orð Steingríms eru löngu tímabær. Það þarf ýmsu að breyta í starfsumhverfi fjölmiðla hér en samt ekki í þá veru sem hugsun fjölmiðlafrumvarpsins frá 2004 gengur út á. Samkeppnislögin ættu að duga til að hindra of mikla samþjöppun á þessum markaði eins og öðrum. Þrátt fyrir allt eru útvarpslögin skýr og kveða á um óhlutdrægni en það virðist ganga erfiðlega að framfylgja þeim af einhverjum ástæðum. Í rauninni væri heppilegast ef neytendur fjölmiðlanna gætu sjálfir séð um að veita aðhaldið en í núverandi fyrirkomulagi er RÚV tryggð bæði mikil og örugg athygli sem og fjármunir skattgreiðenda og því er aðhald neytenda erfiðleikum bundið.

Til að af þessu aðhaldi geti orðið þarf að skapa starfsumhverfi þar sem aðilar á ljósvakamarkaðnum njóta jafnræðis hvað varðar ríkisstyrki. Útvarpsgjaldinu ætti að útdeila í réttu hlutfalli við framboð fjölmiðla af íslensku efni en ekki til kostunar á erlendum sápuóperum og neytendur efnisins ættu að hafa eitthvað að segja um til hvaða fjölmiðla þeir kjósa að hluti af gjaldinu renni. Þannig ætti að vera hægt að skapa bæði jafnræði og heilbrigða samkeppni milli fjölmiðlanna og byggja upp flóru sjálfstæðra aðila sem ættu að geta verið til í langan tíma með tilheyrandi stöðugleika og án þess að búa við óöryggi vegna afkomu og yfirtöku stórra fjölmiðlasamsteypa. Slíkt fyrirkomulag myndi rétta hlut þeirra gagnvart RÚV.

Fleiri pistla um þetta efni er að finna í efnismöppunum um sjónvarp, útvarp og ríkisútvarpið á þessari síðu.

 


mbl.is Elítan vill í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er fresturinn of skammur fyrir evruna?

Í Fréttablaðinu í dag las ég að CCP telur að það geti haldið höfuðstöðvum sínum hér í tvö ár ennþá miðað við núverandi gjaldeyrishöft. Svipuð viðhorf þar sem rætt hefur verið um að best sé að opna hagkerfið með nýjum gjaldmiðli sem fyrst hefur mátt heyra í fjölmiðlum undanfarið, m.a. í Spegli RÚV nýlega.  Ef staðan er almennt þannig hjá fyrirtækjum að þau þola ekki lengur við en 2-3 ár í núverandi kerfi þá bendir það sterklega til að evran sé ekki inni í myndinni sem raunhæfur valkostur.

Þessu veldur óhjákvæmilegur tími sem aðildarumsókn að ESB hlýtur að taka, sem og tími í kjölfar þess sem fer í aðlögun hagkerfisins svo það verði hæft til að taka upp evruna. Það má vera mikil flýtimeðferð sem verður komin með Ísland inn í myntbandalag ESB áður en 2-3 ár eru liðin. Sá góði maður Benedikt Jóhannesson talaði í umræddum Spegli og lagði þar ríka áherslu að þetta þyrfti að gerast sem fyrst, annars færum við aftur á "vefstólastigið" eins og hann komst að orði.

Ég hef ekki miklar efasemdir um stöðumat Benedikts og stjórnar CCP en ég hef aftur á móti efasemdir um að tilveruna í ESB með tilheyrandi fullveldisafsali, afsali fulls forræðis yfir landbúnaðarmálum og einnig afsali yfir nýtingu sjávarauðlinda. Hvernig verður öryggismálum í ESB t.d. háttað? Mun síðar verða stofnaður Evrópuher og mun e.t.v. verða herskylda í þeim her? Verða Íslendingar þá herskyldir? Er þetta allt ásættanlegt fyrir það eitt að fá að skipta um gjaldmiðil?

Sumir ESB sinnar tala eins og þeir sjái framtíðina í kristalskúlu. Það gerðu líka þeir aðilar sem vildu koma Orkuveitu Reykjavíkur í hendur einkaaðila. Þá átti allt að gerast á leifturhraða og þá var mikið talað um mikla hagkvæmni þess að framkvæma aðgerðina. Samlíkingin er slæm. Sígandi lukka er best. Það er gott og sjálfsagt að hafa í huga að enginn, alls enginn sér framtíðina, jafnvel þó þeir hafi bestu fáanlegu tölulegar upplýsingar við höndina.

Flest bendir því til að ef ásættanleg lausn fyndist í gjaldmiðilsmálinu þá væri hægt að fara yfir ESB umræðuna á þeim rólegu nótum og á þeim tíma sem slík umræða hlýtur óhjákvæmilega að þarfnast.  

Í nýlegum pistlum: Kjósendur fái að minnsta kosti þrjá valkosti í ESB kosningum kem ég líka inn á það að ef til kosninga um ESB aðild kemur til þá þurfa þrír kostir að vera í boði, þ.e. evra í ESB, króna og svo þriðji gjaldmiðill.  Fólk verður að kjósa ESB af því að það vill ESB en ekki bara vegna þess að það vill opið hagkerfi og betri gjaldmiðil en krónuna. Annars verður um þvingaða aðild að bandalaginu að ræða.  Er breska pundið besti kosturinn? velti ég upp möguleikum breska pundsins.


Gæti Varnarmálastofnun sameinast Landhelgisgæslunni?

Heyrst hefur í umræðu og fregnir hafa borist af því að Vinstri grænir vilji leggja Varnarmálastofnun niður og færa verkefni hennar annað, m.a. til Flugstoða sem eru einkahlutafélag og Björgunarmiðstöðvarinnar í Skógarhlíð [1].

Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að í ljósi nýlegs atviks þegar tveir kjarnorkukafbátar rákust á í Biskayaflóa að nauðsyn þess að hafa eftirlit með óvæntum ferðum hernaðartækja er alltaf til staðar þó deila megi um hversu stranga eftirfylgni slíkt eftirlit þurfi að hafa. Varla þarf að útlista fyrir nokkrum þann umhverfisskaða sem kjarnorkuslys innan íslensku landhelginnar gæti haft.

Ef herveldin fá óáreitt að telja að íslenska landhelgin sé eftirlitslaust svæði, nánast eins og alþjóðlegt hafsvæði má gera ráð fyrir því að það verði álitið hagstæður staður til athafna á borð við þær sem fram fóru í Biskayaflóanum. Sú spurning hlýtur því að vakna hvort ekki sé eðlilegt ef rætt er um að leggja Varnarmálastofnun niður að heppilegra sé að sameina hana Landhelgisgæslunni og flytja verkefni hennar þangað? Þannig gæti eflaust náðst fram sparnaður með því að hafa eina yfirstjórn og eina stofnun í stað tveggja. Einnig mætti huga að því að hið mikla loftrýmiseftirlit sem fram fer er trúlega gagnslítið m.t.t. fyrirbyggjandi áhrifa og hefur í raun sömu stöðu hernaðarlega séð og heræfingar. Það sem gera þarf er að byggja upp kerfi sem gefur kost á mótvægisaðgerðum þegar vart verður við óvænt hernaðartæki eða aðra grunsamlega umferð og þá ekki bara í lofti heldur einnig í og á sjónum innan landhelginnar.

[1] http://www.visir.is/article/20081219/FRETTIR01/794207672


Kjósendur fái að minnsta kosti þrjá valkosti í ESB kosningum

Sumir stjórnmálamenn tala um að nauðsynlegt sé að sækja um aðild að ESB svo þjóðin fái að vita að hverju hún gengur hvað varðar ESB. Nú kann það að vera að margir séu hlynntir ESB aðild á þeim forsendum helstum að þar fái þjóðin tækifæri til að skipta um gjaldmiðil.

Engan af þessum ESB talsmönnum hefi ég samt heyrt ræða um nauðsyn þess að hafa fleiri kosti en evruna  í boði fyrir þá kjósendur sem vilja nýjan gjaldmiðil. Ef valið stendur bara um íslensku krónuna og evru með ESB aðild þá er líklegt að ýmsir kjósi ESB aðildina nauðugir viljugir því enginn annar gjaldmiðilskostur er í boði. Ef kosningar um aðild að ESB verða á dagskrá mun einnig í þeim sömu kosningum verða að vera búið að kanna annan nýjan valkost í gjaldeyrismálum en evru. Annars skapast hætta á að um þvingaðar kosningar verði að ræða og þjóðin missi fullveldi sitt nauðug því hún hefur ekki aðra nýja kosti í gjaldmiðilsmálum en evruna.

Þessir aðilar tala réttilega um nauðsyn þess að þjóðin fái að velja, en ef val hennar á að vera frjálst þá verður hún að hafa fleiri en tvo kosti í boði í gjaldeyrismálum, þ.e. bara krónuna eða evruna. Í síðasta pistli mínum Er breska pundið besti kosturinn? benti ég á ýmis atriði sem mæla með breska pundinu. Það er eru reyndar vísbendingar um að það sé heppilegri kandídat í gjaldeyrismálum heldur en Bandaríkjadollar. Með því að skoða málin þá má segja að hægt sé að vega og meta pund og evru þannig:

Viljum við fórna yfirráðum yfir sjávarauðlindinni sem við munum á endanum þurfa að gera ef við göngum í ESB, fyrir prósentumismuninn á núverandi útflutningi til evrusvæðisins og útflutningnum til Bretlands. En sá munur er 32% af útflutningi fyrir árið 2007 [1]. Sá munur getur trúlega sveiflast eitthvað milli ára. Til að finna út heildaráhrif þarf einnig að reikna hver ávinningur verður af því að halda forræði yfir sjávarauðlindinni í innlendri eigu. Einnig þarf að vega og meta hver verður greiðslujöfnuður Íslands m.t.t. ESB, mun ESB aðildin að endingu verða okkur dýr í formi skatta og gjalda eða munum við njóta það ríkulegra styrkja að þeir vega upp skattana? Við skulum gera okkur grein fyrir því að það eru fleiri valkostir í boði en evran og það þarf að reikna þetta dæmi til enda til að þjóðin hafi raunhæfar forsendur til frjáls vals en verði ekki þvinguð með nauðung til að kjósa ESB bara vegna þess að hún vill nýjan gjaldmiðil.

1. http://www.forsaetisraduneyti.is/media/Ymislegt/Evran.pdf


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband