Ályktanir 34. flokksþings Framsóknarmanna

Nú eru ályktanir 34. flokksþings Framsóknar komnar á netið. Í þessum ályktunum er stefna flokksins mörkuð. Mikil og góð málefnavinna átti sér stað á þinginu. Undirritaður var í nefnd þar sem fjallað var um innanríkismál og sveitarstjórnarmál. Þrátt fyrir að aðeins eitt ár væri liðið frá síðasta flokksþingi var tímabært að uppfæra ályktanirnar og sérstaklega í ljósi komandi kosninga. 

Ályktanir 34. flokksþings Framsóknarmanna

 


Frelsi til að velja lítið - mun nýtnihyggja leysa húsnæðisvandann?

Á síðustu öld og fram á þessa jókst fermetrafjöldi íbúðarhúsnæðis á hvern íbúa þrátt fyrir að á sama tíma hafi fjölskyldustærð minnkað. Í þessu felst þversögn sem erfitt er að skýra öðruvísi en að nýtnihyggja hafi vikið fyrir neysluhyggju.  Húsgögn, hús og lóðir fóru stækkandi og að líkindum hefur þessi eigna- og eyðslubólga haft sitt að segja í aðdraganda síðustu fjármálakreppu sem byrjaði sem kreppa húsnæðislánasjóða í Bandaríkjunum.

Þrátt fyrir afleiðingar kreppunnar á neysluhyggjan enn talsverð ítök. Hún kemur fram í þeirri skoðun að hlutir og húsnæði þurfi að vera stórir til að teljast boðlegir. Nóg framboð er af stórum eignum á húsnæðismarkaðnum en að sama skapi er lítið framboð af litlum eignum. [1] Lögð er áhersla á efnisleg gæði á kostnað áhugamála, frítíma og fjölskyldu.  

Sumarið 2014 birtist grein í Kvennablaðinu sem heitir Smáhýsahreyfingin.[2] Ég hvet fólk að lesa hana en þar má sjá dæmi um hvernig fólk hafnar neysluhyggjunni og kýs að lifa smátt. Að eiga val um þetta atriði er mikilvægt því í ljós kemur að því færri hluti sem fólk á því meiri frítíma hefur það. 

Það er frelsi fólgið í því að geta valið að verja ekki bestu árum ævinnar í að vinna fyrir vöxtum, verðbótum eða húsaleigu vegna vannýttra rúmmetra í of stórri íbúð. Í dag er þetta val um að fá að eiga eða leigja minna vandfundið á markaðnum. Það sést á því að í fjölmiðlum hefur komið fram að fólk á í erfiðleikum með að láta enda ná saman eftir að búið er að greiða húsaleigu- eða lán. Þetta gerist þrátt fyrir að yfir 2000 íbúðir séu til sölu á höfuðborgarsvæðinu og yfir 100 íbúðir á Selfossi. [3] 

Mín skoðun er sú að 20 milljónir fyrir nýja "litla" íbúð sé of hátt verð [4]. Stór hluti vandans er sú neysluhyggna hugmynd að 60 fermetrar sé lítið. Ég er samt ekki að segja að verðlagning íbúðanna sé röng eða ósanngjörn, húsnæðið er m.a. of dýrt af því það er of stórt. Minna ætti að geta verið ódýrara. [5] Þarna spila líka grænu sjónarmiðin inn en umhverfisfótspor húsa ætti að geta minnkað í hlutfalli við stærð.

Þessar aðstæður benda til að auka þurfi framboð lítilla húsa eða íbúða. En ef byggja á minna þá liggur frumkvæðið ekki endilega hjá ríkisvaldinu heldur fremur hjá lánastofnunum, fjárfestum, landeigendum, hönnuðum og sveitarfélögum. Landeigendur eða fjárfestar gætu ákveðið að ráða hönnuði til að deiliskipuleggja vistvæn smáhúsahverfi. Sveitarfélögin geta síðan lagt sitt af mörkum með því að yfirfara og samþykkja skipulagið. Nýlegar hugmyndir sem verið er að skoða á Hellu [6] sýna að þessi þróun er þegar hafin. 

 

[1]. Fasteignaleit mbl.is gaf mér í desember 2015: 20-60 fm: 12 eignir á Selfossi en 67 á höfuðborgarsvæðinu.  70-125 fm: 30 eignir á Selfossi en 841 á höfuðborgarsvæðinu. 150-300 fm: 58 eignir á Selfossi en 700 eignir á höfuðborgarsvæðinu. Hakað var við allar íbúðagerðir.
[2]. Kvennablaðið: http://kvennabladid.is/2014/08/14/smahysahreyfingin/ . Sjá einnig vefsíðuna http://www.tumbleweedhouses.com/ en þar eru dæmi um snjallar útfærslur smáhýsa. [3]. Skv. leitarvél Fasteignaleitar á mbl.is í desember. Allar gerðir íbúðarhúsnæðis voru valdar. 
[4]. M.v. byrjunarlaun myndi það taka 26 ár að greiða 20 m. kr. lán ef reiknað er með 0% vöxtum og verðbólgu ef gert er ráð fyrir að þriðjungur af nettólaunum (~190 þús, þ.e. uþb. 63 þús. á mán. eða samtals 760 þús. á ári.) fari í að greiða af húsnæðisláninu. Raunin er sú að þegar verðbætur og vextir bætast við fara greiðslur langt yfir þennan umrædda þriðjung. Í eftirfarandi tengli kemur einnig fram að alls eyðir fólk á al­menn­um leigu­markaði á bil­inu 30-70% af ráðstöf­un­ar­tekj­um sín­um í leigu­greiðslur. Æskilegt þyki hins veg­ar að þetta hlut­fall sé ekki yfir 20-25%: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/12/15/skekkt_mynd_af_leigumarkadi/
[5]. Sjá t.d. þennan fund: https://www.velferdarraduneyti.is/frettir-vel/nr/35308
[6]. Sunnlenska fréttablaðið, 9.des.2015 bls. 7: "Hugmyndir að umhverfisvænu smáhúsahverfi á Hellu": http://www.sunnlenska.is/frettir/18157.html

 


Heimurinn er enn í sköpun

Þetta álit sem Fry hefur á Guði segir meira um ófullburða guðshugmynd hans en Guð. Hann virðist t.d. ekki gera ráð fyrir því að heimurinn sé ennþá í sköpun og þróun. Þannig séð geta hugmyndir okkar um algóðan, alvitran og al-fallegan Guð átt þátt í því að beina þróuninni inn á ákveðnar brautir, til dæmis þá braut að hvetja okkur til að gerast þátttakendur í sköpuninnni og sköpunarverkinu. Ein leið til þessarar þátttöku er sú að reyna að finna lækningu við beinkrabbameini. Þannig séð verður illska og böl heimsins sérstök áskorun á hendur mannkyninu, áskorun sem verður að svara. Hver mínúta sem varið er annað hvort til góðs eða ills vegur mun þyngra í þannig heimi heldur en í heimi þar sem ekki er gert ráð fyrir Guði.


mbl.is „Guð er vitfirringur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Færa má langbylgjuna yfir á miðbylgju (AM)

Hægt væri að færa langbylgjusendingarnar yfir á miðbylgju (AM). Flest útvarpsviðtæki eru með þeim möguleika enn þann dag í dag. Miðbylgjusendingarnar eru að vísu ekki jafn langdrægar og langbylgjan en til að mæta því mætti e.t.v. auka afl sendanna. Að líkindum er ekki dýrt að breyta Gufuskálasendinum sem og þeim á Eiðum því aðeins þarf að breyta tíðni útsendingarinnar. Síðar mætti svo athuga að bæta við tveim AM sendum í viðbót, einum á Suðurlandi og einum á Norðurlandi. Líklega er hægt að fá svona búnað notaðan í dag, þar sem margar stöðvar eru að skipta yfir í stafrænt. 

Sjá einnig blogg mitt um málefni langbylgjunnar frá árinu 2008: http://ragnargeir.blog.is/blog/ragnargeir/entry/687892/ 
Yfirlit yfir önnur blogg mín um Ríkisútvarpið: http://ragnargeir.blog.is/blog/ragnargeir/category/1661/ 


mbl.is Langbylgjan nauðsynleg landsmönnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ákvarðanir stjórnvalda þurfa að standa

Kjörnir fulltrúar eiga að láta hagsmuni, lög og reglur samfélagsins hafa forgang. Stöðug stjórnsýsla stuðlar að friði í samfélaginu og er forsenda áætlanagerðar. Stjórnvald sem tekur til baka ákvarðanir sínar, til dæmis lóðaúthlutun eða stöðvar framkvæmdir án fullnægjandi rökstuðnings veldur óvissu eða óróa. Þess vegna gæti þurft að klára ókláruð en ósjálfbær verkefni eins og t.d. að klára hálfbyggð glæsihús. Framkvæmdaleyfi og lóðaúthlutanir eru samt skilyrðum háð. Ef þessi skilyrði eru ekki uppfyllt er vitaskuld hægt að afturkalla leyfi. Þá er líka leikreglum fylgt. En ef skilyrðin eru uppfyllt er óhyggilegt að valda róti með afturköllun leyfis.

Byggjum grænt

Ennþá tíðkast að opinberir aðilar byggi ósjálfbær glæsihús á kostnað almennings. Það gefur slæmt fordæmi og ýtir undir neysluhyggju. Ef dæmið er skoðað í víðu samhengi þá er ekki víst að nýbyggingar séu eins hagkvæmar og talið er, sér í lagi ef hönnun þeirra og val á byggingarefnum tekur ekki tillit til umhverfisáhrifa. Í öllum byggingum felst ákveðið umhverfisfótspor sem kemur ekki fram á reikningum en er samt inni í hinum stóra reikningi sem samfélagið þarf að greiða þegar til lengri tíma er litið. Gömlu húsin eru gjarnan timburhús sem oft er hægt að lagfæra eða endurbyggja.

Heimanám er tækifæri til samveru

Sumir segja að foreldrar eigi ekki að þurfa að aðstoða við heimanám barna. Þau komi heim úrvinda af þreytu og foreldrarnir sömuleiðis. Því er athugandi að skipuleggja heimanám þannig að það íþyngi ekki heldur gefi tækifæri til dálítillar samveru. Aðstæður fólks eru mismunandi en í flestum tilfellum eru tvö til þrjú börn á fjölskyldu og ef frístundaiðja er miðuð við eitt viðfangsefni fyrir hvert barn ætti að vera hægt að finna nokkrar mínútur fyrir heimanám öðru hverju. Það gefur foreldrunum tækifæri til samveru við börnin auk þess að fá innsýn í námið.



Helgidómarnir eru fallegir

Helgidómar trúfélaga eru yfirleitt fegurstu byggingar hvers svæðis. Þeir laða fólk að sér ekki bara til trúarlegra athafna heldur einnig ferðamenn sem njóta fagurs handverks, lista og menningar sem þar er gjarnan að finna. Hvert sem farið er í menningarborgum heimsins eru helgidómar trúarinnar yfirleitt miðlægir og sýnilegir en ekki faldir bakatil. Fólkið sem á svæðinu býr er oftast nær stolt af þeim og hefur tilfinningar til þeirra vegna þess hlutverks sem trúin gegnir. Veraldarhyggja vorra daga vill að helgidómarnir hverfi frá miðlægum svæðum en lætur vera að segja okkur hvað eigi að koma í staðinn.

Líflegir miðbæir

Í skipulagsmálum Árborgar horfum við í Framsókn á sérstöðu byggðakjarnanna. Þeir hafa byggst upp í kringum verslun, þjónustu, fiskveiðar eða iðnað þó margt hafi breyst í því sambandi. Við viljum varðveita hefðina og byggja með tilliti til þess stíls og þeirrar hönnunar sem þegar er fyrir og hefur fengið að þróast. Framtíðarsýn okkar felur í sér líflega miðbæi þar sem blómlegur markaður, græn svæði, menningarstarfsemi, afþreying og þjónusta þrífst innan göngufæris frá miðpunkti. Þannig verða bæirnir okkar aðlaðandi og skemmtilegir bæði fyrir okkur sem hér búum sem og gestina sem hingað koma.


Eggert Ólafsson var grænn

 

Fyrir mig einn ég ekki byggi,
afspring heldur og sveitunginn,
eftir mig vil ég verkin liggi,
við dæmin örvast seinni menn;
ég brúa, girði, götu ryð,
grönnunum til þess veiti lið.

Svo hljóðar erindi í Búnaðarbálki Eggerts Ólafssonar sem ortur er um 190 árum áður en hugtakið sjálfbær þróun var skilgreint árið 1987 í skýrslu Sameinuðu þjóðanna. Vísbendingum fjölgar um að lífshættir séu ósjálfbærir og við eigum að búa í haginn fyrir næstu kynslóðir, skila ekki bara jörðinni í viðunandi ástandi heldur einnig efnahag og menningu. Framsókn vill skynsamlega og sjálfbæra nýtingu á gæðum jarðar sem skaðar ekki hagsmuni komandi kynslóða.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband