Bloggfærslur mánaðarins, júní 2010
Fimmtudagur, 10.6.2010
Framtíðarfyrirkomulag almannaútvarps þarf að hugsa frá grunni
Stjórn RÚV virðist ekki gera sér grein fyrir því að grundvöll almannaútvarpsins á Íslandi þarf að hugsa upp á nýtt. Með núverandi fyrirkomulagi tekst almannaútvarpinu ekki að rækja lýðræðislegt öryggishlutverk sitt, ég bendi á pistlana Ljósvakinn og lýðræðið, Um hlutverk ríkisvaldsins: Hvernig á að þekkja svanasöng stofnunar? , Framtíðin í ljósvakamálum, og Fjölmiðlarnir, nú þarf að endurræsa, Nú er lag fyrir stjórnvöld að jafna hlut allra ljósvakastöðva, Aðalbjörg Sigurðardóttir um RÚV 1944 og Amy Goodman - orð í tíma töluð í og fyrir RÚV til að nefna nokkra. Fyrir hrun gerðist það ítrekað og það gerist enn að ráðamenn fái að mæta og verja sjónarmið sín gegn spurningum aðeins eins viðmælanda. Einn viðmælandi getur að sjálfsögðu aldrei komið í staðinn fyrir hóp fréttamanna sem ættu að fá að taka leiðtogann á beinið. Fákeppni á fjölmiðlamarkaði hlýtur alltaf að stuðla að lýðræðislegum sofandahætti, menningalegri fábreytni og elítustjórn. Líkur benda til að önnur öryggissjónarmið með starfsemi RÚV séu einnig ekki nógu traust, sjá pistlana Um öryggishlutverkið og langdrægni sendinga,og Óviðunandi frammistaða RÚV í óveðrinu á Austurlandi. Ýmislegt bendir einnig til að menningarleg markmið með starfsemi RÚV hafi ekki náðst á undanförnum árum, sjá pistlana Menningarlegt sjálfstæði landsbyggðarinnar er brýnt, Styrkir til fleiri aðila en RÚV stuðla að jafnræði í menningarmálum, Hlúa þarf betur að hljóðrituðum menningararfi, og RÚV - menningarleg Maginotlína til að nefna nokkra.
Það sem þarf er ný sýn, ný hugsun sem byggir á jafnræði ljósvakamiðla, menningarlegri fjölbreytni og menningarlegu sjálfstæði landsbyggðarinnar sem og uppfærðri áætlun hvað varðar öryggishlutverkið.
Eðlisbreyting á starfsemi RÚV | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 6.6.2010
Ríkið greiðir fyrir kynskiptiaðgerðir en ekki tannréttingar
Vísir.is greinir frá því hér að hver kynskiptiaðgerð sem framkvæmd er kosti ríkissjóð um eina milljón króna. Samkvæmt fréttinni er fenginn erlendur læknir til að framkvæma fjórar slíkar aðgerðir hér heima. Aðgerðirnar flokkast undir lýtaaðgerðir.
Við þessar fréttir er ekki laust við að spurningar vakni um forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu. Lýtaaðgerðir eru ekki nauðsynlegar til að viðhalda lífi fólks en þær geta samt bætt lífsgæði. Nú eru tannréttingar í mörgum tilfellum ekkert annað en lýtaaðgerðir en samt endurgreiðir hið opinbera mest 150 þúsund krónur vegna þeirra. Stærsta hlutann sem getur numið um 5-700 þús. króna þurfa foreldrar og aðstandendur barna að bera.
Hverjir ætli það séu sem ákveða hvaða lýtaaðgerðir skuli greiddar af ríkinu og hverjar ekki? Eru það ráðherrar, embættismenn í ráðuneytinu, heilbrigðisstarfsfólk, eða eru það málefnahópar þeirra stjórnmálaflokka sem eru við völd hverju sinni?
Laugardagur, 5.6.2010
Þjóðráð til sparnaðar - 3. hluti: Kalda vatnið
Nú á vordögum bárust sú tíðindi til okkar Árborgarbúa að kaldavatnsbirgðir sveitarfélagsins færu minnkandi og við vorum vinsamlegast beðin um að spara vatn. Þessi tíðindi koma mér ekki á óvart og ég hef reynt að fara að þessum tilmælum bæjarstarfsmanna. Nútímaíslendingar eru flestir aldir upp við að hafa alltaf yfrið nóg af köldu vatni. Það hefur ekki verið selt til einkaaðila gegn mæli heldur hefur vatnsskattur verið látinn nægja.
Vatn er eitt af auðlindum jarðar og nauðsynlegt öllu lífi. Hreint vatn er fágæti og í raun munaðarvarningur. Í ösku- og rykmekki síðustu daga hafa sumir Árborgarbúar sýnt mikinn dugnað við þvotta á bílum og öðrum eigum sínum og notað til þess eitthvert besta neysluvatn sem fáanlegt er á Suðurlandi og sem kemur úr borholum við Ingólfsfjall.
Nú hafa tíðir þvottar á öskunni sem inniheldur litlar gleragnir og virkar því í raun sem slípimassi líklega þau áhrif að yfirborð spegilgljáandi hluta verður smátt og smátt matt og missir gljáa sinn ef nuddað er yfir efnið með kústi. Hugsanlega væri betra ekki bara frá sjónarhóli vatnssparnaðar heldur líka frá sjónarhóli þeirra sem vilja gljáann mestan og bestan til lengri tíma að þvo bíla ekki af mikilli atorku eða oft núna þessa daga á meðan öskufjúkið er hvað mest.
Frá sjónarhóli vatnssparnaðar er líka hægt að hreinsa bíla og ná góðum árangri með því að setja vatn í bala og nota það betur frekar en að láta bununa ganga allan tímann sem hreinsunin fer fram. Það sama mætti eins segja um handþvotta og uppþvott. Í þessu sambandi má minna á að vaskar eru upprunalega ætlaðir til þannig nota, þ.e. að setja tappann í, láta vatnið renna í laugina (handlaug er annað og eldra orð yfir vask) og hefja síðan þvott. Sumir tíðka það að láta vatn renna úr krana þangað til það er orðið nægilega kalt til drykkjar. Alveg eins gott og jafnvel betra er að hafa það fyrir vana að láta vatn renna í könnu og setja hana í kæliskápinn.
Garðaúðanir eru munaður sem margir láta eftir sér af því nóg er af ómældu vatninu. Ég hef ekki lausn á því hvað gæti komið í staðinn fyrir góða úðun. Hugsanlega er hægt að láta renna í garðkönnur í stað þess að láta renna daglangt og færa til úðara. Hugsanlega væri líka hægt að gera ráðstafanir til að safna rigningarvatni til þessara hluta en ólíklegt er að fólk hugleiði slíka kosti á meðan vatnið er ekki selt í lítratali.
Nýrri klósettskálar bjóða yfirleitt upp á vatnssparnað og er sjálfsagt að huga að því að kynna þá möguleika fyrir fjölskyldumeðlimum ef þeir hafa ekki nú þegar áttað sig á þeim. Það að fara í bað (kerlaug) er líka algengur munaður en sama árangri frá sjónarhóli þrifnaðar má ná með því að fara í sturtu. Eitt sinn þegar ég var í Danmörku heyrði ég brandara um hagsýnan mann sem sparaði með því að taka óhreina leirtauið með sér í sturtuna. Þegar það verður orðinn raunveruleiki er líklega nóg að gert í vatnssparnaði.
Laugardagur, 5.6.2010
Besti flokkurinn hefur framtíðarsýn
Margt hefur verið skrafað og skrifað síðustu daga vegna nýlegs kosningasigurs Besta flokksins í Reykjavík og sýnist sitt hverjum. Reynt er að finna allar mögulegar skýringar á þessari skyndilegu pólitísku pólveltu höfuðborgarinnar. Menn hafa nefnt skýringar eins og óánægju vegna hrunsins og fleira í þeim dúr sem líklega er rétt, en það er jafnframt líklegt að skýringarnar séu fleiri.
Eitt er það sem Besti flokkurinn hefur og sem hefur komið fram í máli Jóns Gnarr en það er ákveðin og einföld framtíðarsýn eða lífsviðhorf. Það er sú sýn að lífið í borginni eigi að vera skemmtilegt þrátt fyrir allt mótlæti. Kjósendur virðast hafa sætt sig við það að bíða með að fá að vita hvernig Besti flokkurinn hyggst hrinda þessari sýn í framkvæmd enda vita menn að það er fátt leiðinlegra en brandari sem búið er að leka út og menn vita hvernig endar, eða spennusaga þar sem einhver hefur, óumbeðið sagt frá endinum.
Ég horfði nokkrum sinnum á Jón Gnarr í aðdraganda kosninganna þar sem þessi viðhorf komu fram. Viðmót hans var áberandi annað en hinna þrautreyndu pólitísku athesta sem bitust af mikilli fimi frammi fyrir sjónvarpsvélunum. Þeir höfðu hina tæknilegu útfærslu alveg á hreinu og orðaat þeirra snérist að lang mestu leyti um tæknilegar útfærslur hinna ýmsu málefna. Áberandi var hve líkur málflutningur þeirra var og því miður fannst mér ég ekki fá skýra mynd af því hvernig þeir vildu sjá lífið í borginni, hvorki í nútíð né framtíð.
Umræða reynsluboltanna snérist um flugvöll, leikskóla, niðurskurð, frístundaheimili, skóla eða fólk á einhverjum aldri eða sem hafði einhverja sérstaka eiginleika. Umræðan bar því miður með sér að takmarkið væri ekki ákveðin sýn eða markmið um mannlíf heldur frekar völd og áhrif.
Jón Gnarr og Besti flokkurinn kom inn í þetta umhverfi án þess að hafa að því er virðist eina einustu tæknilegu lausn og alveg án þess að vilja völd valdanna vegna. Það sem var alveg skýrt frá upphafi var þeirra sérstaka, einfalda og skýra mynd og lífssýn að fólk eigi að vera glatt og að lífið í borginni eigi að vera skemmtilegt. Þrátt fyrir að engin skýr svör fengjust um hin eða þessi tæknilegu útfærsluatriði frá Jóni þá hafði hann það sem þurfti og það sem fólk vildi fá; framtíðarsýn og lífsviðhorf. Þarna kom líka inn fólk sem hafði ekki fortíð í stjórnmálum, en fortíð í stjórnmálum í dag virðist vera frekar erfiður farangur.
Þetta lífsviðhorf og óttaleysi við að hafa ekki tæknilegar útfærslur á takteinum kristallaðist í nokkrum meitluðum svörum frá Jóni. Þegar hann var spurður hvað honum fyndist um úrslit kosninganna sagði hann að þau væru súrrealísk og þar sem hann væri ekki sérfræðingur í súrrealisma þá ætlaði hann ekki að segja mikið. Þegar spyrillinn spurði hann um hvort það að stjórna Besta flokknum yrði eins og kattasmölun sagði hann að það vissi hann ekki því hann hefði aldrei smalað köttum! Þegar hann var spurður hvort hann vissi hvað það kostaði að flytja flugvöllinn sagði hann að hann vissi það ekki því hann hefði ekki flutt flugvöll. Þegar hann var spurður að því hvort hann ætlaði að hefja viðræður við einhvern flokkanna á kosninganóttina svaraði hann því til að hann ætlaði engar ákvarðanir að taka í nótt.
Síðasta svarið fannst mér einkar skynsamlegt því líklegt er að ýmsar ákvarðanir stjórnvalda og stjórnmálamanna hin síðustu ár hafi verið teknar með hraði eða annars staðar en átti að taka þær. Kjósendur hafa treyst því að lífssýnin myndi fleyta Besta flokknum framhjá boðaföllum erfiðra ákvarðana og útfærsluatriða. Megi traust þeirra bera verðugan ávöxt.
Föstudagur, 4.6.2010
Gufugleypirinn getur nýst sem lofthreinsibúnaður
Föstudagur, 4.6.2010
Sungið á íslensku; metnaðarfull ákvörðun útvarpsstjóra
Sú ákvörðun Páls Magnússonar útvarpsstjóra að lögin sem taka þátt í Söngvakeppni sjónvarpsins verði á íslensku lýsir metnaði og framtíðarsýn fyrir RÚV sem vert er að hrósa. Að sjálfsögðu á það fé sem rennur til stofnunarinnar að renna til eflingar innlendu efni og dagskrárgerð. Ef einhver saknar erlendu laganna þá er yfrið nóg framboð af söngvum til á erlendum málum til að bæta úr þeirri þörf.
Sóknarfæri á sviði menningarinnar hljóta að liggja í að nýta sérstöðu hennar og sérkenni. Til hamingu með þetta Páll!
Eurovision-lögin á íslensku | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)