Aðalbjörg Sigurðardóttir um RÚV árið 1944

Aðalbjörg Sigurðardóttir (1887-1974)  [1] var ein af áhrifamestu kvenréttindakonunum á fyrri hluta 20. aldar og hún beitti kröftum sínum einnig í þágu fræðslu- og skólamála. Árið 1944 bauð Ríkisútvarpið Aðalbjörgu að flytja erindi um starfsháttu þess og "koma með aðfinningar ef ég væri ekki ánægð"[2].  Þættir úr útvarpserindi Aðalbjargar birtust í Útvarpstíðindum 6.  árg. 11. og 12. hefti í febrúar-mars árið 1944. Erindi Aðalbjargar er fróðleg lesning öllum þeim sem áhuga hafa á sögu Ríkisútvarpsins og einnig er stöðumat Aðalbjargar á stofnuninni athyglisvert og gefur góða heimild um viðhorf óháðrar menntakonu til stofnunarinnar á þessum tíma.

Í erindi sínu kom Aðalbjörg víða við og fjallaði m.a. um Íslendingasögur, íslenskt mál, þuli, raddir kvenna og afstöðu til kvenna í RÚV, þar koma ýmsir athyglisverðir punktar fram sem áhugafólk um sögu jafnréttisbaráttu kvenna gætu haft talsverðan áhuga á. En það er þegar hún víkur að kosningum í útvarpsráð sem hún kemur að einum athyglisverðasta punktinum. Hún segir:

Ég hef geymt þar til síðast að tala um það, sem ég og reyndar fjölda margir aðrir telja aðalgallann á fyrirkomulagi útvarpsins, og sem hneppir það í svo þröngan stakk ófrelsisins, að manni finnst oft ekki viðunandi. Ríkisútvarp Íslands tók til starfa árið 1930 í desember. Útvarpsráð, sem þá og jafnan síðan hefur ráðið dagskrá útvarpsins, var framan af kosið af útvarpsnotendum. Sjálfsagt hafa ýmis mistök orðið á þessum fyrstu árum útvarpsins, enda óhugsandi annað á meðan alla reynslu vantaði. Ég fullyrði þó, að útvarpsnotendur stóðu þá í miklu lífrænna sambandi við útvarpið en þeir eru nú, það var þeirra stofnun, gagnrýni í sambandi við það var ekki þýðingarlaus, því á þeim degi, sem kosið var í útvarpsráð, var þó að minnsta kosti hægt að sýna vilja sinn og leggja lóð í vogarskálina um framtíðarstefnu útvarpsins.  Síðar voru þessi dýrmætu réttindi tekin af útvarpsnotendum og kosning í útvarpsráð fengin í hendur ráðandi stjórnmálaflokkum. Menn, sem þannig eru kosnir af flokkunum, telja sig fyrst og fremst bera ábyrgð gagnvart þeim, það er ætlast til þess af þeim að þeir séu sí og æ að hugsa um hagsmuni flokksins, og á varðbergi fyrir hann. Verður þetta auðvitað sérstaklega áberandi, ef í odda sker með einhver mál, þá er það flokkurinn eingöngu sem ræður. Eins og kunnugt er fara þessar kosningar í útvarpsráð fram á Alþingi, eins og kosningar í margar aðrar merkilegar nefndir, sem mikil ábyrgðarstörf eiga að hafa með höndum, og stendur fulltrúatala hvers flokks í hlutfalli við þingmannafjölda hans. Margir þeirra manna, sem þannig eru kosnir, hafa áður svo umsvifamiklum störfum að gegna, að ekki er á bætandi. Mundu þeir verða að vinna helst allan sólarhringinn að minnsta kosti, ef þeir ættu að komast nokkurn veginn yfir þau, en mér skilst að störf útvarpsráðs útheimti í raun og veru mjög mikinn tíma, ef vel ætti að vera. Við þetta bætist svo, að það sýnist stundum vera siður flokkanna að veita gæðingum sínum uppreisn með því að setja þá í einhver trúnaðarstörf, ef álitið er að þeir hafa beðið einhvern opinberan hnekki. Má nærri geta, hversu óheppilegt þetta allt er fyrir þá stofnun eða það starf sem leysa á af hendi, og þar sem engin önnur sjónarmið en hagur stofnunarinnar eða starfsins ætti að ráða. Að vísu ber því ekki að neita, að ágætir menn hafa verið kosnir og geta verið kosnir í útvarpsráð á þennan hátt, en þeir mundu þó njóta sín miklu betur, ef þeir hefðu aðra umbjóðendur en stjórnmálaflokkana. Vera má, að finna mætti einhverja nýja leið til kosningar í útvarpsráð, það væri sannarlega vert að athuga, því því miður voru stjórnmálaflokkarnir líka farnir að hafa óheilnæm afskipti af kosningum útvarpsnotenda í útvarpsráð.

Við þessi orð bæta síðan ritstjórarnir Gunnar M. Magnúss og Jón úr Vör:

Við viljum eindregið taka undir þessa áskorun frúarinnar og einkum þó hvað snertir lögin um skipun útvarpsráðs. Útvarpið er fyrst og fremst menntasetur, og það er misskilningur að stjórnmálagarpar og alþingiskandídatar séu öðrum betur fallnir til að vera þar innanbúðar. Það er látið svo í veðri vaka að þeir séu þar til að gæta hlutleysis. En það er óþarft. Engin menntastofnun starfar jafn bókstaflega fyrir opnum tjöldum og er berskjaldaðri fyrir allri gagnrýni. Í útvarpsráði eiga að vera fastir embættismenn, sem vinna þar störf sín alla daga og bera ábyrgð fyrir alþjóð, sem líka h[e]fur alla stund á þeim vakandi augu og eyru.

Við þetta er engu að bæta en það er í rauninni ótrúlegt að enn þann dag í dag, árið 2007 eða 63 árum eftir að erindi Aðalbjargar var flutt og ritstjórar Útvarpstíðinda tóku svo heilshugar undir skuli Ríkisútvarpið enn ekki vera laust undan þeim grunsemdum að vera taldir "léttvægir taglhnýtingar stjórnvalda" eins og einn bloggvinur minn tók til orða fyrir örfáum dögum.

Að lokum tek ég fram að gagnrýni mín á RÚV beinist ekki að þeim ágætu einstaklingum sem þar vinna og hafa unnið og ekki að því góða starfi sem þar hefur verið unnið því þar hefur margt gott verið gert heldur beinist hún að fyrirkomulagi og lagaumhverfi stofnunarinnar. Minn punktur er sá að ef öðruvísi hefði verið staðið að málum og farið að ráðum þeirra Aðalbjargar Sigurðardóttur, Gunnars M. Magnúss og Jóns úr Vör strax árið 1944 þá væri íslensk menning enn betur undir það búin að mæta þeim áskorunum sem hún þarf að mæta en hún er í dag.

[1] http://www.hi.is/~jtj/vefsidurnemenda/Konur/adalbjorgs.htm
[2] Útvarpstíðindi6.árg. 11. hefti árið 1944 bls. 190.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Gaman og gott að fá þetta innlegg.

María Kristjánsdóttir, 6.11.2007 kl. 22:31

2 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir innlitið María. Já ég blaðaði í Útvarpstíðndum frá '44 og fannst þetta efni eftir Aðalbjörgu vera með því athyglisverðara þarna að því sem snéri að málefnum RÚV.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 10.11.2007 kl. 23:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband