Færsluflokkur: Sjónvarp

Tímabær starfshópur um málefni RÚV

Í fréttum síðustu viku var greint frá því að menntamálaráðherra hefði sett á laggirnar starfshóp um málefni RÚV. Starfshópur þessi á annars vegar að fjalla um stöðu RÚV á auglýsingamarkaði og hins vegar að fjalla um eignarhald á öðrum fjölmiðlum. Þetta er þarft og tímabært framtak hjá ráðherranum og ber að lofa. Gera má ráð fyrir að starfshópur þessi láti langtímasjónarmið móta starfshætti sína og taki tillit til ýmissa sjónarmiða stjórnarskrárinnar svo sem jafnræðisreglu. Í því sambandi þarf að huga að því að ríkið styrki menningarstarfsemi annarra fjölmiðla svo ekki þurfi að koma til samþjöppunar á eignarhaldi þeirra sem gæti stangast á við samkeppnislög. Þar með myndi verða lagður grunnur að fjölbreyttri flóru sjálfstæra en stöndugra fjölmiðla sem gætu haft samstarf t.d. um rekstur fréttastofu og með ríkisstyrk væri hægt að tryggja að innlendri menningu yrði sýndur sá sómi sem löngu er tímabær. Með þessu móti væri komið í veg fyrir að fjöreggi ljósvakamenningarinnar verði komið fyrir hjá einum aðila sem er viðhorf sem hefur sýnt sig að duga illa, jafnvel svo mjög að hægt er að tala um Menningarlega Maginotlínu þar sem RÚV- Sjónvarpið er.

Stórskemmtileg Eivör í Góðu kvöldi Sjónvarpsins

Laugardagskvöldið 15. 11. sl. var færeyska söngkonan Eivör Pálsdóttir gestur Ragnhildar Steinunnar í skemmtiþættinum Góðu kvöldi. Eivör er greinilega hæfileikaríkur og fjölhæfur listamaður og það sem gerði þennan þátt líka eftirminnilegan var flutningur hennar á færeyskum þjóðlögum. Sungnar sagnaþulur og sagnadansar er að heita má horfið úr menningu okkar en lifir enn í Færeyjum. Við eigum að vísu enn rímurnar þrátt fyrir að þær hafi legið undir ámæli menningarvita þjóðarinnar í um 170 ár eða frá því Jónas Hallgrímsson hóf andóf gegn þeim sem hefur staðið þeim fyrir þrifum í menningarlegu tilliti allar götur síðan. Sagnadansar og vikivakar fóru sömu leið og líklega af sömu ástæðum, þ.e. leiðandi andans mönnum þjóðarinnar féllu þeir ekki í geð og því fór sem fór. Það má því segja að túlkun Eivarar á hinum fornu sagnaljóðum opni okkur dýrmæta sýn inn í fortíð okkar og uppruna, sýn sem tekin hefur verið frá okkur. Mér sárnaði því mjög þegar þáttastjórnandinn tilkynnti að auglýsingahlé yrði gert á útsendingunni einmitt þegar færeyski dansinn var byrjaður að duna og hléið varði á meðan dansað var. Þetta var ótrúleg óvirðing bæði við list Eivarar sem og færeysku og forn-norrænu dansmenninguna. Andlegir leiðtogar sjónvarpsins hafa því greinilega lítt þokast áleiðis í átt til nútímans hvað varðar viðhorf til þessara dansmenningar og talið að hún yrði best geymd bakvið auglýsingar. Að sjálfsögðu átti að taka upp þráðinn frá því sem frá var horfið og leyfa sjónvarpsáhorfendum að sjá þennan dans og heyra danskvæðið kveðið, það hefði verið verðug uppreisn æru þessa merkilega menningarforms.

Fjölmiðlarnir - nú þarf að endurræsa

Stundum gerist það í tölvum að kerfið verður svo laskað í keyrslu að ekki dugir neitt annað en endurræsing. Þá er ýtt á "Reset" takkann eða bara slökkt og svo er kveikt aftur og þá næst upp keyrslufrítt kerfi sé ekkert að tölvunni á annað borð.

Atburðir síðustu vikna benda til að ekki þurfi bara að  endurræsa sumt í efnahags- og stjórnkerfinu okkar heldur líka þá umgjörð sem fjölmiðlum er búin. Til að gera það þarf trúlega að endurskoða samkeppnislögin til að fyrirbyggja fákeppni, of mikinn samruna sem og að endurskoða útvarpslögin og þann ramma sem RÚV vinnur eftir. Því miður hefur skort skýra framtíðarsýn stjórnmálaflokkanna í þessum málaflokki og skyndiplástrahugsunin er allsráðandi. Og það eru gamlir skyndiplástrar. Í leiðara MBL frá 8. nóv. sl. er því haldið fram að best færi á því að RÚV færi af auglýsingamarkaði og nýtti þá peninga sem það fær frá skattgreiðendum til að sinna almannaþjónustuhlutverkinu. Við þetta er helst að athuga að nú þegar fær RÚV háar fjárhæðir frá skattgreiðendum og einnig að aðrir ljósvakamiðlar hafa staðið sig ágætlega í almannaþjónustu. Það er vandséð að RÚV geti dregið úr eyðslunni m.v. núverandi útvarpslög og það er líka vandséð að RÚV setji stefnuna fyrir alvöru á almannaþjónustuna. Til þess er stofnunin of upptekin af því að hafa ofan af fyrir landsmönnum, enda mælt svo fyrir um í skyndiplásturslögum frá 2007, lögum þar sem fátt er gert annað en að spinna hinn bráðum 80 ára gamla þráð um RÚV með nýju bandi.

  6. Að flytja fjölbreytt skemmtiefni við hæfi fólks á öllum aldri. Sérstaklega skal þess gætt að hafa á boðstólum fjölbreytt efni við hæfi barna, jafnt í hljóðvarpi sem sjónvarpi.[1]

Við skemmtum okkur því á hverju kvöldi lesendur góðir í boði ríkisins og sérlega vel um helgar þegar hin bráðskemmtilega Spaugstofa kemur á skjáinn. En er þetta í alvöru það sem við viljum fá frá hinu opinbera? Viljum við láta skemmta okkur og segja okkur fréttir í 100% boði stjórnvalda?  Eins og ég hef oft bent á þá er það að líkindum fjölbreytnin sem tryggir öruggasta, óháðasta og ferskasta fjölmiðlun en hana skortir m.a. vegna stærðar og umfangs RÚV ekki bara á auglýsingamarkaði heldur líka á skemmti- og afþreyingarmarkaðnum. Í síðasta pistli mínum um ljósvakamiðla setti ég fram hugmyndir um hvað hægt er að gera í kjölfar endurræsingar á starfsumhverfi fjölmiðla en það er í stuttu máli á þá leið að ríkið á að gæta jafnræðisreglu hvað varðar fjölmiðla sem og aðra og úthluta þeim fjármunum jafnt mt.t. framboðs þeirra af menningarefni og þá helst innlendu. RÚV getur sem best verið til áfram og þá sem almannaþjónustustöð með höfuðáherslu á öryggishlutverkið. Sjá nýlega pistla um það málefni, og þá helst þennan: [Tengill]

Ég tek fram að ég álít að starfsfólk RÚV vinni gott starf og gagnrýni minni er ekki beint gegn því heldur ábyrgðaraðilum stöðvarinnar sem eru ríkisvaldið, Alþingi og að endingu við sjálf lesendur góðir sem höfum með þögulli meðvirkni látið leiða okkur allt of lengi þessa gömlu leið.

[1] Lög um Ríkisútvarpið, 3. febrúar 2007.


Nú er lag fyrir stjórnvöld að jafna hlut allra ljósvakastöðva

Það má segja að það sé óeðlilegt hvað alla markaði varðar að þar ríki fákeppni. Samkeppnislög ættu því að nægja til að hindra of mikinn samruna á þessum markaði og ef þau duga ekki þá þarf að laga samkeppnislögin. Allir aðilar eiga að vera jafnir fyrir lögunum og því ætti að gæta þess líka að RÚV verði ekki of ráðandi t.d. á sjónvarpsmarkaðnum. Allir ljósvakamiðlar eiga einfaldlega að sitja við sama borð hvað varðar framlög frá ríkinu. Einn þessara miðla getur sem best verið í eigu ríkisins, þ.e. RÚV og þá á þeim forsendum að tryggja þurfi öryggi almennings og dreifingu til fjarlægra staða. Ef þessa jafnræðis er gætt þá geta þeir allir verið á auglýsingamarkaði. Framlög ríkisins til ljósvakamiðlanna ættu síðan að vera í réttu hlutfalli við flutning þessara miðla á innlendu efni sem og vönduðu erlendu menningarefni. Ekki ætti að styrkja flutning af erlendum íþróttaviðburðum eða öðru erlendu afþreyingar- og skemmtiefni nema sérstök rök styðji þá ákvörðun. Þessir miðlar gætu sem best sameinast um rekstur öflugrar og óháðrar fréttastofu en haft frjálsar hendur þar fyrir utan. Ógæfulegt fjölmiðlafrumvarp stjórnarinnar 2004 hefði líklega aldrei komið til ef málum hefði verið skipað strax með þessum hætti þegar frjálsir miðlar voru leyfðir um miðjan 9. áratuginn.

 


mbl.is Rosabaugur Jóns Ásgeirs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú er lag fyrir stjórnvöld að jafna hlut allra ljósvakastöðva

Uggvænlegar fregnir af uppsögnum starfsfólks hvaðanæva að úr þjóðfélaginu hafa borist undanfarna daga og ekki er hægt annað en biðja og vona að úrræði finnist á málum allra. Ein þeirra uppsagnarfregna sem barst í liðinni viku er af uppsögnum alls starfsfólks Skjásins. Eflaust má líka gera ráð fyrir samdrætti hjá Stöð 2 þó vonandi þurfi ekki að koma til uppsagna þar því þeir sem vilja spara munu að líkindum byrja að spara í kaupum á fjölmiðlum og afþreyingarefni.

Í ljósi þessara hræringa sést enn betur að núverandi fyrirkomulag í ljósvakamálum er ábótavant og það þarf að laga. Því miður eru einu hugmyndirnar sem fram hafa komið í þá veru að RÚV þurfi að fara af auglýsingamarkaði. Enginn virðist vilja ympra á þeirri leið að allir ljósvakamiðlar eigi einfaldlega að sitja við sama borð hvað varðar framlög frá ríkinu. Einn þessara miðla getur sem best verið í eigu ríkisins, þ.e. RÚV og þá á þeim forsendum að tryggja þurfi öryggi almennings og dreifingu til fjarlægra staða. Um þetta hef skrifað af og til og komið með tillögur um síðastliðið eina og hálfa ár en svo virðist sem þessar hugmyndir hafi ekki skilað sér til hugsuða stjórnmálaflokkanna. Framlög ríkisins til ljósvakamiðlanna eiga að vera í réttu hlutfalli við flutning þessara miðla á innlendu efni sem og vönduðu erlendu menningarefni. Ekki ætti að styrkja flutning af erlendum íþróttaviðburðum eða öðru erlendu afþreyingar- og skemmtiefni nema sérstök rök styðji þá ákvörðun. Þessir miðlar gætu sem best sameinast um rekstur öflugrar og óháðrar fréttastofu en haft frjálsar hendur þar fyrir utan. Ógæfulegt fjölmiðlafrumvarp stjórnarinnar 2004 hefði líklega aldrei komið til ef málum hefði verið skipað strax með þessum hætti þegar frjálsir miðlar voru leyfðir um miðjan 9. áratuginn.


Útvarp Saga: Einn besti útvarpsþátturinn

Síðastliðin ár hef ég átt þess kost að fylgjast með Útvarpi Sögu og hlusta þá gjarnan á endurflutning um helgar. Þar er einn útvarpsþáttur sem er sérlega athyglisverður og það er þáttur Sigurðar G. Tómassonar og Guðmundar Ólafssonar hagfræðings þar sem þeir spjalla saman og spila tónlist. Eins og alþjóð er kunnugt eru þeir báðir fjölfróðir og víðlesnir og því gaman að fylgjast með samtali þeirra sem er áheyrilegt og skemmtilegt. Ég giska á að þetta geti margir tekið undir þó þeir séu ekki sammála þeim félögum um allt enda felst skemmtun og fróðleiksfýsn ekki endilega í því að vera sammála ræðumönnum.

Eitt af því sem borið hefur á góma í spjalli þeirra félaga er efnahagsmál og gagnrýni á stjórnvöld sem er rökstudd og ennfremur er ágengra spurninga spurt sem ég heyri sjaldan eða aldrei svarað þó vera megi að það hafi verið gert. Styrkur Útvarps Sögu sem frjálsrar og óháðrar útvarpsstöðvar hefur komið betur og betur í ljós með þessu og nú er svo komið að stjórnmálamenn úr ýmsum áttum hafa sóst eftir að flytja pistla í stöðinni og á hana er hlustað sem stöð hins talaða máls og til að heyra skoðanir af ýmsu tagi viðraðar. Þessi eiginleiki er nánast alveg horfinn úr RÚV-Rás1 og þessi efnisþáttur hefur flust yfir í Sjónvarpið að hluta til. Margir muna enn eftir þáttum á Rás-1 þar sem hver sem vildi gat komið og flutt pistil. Um daginn og veginn minnir mig að þessir þættir hafi heitið. Því miður er þetta horfið og verið getur að þetta hafi lognast út af hugsanlega vegna þess að menn vildu vera settlegir í Ríkisútvarpinu, ég veit það ekki en athyglisvert væri að fregna af hverju málin þróuðust þannig, sérstaklega í ljósi útvarpslaganna en samkvæmt þeim á Ríkisútvarpið einmitt að vera vettvangur ólíkra skoðana en í dag er það Útvarp Saga sem ber höfuð og herðar yfir hinar útvarpsstöðvarnar hvað varðar hið frjálsa talaða orð á Íslandi í dag.


Þarf aukna ímyndarvitund í barnatímum RÚV Sjónvarps?

Eitt af þeim atriðum sem RÚV - Sjónvarp á hrós skilið fyrir eru góðir barnatímar. Þar hafa margar skemmtilegar persónur bæði raunverulegar og leiknar stigið á stokk og skemmt börnum landsins síðustu áratugina með söng, sögum og fróðleik. Þetta er þarft starf og nauðsynlegt enda er mælt fyrir um það í lögum um RÚV en þar segir í 6. grein:

   6. Að flytja fjölbreytt skemmtiefni við hæfi fólks á öllum aldri. Sérstaklega skal þess gætt að hafa á boðstólum fjölbreytt efni við hæfi barna, jafnt í hljóðvarpi sem sjónvarpi.[1]

Þó ég sé ekki sammála því að það sé hlutverk ríkisútvarps að flytja fjölbreytt skemmtiefni við hæfi fólks á öllum aldri þá er síðari hluti málsgreinarinnar vel við hæfi.

En það er eitt atriði sem hefur valdið mér nokkrum áhyggjum í gegnum árin en það er ímynd þeirra barna sem koma fram í barnatímanum. Oft eru þetta ljóshærð börn og gjarnan stúlkur. Það þyrfti að hyggja að því að í hópi áhorfenda eru ungir þeldökkir Íslendingar og það er mikilvægt að þeir eigi sína fulltrúa líka í barnatímunum svo þeir eigi jafna möguleika að byggja upp jákvæða sjálfsmynd til jafns við hina. Því þyrftu þeldökk börn, eða dökkhærð að sjást oftar í barnatímum RÚV - Sjónvarps og einnig þarf að huga að því að kynjahlutfall þeirra sem fram koma sé jafnt svo hvorki halli á stúlkur né pilta, konur eða karla.  

[1] Lög um Ríkisútvarpið ohf.


Ríkisútvarpið í nýju ljósi efnahagsmála

Í ljósi atburða í efnahagsmálum landins sem orðið hafa síðustu daga og vikur er ólíklegt að formlegt eignarhald ríkisins breytist að neinu marki hvað RÚV varðar. Í þessari stöðu er því lítið annað að gera en horfa fram á óbreytt ástand en með einni breytingu þó. Ef RÚV ætlar að vera jafn mikið inni á auglýsingamarkaði og það hefur verið er ekkert sjálfsagðara en að hinir ljósvakamiðlarnir fari líka á ríkisstyrki þannig að allir fjölmiðlar sitji við sama borð hvað varðar slíka styrki óháð eignarhaldi. Þ.e. ríkisstofnunin fengi þá framlag í réttu hlutfalli við framlag sitt af innlendu efni rétt eins og aðrir ljósvakamiðlar. Rökin fyrir því að ríkisvaldið haldi uppi almannaútvarpi eru aðallega af menningarlegum toga og einnig er öryggishlutverk útvarpsins ótvírætt. Hægt að álykta að ekki ætti að greiða ljósvakamiðlum neitt fyrir flutning á erlendu afþreyingarefni svo sem sápuóperum og skemmtiefni heldur fyrir flutning á innlendu efni og hugsanlega einnig fyrir flutning á vönduðu erlendu fræðslu- og menningarefni. Einnig er bráðnauðsynlegt að efla starfsstöðvar útvarpsins í landsfjórðungunum fjórum utan höfuðborgarsvæðisins. Í síðasta pistli mínum Var FM væðing landsbyggðarinnar mistök? kem ég inn á það að til að halda uppi tryggri almannaþjónustu þurfi sterka miðbylgjusenda í alla landsfjórðunga og einnig sjálfstæða dagskrárgerð. Það væri ein öflugasta leiðin og jafnframt ódýrasta sem hægt væri að fara til að efla menningarlegt sjálfstæði landsbyggðarinnar. Fjölbreytt dagskrárgerð sem bæri einkenni hvers landsfjórðungs gæti einnig orðið eftirsóknarvert ljósvakaefni á höfuðborgarsvæðinu og þannig yrði það ekki lengur bara veitandi heldur einnig þiggjandi í menningarmálum.

 


Var FM væðing landsbyggðarinnar mistök?

Þeir lesenda sem muna þann tíma þegar Útvarp Reykjavík var eina útvarpsstöðin muna líka eftir langbylgjustöðinni stóru á Vatnsendahæð sem síðar var flutt vestur á Snæfellsnes og er þar enn. Núna er sú stöð rekin fyrst og fremst á öryggisforsendum sem og til að þjóna dreifðum byggðum þar sem ekki næst til FM senda. En áður en FM sendarnir komu var langbylgjustöðin sú eina hér á Suðvesturhorninu og síðan minnir mig að það hafi verið stöð á Austurlandi sem sendi út á miðbylgju. Þ.e. það voru aðeins tveir sendar sem þjónuðu mest öllu landinu og miðunum eða því sem næst.

Þegar FM (Frequency Modulation) tæknin kom til sögunnar náði hún skjótt miklum vinsældum, fyrst og fremst vegna þess að tóngæðin í FM útsendingunum tóku útsendingargæðum AM (Amplitude modulation) langt fram. En bæði langbylgjan og miðbylgjan flokkast sem AM sendingar. Ókostur FM sendinganna er aftur á móti sá hve skammdrægir sendarnir eru og að fjöll skyggja á útsendinguna. Fyrstu FM sendar RÚV voru greinilega vandaðir og öflugir en í seinni tíð hefur sendistyrk þeirra að líkindum farið aftur. Fyrstu FM sendarnir voru Mono sendar en sendar nútímans eru Stereo sendar sem eru enn viðkvæmari fyrir truflunum, löngum vegalengdum og mishæðum í landslaginu. Það er orðið erfitt að ná nægum tóngæðum úr meðalgóðum útvarpstækjum, t.d. hér á Selfossi og í nágrenni og einnig spillir fyrir að alltaf þarf að vera að skipta um tíðni á útvarpstækjunum þegar farið er á milli staða t.d. á bíl. Suð og truflanir frá tölvum er orðið áberandi truflanavaldur og það svo mjög að það er orðið erfitt að hlusta á FM útsendingar RÚV hér á Suðurlandi nema í góðum tækjum. 

FM tæknin hefur trúlega orðið ofan á fyrst og fremst vegna þess hve tónlist hljómar miklu betur í FM sendingu heldur en í AM sendingu en í útvarpi sem byggir að stórum hluta á töluðu orði eru þessar forsendur ekki jafn sterkar.  Í seinni tíð grunar mig að þeir sem á útvarp hlusta hlusti ekki á það vegna tónlistarinnar fyrst og fremst heldur vegna hins talaða orðs ekki síður. Í dag eru svo fjölmargar leiðir fyrir tónlistarunnendur að eignast eða hlusta á sína uppáhaldstónlist að útvarp er ekki jafn mikilvægt hvað það varðar og áður. Hægt er að hluta á stafræna tónlist af diskum, tölvum, netinu og tónhlöðum í miklum tóngæðum og algengt er að í bílum séu t.d. geislaspilarar.

Í þessu ljósi langar mig að velta upp þeirri spurningu hvort ekki væri heppilegast að RÚV sem á að þjóna mikilvægu öryggishlutverki komi upp öflugum AM sendi í hverjum landsfjórðungi, t.d. miðbylgjusendi frekar en langbylgjusendi? Það helgast af því að í mörgum tækjum er ekki langbylgja eins og var áður heldur aðeins miðbylgja og FM bylgja. Þannig sendir myndi vera öruggari hvað varðar langdrægni en hinir strjálu FM sendar sem eru á fjölmörgum tíðinssviðum sem fáir muna eftir hvar eru. Það yrði því auðveldara að finna þessa senda á AM tíðnissviðinu, muna hvar þeir eru og staðsetning á landinu skiptir minna máli því öflugur miðbylgjusendir, t.d. í Vestmannaeyjum ætti að nást vel um mest allt Suðurland og einnig langt út á sjó. Kostnaður við öflugan miðbylgjusendi ætti ekki að vera svo miklu meiri en við FM sendana sem væri þá hægt að fækka á móti eða takamarka þá við þéttbýlisstaðina þar sem skammdrægni þeirra kemur ekki jafn mikið að sök. Þessi tæknilega uppbygging gæti haldist í hendur við áherslubreytingu í starfsemi RÚV sem þarf auðvitað að felast í því að það verði raunverulegt ríkisútvarp en ekki bara Reykjavíkurútvarp með máttvana hjáleigur fyrir vestan, norðan og austan og enga hér fyrir sunnan.


Frábær dagskrá í Ríkissjónvarpinu síðdegis á sunnudaginn

Dagskrá sjónvarpsins síðdegis á sunnudaginn var var í einu orði sagt frábær. Ég horfði á tvo dagskrárliði og gat varla slitið mig frá skjánum. Fyrst sá ég mjög fróðlegan þátt frá BBC um forna menningu Indlands og Mið-Asíu og á eftir var þáttur um hljómsveitarstjórann Herbert von Karajan. Það eru mörg ár síðan mér finnst ég hafi þurft að horfa á tvo samliggjandi þætti í Ríkissjónvarpinu og varla getað slitið mig frá skjánum en svona var það síðastliðinn sunnudag.

Geri aðrir betur. Ég held samt að það sé ekki ríkið sem tryggir gæðin heldur fyrst og fremst örugg kostun þess á menningarefni sem allt eins gæti dreifst jafnt yfir alla.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband