Færsluflokkur: Sjónvarp

Hví ekki sýna leikverk Þjóðleikhússins í sjónvarpinu?

Um helgina horfði ég, lauslega þó, á skemmtilegan sjónvarpsþátt sem sýndi innra starf Þjóðleikhússins í tilefni af 60 ára afmæli þess og undirbúning fyrir sýningu Íslandsklukkunnar.  Þetta leiðir hugann að þeirri spurningu af hverju ekki er hægt að sjónvarpa sýningum leikhússins sem eru teknar upp hvort eð er?

Hægt væri að bíða með sjónvarpa upptökunni í 1-2 ár frá því að sýningum á verkinu væri hætt til að tryggja að útsendingar hefðu hverfandi áhrif á miðasölu og aðsókn að sýningum.  Nú er siður að útvarpa frá sinfóníutónleikum. Hugsanlega eru höfundarréttarsjónarmið sem hindra útsendingar leikverka en það ætti að vera hægt að leysa slík mál hjá þjóð sem ber metnað í brjósti gagnvart sinni eigin menningu og greiða höfundum þau laun sem þeim ber.  Öðrum eins upphæðum er trúlega varið til kaupa á erlendum framhaldsþáttum eða íþróttaviðburðum. Þannig er krónum sem  teknar eru með skattvaldi af þjóðinni varið til að styrkja erlenda menningarstarfsemi.

Miðað við efnahagsþróun síðustu ára verður að segjast eins og er það það er vart á færi annarra en vel stæðra þjóðfélagsþegna og þeirra sem eru miðaldra eða eldri að njóta menningarviðburða.  Ferð fjögurra manna fjölskyldu til Reykjavíkur utan af landi auk kaupa á tónleika- eða leikhúsmiða fyrir alla er því miður það dýr pakki að það er frekar eitthvað ódýrara sem verður fyrir valinu. 

Í leikhúsunum er unnið mikið og gott menningarlegt starf og svona útsendingar myndu tryggja að margir nytu þess starfs sem ekki njóta þess nú miðað við núverandi fyrirkomulag ríkissjónvarpsins.  


Af hverju er skaupið svona spennandi?

Ég velti því fyrir mér af hverju áramótaskaupsins er alltaf beðið með svo mikilli eftirvæntingu og hallast helst að því að ástæðunnar sé að leita í þeirri tegund gríns sem skaupið einkennist af.  Þetta eru mestan part brandarar með pólitísku ívafi og gjarnan pólitískri ádeilu.

Ástæða þess að grín af þessari tegund er vinsælt er að öllum líkindum sú að pólitísk umræða er ófullburða hérlendis. Hún einkennist ótrúlega oft af ásökunum um fordóma eða öfgar, deilum, ádeilu eða jafnvel árásum. Af þeim sökum eru trúlega margir sem sitja á sínum skoðunum og flíka þeim ekki ótilneyddir. Þegar kemur að gríninu er umburðarlyndið meira og þar brýst þessi pólitíska spenna út og líklega líka í öðrum skapandi listum.

Skemmst er að minnast hvernig listamenn og aðrir menntamenn fyrrum Sovétríkjanna, sérstaklega rithöfundar þurftu annað hvort að að flýja land vegna ádeilu sinnar á stjórnvöld eða laga list sína að ritskoðun og rétthugsun stjórnvalda. Þá blómstruðu bókmenntir sem komu skoðunum á framfæri undir rós með einhverjum hætti. 

Af þessum sökum er það líklega ekki tilviljun að borgarstjóri Reykjavíkur er fyrrum atvinnugrínisti. Hann tók ríkan þátt í því að finna pólitískri gremju fólks farveg með list sinni og uppskar velþóknun og virðingu fólks í staðinn. Sigur flokks hans sýnir svo ekki verður um villst að sú velþóknun og aðdáun sem hann hafði unnið sér inn var af pólitískum toga, að minnsta kosti að hluta til.  

 


Framtíðarfyrirkomulag almannaútvarps þarf að hugsa frá grunni

Stjórn RÚV virðist ekki gera sér grein fyrir því að grundvöll almannaútvarpsins á Íslandi þarf að hugsa upp á nýtt. Með núverandi fyrirkomulagi tekst almannaútvarpinu ekki að rækja lýðræðislegt öryggishlutverk sitt, ég bendi á pistlana Ljósvakinn og lýðræðiðUm hlutverk ríkisvaldsins: Hvernig á að þekkja svanasöng stofnunar? , Framtíðin í ljósvakamálum, og Fjölmiðlarnir, nú þarf að endurræsa, Nú er lag fyrir stjórnvöld að jafna hlut allra ljósvakastöðva, Aðalbjörg Sigurðardóttir um RÚV 1944 og Amy Goodman - orð í tíma töluð í og fyrir RÚV til að nefna nokkra. Fyrir hrun gerðist það ítrekað og það gerist enn að ráðamenn fái að mæta og verja sjónarmið sín gegn spurningum aðeins eins viðmælanda. Einn viðmælandi getur að sjálfsögðu aldrei komið í staðinn fyrir hóp fréttamanna sem ættu að fá að taka leiðtogann á beinið.  Fákeppni á fjölmiðlamarkaði hlýtur alltaf að stuðla að lýðræðislegum sofandahætti, menningalegri fábreytni og elítustjórn. Líkur benda til að önnur öryggissjónarmið með starfsemi RÚV séu einnig ekki nógu traust, sjá pistlana Um öryggishlutverkið og langdrægni sendinga,og  Óviðunandi frammistaða RÚV í óveðrinu á Austurlandi. Ýmislegt bendir einnig til að menningarleg markmið með starfsemi RÚV hafi ekki náðst á undanförnum árum, sjá pistlana Menningarlegt sjálfstæði landsbyggðarinnar er brýnt, Styrkir til fleiri aðila en RÚV stuðla að jafnræði í menningarmálum, Hlúa þarf betur að hljóðrituðum menningararfi, og RÚV - menningarleg Maginotlína til að nefna nokkra. 

Það sem þarf er ný sýn, ný hugsun sem byggir á jafnræði ljósvakamiðla, menningarlegri fjölbreytni og menningarlegu sjálfstæði landsbyggðarinnar sem og uppfærðri áætlun hvað varðar öryggishlutverkið. 


mbl.is Eðlisbreyting á starfsemi RÚV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sungið á íslensku; metnaðarfull ákvörðun útvarpsstjóra

Sú ákvörðun Páls Magnússonar útvarpsstjóra að lögin sem taka þátt í Söngvakeppni sjónvarpsins verði á íslensku lýsir metnaði og framtíðarsýn fyrir RÚV sem vert er að hrósa. Að sjálfsögðu á það fé sem rennur til stofnunarinnar að renna til eflingar innlendu efni og dagskrárgerð. Ef einhver saknar erlendu laganna þá er yfrið nóg framboð af söngvum til á erlendum málum til að bæta úr þeirri þörf. 

Sóknarfæri á sviði menningarinnar hljóta að liggja í að nýta sérstöðu hennar og sérkenni. Til hamingu með þetta Páll!

 


mbl.is Eurovision-lögin á íslensku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðráð til sparnaðar - 2. hluti: Sjónvarpið

Vinur minn einn sem fer reglulega með efni í brotajárnsgáminn sagði mér að fyrstu dagana eftir hrunið síðasta haust hefðu verið stór nýleg túpusjónvarpstæki í gáminum nánast í hvert skipti sem hann fór. Þegar leið á veturinn dró úr þessu en þessa vikuna byrjaði þetta aftur. Í gáminum voru stór og reyndar stundum lítil túpusjónvörp. Hvað veldur og hver er ávinningurinn?

Þessi athugun á ruslinu bendir því til að viðbrögð margra við kreppufréttunum hafi verið þau að endurnýja raftækin, henda túpusjónvarpinu, og kaupa flatskjá á gamla verðinu. Ótrúlegt er að öll þessi nýlegu túpusjónvörp hafi verið ónýt áður en þau lentu í ruslinu. Þessi vinur minn hirti reyndar eitt lítið tæki sem lá efst í gáminum og það var í lagi þrátt fyrir nokkrar rispur sem hafa líklega komið þegar tækið lenti í gáminum.

Hvað það er sem orsakar þessa bylgju núna er ekki gott að segja en hugsast getur að einhverjir nýti skattaafsláttinn til að koma tímabærri endurnýjun á sjónvarpstækinu í framkvæmd. En hver er ávinningurinn af því að henda túpusjónvarpi sem er í lagi og kaupa flatskjá?

Þó hugsast geti að flatskjá fylgi betri sjálfsímynd og hagkvæmari nýting á plássi þá gefa myndgæði túpusjónvarpa og viðbragðsflýtir flatskjáum lítið ef nokkuð eftir. Sumir telja þau reyndar betri. Rafmagnseyðsla gömlu túpusjónvarpanna er líka yfirleitt minni en flatskjáa, sérstaklega stóru plasma skjáanna.  Hinu spánnýja, flata sjónvarpstæki fylgja því að líkindum hærri rafmagnsreikningar ef ekki er hugað að ákveðnum sparnaðarráðum. Hér koma nokkur slík tekin af netinu ásamt smá kryddi frá undirrituðum:

1. Slökkvið á sjónvarpinu þegar hætt er að horfa á það. Ekki nota Standby. Slökkvið einnig á tengdum tækjum svo sem DVD spilara eða leikjatölvu. Heppilegt getur verið að hafa fjöltengi með rofa og rjúfa strauminn inn á þessi tæki þegar búið er að slökkva á þeim. Þá er örugglega slökkt.

2. Slökkvið á Quick Start möguleika. Þessi möguleiki eykur rafmagnseyðslu ef Standby er notað.

3. Dragið úr baklýsingu LCD skjáa. Þetta dregur úr ljómun og birtu skjásins en á móti er kannski hægt að draga úr birtunni í herberginu.  Mikil birta hjá sjónvarpi er óþörf hvort sem er og spillir bíótilfinningunni.

4.  Ef tækið er með orkusparandi ham hafið þá stillt á hann. Nýrri flatskjáir gætu verið með þessum möguleika.

5.  Ef ekki er enn búið að kaupa flatskjáinn reynið þá að komast af með eins lítinn skjá og hægt er. Hægt er að færa sjónvarpsstólana nær og ná sömu áhrifum og ef stór skjár er notaður. Við það sparast líka dýrmætir fermetrar af húsplássi.

6. Notið ekki mörg sjónvörp í sama húsi heldur reynið að sameina fjölskylduna fyrir framan eitt tæki. Barnaefni getur verið mjög skemmtilegt og yngri fjölskyldumeðlimum mun þykja þú bæði viðræðubetri og skemmtilegri ef þú getur talað við þá um uppáhalds sjónvarpsefnið þeirra.

7. Horfið minna á sjónvarp eða notið sjónvarpstímann til að vinna eitthvað í höndunum svo sem strauja, brjóta saman föt eða prjóna.  Þá nýtist tíminn betur og borgar sig upp.

8. Athugið heildaráhorf ykkar og metið hvort hægt sé að segja upp áskrift sem hugsanlega er lítið notuð. Talsvert er í boði af innlendu efni í opinni dagskrá. Gervihnattabúnaður gæti borgað sig upp á einu ári ef vel er haldið um budduna og á t.d. Astra 2 hnettinum eru nokkrar erlendar stöðvar í opinni dagskrá, svo sem SkyNews, CNN að ógleymdri föndurrásinni Create and Craft.

Byggt á: http://reviews.cnet.com/green-tech/tv-power-saving-tips/?tag=greenGuideBodyColumn.0

Höfundur er áhugamaður um málefnið.


Útvarp er sígildur fjölmiðill

Þegar bloggflokkar á blog.is eru skoðaðir sést þegar þetta er skrifað að Sjónvarpið er með sinn sérstaka flokk en útvarp er hvergi sjáanlegt. Ég hef þó sent umsjónarmönnum bloggsins póst og bent þeim á að bæta þessum flokki við. Af hverju?

Útvarp á mikið erindi til samtímans þrátt fyrir mikla athygli sjónvarps, kvikmynda og netsins. Þessu valda nokkur atriði:  

1. Útvarpstæki eru tiltölulega ódýr og meðfærileg, a.m.k. miðað við tölvur, vídeótæki og sjónvarpstæki. Þetta hefur þær afleiðingar að útvarpstæki er að finna víða; á heimilum, í bílum, á vinnustöðum, í verslunum og ýmsum stöðum þar sem fólk safnast saman.

2. Það er hægt að hlusta á útvarp þó fólk sé að gera eitthvað annað, svo sem að aka bíl eða vinna eitthvað í höndunum, en þetta er eiginleiki sem vídeó, sjónvarp eða netið búa ekki yfir.

3. Styrkur útvarpsins er hið talaða orð, sem ekki krefst áhorfs og einnig tónlistarflutningur en sjónvarp er ekki nauðsynlegt til að koma tónlist til skila.

Þessi þrjú atriði benda til að útvarp muni um fyrirsjáanlega framtíð verða bæði vinsæll og ómissandi fjölmiðill og snar þáttur menningar okkar eins og verið hefur síðustu 80 ár eða þar um bil. Ég hef því búið til mínar einkamöppur hér á blogginu, eina um útvarp og undirflokkur hennar er um Ríkisútvarpið. Þar má finna hugleiðingar mínar og hugmyndir um útvarp á Íslandi eins og þær hafa verið að þróast og mótast undanfarin tvö ár.


Vel mælt Steingrímur!

Þessi orð Steingríms eru löngu tímabær. Það þarf ýmsu að breyta í starfsumhverfi fjölmiðla hér en samt ekki í þá veru sem hugsun fjölmiðlafrumvarpsins frá 2004 gengur út á. Samkeppnislögin ættu að duga til að hindra of mikla samþjöppun á þessum markaði eins og öðrum. Þrátt fyrir allt eru útvarpslögin skýr og kveða á um óhlutdrægni en það virðist ganga erfiðlega að framfylgja þeim af einhverjum ástæðum. Í rauninni væri heppilegast ef neytendur fjölmiðlanna gætu sjálfir séð um að veita aðhaldið en í núverandi fyrirkomulagi er RÚV tryggð bæði mikil og örugg athygli sem og fjármunir skattgreiðenda og því er aðhald neytenda erfiðleikum bundið.

Til að af þessu aðhaldi geti orðið þarf að skapa starfsumhverfi þar sem aðilar á ljósvakamarkaðnum njóta jafnræðis hvað varðar ríkisstyrki. Útvarpsgjaldinu ætti að útdeila í réttu hlutfalli við framboð fjölmiðla af íslensku efni en ekki til kostunar á erlendum sápuóperum og neytendur efnisins ættu að hafa eitthvað að segja um til hvaða fjölmiðla þeir kjósa að hluti af gjaldinu renni. Þannig ætti að vera hægt að skapa bæði jafnræði og heilbrigða samkeppni milli fjölmiðlanna og byggja upp flóru sjálfstæðra aðila sem ættu að geta verið til í langan tíma með tilheyrandi stöðugleika og án þess að búa við óöryggi vegna afkomu og yfirtöku stórra fjölmiðlasamsteypa. Slíkt fyrirkomulag myndi rétta hlut þeirra gagnvart RÚV.

Fleiri pistla um þetta efni er að finna í efnismöppunum um sjónvarp, útvarp og ríkisútvarpið á þessari síðu.

 


mbl.is Elítan vill í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framtíðin í ljósvakamálunum

Það má kannski segja að svipað gildi um ljósvakamiðla og  stjórnmálaflokka að það sé heppilegra að þeir séu fleiri en færri svo meiri líkur en minni séu á því að kjósendur og hlustendur finni eitthvað við sitt hæfi. Ef lög tryggðu að smáir ljósvakamiðlar ættu sér tilverugrundvöll og vaxtarmöguleika án þess að eiga á hættu stöðugar sameiningar eða yfirtökur stórra aðila með tilheyrandi róti á starfsmannahaldi og starfsemi þá væri mikið unnið. Samþjöppun á fjölmiðlamarkaði ætti frekar að hindra með því að tryggja tilverurétt smærri aðila heldur en setja strangar og íþyngjandi reglur um eignarhald á fjölmiðlum umfram ákvæði samkeppnislaga.

Ég hef skrifað nokkuð um Ríkisútvarpið. Atburðirnir í kjölfar niðurskurðartillagnanna hjá RÚV þegar fjöldinn allur af félagasamtökum mótmælti því að skera niður á svæðisstöðvum RÚV úti á landi sýna svo ekki verður um villst hvert straumurinn liggur í menningarmálum ljósvakans. Það virðast margir á þeirri skoðun að landsbyggðarstöðvarnar beri að efla frekar en hitt. Þess má geta til upplýsingar að á Suðurlandi er engin slík fjórðungsstöð starfandi. Svo virðist sem þau mótmæli hafi komið bæði þáverandi stjórnvöldum sem og stjórnendum RÚV ohf algerlega í opna skjöldu.

Hugmyndir mínar byggja í stuttu máli á því að byggja upp flóru sjálfstæðra aðila, sem þrátt fyrir að vera ekki stórir eru stöndugir og hafa burði til að vera til í áratugi ef þeir fara vel með fé. Þessir aðilar gætu sem best myndað efnismarkað sín á milli svo að vinsælir útvarpsþættir gætu heyrst á fleiri stöðvum en þeirri sem framleiðir efnið.

Ljósvakamiðlarnir eiga að sitja við sama borð hvað varðar framlög frá ríkinu. Einn þessara miðla getur sem best verið í eigu ríkisins, þ.e. RÚV og þá á þeim forsendum að tryggja þurfi öryggi almennings og dreifingu til fjarlægra staða. Ef þessa jafnræðis er gætt þá geta þeir allir verið á auglýsingamarkaði. Framlög ríkisins til ljósvakamiðlanna ættu síðan að vera í réttu hlutfalli við flutning þessara miðla á innlendu efni eða efni sem tengist Íslandi á einhvern hátt. Þessir
miðlar gætu sem best sameinast um rekstur öflugrar og óháðrar fréttastofu eða notið þeirrar þjónustu frá RÚV en haft frjálsar hendur þar fyrir utan. Það er í rauninni skammarlegt að þeir peningar sem innheimtir voru sem afnotagjöld en núna nefskattur séu notaðir til að flytja landanum textaðar erlendar sápuóperur í ríkissjónvarpinu kvöld eftir kvöld svo árum skiptir.

Í þessu sambandi er nærtækt að horfa til þess að leggja RÚV þær skyldur á herðar að byggja upp starfsstöð í hverjum landsfjórðungi, því auk þess að byggja upp fjölbreytni og menningarlegt sjálfstæði landsbyggðarinnar byggir slíkt fyrirkomulag einnig upp aukið öryggi þegar náttúruhamfarir bresta á. Sjá t.d. pistilinn  þar sem ég mæli með því að öflugum miðbylgjusendum verði komið fyrir í hverjum landsfjórðungi.

Flest útvarpsviðtæki sem seld eru á Íslandi í dag eru bara með AM/FM móttöku sem gerir að verkum að langbylgjustöðvarnar eru smátt og smátt að verða úreltar þó sjómenn og ferðamenn noti þær eflaust mikið. En horfa ber á að öflug miðbylgjustöð er líka langdræg og ef hún er vel staðsett þá gætu fjórar slíkar stöðvar trúlega þjónað jafn vel eða betur en gert er með núverandi fyrirkomulagi tveggja langbylgjustöðva.

Ýmis önnur félagaform en hlutafélagaformið henta trúlega betur til reksturs menningarstarfsemi á vegum ríkisins. Arðurinn af starfseminni kemur fram í auknum lífsgæðum, gagnrýnni hugsun og víðsýni þegnanna og er að því leyti eftirsóknarverður þó erfitt sé að leggja á hann efnahagslegan mælikvarða.

Þegar landið fer að rísa á nýjan leik í efnahagsmálum þarf að stofna ljósvakasafn sem hefur það hlutverk að safna ljósvakaefni sem flutt er á íslensku eða hefur að öðru leyti ótvíræð tengsl við íslenska menningu. Þjóðarbókhlaðan gegnir nú þegar þessu hlutverki hvað varðar prentað mál og ljósvakasafnið yrði því aðeins útvíkkun á sömu hugsun þegar kemur að ljósvakaefni.  Hugsanlega er hægt að fara að athuga þessi mál strax ef vitað er hvert á að stefna.

RÚV yrði þá nokkurs konar þjónustu- og öryggismiðstöð rekin af ríkinu en myndi sjá um rekstur öflugrar fréttastofu þar sem gerðar verða miklar kröfur til menntunar starfsmanna og óhlutdrægni í efnistökum. Þeir myndu einnig vera þjónustuaðilar og sjá um að leigja út efni úr ljósvakabankanum til hinna smærri aðila sem vilja sína til þess að miðla gömlum menningarperlum.

Ef þessar leiðir eru farnar þá gæti landið farið að rísa hjá litlu útvarpsstöðvunum og þær eignast tilverugrundvöll sem annars væri ekki til staðar. Þær gætu boðið upp á prýðilega þjónustu á ýmsum svæðum og byggt upp fjölbreytta og sérstæða en jafnframt sjálfstæða flóru menningar sem ekki er ríkisstýrð þó hún væri ríkisstyrkt að hluta. Fjölbreytt flóra minni en stöndugri aðila ætti líka að stuðla að meiri möguleikum fyrir lýðræðið og þá sem vilja koma skoðunum sínum á framfæri. Með þessu móti yrði jafnræði gert hærra undir höfði en nú er.


Ljósvakinn og lýðræðið

Það má kannski segja að svipað gildi um ljósvakamiðla og stjórnmálaflokka að það sé heppilegra að þeir séu fleiri en færri svo meiri líkur en minni séu á því að kjósendur og hlustendur finni eitthvað við sitt hæfi. Ef lög tryggðu að smáir ljósvakamiðlar ættu sér tilverugrundvöll og vaxtarmöguleika án þess að eiga á hættu stöðugar sameiningar eða yfirtökur stórra aðila með tilheyrandi róti á starfsmannahaldi og starfsemi þá væri mikið unnið.

Ég ef í fyrri pislum skrifað nokkuð um Ríkisútvarpið. Atburðirnir í kjölfar 550 milljón króna niðurskurðartillagnanna hjá RÚV þegar fjöldinn allur af félagasamtökum mótmælti því að skera niður á svæðisstöðvum RÚV úti á landi sýna svo ekki verður um villst hvert straumurinn liggur í menningarmálum ljósvakans. Það virðast margir á þeirri skoðun að landsbyggðarstöðvarnar beri að efla frekar en hitt. Þess má geta til upplýsingar að hér á Suðurlandi er engin slík fjórðungsstöð starfandi.

Hugsast getur að stjórnvöld og stjórnmálaflokkarnir séu að átta sig á því að það þarf að mynda heildstæða stefnu í íslenskum ljósvaka- og fjölmiðlamálum og ná um hana víðtækri og breiðri sátt. Gallinn er bara sá að hvorki stjórnvöld né stjórnmálaflokkarnir virðast hafa skýrar hugmyndir um hvert eigi að stefna. Ég bendi þeim því á að lesa pistlana í efnismöppunni minni um Ríkisútvarpið. Kannski fá þeir einhverjar hugmyndir sem þeir geta byggt á. Þær hugmyndir byggja í stuttu máli á því að byggja upp flóru smærri aðila, sem þrátt fyrir smæðina eru stöndugir og hafa burði til að vera til í áratugi ef þeir fara vel með fé. Þessir aðilar gætu sem best myndað efnismarkað sín á milli svo að vinsælir útvarpsþættir gætu heyrst á fleiri stöðvum en þeirri sem framleiðir efnið.

Í þessu sambandi er nærtækt að horfa til þess að byggja upp útvarpsstöð í hverjum landsfjórðungi, því auk þess að byggja upp fjölbreytni og menningarlegt sjálfstæði landsbyggðarinnar byggir slíkt fyrirkomulag einnig upp aukið öryggi þegar náttúruhamfarir bresta á. Sjá t.d. pistilinn  þar sem ég mæli með því að öflugum miðbylgjusendum verði komið fyrir í hverjum landsfjórðungi. Menningarleg slagsíða í þágu höfuðborgarsvæðisins í dagskrá og áherslum RÚV er greinileg. Nægir þar að nefna langdregin atriði í áramótaskaupinu sem snerust alfarið um argaþras í borgarpólitík Reykjavíkur.

Eignarhald ljósvakastöðva gæti sem best verið blandað. Í raun skiptir það ekki höfuðmáli hver á stöðina ef reksturinn er tryggður og hann má sem best styðja með ríkisframlögum að hluta til eða í hlutfalli við framboð stöðvarinnar af íslensku menningarefni. Samþjöppun á fjölmiðlamarkaði ætti frekar að hindra með því að tryggja tilverurétt smærri aðila heldur en setja strangar og íþyngjandi reglur um eignarhald á fjölmiðlum umfram ákvæði samkeppnislaga.  Það verður þó að segjast að ýmis önnur félagaform en hlutafélagaformið henta trúlega betur til reksturs menningarstarfsemi. Arðurinn af starfseminni kemur fram í auknum lífsgæðum, gagnrýnni hugsun og víðsýni þegnanna og er að því leyti eftirsóknarverður þó erfitt sé að leggja á hann efnahagslegan mælikvarða.

Núverandi frammistaða RÚV á menningarsviðinu er viðunandi eins og hún er en hún gæti verið miklu betri ef fjölbreytninni væri fyrir að fara. Ég bendi t.d. á pistilinn RÚV - Menningarleg Maginotlína í þessu sambandi.

Á sama hátt má líklega segja að til lengri tíma sé heppilegra að stjórnvöld hlúi að tilveru lítilla stjórnmálahreyfinga og þær njóti jafnræðis á við hina stóru. Það tryggir að líkindum fjölbreyttari nýliðun í flokkakerfinu og vinnur gegn stöðnun, klíkumyndun og áhrifum flokkseigendafélaga í hinum stærri og eldri stjórnmálahreyfingum.


Hverjir sitja í starfshópum um málefni RÚV?

Það hefur verið skammt stórra högga á milli hjá RÚV og fréttirnar af 700 milljóna sparnaðinum dundu nokkuð óvænt og snögglega yfir þó fyrirsjáanlegt væri að einhver niðurskurður yrði. Óskandi er að þeir sem fyrir niðurskurðarhnífnum verða muni finna störf sem fyrst. En nokkrar spurningar hafa sótt á mig að undanförnu sem ég hef ekki fundið svör við þrátt fyrir vefleit. Í fyrsta lagi er það hverjir eiga sæti í starfshópnum um málefni RÚV sem greint var frá nýlega að settur hefði verið á laggirnar? Í öðru lagi væri forvitnilegt að fá að vita að hve miklu leyti þessar niðurskurðartillögur tengjast þessum starfshóp? Er það starfshópurinn sem leggur línurnar um niðurskurðinn eða er það útvarpsstjóri?

Fyrir liggur líka að eftirlitsstofnun EFTA, ESA vinnur í því í samráði við íslensk stjórnvöld að finna framtíðarfyrirkomulag fyrir RÚV sem fallið geti að reglum EES.

Að sögn Inge Hausken Thygesen, upplýsingafulltrúa ESA, vinna starfsmenn ESA að málinu í samvinnu við íslensk stjórnvöld. Unnið sé með það markmið í huga að íslensk stjórnvöld og ESA komist að sameiginlegri niðurstöðu um hvernig þessum málum skuli háttað í framtíðinni. [1]

Hér virðist svo vera önnur nefnd eða starfshópur starfandi og sú spurning vaknar óhjákvæmilega hvort um sé að ræða sama starfshópinn? Það er líklegt að svo sé ekki því ESA málið hefur verið til skoðunar síðan 2002 en nýi starfshópurinn var skipaður í þessum mánuði [2]. Það væri  forvitnilegt að fá upplýst hverjir eiga sæti í ESA starfshópnum því ef rétt er að hann sé að huga að langtímafyrirkomulagi ljósvakamála hérlendis þá er sá starfshópur áhrifamikill.

Í rauninni skiptir kannski ekki höfuðmáli hvaða einstaklingar eiga hér í hlut heldur hitt að það er pólitískur menntamálaráðherra sem í þessa starfshópa skipar. Í rauninni má segja að málefni RÚV og ljósvakamiðlunar almennt séu þess eðlis að það sé óheppilegt að sérpólitísk sjónarmið fái að ráða ferðinni varðandi framtíðarstefnumótun. Í því sambandi væri heppilegra að skipa þverpólitískt ráð til að leggja línurnar og til að sátt náist til framtíðar um ljósvakamenningu. Einnig væri heppilegt að í svona ráðum sitji ekki bara fólk skipað af stjórnmálaflokkum heldur einnig fólk skipað af hagsmunasamtökum listamanna og annarra hagsmunaaðila.  Það vekur því nokkra furðu að ekki hefur komið skýrt fram á almennum vettvangi hverjir eiga sæti í þessum starfshópum og einnig er furðulegt að Alþingi skuli ekki hafa kallað eftir þessum upplýsingum. Það má þó vera að svo sé án þess að ég hafi tekið eftir því en þá hafa þingfréttamenn ekki enn miðlað þeim fróðleik út á netið því þegar orðin RÚV og starfshópur eru gúgluð þá birtist mitt eigið blogg efst á blaði. Afgangurinn eru fréttir almenns eðlis.

[1] http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/11/20/skodun_a_ruv_lykur_bratt/
[2
] http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item234572/


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband