Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Miðvikudagur, 9.7.2008
Styrkir til fleiri aðila en RÚV stuðla að fjölbreytni og jafnræði í menningarmálum
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 9.7.2008
Yfirlit yfir pistla mína um RÚV
Á síðastliðnum mánuðum hef ég tekið saman nokkra pistla sem varða málefni Ríkisútvarpsins. Þeir eru sem hér segir í tímaröð, nýjasti fyrst og sá elsti síðast:
Pistlarnir Af hverju kemur vonda veðrið okkur alltaf á óvart og Óviðunandi frammistaða RÚV í óveðrinu á Austurlandi koma inn á öryggishlutverk RÚV í þeim tilgangi að rökstyðja það að öryggi er betur tryggt með fleiri og fjölbreyttari ljósvakamiðlum frekar en fáum og einhæfum.
Pistillinn Enn birtast vankantar á fyrirkomulagi Ríkisútvarpsins ohf fjallar um erfiða stöðu RÚV í kjölfar nýju ohf laganna en með þeim flýtur stofnunin í tómarúmi milli hins opinbera og einkageirans.
Hlúa þarf betur að hljóðrituðum menningararfi og Stofnun ljósvakasafns er löngu tímabær fjalla um nauðsyn þess að ríkið tryggi hljóðritasafn RÚV með öðrum hætti en að varðveita hann hjá stofnuninni. Það myndi skjóta öruggari fótum undir menningararfinn auk þess að tryggja jafnan aðgang að honum.
RÚV - og hin rausnarlegi styrkur Björgólfs fjallar einnig um erfiða stöðu RÚV eftir ohf-væðinguna.
RÚV - Menningarleg Maginotlína fjallar um það að menningarleg markmið RÚV eru ekki að nást því hugmyndafræðin að baki stofnuninni þarfnast endurskoðunar. Komið er með tillögur til úrbóta.
Tæknin breytir stöðunni varðandi ljósvakamiðlun til dreifðra byggða fjallar um það hvernig tæknin breytir stöðunni hvað varðar miðlun efnis til dreifðari byggða og dregur þannig úr mikilvægi þess að einn mjög öflugur aðili sjái bæði um framleiðslu og dreifingu efnis.
Framtíðarmöguleikar RÚV fjallar um gallað fyrirkomulag RÚV m.v. nýju ohf lögin og nauðsyn þess að rjúfa tengsl stofnunarinnar við valdstjórnina, en nýju ohf lögin staðfesta þessi tengsl.
Aðalbjörg Sigurðardóttir um RÚV árið 1944 er yfirlit yfir gagnrýni merkrar kvenréttindakonu og óháðrar menntakonu Aðalbjargar Sigurðardóttir á RÚV sem hún flutti í útvarpinu árið 1944. Í rauninni er gagnrýni hennar ennþá gild því lítið hefur breyst síðustu 64 árin.
Amy Goodman - orð í tíma töluð í og fyrir RÚV fjallar um athugasemdir bandarísku fréttakonunnar Amy Goodman um fjölmiðla og nauðsyn þess að þeir séu óháðir og kalli valdamenn til ábyrgðar.
Jóra í Jórukleif slær í borðið - ástæðan var léleg dagskrá RÚV sjónvarpsins var pistill sem ég skrifaði í tilefni af jarðskjálfta sem varð nálægt Selfossi í október 2007 en frásögn af honum rataði ekki inn í kvöldfréttir RÚV Sjónvarps.
Fordómar í fjölmiðlum - hvar stendur RÚV? er pistill sem skrifaður var í tilefni af síendurteknum fréttum RÚV af furðumennum á Filippseyjum, fréttum sem voru valdar í erlent fréttayfirlit á föstudaginn langa ár eftir ár.
Sunnudagur, 25.5.2008
Lækka þarf hámarkshraða á Suðurlandsvegi milli Hveragerðis og Selfoss
Því miður eru litlar líkur á að draga muni úr mikilli slysatíðni á Suðurlandsvegi á þeim köflum þar sem enn er ekki búið að skipta veginum. Vegna ástandsins í efnahagsmálum eru litlar líkur á að Suðurlandsvegur breytist mikið á næstu misserum og því horfa landsmenn sömuleiðis fram á óbreyttar líkur á slysum á þessari leið.
Krossarnir við Kögunarhól eru þögult vitni og áminning um þau sorglegu tíðindi sem verða aftur og aftur á leiðinni. Á þessari leið eru nokkrir kaflar sem eru sérlega áhættusamir. Einn þeirra er kaflinn milli Hveragerðis og Selfoss. Hann er sérmerktur sem slysasvæði enda hlykkjóttur og beygjóttur. Inn á hann liggja líka nokkrir þvervegir sem eru merktir með biðskyldumerkjum.
Það er í rauninni ótrúlegt að á þessum uþb. 10 km. vegarspotta skuli enn vera 90 km. hámarkshraði. Mannfallið á þessari leið virðist ekki hreyfa við neinum öðrum en þeim sem þurfa að syrgja ættingja sína. Sem fyrst þyrfti að lækka hámarkshraða á leiðinni niður í 80 eða jafnvel 70 og sömuleiðis þyrfti að skipta út biðskyldumerkjunum og setja stöðvunarskyldumerki í staðinn á þvervegina. Reyndar þyrfti að skipta út biðskyldumerkum og setja stöðvunarskyldumerki víðast hvar á Suðurlandsveginum og á fleiri stöðum þar sem sveitavegir liggja þvert inn á malbikaða aðalbraut með 90 km. hámarkshraða.
Nú kunna menn að andmæla þessari skoðun með þeim rökum í fyrsta lagi að það sé þjóðhagslega óhagkvæmt að lækka hámarkshraða. Spurning hvort menn hafa tekið háar slysalíkur og tjón sem orsakast af mannfalli með í þann reikning? Bæði er umhverfisvænt að aka á minni hraða og þjóðhagslegi reikningurinn er fljótur að jafna sig upp ef fólki fjölgar í bílum.
Í öðru lagi má reikna með þeim andmælum að fáir muni hlýða fyrirmælum um hámarkshraða. En þau rök eru ekki góð og gild í þessari umræðu. Á að afsaka lögbrot með því að löggæslan sé slæleg? Það væri hægur vandi að koma upp færanlegum löggæslumyndavélum á leiðinni sem væru færðar til með reglulegu millibili auk þess að beita hefðbundnum ráðum.
Sunnudagur, 25.5.2008
Lúðvík Bergvinsson og ríkislögreglustjóraembættið
Nýlegt innlegg Lúðvíks Bergvinssonar í umræðu á Alþingi þess efnis að hann vilji að embætti ríkislögreglustjóra verði lagt niður í núverandi mynd er erfitt að skilja. Ég skil umræðuna um sýslumannsembættið á Keflavíkurflugvelli en tel reyndar að hávær afskipti nokkurra þingmanna af því máli orki tvímælis og hyggilegra væri að láta af harðskeyttri gagnrýni og leyfa ráðuneytisfólki að leysa þetta deilumál í friði í samvinnu við embættið á Suðurnesjum. Innlegg Lúðvíks um ríkislögreglustjóraembættið kemur inn í þessa umræðu en erfitt er að sjá hvernig það tengist umræðunni efnislega. Þessi tvö embætti tengjast ekki sérstaklega umfram önnur og það flækir frekar málin fremur en hitt að blanda þessu saman. Málflutningurinn ber frekar vott um pólitísk átök og svo virðist sem Lúðvík sé kominn í stjórnarandstöðu.
Forsendur Lúðvíks um að efla þurfi grenndarlöggæslu eru góðar og gildar eins og t.d. ályktun Lögreglufélags Árnessýslu frá í nóvember sýnir en aftur er erfitt að sjá hvernig þær forsendur eiga að leiða af sér að ríkislögreglustjóraembættið verði lagt niður í núverandi mynd.
Nýleg frétt Fréttablaðsins frá því í fyrradag staðfestir þrálátan grun síðustu missera um að erlendir glæpahópar hafi náð fótfestu hér á landi og þeim sé stjórnað erlendis frá, árásin í Keilufelli í Breiðholti sem og árás á lögreglumenn að störfum, Fáskrúðsfjarðarmálið og fleiri atburðir ættu að nægja til að sannfæra flesta um að þörf er á miðlægu lögregluembætti og að það þarf að vera nægilega öflugt til að takast á við þessi verkefni.
Ekki trúi ég að Lúðvík vilji láta þessar samfélagsvarnir niður falla þó hann vilji ríkislögreglustjóraembættið feigt, en telur hann í alvöru enga hættu á að hann stofni vinnu undangenginna missera og ára sem lögð hefur verið í uppbyggingu embættisins í hættu með svona málflutningi?
Lætur Lúðvík málefnalegan ágreining sinn við Björn Bjarnason hlaupa með sig í gönur í þessu máli eða vill hann ríkisstjórnina einfaldlega feiga? Fær hann málefnum sínum ekki framgengt í ríkisstjórnarsamstarfinu? Svo virðist vera því einbeittur og harðskeyttur málflutningur hans sem er síendurtekinn í málefnum dómsmála bendir til þess. En ef baráttumálin eru á þessa leið, þ.e. að leggja beri heilu embættin niður í núverandi mynd þá er nú skiljanlegt að lítið sé gert.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 19.5.2008
Hinn umhverfissinnaði ökumaður
Á netinu má finna ýmis ráð fyrir umhverfissinnaða ökumenn og sjálfsagt sum hver hin ágætustu. Til dæmis það að aka ekki yfir hámarkshraða. Margir ökumenn virðast stóla á að aka á 80 þar sem 70 er hámarkshraði eða 100 þar sem 90 er hámarkið. Af hverju ætli það sé? Það er bæði mun dýrara heldur en að halda sig innan ramma laganna og svo mengar það meira. Getur verið að slæm skipulagning orsaki þetta tímaleysi og þennan hraða?
Nú hef ég heyrt það sjónarmið að tímasparnaður í umferðinni skili sér í aukinni hagsæld, en skyldi ekki góð skipulagning gera það miklu fremur? Hvað ef t.d. tveir eða þrír deila bíl saman frá Reykjavík til Akureyrar og halda sig á eða við hámarkshaða heldur en ef þrír bílar færu sömu leið og væru eins nálægt hundraðinu og Blönduóslöggan leyfði? Sparnaðurinn er strax augljós ef fleiri en einn eru í bílnum og sparnaður er nákvæmlega það sama og minni mengun.
Eitt ráðið sem ég sá var á þá leið að það ætti að létta bílinn eins og kostur er, ekki geyma hluti í bílnum til að rúnta með því öll þynging kallar á aukna eldsneytisnotkun. Einn vildi ganga svo langt að gera aldrei meira en að hálffylla tankinn til að létta bílinn en það er kannski frekar fyrir þá sem hafa tíma til að stoppa oftar á bensínstöðvum.
Laugardagur, 17.5.2008
Af hverju hugnast mér ekki ESB?
Af hverju hugnast mér ekki ESB? Ég gæti nefnt þrjár ástæður:
1. Hömlur á verslunarfrelsi. Hér er ein lítil saga um þetta. Ég er áhugamaður um fjarskipti með talstöðvum og mig langaði í fyrra að kaupa CB- talstöð í Bandaríkjunum og flytja inn. Mér var tjáð af starfsmanni Póst- og símamálastofnunar að það væri óheimilt að flytja inn talstöðvar nema þær hefðu CE merkingu. Nýjar CB talstöðvar framleiddar fyrir Bandaríkjamarkað eru vel nothæfar hérlendis og eru í fáu ef nokkru frábrugðnar sömu vöru sem framleidd er fyrir ESB nema að þær eru ekki með CE merkinu. Flestar eru þessar stöðvar t.d. með 4 Watta sendistyrk. Stöðvarnar var samt hægt að fá á mun hagstæðara verði í Bandarikjunum síðasta ár. Starfsmaðurinn tjáði mér að ef ég flytti inn svona stöð sem ekki væri með CE merkingu þá yrði hún gerð upptæk í tollinum! Kurteist en afdráttarlaust svar. Ég segi nei takk! Ekkert staðlað ESB helsi fyrir mig. Verslunarfrelsi er dýrmætt frelsi og uppspretta hagsældar og það ætti ekki að taka hugsunarlaust af fólki.
2. Mismunun gagnvart skyldfólki og ættingjum búsettum utan ESB. Konan mín er frá Filippseyjum og hana langaði til að útvega frænku sinni sem þar er búsett vinnu hérlendis því það vantaði starfsfólk á vinnustað hennar. Farið var í langt umsóknarferli og ítrekað auglýst og óskað eftir fólki hérlendis sem ekkert fannst. Eftir næstum árs þóf við kerfið kom loksins afdráttarlaust svar: Ákveðin synjun og vinnustaðnum bent á að snúa sér til Evrópskrar vinnumiðlunar til að afla sér starfsfólks.
3. Breytt sjálfsmynd þjóðarinnar. Ef fólk gengst inn á reglur af þessu tagi sem hér er nefnt að framan og finnur til vanmáttar síns gagnvart því að þeim sé breytt þá lamast bæði frelsishugsunin og sú hugsun að í þessu landi búi frjálsborin þjóð sem einhverju fái breytt með eigin ákvörðunum. Ef vitringar, sérfræðingar og stjórnlyndir forræðishyggjumenn úti í löndum fá að fara sínu fram hérlendis hvað sem hver tautar og raular hérlendis (eins og til dæmis hvíldartímákvæði vörubílstjóra) þá er erfitt að ætla annað en þessi frelsissjálfsmynd skaðist.
Miðvikudagur, 7.5.2008
Um örnefnið „Almannagjá“ og kenningar um staðsetningu almennings á Alþingi hinu forna
Sumrin 1984-1986 var ég sumarstarfsmaður í Þjóðgarðinum á Þingvöllum og vann þar ýmis störf svo sem að tína rusl í Almannagjá og nágrenni. Þá fór ég að velta fyrir mér kenningum sem hingað til hafa verið viðteknar um að lögsögumaðurinn á Alþingi hinu forna hafi staðið á Lögbergi og talað til mannfjölda sem á að hafa staðið niðri í hlíðinni austan megin við gjána, dreifður um þar fyrir neðan og allt niður að Öxará. Balarnir þar stóðu hærra á miðöldum því land seig á Þingvöllum eins og kunnugt er í jarðskjálftunum miklu undir lok 18. aldar. Þessar kenningar rifjuðust upp í fyrrakvöld þegar ég sá Sigurð Líndal í sjónvarpinu reifa þetta við danska kóngafólkið og þar minntist hann líka á þá kenningu sína að lögsögumaðurinn hafi snúið baki í fólkið í hlíðinni og talað í áttina að gjárveggnum til að nýta hljómburðinn í hinum háa vestari bakka gjárinnar.
Nú er það svo að sá sem leggur leið sína um Almannagjá og Lögberg og grenndina þar fyrir neðan, og fer þarna um í alls konar veðri veitir því auðveldlega athygli að það sem sagt er í gjánni berst sérlega vel eftir henni endilangri nema veðurhljóð sé þeim mun meira. En reyndar er það svo að ef hvasst er þarna þá er besti og skjólsælasti staðurinn bæði fyrir rigningu og roki niðri í gjánni, þ.e. niðri í Almannagjá. Þetta geta menn sem best prófað sjálfir því umferð gangandi vegfarenda er umtalsverð og tal fólksins heyrist best niðri í gjánni sjálfri og berst vel. Við góðar aðstæður gerist það jafnvel að það sem sagt er stundarhátt niðrundir Haki heyrist alla leið að beygjunni sem verður á gjánni skömmu áður en komið er að Öxará og það án þess að menn ætli að reyna mikið á röddina.
Þessar voru hugleiðingar mínar þegar ég dundaði við ruslatínsluna og í framhaldi af því fór ég að velta fyrir mér örnefninu 'Almannagjá' og hvað það segði. Ég velti því fyrir mér spurningunni: Hver er í Almannagjá ef ekki almenningur? En eins og kunnugt er þá er talið að talsverður fjöldi fólks hafi verið á þinginu að hlýða á lögin og dómana eins og sjá má hér:
Alþingi Íslendinga er í senn elsta stofnun þjóðarinnar og sú æðsta. Það er talið stofnað á Þingvöllum árið 930, og markar sá atburður upphaf þjóðríkis á Íslandi. Í upphafi var Alþingi allsherjarþing þar sem æðstu höfðingjar komu saman til löggjafarstarfa og til að kveða upp dóma. Auk þess var öllum frjálsum mönnum og ósekum heimilt að koma áþingið, og þangað sóttu auk goða bændur, málsaðilar, kaupmenn, iðnaðarmenn, sagnaþulir og ferðalangar. Oft hefur því verið fjölmennt á Alþingi.Þeir sem sóttu Alþingi dvöldust í búðum á Þingvöllum um þingtímann. Innan þinghelgiskyldu allir njóta griða og frelsis til að hlýða á það sem fram fór.Miðstöð þinghaldsins var Lögberg. Þar átti lögsögumaðurinn fast sæti, en hann var æðsti maður þingsins. Hlutverk hans var meðal annars að fara upphátt með gildandi lög Íslendinga, þriðjung þeirra ár hvert. Lögin um þinghaldið, þingsköpin, fór hann með fyrir þingheim árlega. [Leturbr. RGB] [1]
[1] Sjá: http://www.althingi.is/pdf/isl.pdf
Stjórnmál og samfélag | Breytt 12.6.2008 kl. 22:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 27.1.2008
Hvað dvaldi almannavarnir 25. janúar?
Föstudaginn 25. janúar gekk óveður yfir landið og færð spilltist svo að Reykjanesbrautin og Hellisheiði lokuðust en það tókst að halda Þrengslunum opnum. Fjöldi fólks tepptist í bílum sínum og þurfti að bíða hjálpar við erfiðar aðstæður þar til veður lægði. Við þessar og líkar aðstæður er heppilegast að loka erfiðum leiðum sem fyrst fyrir fólksbílum svo hægt sé að koma í veg fyrir öngþveiti, erfiðleika og hættu sem og til að lögregla og sjúkrabílar geti notað leiðirnar ef á þurfi að halda. Einnig ættu almannavarnir að koma ákveðnum og skýrum skilaboðum til almennings og fræðsluyfirvalda í gegnum fjölmiðla þegar svona ástand skapast og gætu þar notað RÚV með mun markvissari hætti en nú er gert, svo sem með því að rjúfa dagskrá og lesa upp símanúmer sem almenningur getur hringt í til að vara við hættuástandi.
Sjá líka þessa bloggfærslu hér sem fjallar um ástandið á Eyrarbakkaveginum þennan morgun.
Laugardagur, 26.1.2008
Af hverju kemur vonda veðrið okkur alltaf jafn mikið á óvart?
Á Selfossi var ástandið ekki slæmt hvað varðar samgöngur í gærmorgun, þar voru götur ruddar og lítið fjúk en strax og kom út fyrir bæinn var ástandið mun verra, skafrenningur og skafbylur, skyggni lítið, hálka, myrkur og þæfingsfærð fyrir fólksbíla. Ástandið á Eyrarbakkaveginum var ekki burðugt. Á móts við Stekka hafði snjóplógur farið útaf og fyrir sunnan var þæfingsfæri. Á móts við snjóplóginn voru fólksbílar að festast í snjó á veginum. Ég var á jeppa og keyrði niður að Stokkseyri snemma á 8. tímanum og lagði af stað uppúr aftur rétt fyrir 8. Þá voru komnar langar raðir á móts við Stekka, bílar voru fastir og einn hafði lent útaf. Ef fólkið í fólksbílunum hefði vitað hvernig aðstæður voru þarna þá er ég nokkuð viss að margir hefðu frestað för sinni en ekkert heyrðist um þetta í RÚV, en talað var um erfiðleika á Reykjanesbraut, á Hellisheiði og í Þrengslum. Enn og aftur þarf ég að greiða afnotagjaldið með það á tilfinningunni að ég sé ekki að fá andvirðið til baka í því öryggi sem lögboðið er svo sem sjá má í 8. gr. laga nr. 6 frá 2007 um RÚV.
Þegar svona gerist þá vakna efasemdir um að samfélagið sé að nýta sér þær upplýsingar sem fáanlegar eru bæði með veðurspám og svo um aðstæður á hverjum stað frá fólki á staðnum. Bæði eru veðurspár orðnar mun öruggari en áður var og svo hefur farsímatæknin breytt miklu. Í síðasta óveðurskafla sem varð fyrir 8 árum hér á Suðurlandi hefur farsímaeign örugglega ekki verið jafn útbreidd og hún er núna. Veðurspáin kvöldið áður varaði við stormi á bilinu 13-20 metrum og að verst yrði við ströndina. Snjór var jafnfallinn og laus um 20 sentimetra þykkur á þessu svæði og því nokkuð fyrirsjáanlegt hvað myndi gerast. Við býsnumst gjarnan yfir því fólki sem leggur á fjöll í slæmri spá en gerum sjálf svo nákvæmlega það sama við okkar eigin bæjardyr þó fyrirsjáanlegt sé að aðstæður geti orðið bæði hættulegar og heilsuspillandi ekkert síður en á fjöllum og ætlumst jafnframt til að aðrir geri slíkt hið sama. Af hverju er öryggi og heilsa fólks ekki látin njóta alls mögulegs vafa? Hér er þörf á bæði umræðu og hugarfarsbreytingu sem fyrst.
Þriðjudagur, 1.1.2008
Óviðunandi frammistaða RÚV í óveðrinu á Austurlandi
Í óveðrinu sem gekk yfir Austurland 30. 12. síðastliðinn var það ekki RÚV heldur mbl.is sem varð haldreipi fólks sem setið hafði tímunum saman í rafmagnsleysi. Sjá þessa bloggfærslu hér.
Er hið margumrædda öryggishlutverk RÚV kannski í og með það að vera pólitískt öryggistæki ráðandi stjórnmálaafla þegar þau þurfa að koma viðhorfum sínum á framfæri? Segja má að enn ein röksemdin fyrir frjálsum ljósvakamiðlum sé sú að heppilegast sé að þeir séu óháðir ríkisvaldinu. Sjá nánar greinina þar sem vitnað er í Amy Goodman í efnisflokknum um Ríkisútvarpið á þessari bloggsíðu.
Ég tek fram að ekki ber að skilja þessi spurningarorð sem gagnrýni á það fólk sem núna situr í Stjórnarráðinu né heldur ber að skoða þetta sem gagnrýni á starfsfólk Ríkisútvarpsins.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)