Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Sunnudagur, 19.10.2008
Ríkisútvarpið í nýju ljósi efnahagsmála
Í ljósi atburða í efnahagsmálum landins sem orðið hafa síðustu daga og vikur er ólíklegt að formlegt eignarhald ríkisins breytist að neinu marki hvað RÚV varðar. Í þessari stöðu er því lítið annað að gera en horfa fram á óbreytt ástand en með einni breytingu þó. Ef RÚV ætlar að vera jafn mikið inni á auglýsingamarkaði og það hefur verið er ekkert sjálfsagðara en að hinir ljósvakamiðlarnir fari líka á ríkisstyrki þannig að allir fjölmiðlar sitji við sama borð hvað varðar slíka styrki óháð eignarhaldi. Þ.e. ríkisstofnunin fengi þá framlag í réttu hlutfalli við framlag sitt af innlendu efni rétt eins og aðrir ljósvakamiðlar. Rökin fyrir því að ríkisvaldið haldi uppi almannaútvarpi eru aðallega af menningarlegum toga og einnig er öryggishlutverk útvarpsins ótvírætt. Hægt að álykta að ekki ætti að greiða ljósvakamiðlum neitt fyrir flutning á erlendu afþreyingarefni svo sem sápuóperum og skemmtiefni heldur fyrir flutning á innlendu efni og hugsanlega einnig fyrir flutning á vönduðu erlendu fræðslu- og menningarefni. Einnig er bráðnauðsynlegt að efla starfsstöðvar útvarpsins í landsfjórðungunum fjórum utan höfuðborgarsvæðisins. Í síðasta pistli mínum Var FM væðing landsbyggðarinnar mistök? kem ég inn á það að til að halda uppi tryggri almannaþjónustu þurfi sterka miðbylgjusenda í alla landsfjórðunga og einnig sjálfstæða dagskrárgerð. Það væri ein öflugasta leiðin og jafnframt ódýrasta sem hægt væri að fara til að efla menningarlegt sjálfstæði landsbyggðarinnar. Fjölbreytt dagskrárgerð sem bæri einkenni hvers landsfjórðungs gæti einnig orðið eftirsóknarvert ljósvakaefni á höfuðborgarsvæðinu og þannig yrði það ekki lengur bara veitandi heldur einnig þiggjandi í menningarmálum.
Sunnudagur, 19.10.2008
Lækka þarf hámarkshraða á Suðurlandsvegi strax milli Hveragerðis og Selfoss
Nú hefur Rannsóknarnefnd umferðarslysa gefið út varnaðarskýrslu um Suðurlandsveg. Í nýlegri frétt á mbl.is segir m.a:
Mikilvægt er að brugðist sé við hratt og markvisst því fjöldi slysa og alvarleiki þeirra er slíkur að ekki verður við unað. Undanfarin ár hefur nefndin farið á vettvang alvarlegra umferðarslysa á milli Hveragerðis og Selfoss.
Að mati nefndarinnar er aðgreining akstursstefna áhrifaríkasta leiðin til að auka umferðaröryggi á þessum hættulega vegkafla. Hafin er hönnun tvöföldunar vegarins á þessum stað en Rannsóknarnefnd umferðarslysa hefur miklar áhyggjur af öryggi vegfarenda á þessum kafla vegna eðlis og fjölda slysa sem nefndin hefur rannsakað þar.
Síðastliðin fimm ár hefur nefndin farið fimm sinnum á vettvang alvarlegs umferðarslyss á þessum 12 km kafla, þar af hafa fjögur slys orðið undanfarin tvö ár. Telur nefndin nauðsynlegt að bregðast við sem skjótast með bráðabirgðalausnum til að auka öryggi á veginum og komast hjá frekara manntjóni þar til búið sé að opna veg sem aðskilur akstursstefnur. Í því samhengi leggur nefndin til að hámarkshraði verði lækkaður á kaflanum í 70 km/klst. samhliða öflugri löggæslu og unnið verði að því að bæta tengingar inn á veginn með betri merkingum og auknu rými," að því er segir í skýrslunni. [Leturbr. RGB].
Nú er bara að bíða eftir að samgönguráðherra og vegagerðin taki af skarið hið fyrsta og drífi í því að fara eftir tillögu RNU. Það ætti varla að vera meira en dagsverk að skipta um hraðaskiltin á þessari leið og hver dagur sem líður með 90 km. hámarkshraða á þessum vegi er einum degi of mikið. Þetta hef ég þrisvar bent á hér á blogginu, fyrst með pistli frá í október í fyrra, í pistli sem birtist í maí á þessu ári sem ég endurbirti í ágúst á þessu ári. Mig langar einnig að nota tækifærið og gagnrýna að víða hér á Suðurlandi skuli látið nægja að setja biðskyldumerki á vegi sem koma þvert á veg þar sem er 90 km. hámarkshraði. Á þessum stöðum ætti að vera stöðvunarskylda. Kannski finnst einhverjum það óþarfi en athugið lesendur góðir að ef fólk venur sig á að stöðva þegar það kemur þvert á hraðbrautina, jafnvel þó engin umferð sé þá mun það alltaf gera það undir öllum kringumstæðum og það er mikilvægt að það sé stöðvað undir öllum kringumstæðum, þ.e. að fólk sé ekki vant því að geta keyrt þvert inn á háhraðaveg án þess að stöðva. Biðskyldumerkin ætti aðeins að nota þar sem hraði er 70 eða minni.
Sunnudagur, 21.9.2008
Um hlutverk ríkisvaldsins - hvernig á að þekkja svanasöng stofnunar?
Atburðir síðustu daga í fjármálaheiminum sem felast í öflugu inngripi bandaríska ríkisins til viðreisnar fjármálamarkaðnum þar í landi varpa ljósi á hlutverk ríkisvaldsins: Það á að grípa inn í þegar enginn annar getur bjargað málunum og það á að aðhafast þegar enginn annar hefur bolmagn til framkvæmda. Að öðru leyti er að líkindum heppilegast að það haldi sig til hlés, a.m.k. á mörgum sviðum eins og önnur dæmi sýna þó ákveðin rök séu fyrir því að ríkið haldi uppi samgöngum og dreifikerfum, svo sem vegakerfis, veitna, raf eða símalína og sjái um að gæta hagsmuna almennings þegar kemur að öryggi og auðlindum jarðar. Kostir frjáls markaðar eru frumkvæði, sköpunarkraftur og hagsæld en kostir ríkisframtaks eru öryggi og góð hæfni til að viðhalda óbreyttu ástandi. Ókostir frjáls markaðar eru því að líkindum sveiflur og óöryggi en höfuðókostur ríkisframkvæmda er fyrst og fremst stöðnun. Öryggi og óbreytt ástand annars vegar og sköpunarkraftur og frumkvæði hins vegar virðast því vera andstæður sem togast á og pendúll efnahags- og menningarumræðu sveiflast á milli.
Í þessu ljósi ætti frumkvæði ríkisins sem það tók með stofnun Ríkisútvarpsins að geta talist innan marka eðlilegs inngrips, þó svo tvær sjálfstæðar útvarpsstöðvar hafi þá þegar verið stofnaðar og a.m.k. önnur þeirra hafi þurft að hætta starfsemi vegna útvarpslaganna sem var auðvitað ekki gott. Það er því kannski frekar spurningin um það hvenær á að hætta sem er erfiðari? Kannski er það þegar lýðum er ljóst að einkaaðilar eru fullfærir um að uppfylla þau skilyrði sem sett eru til starfseminnar? Hvað varðar ljósvakamiðla ætti flestum að vera ljóst að vegna stórstígra tækniframfara síðustu áratuga þá ættu nokkrir einkaaðilar að hafa bolmagn til að rækja bæði menningarlegt hlutverk ríkisins á ljósvakasviðinu sem og öryggishlutverkið. Það frumkvæði og sköpunarkraftur sem slíkt fyrirkomulag leysir úr læðingi myndi fljótlega koma í ljós.
Annmarkar núverandi kerfis eru orðnir býsna áberandi og ég hef bent á þá nokkra eins og yfirlit yfir pistla mína um RÚV sýnir, sem og nokkrir nýrri pistlar. Í fyrradag, föstudaginn 19. september 2008 kemur Morgunblaðið inn á svipuð rök í síðari forystugrein sinni. Þar stendur m.a:
RÚV á frekar að setja peninga skattgreiðenda í að texta fréttir og annað innlent efni í þágu heyrnarskertra (sem eru um 25.000 manns á Íslandi) en að kaupa erlent afþreyingarefni, sem það sýnir í samkeppni við einkareknar sjónvarpsstöðvar.
Þetta tek ég undir, jafnvel þó svo að textað erlent afþreyingarefni komi líka til móts við þarfir heyrnarskertra (vegna textans). Hugsunin er sú að þetta dýrmæta fjármagn á að nota í þágu íslenskrar menningar og frétta af henni en ekki í erlent afþreyingarefni fyrir vel heyrandi fólk sem býðst næg afþreying á frjálsu stöðvunum - og það jafnvel á töluðu íslensku máli. Nú kann einhver að nefna hinar dreifðu byggðir í þessu sambandi en tækniframfarir síðustu missera eru einnig að bæta stöðu þeirra, og það hljóta flestir að sjá að það er ekki hægt að tefja og standa í vegi fyrir framþróun vegna misskilins velvilja í þágu þeirra sem kjósa að búa afskekkt. Enda var það svo að það var mbl.is en ekki RÚV sem kom fólki til hjálpar í óveðrinu á Austurlandi síðasta vetur þegar síminn komst í lag andartak og fólkið komst inn á mbl.is.
Ég lýk þessum pistli með því að ítreka enn einu sinni að þó ég gagnrýni RÚV þá beinist sú gagnrýni ekki að starfsfólki stofnunarinnar, né að því sem vel er gert á þeim bæ og vel hefur verið gert, heldur að lagaramma þeim sem stofnunin býr við sem ég tel vera undirrót flest þess sem úrskeiðis fer á þeim bæ. Ég tek líka fram að vegna sögulegra ástæðna tel ég ekki nauðsynlegt að ríkið losi sig við Útvarp Reykjavík sem hin síðari ár hefur gengið undir nafninu Rás 1 þó að ýmsu megi hyggja hvað þá útvapsrás varðar.
Laugardagur, 6.9.2008
Vinnubrögð Útlendingastofnunar í máli Mark Cumara sæta furðu
Í 24 Stundumí dag er greint frá á bls. 4 máli Mark Cumara 23 ára manns í Þorlákshöfn sem kom hingað til lands frá Filippseyjum 17 ára til dvalar hjá móður og fósturföður sem bæði eru íslenskir ríkisborgarar og hafa dvalið hérlendis síðasta áratug. Af fréttinni má ráða að mistök hafi verið gerð í umsókn tilskilinna leyfa fyrir piltinn þegar hann kom hingað til lands en ekkert var gert í málinu þangað til nú að hann fær stuttan frest til að fara úr landi. Í fréttinni segir orðrétt: Útlendingastofnun segir foreldra bera ábyrgð á því að börn hafi dvalarleyfi þar til þau eru lögráða og eftir það beri þau ábyrgðina sjálf. Stofnunin geti ekki tekið það að sér. Lög kveði á um að útlendingur í ólögmætri dvöl fari úr landi. Mál Marks er ekki í brottvísunarferli, en engu að síður er honum gert að hverfa úr landi fyrir 16. sept. Hann bað um lengri frest en fékk ekki. Sækja þarf skriflega um frest og tilgreina ástæður.
Nú hef ég áður lýst því í pistlinum Af hverju hugnast mér ekki ESB hvernig erlendu fólki er mismunað eftir því hvort það kemur frá ESB landi eða ekki. Ekki skal það gagnrýnt að embættismenn Útlendingastofnunar geri það sem þeim ber að gera samkvæmt reglum, en greinilegt er að reglurnar eru gallaðar ef rétt er að stofnunin hafi ekki komið foreldrum piltsins í skilning um alvarlega stöðu hans fyrr og gefið þeim tilskilinn frest til að greiða úr málum. Upplýsingaskylda íslenskra stjórnvalda hlýtur að vera einhver og þau geta ekki varpað þessari ábyrgð alfarið yfir á fjölskyldu piltsins. Ef fjölskyldan hefur beðið munnlega um frest en ekki fengið því að formsins vegna verði slíkar beiðnir að vera skriflegar þá hlýtur það að vera stofnunarinnar að aðstoða fólkið að sækja um skriflega. Ef brottvísunin er á þeim forsendum að skriflega umsókn um frest vanti, þá er nærtækast að ætla að stofnunin sé að beita of mikilli hörku í máli þessa pilts. Vonandi kemur hið gagnstæða í ljós og vonandi mun þetta mál hljóta farsælan endi.
Fimmtudagur, 4.9.2008
Indland: Ofsóknir brjótast út gegn kristnum í Orissa
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 30.8.2008
Þarf lögreglan að koma sér upp ódýrari bílaflota?
Nýlegar fregnir um niðurskurð hjá lögreglunni og búsifjar hennar vegna hás eldsneytisverðs vekja upp spurningar hvort ekki sé hægt að haga endurnýjun bílaflota lögreglunnar þannig að sparneytnis- og hagkvæmnissjónarmiðum verði gert hærra undir höfði þó án þess að draga úr öryggiskröfum. Áskorun Geirs Haarde forsætisráðherra í þjóðhátíðarræðunni 17. júní sl. um að þjóðin þurfi að breyta um lífsstíl hlýtur að eiga við um embætti ríkisins sem aðra. Bílar lögreglunnar hafa oftast verið af dýrari tegundum og fátt bendir til að sparneytni og ráðdeild hafi verið stór þáttur í ákvarðanatökunni. Hver man ekki eftir stóru Svörtu Maríu - Chevrolet Suburban skutbílum löggunnar sem hún notaði lengi vel. Því næst komu Volvóarnir, bílar sem fáir eignuðust nýja hérlendis nema betur stæðir borgarar. Sparneytni hefur ekki verið aðaleinkenni þessara bíla heldur fremur öryggi, glæsileiki og vélarafl.
Í fyrrasumar kom ég til London og varð vitni að því hvernig lögreglusveit á hestum stjórnaði umferðinni fyrir framan höll Bretadrottningar við varðskipti lífvarðasveitarinnar, sem reyndar var líka öll á hestum. Hestarnir létu fullkomlega að stjórn og voru greinilega vel nothæfir í þetta verkefni. Á Ítalíu hef ég haft spurnir af því að lögreglumenn séu á vespum! Líklega þykir það ekki merkilegur farkostur í augum þeirra sem aka dags daglega um á Harley Davidson mótorhjólum. Tíðarfarið hérlendis hamlar þó líklega bæði hesta- og vespunotkun lögreglunnar en ég velti fyrir mér af hverju þeir nota ekki meira sparneytna smábíla sem ættu að duga fullvel í flestum aðstæðum, séu þeir bílar styrktir sérstaklega. Nú kann einhver að segja að slíkir bílar hafi ekki afl til að veita eftirför kraftmeiri bílum en í þeim tilfellum þarf hvort sem er að grípa til sérstakra ráðstafana auk þess sem ofsaaksturs-eftirfarir lögreglunnar eru á tíðum sérlega vafasöm athafnasemi hins opinbera sér í lagi ef horft er á að allir eru jafnir fyrir lögunum. Í tilfelli ofsaaksturs eru góð fjarskipti og skipulagning trúlega áhrifaríkari heldur en kraftmiklir bílar. Ef það væri stefna lögreglunnar að elta ekki þá sem hunsa stöðvunarskyldu þá myndu þessar eftirfarir trúlega fljótlega heyra sögunni til. Líkurnar á að handsama ökufantana síðar eru hvort sem er yfirgnæfandi miklar og þeir skapa að líkindum minni hættu fyrir aðra vegfarendur ef þeir vita að þeir verða ekki eltir uppi.
Fimmtudagur, 21.8.2008
Alexey Stakhanov - fallin goðsögn kommúnismans
Ein af þeim goðsögnum sem haldið var á lofti á síðustu öld af áróðursmönnum Sovétríkjanna og málpípum þeirra í öðrum löndum, misjafnlega nytsamlegum sakleysingjum var sagan af Alexey Stakhanov kolanámumanninum sem að sögn gat unnið á við fimm eða gott betur. Stakhanov varð svo frægur að hann komst á forsíðu tímaritsins Time árið 1936. Hann var lykilmaður í áróðursstríði Stalíns og átti eflaust að sýna hvernig kommúnisminn gat hvatt alþýðuna til dáða. Ég minnist þess að ég hugsaði stundum um þennan mann sem gat hagrætt vinnu sinni og tíma þannig að hann fimmfaldaði afköst sín í kolanámunni og ég hugsaði í framhaldinu sjálfur um hvernig ég gæti hagrætt tíma mínum og afköstum betur. Á menntaskólaárunum undir lok 8. áratugarins voru marxistar - leninistar áberandi og einnig virtist mér sem Mao Zedong væri í talsverðu uppáhaldi hjá sumum. Mér blöskraði samt alltaf einhliða og ótrúverðugur áróður kommúnista og bullið um vondu atvinnurekendurna sem aðrændu góðu verkamennina snerti mig ámóta mikið pólitískt séð og ævintýrið um Hans og Grétu. Marx, Lenín, Mao eða Stalín voru aldrei mínir menn en eftir á að hyggja þá hugsa ég að hafi einhver þessara hetja sósíalismans höfðað til mín þá hafi Stakhanov gert það. Ég viðurkenni að ég trúði sögunni af Stakhanov og ég sá ekki í gegnum hana á þeim árum. Þá geisaði enn kalt stríð og greinar á við Time greinina sem vísað er á hér að ofan voru hiklaust kallaðar moggalygi. Það var erfitt andrúmsloft og það gat verið áhættusamt að viðra pólitískar skoðanir því menn gátu átt á hættu að missa vini eða falla í ónáð á ýmsum stöðum.
Seint á 9. áratugnum byrjaði svo að molna undan orðstír Stakhanovs. Það byrjaði með grein í The New York Times 1985 og síðan fylgdi sjálf Pravda í kjölfarið 1988, en Pravda var málgagn sovéska kommúnistaflokksins. Á þeim árum var Pravda orðin óvægin í endurskoðunarhlutverkinu * og perestrjoka - stefna endurskoðunar- og umbótasinnans Gorbatsjoffs var orðin ofan á. Þessar fregnir nam ég með einum eða öðrum hætti á þessum árum, blessunarlega og því er ég núna laus undan oki Stakhanovs - eða næstum því. Ég stend sjálfan mig þó að því ennþá að reyna að gjörnýta tímann eins og hægt er. Ég opna stundum tvær eða þrjár tölvur og vinn á þeim öllum. Set í gang verkferla á þeim og færi mig síðan á milli og ýti á enter á einni á meðan ferlismælir silast yfir skjáinn á annarri og sú þriðja er í endurræsingarfasa. Þetta er stundum hægt en þó ekki alltaf. Ég afsaka mig gjarnan með því að hérna fari ég líka eftir aðferðafræði örgjörvans sem úthlutar hverju verki tímasneið og heldur mörgum verkferlum í gangi líkt og fjölleikamaður með marga bolta á lofti. Var nokkur að tala um Stakhanov - nei ekki ég.
* Endurskoðunarsinnar var pólitískt hugtak sem kommúnistar notuðu. Það var notað yfir þá sem vildu þróa sósíalismann og horfa á hann með gagnrýnu hugarfari. Þetta hugtak notuðu harðir kommúnistar eins og hvert annað skammaryrði yfir frjálslyndari félaga sína.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Sunnudagur, 17.8.2008
Kvótakerfið í sjávarútveginum er ekki eitt á ferð - gleymum ekki mjólkurkvótanum!
Ég hlustaði á ádrepu Eiríks Stefánssonar á Útvarpi Sögu núna í morgun eins og oft áður og ég verð að segja að í grundvallaratriðum er ég sammála honum. Líklega myndu fleiri gefa sig fram og segja hið sama ef hann myndi pússa málflutning sinn og slípa ummæli sín um málefnaandstæðinga. En ég er sammála honum í því að kvótakerfið í sjávarútveginum sé mistök frá upphafi en það gleymist gjarnan að það er kvótakerfið í landbúnaðinum líka! Með þessu er ég ekki að segja að ég vilji ekki vernda fiskistofna - það er annað mál. Mestu mistökin með kvótakerfum þessum voru þau að sameina í eitt veiðiheimild (framleiðsluheimild hvað mjólkina varðar) og eignarheimild. Með þessum mistökum skapaðist fljótt fámenn stétt auðmanna, kvótaeigendur eða fjármagnseigendur sem eru nokkurs konar nútíma lénsherrar. Kvótakerfin eru því afturhvarf til lénsskipulags fyrri tíma og draga úr sjálfstæði og frumkvæði einstaklinganna og gera þá að leiguliðum. Mér verður oft hugsað til Hólmfasts Guðmundssonar sem var flengdur fyrir að selja nokkra fiska í Hafnarfirði. Hólmfastur þessi er ekki samtímamaður okkar, hann var uppi á tímum einokunarverslunarinnar.
Í sjávarútveginum var það eflaust einlægur tilgangur með kvótanum að vernda fiskistofna en í landbúnaðinum var ekki verið að vernda neitt nema rétt þeirra sem voru búnir að koma sér þægilega fyrir og byggja upp sín bú. Ýmsir í þeim hópi voru þó ekki ánægðir með þann kvóta sem þeir fengu úthlutað því um miðjan 9. áratuginn var þeim tilmælum beint til bænda að þeir drægju úr framleiðslu. Sumir fóru eftir þessum tilmælum en aðrir ekki. Síðar voru þessi ár gerð að viðmiðunarárum um hversu mikinn kvóta bændur fengju úthlutað. Nærri má geta hvílíkri óánægju þetta olli. Þeim sem höfðu sýnt stéttarvitund og dregið úr framleiðslu var þannig refsað fyrir hollustu sína. Einnig var miðstýring stjórnvalda á kvótanum töluverð og nokkuð var um óánægju vegna þess að einhverjir fengu kvóta en aðrir ekki. Þannig var stéttarvitund og einingarhugur kúabænda í raun stórskaddaður með kvótanum auk þess sem endurnýjun í greininni varð mjög hæg og framleiðslueiningarnar stækkuðu og stækkuðu. Í dag borga neytendur og bændur óþarfan kostnaðinn af mjólkurkvótanum. Bændurnir með lágum launum og neytendur með háu afurðaverði. Enginn stjórnmálaflokkur mér vitanlega berst fyrir afnámi mjólkurkvótans. Það gerir Framsóknarflokkurinn skiljanlega ekki því það var undir hans stjórn sem bæði þessi illræmdu kvótakerfi urðu að veruleika og var fylgt eftir af fullum þunga.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Mánudagur, 11.8.2008
Lækka þarf hámarkshraða á Suðurlandsvegi milli Hveragerðis og Selfoss
Því miður eru litlar líkur á að draga muni úr mikilli slysatíðni á Suðurlandsvegi á þeim köflum þar sem enn er ekki búið að skipta veginum. Vegna ástandsins í efnahagsmálum eru litlar líkur á að Suðurlandsvegur breytist mikið á næstu misserum og því horfa landsmenn sömuleiðis fram á óbreyttar líkur á slysum á þessari leið.
Krossarnir við Kögunarhól eru þögult vitni og áminning um þau sorglegu tíðindi sem verða aftur og aftur á leiðinni. Á þessari leið eru nokkrir kaflar sem eru sérlega áhættusamir. Einn þeirra er kaflinn milli Hveragerðis og Selfoss. Hann er sérmerktur sem slysasvæði enda hlykkjóttur og beygjóttur. Inn á hann liggja líka nokkrir þvervegir sem eru merktir með biðskyldumerkjum.
Það er í rauninni ótrúlegt að á þessum uþb. 10 km. vegarspotta skuli enn vera 90 km. hámarkshraði. Mannfallið á þessari leið virðist ekki hreyfa við neinum öðrum en þeim sem þurfa að syrgja ættingja sína. Sem fyrst þyrfti að lækka hámarkshraða á leiðinni niður í 80 eða jafnvel 70 og sömuleiðis þyrfti að skipta út biðskyldumerkjunum og setja stöðvunarskyldumerki í staðinn á þvervegina. Reyndar þyrfti að skipta út biðskyldumerkum og setja stöðvunarskyldumerki víðast hvar á Suðurlandsveginum og á fleiri stöðum þar sem sveitavegir liggja þvert inn á malbikaða aðalbraut með 90 km. hámarkshraða.
Nú kunna menn að andmæla þessari skoðun með þeim rökum í fyrsta lagi að það sé þjóðhagslega óhagkvæmt að lækka hámarkshraða. Spurning hvort menn hafa tekið háar slysalíkur og tjón sem orsakast af mannfalli með í þann reikning? Bæði er umhverfisvænt að aka á minni hraða og þjóðhagslegi reikningurinn er fljótur að jafna sig upp ef fólki fjölgar í bílum.
Í öðru lagi má reikna með þeim andmælum að fáir muni hlýða fyrirmælum um hámarkshraða. En þau rök eru ekki góð og gild í þessari umræðu. Á að afsaka lögbrot með því að löggæslan sé slæleg? Það væri hægur vandi að koma upp færanlegum löggæslumyndavélum á leiðinni sem væru færðar til með reglulegu millibili auk þess að beita hefðbundnum ráðum.
(Endurbirtur pistill frá 25.5. 2008.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Miðvikudagur, 9.7.2008
Menningarlegt sjálfstæði landsbyggðarinnar er brýnt
í nýlegum niðurskurðaráætlunum RÚV sést glöggt að RÚV er í kjarnann það sem það hefur alltaf verið og heitið: Útvarp Reykjavík. Ekki er nóg með að nú sé skorið niður á svæðisstöðvunum fyrir vestan, norðan og austan. Hér fyrir sunnan er engin stöð til að loka eða skera niður hjá. Ríkisútvarpið hefur af skiljanlegum ástæðum sinnt nágrenni sínu mest og best í menningarlegu tilliti. Þetta þarf að breytast og það getur breyst því forsendur ljósvakamiðla eru allar aðrar en þær voru árið 1930 en í grunninn er hugmyndafræðin á bakvið RÚV enn sú sama og þá. Menningarlegt sjálfstæði landsbyggðarinnar mun ekki nást nema landsbyggðin eignist sína eigin fjölmiðla og menningarlegt sjálfstæði er forsenda fyrir öðru sjálfstæði. Þeir sem styðja áframhaldandi stjórnlausan vöxt borgarinnar á suðvesturhorninu geta haldið áfram að styðja RÚV. Þeir sem eru á annarri skoðun ættu að fara fram á það að þeir peningar sem núna renna til RÚV renni til fjölmiðla sem staðsettir eru í þeirra eigin nágrenni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)