Wikilekinn - nýjustu fréttir?

Mál Wikileaks hefur fengið mikla umfjöllun og athygli í fjölmiðlum hérlendis og því er eðlilegt að menn velti fyrir sér að hve miklu leyti það á erindi við landsmenn. Lánabók Kaupþings var eðlilega áhugaverð en spurning hvort rannsóknarmenn sérstaks saksóknara hefðu ekki komið höndum yfir hana hvort sem var fyrr eða síðar. 

Einnig hefur komið í ljós að sendimenn Bandaríkjanna spá í stjórnmál og stjórnmálamenn þess lands sem þeir eru í og eru ýmsar lýsingar þeirra hentar á lofti. En hvað er nýtt við það? Er það ekki hlutverk sendimanna og sendiráða að verða sérfræðingar ríkisstjórnar sinnar í stjórnmálum og menningu þess lands sem þeir eru í? 

Myndbandið með skotárásinni í Írak var vitaskuld hræðileg uppljóstrun og sýndi að því er virðist fram á óhugnanlegan stríðsglæp. En hvað er nýtt við stríðsglæpi? Þeir eiga sér stað í hverju einasta stríði, það er gömul saga og ný. M.a. af þeim sökum eru margir algerlega á móti hernaðarlegri valdbeitingu í hvaða formi sem hún birtist.  Af þeim sökum er fjöldi manna í Bandaríkjunum og Vestur-Evrópu á móti þess háttar valdbeitingu. Í stríði getur enginn komið í veg fyrir stríðsglæpi nema hermennirnir sjálfir,  það nægir ekki að hóta kæru eða símtali við sýslumanninn.

Leki myndbandsins endurspeglar kannski fyrst og fremst brotalöm í bandarísku herréttarkerfi. Það endurspeglar óánægju hermanns með framferði hersins og vantrú hans á því að herinn geti tekið á þessu máli og öðrum þeim líkum á viðunandi hátt. 

Á meðan landsmenn þurfa að sameinast um endurreisn landsins þá ættu hvorki þingmenn né fréttamenn RÚV, sem allir eru á launum almennings, að blanda sér í mál af þessu tagi sem bæði koma þeim sjálfum í vandræði sem og dreifa athygli landsmanna frá nauðsynlegum verkefnum. Það að um opinbera starfsmenn er að ræða getur einnig misskilist af aðilum utan landsins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband