Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Sunnudagur, 30.12.2007
Getur EFTA gengið í endurnýjun lífdaga?
Tillaga Björgólfs Thors í Kastljósinu á dögunum um að taka gengisáhættu út úr rekstri fyrirtækja hér á landi með því að skipta um gjaldmiðil er allrar athygli verð. Hann lagði m.a. til að taka upp svissneska frankann. Viðskiptaráðherra var fljótur til svars og taldi tormerki á því að það væri hægt því til þess þyrfti að koma á myntbandalagi við Sviss.
Nú spyr ég því í framhaldinu: Hvers vegna er ekki hægt að koma á myntbandalagi við Sviss? Hér er þegar fyrir hefð fyrir löngu samstarfi við Sviss í gegnum EFTA fríverslunarbandalag Evrópu sem segja má að sé ekki síðri hugmynd að samstarfi Evrópuríkja en EES þó svo síðarnefnda bandalagið hafi vaxið mun meira á síðustu áratugum. Sú viðleitni EES að koma á Bandaríkjum Evrópu er trúlega óraunhæf. Þó svo stofnun Bandaríkja Norður- Ameríku hafi tekist þrátt fyrir eitt frelsisstríð og eina borgarastyrjöld þá er ekki tryggt að sama gangi í Evrópu. Þar voru menn að stofna nýtt þjóðríki en hér er verið að sameina ríki þar sem hefðir og venjur eru fastar í sessi - sem og þjóðtungur og þjóðarsérkenni sem fólki eru kær. Í Bandaríkjunum fórnuðu menn sínum þjóðlegu sérkennum af því þeir voru komnir í nýtt land. Hér í Evrópu er ekkert slíkt að gerast.
Fríverslunarbandalag Evrópu er aðili að EES samningnum og sá kostur að efla það bandalag og það samstarf er því möguleiki sem ætti að kanna til hlítar og ekki spillir tillaga Björgólfs í þessu sambandi.
Þriðjudagur, 11.12.2007
Enn birtast vankantar á fyrirkomulagi Ríkisútvarpsins ohf
Enn eitt dæmið um það hve fyrirkomulag ríkisútvarpsins er óheppilegt er að með hlutafélagsvæðingunni þá flýtur þessi hálf- opinbera stofnun í tómarúmi á milli opinbera geirans og einkageirans. Hvers konar hlutafélag er það sem þarf að standa fjölmiðlum skil á launum starfsfólks síns opinberlega? Þegar laun útvarpsstjórans voru hvað mest í umræðunni á dögunum kom í ljós að samkvæmt upplýsingalögum sem gilda um opinberar stofnanir verður stofnunin/fyrirtækið að upplýsa um launakjör yfirmannsins. Þetta er ótrúlegt en satt og hlýtur að vera sérlega óþægilegt fyrir fyrirtæki sem á að starfa á samkeppnismarkaði - að vísu með veglegum heimanmundi þó. Tími er til að þessu ástandi linni og heppilegra félagsform verði fundið fyrir stofnunina eigi hún að vera áfram undir handarjaðri ríkisins. Hinn kosturinn og hann væri ekki síðri væri að stíga einkavæðingarskrefið til fulls. Þessi hálfkveðna vísa getur trauðla gengið til lengdar.
Jafnframt þyrfti að koma á fót öflugu hljóðritasafni undir handarjaðri ríkisvaldsins. Hvað afnotagjaldið varðar þá ættu neytendur að fá að kjósa hvert sá styrkur rennur og hann gæti runnið til frjálsra útvarps- og sjónvarpsstöðva í réttu hlutfalli við framboð þeirra af innlendu efni. Sjá t.d. fyrri pistla mína um þetta efni undir efnisflokknum 'Ríkisútvarpið'
Laugardagur, 1.12.2007
Hlúa þarf betur að hljóðrituðum menningararfi
Í grein 3 í lögum nr. 6 frá 1. febrúar 2007 um Ríkisútvarpið ohf segir um hlutverk almannaútvarps, en það er m.a:
Að varðveita til frambúðar frumflutt efni, enda sé gengið frá samningum við aðra rétthafa efnis um að slíkt sé heimilt.
Í 4. grein segir svo:
Ríkisútvarpinu ohf. er heimilt að taka saman, gefa út og dreifa hvers konar efni, án endurgjalds eða gegn endurgjaldi, sem stuðlar að því að miðla áður framleiddu efni í eigu félagsins, svo sem rituðu máli, hljómplötum, hljóðsnældum, geisladiskum, myndböndum og margmiðlunarefni.
Í þessum málsgreinum felst enn ein mismununin gagnvart frjálsu útvarpsstöðvunum sem fyrir bera skarðan hlut hvað varðar menningarstyrk frá ríkisvaldinu. Ekki er nóg með að RÚV fái styrk til að varðveita frumflutt efni heldur getur stofnunin líka hagnast á því að gefa það út. Með ólíkindum er að frjáls og fullvalda þjóð skuli koma menningarmálum sínum fyrir á þennan hátt og láta einn aðila njóta þvílíkra forréttinda. Margþætt hlutverk RÚV hlýtur líka að vera ráðamönnum þar á bæ nokkur vandi. Ekki er nóg með að stofnunin þurfi að sinna umfangsmiklum útvarpsrekstri heldur ber henni að varðveita mestan part af hljóðrituðum menningararfi þjóðarinnar!
Heppilegast væri að koma á fót sjálfstæðu hljóðritasafni eða auka við starfsemi Kvikmyndasafnsins þannig að þessum þætti menningarinnar væri sinnt af sjálfstæðri og óháðri stofnun. Jafnframt þyrfti að gefa öllum jafnan aðgang að þessu efni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 7.12.2007 kl. 22:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 18.11.2007
Myndarleg hátíðahöld á degi íslenskrar tungu
Hátíðahöldin í tilefni dags íslenskrar tungu sem haldin voru í Þjóðleikhúsinu og sjónvarpað í beinni útsendingu á föstudaginn var voru sannarlega bæði skemmtileg og ánægjuleg. Í dag er svo endursýning þessa atburðar í RÚV sjónvarpinu. Einstaka bloggari hefur haft á orði að of mikið hafi verið gert úr deginum en ég er ekki sammála. Jónas Hallgrímsson var stórkostlegt skáld og það sem sagt var um hann og tungumálið á þessum degi var ekki ofsagt né of oft endurtekið. Jónas er verðugur fulltrúi endurreisnar hinnar íslensku menningar sem fram fór á 19. öld og síðar og vel að þessum heiðri komin. Í tilefni þess að 200 ár eru liðin frá fæðingu hans er það sem fram fór alveg viðeigandi og sér í lagi vegna þess að þau viðhorf sem Jónas tefldi fram í stjórnmálaumræðu sinnar tíðar eru brýn enn þann dag í dag því að á dögum Jónasar sótti danskan stíft á íslenskuna en í dag er það enskan sem aldrei fyrr. Menntamálaráðuneytið og ráðherra og allir þeir sem hönd lögðu á plóginn eiga því heiður skilinn vegna smekklegra, skemmtilegra og vel viðeigandi hátíðahalda.
Sunnudagur, 18.11.2007
Stofnun ljósvakasafns er löngu tímabær
Stundum heyrist það viðhorf til stuðnings þess að RÚV verði áfram í ríkiseign að ekki megi láta menningararf þjóðarinnar til einkaaðila. En það þarf ekki að gerast. Hægt er að skilja á milli varðveisluhluta menningararfsins og hins daglega reksturs sjóvarpsstöðvarinnar og útvarpsrásanna og þess hluta starfseminnar sem í raun er safnstarfsemi. Hægt er því að stofna ljósvakasafn sem hefur það hlutverk að safna ljósvakaefni sem flutt er á íslensku eða hefur að öðru leyti ótvíræð tengsl við íslenska menningu. Þjóðarbókhlaðan gegnir nú þegar þessu hlutverki hvað varðar prentað mál og ljósvakasafnið yrði því aðeins útvíkkun á nákvæmlega sömu hugsun þegar kemur að ljósvakaefni. Það er í rauninni ótrúlegt að ekki skuli vera búið að þessu fyrir löngu. Það er líka alveg jafn ótrúlegt að íslenska ríkið skuli enn standa að því að dreifa textuðu erlendu afþreyingarefni - ótrúlegt en satt!
Sagt hefur verið í mín eyru að ríkisreksturinn einn tryggi gæði þess efnis sem framleitt er og hefur það verið rökstutt með tilvísunum í margt sérlega fróðlegt og skemmtilegt efni sem framleitt hefur verið fyrir BBC. Sagt hefur verið að þetta hefði aldrei verið hægt að framleiða í Bandaríkjunum þar sem frjálshyggjan hefur yfirhöndina. En málið er auðvitað að hér er hægt að fara milliveg. Í Bandaríkjunum mætti trúlega vera meira um opinberan styrk til gerða heimildamynda. Ástæða þess hve vel tekst til hjá BBC er auðvitað sú að hið opinbera borgar brúsann. Það gæti sem best verið áfram þó einkaaðilar sjái um rekstur stöðvanna. Afnotagjaldið þyrfti ekki að afleggjast þó RÚV verði rekið af einkaaðilum. Það er líka löngu tímabært að fara að skipta um heiti á því og fara að kalla það menningarskatt. Þessi skattur gæti síðan runnið til þeirra einkastöðva sem greiðendurnir kjósa sjálfir í réttu hlutfalli við framboð þeirra af íslensku efni. Þannig væri komið það aðhald sem nauðsynlegt er að neytendur fjölmiðla sýni þeim og einnig hvatning til þeirra til að framleiða og dreifa íslensku efni og láta það hafa forgang fram yfir erlent. Þetta er í rauninni ákveðinn menningarlegur verndartollur sem þung rök eru fyrir því að eigi rétt á sér. Hví ekki að hlúa að og vernda sjálfsmyndina og þau gildi sem þjóðin trúir á á sama hátt og innlend framleiðsla á öðrum neysluvörum er vernduð?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 7.12.2007 kl. 22:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 17.11.2007
Eddan opinberar mikla grósku í ljósvakamiðlun
Edduverðlaunin og útsendingar RÚV frá þeim sem og endursýning ættu að sýna fram á hvílík gróska er í framleiðslu íslensks ljósvakaefnis. Þar leggur margt hæfileikafólk hönd á plóginn. Verðlaunin staðfesta að í íslenskri menningu býr mikill sköpunarkraftur og hægt er að segja að framboð íslensks efnis sé fjölbreytt miðað við hve fáa sjóði kvikmyndagerðarmenn geta sótt í og þó að sumt af þessu virðist nánast gert á viljastyrknum einum.
Óskandi er að sem flestir skilji að fénu sem almenningur leggur til með hinum svokölluðu afnotagjöldum er ekki best varið með því að láta það renna til einnar stöðvar sem rekin er undir forsjá ríkisvaldsins. Líklegt er að fjöldinn og fjölbreytnin muni verða heilladrýgst í þeim efnum. Þá myndu stöðvarnar allar sitja við sama borð og njóta jafnræðis. Nú kann einhver að segja að ríkisútvarp sé nauðsynlegt til að halda uppi öflugri stöð sem geti þjónað öllu landinu og fleiri stöðvar myndu aðeins dreifa kröftunum. Reynsla síðustu ára ætti að nægja til að flestir skilji að hið fyrra er ekki raunin. Allt frá því Stöð 2 hóf starfsemi sína með miklum glæsibrag hefur allt það starf í rauninni afsannað það að ríkið þurfi að halda úti öflugu sjónvarpi. Hvað varðar síðari rökin þá væri hægt að aðskilja safnhluta RÚV frá rekstrarhluta þess og halda safnhlutanum áfram undir umsjón ríkisins. Það efni sem hlyti ríkisstyrk myndi þá sjálfkrafa falla til í þann ljósvakabanka og allar stöðvarnar hafa jafnan aðgang að honum og rétt svo sem höfundarlög myndu heimila. Það væri líka mikið óráð að selja ljósvakabankann og þann menningararf sem í hann hefur safnast til eins aðila, það væri í rauninni menningaróhapp, líkt og gerðist þegar málverkasafn Landsbankans var selt með rekstri hans og húsum. Eins og staðan er í dag er RÚV í óheppilegri klemmu. Sem ríkisfyrirtæki geta þeir varla þegið rausnarlega styrki eða kostanir en sem einkaaðilar þurfa þeir á slíku fé að halda. Síðustu útvarpslög sem breyttu RÚV í opinbert hlutafélag hafa líklega gert stöðuna enn erfiðari en hún var fyrir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 15.11.2007
Vegið að öryggi íbúa Árnessýslu
Verulega er vegið að öryggi íbúa Árnessýslu og annarra sem leið eiga um sýsluna..
Þetta kemur m.a. fram í ályktun sem Lögreglufélag Suðurlands samþykkti á félagsfundi nýlega. Sunnlenska fréttablaðiðgreindi frá ályktuninni á forsíðu sinni í 45. tbl., 8. nóv. sl. Í ályktuninni kom ennfremur fram að Lögreglufélagið álítur þetta vera vegna ónógra fjárveitinga til embættis Sýslumannsins á Selfossi. Ljóst er að þarna tjáir sig fólk sem þekkir vel til mála og því er ástæða fyrir stjórnvöld að taka þessa ályktun alvarlega. Það er algerlega óviðunandi að málum sé komið þannig fyrir að grunnþjónusta ríkisins sé aflvana vegna ónógra fjárveitinga til valdstjórnunar. Þetta er sérlega alvarlegt í ljósi þess að hverjum manni sem hér á svæðinu býr má vera ljóst hvílík hætta er á ferðum á Suðurlandsveginum vegna hraðaksturs, og aksturs sem er ekki í samræmi við aðstæður sem stundum geta orðið erfiðar þar með stuttum fyrirvara. Í rauninni er ótrúlegt að ekki skuli alltaf vera mannaður lögreglubíll á vakt á Hellisheiði, í Þrengslum og Suðurlandsveginum til að stemma stigu við hraðakstri sem þar tíðkast. Ennfremur eru fréttir af fíkniefnaakstri og handlagningu fíkniefna hér í nágrenninu orðnar ískyggilega tíðar. Sýslumannsembættið á Selfossi þjónar ekki bara þéttbýlisstöðunum heldur líka víðlendum sumarbústaðasvæðum hér í nágrenninu. Í þessu ljósi koma fréttir af fjársvelti Sýslumannsembættisins á Selfossi eins og þruma úr heiðskýru lofti og í rauninni ótrúlegt að þetta skuli eiga sér stað undir dyggri ráðsmennsku Björns Bjarnasonar sem stóð sig svo vel sem menntamálaráðherra. Hér þarf greinilega að taka betur á.
Þriðjudagur, 13.11.2007
RÚV - og hin rausnarlegi styrkur Björgólfs
Hinn rausnarlegi styrkur sem Björgólfur Guðmundsson hefur lofað RÚV er lofsvert framtak og sýnir að meðal íslenskra athafnamanna fyrirfinnst menningarlegur metnaður og áræði. Viðbrögðin við styrknum eru blendin. Formaður Hollvinasamtakanna lýsti efasemdum sínum og Ögmundur Jónasson hefur sömuleiðis lýst efasemdum. Þetta sýnir svo ekki verður um villst að RÚV er enn í erfiðri aðstöðu. Sem ríkisfyrirtæki getur það ekki þegið og sem einkafyrirtæki getur það ekki hafnað. Þróun mála er einnig auðsæ. Íslensk menning er arðbær og trúlega mjög arðbær þegar upp er staðið en það sem mun leysa hana úr læðingi er frelsi hennar úr faðmi ríkisvaldsins og stjórnmálaleiðtoganna. Óskandi er að fjármunir Björgólfs muni nýtast vel til menningarlegra og góðra verka.
Ef staðan hefði verið sú á tímum Fjölnismanna að danska ríkið hefði eitt átt öflugasta fjölmiðilinn hér á landi hver hefðu áhrif þeirra þá orðið? Hverjir eru kostir Fjölnismanna nútímans, þ.e. þeirra manna sem vilja efla menningarlegt sjálfstæði þjóðarinnar og sjálfstæði hennar á öllum sviðum. Eiga þeir sitt athvarf í ranni ríkisvaldsins? Það skulum við vona miðað við stöðu mála í dag.
Auðvitað þarf sem fyrst að koma málum þannig fyrir að ljósvakaarfurinn verði ekki seldur með rekstri stöðvanna þegar þar að kemur, sem trúlega er bara tímaspursmál, rétt eins og listaverkasafn Landsbankans var selt með rekstri hans. Sem fyrst þyrfti að aðskilja rekstur ljósvakabankans frá rekstri ríkisstöðvanna og af-oheffa þann rekstur. Hann gæti sem best heitað RÚV áfram en hlutverk hans yrði einungis að varðveita ljósvakaarfinn og miðla honum, sem og að vera efnisbanki fyrir það íslenskt efni sem yrði styrkt af ríkinu og útvarpað og sjónvarpað af frjálsum og óháðum stöðvum.
Íslenskir stjórnmálamenn verða að finna það þor og þann dugnað sem þarf til að geta horfst í augu við þann veruleika að ráðherra ríkisstjórnarinnar sé ekki hæstráðandi og í raun stjórnarformaður yfir öflugasta ljósvakamiðlinum. Það er aðeins fjöldinn einn og fjölbreytnin sem mun hámarka menningarlegan sköpunarkraft þjóðarinnar og þjóna öryggishlutverkinu sem best.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 7.12.2007 kl. 22:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 10.11.2007
RÚV - Menningarleg Maginotlína
Stjórnvöld telja greinilega að RÚV eigi að vera brjóstvörn og merkisberi íslenskrar menningar og mynda mótvægi við erlend áhrif. Hugmyndafræðin á bakvið RÚV er því eins og sú á bakvið Maginotlínuna frönsku [1]. Maginotlínan var geysilega íburðarmikið mannvirki úr stáli og steypu sem teygði sig eftir landamærum Frakklands og Þýskalands, en þegar til kom keyrðu óvinirnir framhjá henni. Í RÚV eru lagðir geysimiklir fjármunir sem betur væru komnir hjá hinum ýmsu frjálsu og óháðu ljósvakamiðlum landsins. RÚV þarf sem fyrst að breyta í menningarsafn og rekstur ljósvakastöðvanna á að koma fyrir hjá einkaaðilum og gæta þess að allir ljósvakamiðlar landsins sitji við sama borð hvað varðar styrk frá ríkinu. Ef hlustendur og áhorfendur fá að velja hvert þeir láta afnotagjald sitt renna og það rennur síðan til stöðvanna í hlutfalli við framboð þeirra af íslensku efni og menningarviðburðum þá er komi það vogarafl sem menningin þarf, þ.e. sú góða menning sem trauðla fær lifað nema með opinberum styrkjum en pólitískur vilji er fyrir að lifi. Ef allar stöðvarnar gætu síðan gengið í hinn gamla menningarbrunn RÚV og jafnframt undirgengist þá kvöð að það efni sem styrkt væri yrði sett í ljósvakabankann og því nýtast öðrum þá myndi drifkraftur, frumleiki og fjölbreytni lyfta menningarlegu grettistaki. Grettistaki sem löngu er orðið tímabært að verði lyft.
Sú hugmyndafræði sem nú liggur til grundvallar RÚV er til orðin á 2. og 3. áratug síðustu aldar eða á sama tíma og hugmyndafræði Maginotlínunnar og mikilla ríkisafskipta. Framfarir í ljósvakatækni og þróun á viðhorfum til ríkisafskipta hafa tekið miklum breytingum á þessum tíma. Maginotlínan liggur nú niðurgrafin á landamærum Frakklands og Þýskalands engum til gagns, en RÚV gengur enn sem fyrr á 70-80 ára gömlum riðandi brauðfótum og framhjá því og gegnum það streymir erlent efni í stríðum straumum. Ótrúlegt að stöðin skuli enn þann dag í dag sýna ótalsett erlent efni og bjóða áhorfendum upp á íslenskan texta. Bíómyndasýningum á vegum hins opinbera ætti að hætta alfarið sem allra fyrst. Meira um það síðar.
Sú viðhorf sem ég hef sett hér fram kunna að virðast vera í anda frjálshyggju, en ég tel þessi viðhorf samt ekki vera frjálshyggjuviðhorf að öðru leyti en því að þau hafna forræði, og sér í lagi forræði á menningarsviðinu. Fjölbreytnin og sá sköpunarkraftur sem leysist úr læðingi þegar fjöldinn fær að njóta sín getur einn orðið til að fleyta íslenskri menningu framhjá menningarlegum brotsjóum og áföllum. Athugið að hér er ekki verið að gagnrýna starfsfólk RÚV sem vinnur gott starf heldur starfsramma þann og lagaramma sem löggjafarvaldið felur stofnuninni. Það er hið pólitíska vald sem ég kalla til ábyrgðar á RÚV og mistökum þess en ekki starfsfólk stofnunarinnar sem ég lít frekar á sem sérlega þolendur þessa úrelta menningarframtaks.
[1] http://en.wikipedia.org/wiki/Maginot_Line
Stjórnmál og samfélag | Breytt 7.12.2007 kl. 22:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 9.11.2007
Tæknin breytir stöðunni varðandi ljósvakamiðlun til dreifðra byggða
Stjórnmál og samfélag | Breytt 7.12.2007 kl. 22:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)