Bloggfærslur mánaðarins, september 2008
Miðvikudagur, 24.9.2008
Öryggi ferðafólks erlendis er ekki alltaf það sem það virðist vera
Öryggi ferðafólks erlendis er ekki alltaf það sem það virðist vera. Hörmulegt morð á íslenskri konu í Dóminíska lýðveldinu minnir á þetta. Það er svo fjarri því að í ýmsum löndum Afríku, Asíu eða Suður-Ameríku sé öryggi fólks jafn tryggt og það er í Vestur-Evrópu og Bandaríkjunum svo tekið sé dæmi. Við getum ferðast þangað en eitt af því sem við tökum með okkur eru innprentaðar hugmyndir okkar um öryggi og öryggistilfinningu en hætt er við að sú tilfinning geti orðið fallvalt veganesti og geti valdið hættulegu ofmati á eigin öryggi í löndum þar sem stjórnarfar er ekki tryggt eða embættismenn þiggja gjarnan aukagreiðslur fyrir unnin verk. Á þannig stöðum er réttlætið fyrst og fremst réttlæti hins sterka og kannski líka hins forsjála. Undir þannig kringumstæðum er öryggi eitthvað sem er mun meira einkamál en gengur og gerist og þeir sem ekki huga gaumgæfilega að því gætu verið í hættu. Fyrir ekki svo löngu las ég í blaði frétt af tveimur stúdínum sem ákváðu að fara í heimsreisu í tilefni af útskriftinni og völdu Suður-Ameríku til að ferðast um einar, í langan tíma og að því er virðist án skýrrar ferðaáætlunar. Ég trúði varla eigin augum þegar ég sá þetta, en það virðist því miður að verða nokkuð útbreiddur vani að íslensk ungmenni ferðist á eigin spýtur ein saman eða fá um þessi svæði. Þetta er kannski hluti af áhættusækni ungs fólk sem einnig má sjá í áhættuíþróttum, en í þessum tilfellum er áhættan stundum ekkert minni en þess sem hoppar í fallhlíf eða fram af háu húsi eða fjallsbrún í fallhlíf.
Þeir sem þekkja aðstæður í Afríku- eða Asíulöndum vita að miklu máli skiptir að þekkja aðila á staðnum og eiga sem minnst viðskipti eða samskipti við ókunnuga í tilfellum þar sem öryggi getur skipt máli. Einnig er mjög mikilvægt að ferðast ekki einn eða fáir saman heldur hafa traust fylgdarfólk sem gjörþekkir aðstæður á staðnum, helst innfædda. Til að byrja með er þetta óþægilegt, að geta ekki um jafn frjálst höfuð strokið og heima og þurfa helst að vera upp á aðra kominn með fylgd en þetta getur borgað sig til lengri tíma. Það gleymist gjarnan að öryggis- og frelsistilfinning Vesturlandabúa er ekki sjálfsögð heldur er hún afrakstur fullkomins öryggiskerfis þróaðs þjóðfélags. Við skömmumst stundum út í lögregluna en viljum jafnframt ganga óáreitt um götur borga okkar helst á hvaða tíma sólarhrings sem er. En það er munaður sem er fjarrri því að vera sjálfsagður.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Þriðjudagur, 23.9.2008
Frábær dagskrá í Ríkissjónvarpinu síðdegis á sunnudaginn
Dagskrá sjónvarpsins síðdegis á sunnudaginn var var í einu orði sagt frábær. Ég horfði á tvo dagskrárliði og gat varla slitið mig frá skjánum. Fyrst sá ég mjög fróðlegan þátt frá BBC um forna menningu Indlands og Mið-Asíu og á eftir var þáttur um hljómsveitarstjórann Herbert von Karajan. Það eru mörg ár síðan mér finnst ég hafi þurft að horfa á tvo samliggjandi þætti í Ríkissjónvarpinu og varla getað slitið mig frá skjánum en svona var það síðastliðinn sunnudag.
Geri aðrir betur. Ég held samt að það sé ekki ríkið sem tryggir gæðin heldur fyrst og fremst örugg kostun þess á menningarefni sem allt eins gæti dreifst jafnt yfir alla.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 23.9.2008
Er regntíminn hafinn?
Sunnudagur, 21.9.2008
Um hlutverk ríkisvaldsins - hvernig á að þekkja svanasöng stofnunar?
Atburðir síðustu daga í fjármálaheiminum sem felast í öflugu inngripi bandaríska ríkisins til viðreisnar fjármálamarkaðnum þar í landi varpa ljósi á hlutverk ríkisvaldsins: Það á að grípa inn í þegar enginn annar getur bjargað málunum og það á að aðhafast þegar enginn annar hefur bolmagn til framkvæmda. Að öðru leyti er að líkindum heppilegast að það haldi sig til hlés, a.m.k. á mörgum sviðum eins og önnur dæmi sýna þó ákveðin rök séu fyrir því að ríkið haldi uppi samgöngum og dreifikerfum, svo sem vegakerfis, veitna, raf eða símalína og sjái um að gæta hagsmuna almennings þegar kemur að öryggi og auðlindum jarðar. Kostir frjáls markaðar eru frumkvæði, sköpunarkraftur og hagsæld en kostir ríkisframtaks eru öryggi og góð hæfni til að viðhalda óbreyttu ástandi. Ókostir frjáls markaðar eru því að líkindum sveiflur og óöryggi en höfuðókostur ríkisframkvæmda er fyrst og fremst stöðnun. Öryggi og óbreytt ástand annars vegar og sköpunarkraftur og frumkvæði hins vegar virðast því vera andstæður sem togast á og pendúll efnahags- og menningarumræðu sveiflast á milli.
Í þessu ljósi ætti frumkvæði ríkisins sem það tók með stofnun Ríkisútvarpsins að geta talist innan marka eðlilegs inngrips, þó svo tvær sjálfstæðar útvarpsstöðvar hafi þá þegar verið stofnaðar og a.m.k. önnur þeirra hafi þurft að hætta starfsemi vegna útvarpslaganna sem var auðvitað ekki gott. Það er því kannski frekar spurningin um það hvenær á að hætta sem er erfiðari? Kannski er það þegar lýðum er ljóst að einkaaðilar eru fullfærir um að uppfylla þau skilyrði sem sett eru til starfseminnar? Hvað varðar ljósvakamiðla ætti flestum að vera ljóst að vegna stórstígra tækniframfara síðustu áratuga þá ættu nokkrir einkaaðilar að hafa bolmagn til að rækja bæði menningarlegt hlutverk ríkisins á ljósvakasviðinu sem og öryggishlutverkið. Það frumkvæði og sköpunarkraftur sem slíkt fyrirkomulag leysir úr læðingi myndi fljótlega koma í ljós.
Annmarkar núverandi kerfis eru orðnir býsna áberandi og ég hef bent á þá nokkra eins og yfirlit yfir pistla mína um RÚV sýnir, sem og nokkrir nýrri pistlar. Í fyrradag, föstudaginn 19. september 2008 kemur Morgunblaðið inn á svipuð rök í síðari forystugrein sinni. Þar stendur m.a:
RÚV á frekar að setja peninga skattgreiðenda í að texta fréttir og annað innlent efni í þágu heyrnarskertra (sem eru um 25.000 manns á Íslandi) en að kaupa erlent afþreyingarefni, sem það sýnir í samkeppni við einkareknar sjónvarpsstöðvar.
Þetta tek ég undir, jafnvel þó svo að textað erlent afþreyingarefni komi líka til móts við þarfir heyrnarskertra (vegna textans). Hugsunin er sú að þetta dýrmæta fjármagn á að nota í þágu íslenskrar menningar og frétta af henni en ekki í erlent afþreyingarefni fyrir vel heyrandi fólk sem býðst næg afþreying á frjálsu stöðvunum - og það jafnvel á töluðu íslensku máli. Nú kann einhver að nefna hinar dreifðu byggðir í þessu sambandi en tækniframfarir síðustu missera eru einnig að bæta stöðu þeirra, og það hljóta flestir að sjá að það er ekki hægt að tefja og standa í vegi fyrir framþróun vegna misskilins velvilja í þágu þeirra sem kjósa að búa afskekkt. Enda var það svo að það var mbl.is en ekki RÚV sem kom fólki til hjálpar í óveðrinu á Austurlandi síðasta vetur þegar síminn komst í lag andartak og fólkið komst inn á mbl.is.
Ég lýk þessum pistli með því að ítreka enn einu sinni að þó ég gagnrýni RÚV þá beinist sú gagnrýni ekki að starfsfólki stofnunarinnar, né að því sem vel er gert á þeim bæ og vel hefur verið gert, heldur að lagaramma þeim sem stofnunin býr við sem ég tel vera undirrót flest þess sem úrskeiðis fer á þeim bæ. Ég tek líka fram að vegna sögulegra ástæðna tel ég ekki nauðsynlegt að ríkið losi sig við Útvarp Reykjavík sem hin síðari ár hefur gengið undir nafninu Rás 1 þó að ýmsu megi hyggja hvað þá útvapsrás varðar.
Laugardagur, 6.9.2008
Vinnubrögð Útlendingastofnunar í máli Mark Cumara sæta furðu
Í 24 Stundumí dag er greint frá á bls. 4 máli Mark Cumara 23 ára manns í Þorlákshöfn sem kom hingað til lands frá Filippseyjum 17 ára til dvalar hjá móður og fósturföður sem bæði eru íslenskir ríkisborgarar og hafa dvalið hérlendis síðasta áratug. Af fréttinni má ráða að mistök hafi verið gerð í umsókn tilskilinna leyfa fyrir piltinn þegar hann kom hingað til lands en ekkert var gert í málinu þangað til nú að hann fær stuttan frest til að fara úr landi. Í fréttinni segir orðrétt: Útlendingastofnun segir foreldra bera ábyrgð á því að börn hafi dvalarleyfi þar til þau eru lögráða og eftir það beri þau ábyrgðina sjálf. Stofnunin geti ekki tekið það að sér. Lög kveði á um að útlendingur í ólögmætri dvöl fari úr landi. Mál Marks er ekki í brottvísunarferli, en engu að síður er honum gert að hverfa úr landi fyrir 16. sept. Hann bað um lengri frest en fékk ekki. Sækja þarf skriflega um frest og tilgreina ástæður.
Nú hef ég áður lýst því í pistlinum Af hverju hugnast mér ekki ESB hvernig erlendu fólki er mismunað eftir því hvort það kemur frá ESB landi eða ekki. Ekki skal það gagnrýnt að embættismenn Útlendingastofnunar geri það sem þeim ber að gera samkvæmt reglum, en greinilegt er að reglurnar eru gallaðar ef rétt er að stofnunin hafi ekki komið foreldrum piltsins í skilning um alvarlega stöðu hans fyrr og gefið þeim tilskilinn frest til að greiða úr málum. Upplýsingaskylda íslenskra stjórnvalda hlýtur að vera einhver og þau geta ekki varpað þessari ábyrgð alfarið yfir á fjölskyldu piltsins. Ef fjölskyldan hefur beðið munnlega um frest en ekki fengið því að formsins vegna verði slíkar beiðnir að vera skriflegar þá hlýtur það að vera stofnunarinnar að aðstoða fólkið að sækja um skriflega. Ef brottvísunin er á þeim forsendum að skriflega umsókn um frest vanti, þá er nærtækast að ætla að stofnunin sé að beita of mikilli hörku í máli þessa pilts. Vonandi kemur hið gagnstæða í ljós og vonandi mun þetta mál hljóta farsælan endi.
Fimmtudagur, 4.9.2008
Indland: Ofsóknir brjótast út gegn kristnum í Orissa
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 22:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)