Vinnubrögð Útlendingastofnunar í máli Mark Cumara sæta furðu

Í 24 Stundumí dag er greint frá á bls. 4 máli Mark Cumara 23 ára manns í Þorlákshöfn sem kom hingað til lands frá Filippseyjum 17 ára til dvalar hjá móður og fósturföður sem bæði eru íslenskir ríkisborgarar og hafa dvalið hérlendis síðasta áratug. Af fréttinni má ráða að mistök hafi verið gerð í umsókn tilskilinna leyfa fyrir piltinn þegar hann kom hingað til lands en ekkert var gert í málinu þangað til nú að hann fær stuttan frest til að fara úr landi. Í fréttinni segir orðrétt: „Útlendingastofnun segir foreldra bera ábyrgð á því að börn hafi dvalarleyfi þar til þau eru lögráða og eftir það beri þau ábyrgðina sjálf. Stofnunin geti ekki tekið það að sér. Lög kveði á um að útlendingur í ólögmætri dvöl fari úr landi. Mál Marks er ekki í brottvísunarferli, en engu að síður er honum gert að hverfa úr landi fyrir 16. sept. Hann bað um lengri frest en fékk ekki. Sækja þarf skriflega um frest og tilgreina ástæður. “

Nú hef ég áður lýst því í pistlinum Af hverju hugnast mér ekki ESB hvernig erlendu fólki er mismunað eftir því hvort það kemur frá ESB landi eða ekki. Ekki skal það gagnrýnt að embættismenn Útlendingastofnunar geri það sem þeim ber að gera samkvæmt reglum, en greinilegt er að reglurnar eru gallaðar ef rétt er að stofnunin hafi ekki komið foreldrum piltsins í skilning um alvarlega stöðu hans fyrr og gefið þeim tilskilinn frest til að greiða úr málum. Upplýsingaskylda íslenskra stjórnvalda hlýtur að vera einhver og þau geta ekki varpað þessari ábyrgð alfarið yfir á fjölskyldu piltsins. Ef fjölskyldan hefur beðið munnlega um frest en ekki fengið því að formsins vegna verði slíkar beiðnir að vera skriflegar þá hlýtur það að vera stofnunarinnar að aðstoða fólkið að sækja um skriflega. Ef brottvísunin er á þeim forsendum að skriflega umsókn um frest vanti, þá er nærtækast að ætla að stofnunin sé að beita of mikilli hörku í máli þessa pilts. Vonandi kemur hið gagnstæða í ljós og vonandi mun þetta mál hljóta farsælan endi.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ragnar, varaðandi þennan dreng frá Filippseyjum, þá er ég þess handviss að pilturinn hefur bara vanrækt skyldur sínar gagnvart Útlendingastofnun. Útlendingastofa er bara að vinna vinnuna sína.

Kannski má deila á Útl vegna verklags hörku og að ekki var send aðvörun fyrst, áður en  stofnunin sendi út hótum um brottvísun úr landi. Þetta er þó betra en að senda lögguna heim til hans og keyra piltinn í varðhald eins og sumstaðar er gert á vesturlöndum, eins og nýleg dæmi sanna.

Að honum verði vísað úr landi, tel ég alveg fráleitt að verði gert. Ef viðkomandi einstaklingur sinnir endurnýjunar ferlinu gagnvart Stofnuninni, þe að hafa pappírsmál í lagi. Greinilegt er á fréttinni að önnur mál hans eru í ólagi. Vegabréfið trúlega útrunnið og vantar endurnýjun. Ef hann á gamla vegabréfið er endurnýjun tiltölulega auðveld, þó á Filippseyjum sé. Bara senda vegabréfið þangað ásamt nýjum myndum. 

Þrátt fyrir nána ættingja hér á landi, er hann enn útlendingur í augum kerfisins og verður að halda landvistar pappírum í lagi. Hann hefur nú dvalist uþb sex ár hérlendis og ætti að vera hæfur til umsóknar á ríkisborgararétti, ef allir eru jafnir fyrir kerfinu, þó svo að ísl. lög segi annað. Sumir fá ríkisborgararétt eftir skamma eða enga dvöl, ef þeir eru rétt tengdir eða hafa önnur bein tengsl inn í kerfið.  

Stefna stjórnvalda í málefnum útlendinga til atvinnu hér hefur byggst alfarið á því undanfarin misseri að hafna algjörlega fólki utan ESB og fylla landið af fólki frá fyrrum kommúnista ríkjum með misjöfnum árangri. Vart er hægt að trúa því að þessi aðgerð Útl.stofnunar, sé einhver liður í hreinsunarstarfi á fólki utan ESB, sem hér býr og hefur reynst okkur mörlandanum einstaklega vel.

Alfreð (IP-tala skráð) 7.9.2008 kl. 09:52

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Eru ekki allir jafnir? Nei, ekki að mati EBé, það er nú alveg augljóst.

Ég er fullkomlega sammála þér, Ragnar. Það ættu að vera ákvæði í lögum sem taka til svona augljóslega ranglátra hluta, sem hafa trúlega orsakazt af lélegri upplýsingagjöf af hálfu yfirvalda. Það er ekki nóg að skýla sér á bak við Stjórnartíðindin, ekki frekar en Lögbirtingarblaðið um önnur mál.

Tökum einnig á þessu réttlætismáli: að Mark Cumara, þrátt fyrir kunnáttuleysi hans eða foreldranna í íslenzkum lagarefjum, fái áfram að vera nýtur þátttakandi í því samfélagi sem hann hefur tilheyrt.

24 stundum ber að þakka fyrir að hafa vakið athygli á þessu máli. Höldum því vakandi með Ragnari og öðru góðu fólki.

Jón Valur Jensson, 7.9.2008 kl. 10:06

3 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Sælir Baldur og Jón Valur og hafið þakkir fyrir innlitið og góðar athugasemdir. Það verður fróðlegt að fylgjast með framvindu þessa máls.

Já, Alfreð það sem þú segir um stefnu stjórnvalda um fólk utan ESB rennir stoðum undir það sem ég held líka. Það er ótrúlegt að fólk sem er íslenskir ríkisborgarar og hefur unnið hér á landi kannski í 10 ár þurfi að upplifa það að nánir fjölskyldumeðlimir þeirra séu meðhöndlaðir af hörku í kerfinu á meðan fólk frá ESB löndum sem engan á hér að, jafnvel ekki með hreint sakavottorð getur komið hingað án athugasemda. Það sýnist vera lítið réttlæti í því og það er óréttlátt og óskiljanlegt að núverandi stjórnvöld skuli taka jafn lítið tillit til fjölskyldubanda og dæmin sýna, t.d. einnig í Ramses málinu. Það er eins og verklagið sé að breytast í það sem tíðkast hjá milljónasamfélögum þar sem stjórnvöld kæra sig kollótt um hvernig þau koma fram við þegnana og þau haldi að þau þurfi aldrei að standa reikningsskap gjörða sinna og geti hvítþvegið samvisku sína með áróðri og talnaþulum fyrir kosningar.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 7.9.2008 kl. 11:03

4 Smámynd: Rúna Guðfinnsdóttir

Ég er algerlega sammála Alfreð í þessu máli. Útlendskir Íslendingar  þurfa að sinna skyldum sínum ekkert síður en innfæddir Íslendingar! Ég tel ekkert sjálfsagt að allir útlendingar fái landvistarleyfi bara af því....

Allt þarf sinn gang og ekkert er sjálfsagt í henni Veröld!! Við höfum ófáa Íslendinga sem líða skort og hafa vart til hnífs né skeiðar en ekki er neitt kveinað yfir þeim, það er ekki slegið upp forsíðumynd af þeim í fjölmiðlum..

Ég er ekki að stuðla að mannréttindabrotum, heldur aðeins mannréttindum!

Rúna Guðfinnsdóttir, 8.9.2008 kl. 18:55

5 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Sæl Rúna. Vissulega þurfa nýir Íslendingar að sinna skyldum sínum og ég held að enginn telji að þeir eigi að njóta neinna forréttinda, en í svona tilfelli þar sem reglur breytast ár frá ári og þar sem foreldrar eru nýir íbúar í nýju landi þá geta yfirvöld ekki firrt sig ábyrgð og beitt jafnframt töluverðri hörku eins og brottvísun úr landinu en ég held að enginn vilji upplifa brottvísun sem ekki telur sig hafa unnið til hennar. Brottvísun úr landi má líkja við þunga refsingu og mjög íþyngjandi. Við megum ekki gleyma því að fólk sem lendir þannig upp á kant við útlendingalöggjöfina er nánast komið á sakamannabekk ef það hypjar sig ekki tafarlaust úr landi, og það er það sem þessi piltur verður að gera. Hypja sig tafarlaust frá foreldrum sínum sem bæði eru íslenskir ríkisborgarar, ella má búast við aðgerðum stjórnvalda.

Þó einhverjir telji sig verða fyrir órétti og þó órétti sé beitt þá ógildir það ekki rétt eða réttlætiskennd annarra eða heimild þeirra til að vinna að rétti og réttlæti. Ég held að Íslendingar hafi einmitt mörg tækifæri til að vinna manneskjulega að móttöku nýrra íbúa og að standa sig með prýði á því sviði. Hví ættum við að sætta okkur við eða styðja fruntalega framkomu yfirvalda og því að hörku og íþyngjandi viðurlögum sé beitt gagnvart þegnum samfélagsins sem sýnilega hafa ekki til þeirra unnið annað en vanrækslu sem jafnvel má rekja til skorts á leiðsögn og leiðbeiningum af hálfu yfirvalda?  

Alfreð, afsakaðu, ég ætlaði að skrifa "Sælir Alfreð og Jón Valur" hérna fyrir ofan en ekki "Sælir Baldur og Jón Valur" og hafið enn og aftur öll þakkir fyrir innlitið og athugasemdirnar.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 8.9.2008 kl. 22:02

6 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir innlitið Andrés. Formlega séð og lagalega séð er ábyrgðin drengsins en í þessu tilfelli er ástæða fyrir því að foreldrarnir aðhöfðust ekkert. Áður hafði systir hans komið til Íslands, þá 15 ára gömul og þau höfðu ekki sótt um neitt sérstaklega fyrir hana og er hún þó hér enn án athugasemda stofnunarinnar, er gift og tveggja barna móðir.  Í fullkomnum heimi verða aldrei undantekningar og í þannig heimi eru öll lög réttlát eins og þeim er ætlað að vera. En af því að lagasmiðirnir geta ekki séð fyrir öll frávik sem upp geta komið þá eiga lögin að innihalda umboð til handa embættismönnum svo þeir geti metið hvert tilfelli fyrir sig og t.d. gefið nauðsynlega fresti í tilfellum eins og þessu. Til dæmis svo ekki þurfi að koma til sundrun fjölskyldna sem er nokkuð sem fæstir styðja. Það mætti halda eins og þú segir að Útlendingastofnun væri að reyna að reka starfsemi sína í gegnum síður dagblaðanna, þvílíkur hefur klaufaskapurinn verið undanfarnar vikur og mánuði. En svona fer þegar lagabókstafurinn er hafinn á stall en ekki manneskjurnar sem hann á að þjóna og vernda.

Nú er fjölskylda Marcs á þönum að reyna að koma honum úr landi fyrir 16. september svo ekki þurfi að koma til aðgerða lögreglu gagnvart honum. Kostnaður Marcs og fjölskyldu hans mun líklega verða á bilinu hálf til ein milljón ef reiknað er með vinnutapi. Þetta er óþarfur kostnaður einstaklinga sem kemur til vegna óþarfra og ofur harkalegra stjórnvaldsaðgerða.  Á þessu stigi málsins er ekki einu sinni vitað hvort Marc verður leyft að koma inn í landið eða ekki. Allt eins má gera ráð fyrir á þessu stigi málsins að bókstafurinn verði látinn gilda hér eftir sem hingað til og honum synjað um landvist á forsendum þess að vinnustaðurinn hans eigi að leita til evrópskrar vinnumiðlunar. Vonandi ekki þó.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 9.9.2008 kl. 18:00

7 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Í dag var greint frá því í 24 stundum að Marc yrði ekki sendur úr landi. Honum hefur verið veitt leyfi til dvalar á Íslandi uns umsókn hans um dvalarleyfi hefur verið afgreidd hjá Útlendingastofnun. Móðir Marks og uppeldisfaðir eru bæði með íslenskan ríkisborgararétt og hafa búið hér síðasta áratug. Systir hans, amma og afi á Íslandi eru líka íslenskir ríkisborgarar.

Í lögum um útlendinga kemur fram að nánustu aðstandendur íslensks ríkisborgara geta fengið dvalarleyfi, þar með talin börn undir 18 ára aldri.

Í ljósi þessara aðstæðna er ótrúlegt að Útlendingastofnun skuli hafa nálgast mál Marcs með þeim hætti að veita honum frest til 16. september að fara úr landi. Ótrúlegt og dapurlegt að embættismenn Útlendingastofnunar skuli ekki hafa sjálfir til að bera þá dómgreind og stjórnvisku sem þarf til að leysa mál af þessu tagi farsællega og án afskipta fjölmiðla og þingmanna. Skyldi einhverjum málum af þessu tagi nú þegar hafa lokið í skjóli þagnar og með brottvísun fólks úr landinu, fólks sem hér var búið að ávinna sér þegnrétt með dugnaði eða ættarböndum? Vonandi ekki.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 10.9.2008 kl. 19:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband