Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Amazing Blondel og gamlar LP plötur

Ein af þeim hljómsveitum sem ég hélt upp á á árum áður og geri enn er hljómsveitin Amazing Blondel. Ein af þeirra frægustu plötum bar heitið Fantasia Lindum  og kom hún út árið 1971. Þegar ég fór nýlega í gegnum gamalt snældusafn sem ég átti rifjaðist þessi ágæta tónlist upp fyrir mér. Upptakan á snældunni var gölluð og því langaði mig til að athuga hvort ég gæti ekki eignast betri upptöku og fór að athuga með það á netinu. Á Ebay fann ég fljótlega útgefna diska sem flestir kostuðu milli 10 og 15 dollara, en þar var líka upprunalega platan Fantasia Lindum í tveim eintökum og í báðum tilfellum var fyrsta boð minna en 5 dollarar (um 400 kr.) Ég ákvað að bjóða í plötuna og fékk hana hingað komna á um 1000 krónur og eintakið sem ég fékk var mjög gott. Seljendur LP platna á Ebay nota gæðastaðal sem þeir bera plöturnar við og þessi plata var merkt VG++. Út frá orðspori seljenda er hægt að meta hvort umsögn þeirra sé treystandi. Í þessu tilfelli fannst mér að ég hefði gert mjög góð kaup, bæði er það að platan var gott eintak sem og að þegar ég heyri góða og lítið skemmda LP plötu spilaða þá tek ég hljóminn gjarnan fram yfir stafræna hljóðritun. Kannski er þetta einhver sérviska í mér en mér finnst þessi hljómur ekki gefa stafrænu upptökunum neitt eftir og oft finnst mér ég nema einhverja dýpt eða breidd sem ég sakna í stafrænu hljóðritununum eins og sjá má á þessari færslu.

Ég gæti látið móðan mása hér um Amazing Blondel en læt staðar numið að sinni. Langar þó ljúka þessum pistli með tveim tengingum á upptökur hljómsveitarinnar á YouTube.

Amazing Blondel - Swift,Swains,Leafy Lanes af Fantasia Lindum á YouTube.

Amazing Blondel - Celestial Light (var líka á Fantasia Lindum) á YouTube. Nýleg upptaka.


Þarf lögreglan að koma sér upp ódýrari bílaflota?

Nýlegar fregnir um niðurskurð hjá lögreglunni og búsifjar hennar vegna hás eldsneytisverðs vekja upp spurningar hvort ekki sé hægt að haga endurnýjun bílaflota lögreglunnar þannig að sparneytnis- og hagkvæmnissjónarmiðum verði gert hærra undir höfði þó án þess að draga úr öryggiskröfum. Áskorun Geirs Haarde forsætisráðherra í þjóðhátíðarræðunni 17. júní sl. um að þjóðin þurfi að breyta um lífsstíl hlýtur að eiga við um embætti ríkisins sem aðra. Bílar lögreglunnar hafa oftast verið af dýrari tegundum og fátt bendir til að sparneytni og ráðdeild hafi verið stór þáttur í ákvarðanatökunni. Hver man ekki eftir stóru Svörtu Maríu - Chevrolet Suburban skutbílum löggunnar sem hún notaði lengi vel. Því næst komu Volvóarnir, bílar sem fáir eignuðust nýja hérlendis nema betur stæðir borgarar. Sparneytni hefur ekki verið aðaleinkenni þessara bíla heldur fremur öryggi, glæsileiki og vélarafl.

Í fyrrasumar kom ég til London og varð vitni að því hvernig lögreglusveit á hestum stjórnaði umferðinni fyrir framan höll Bretadrottningar við varðskipti lífvarðasveitarinnar, sem reyndar var líka öll á hestum. Hestarnir létu fullkomlega að stjórn og voru greinilega vel nothæfir í þetta verkefni. Á Ítalíu hef ég haft spurnir af því að lögreglumenn séu á vespum! Líklega þykir það ekki merkilegur farkostur í augum þeirra sem aka dags daglega um á Harley Davidson mótorhjólum. Tíðarfarið hérlendis hamlar þó líklega bæði hesta- og vespunotkun lögreglunnar en ég velti fyrir mér af hverju þeir nota ekki meira sparneytna smábíla sem ættu að duga fullvel í flestum aðstæðum, séu þeir bílar styrktir sérstaklega. Nú kann einhver að segja að slíkir bílar hafi ekki afl til að veita eftirför kraftmeiri bílum en í þeim tilfellum þarf hvort sem er að grípa til sérstakra ráðstafana auk þess sem ofsaaksturs-eftirfarir lögreglunnar eru á tíðum sérlega vafasöm athafnasemi hins opinbera sér í lagi ef horft er á að allir eru jafnir fyrir lögunum. Í tilfelli ofsaaksturs eru góð fjarskipti og skipulagning trúlega áhrifaríkari heldur en kraftmiklir bílar. Ef það væri stefna lögreglunnar að elta ekki þá sem hunsa stöðvunarskyldu þá myndu þessar eftirfarir trúlega fljótlega heyra sögunni til. Líkurnar á að handsama ökufantana síðar eru hvort sem er yfirgnæfandi miklar og þeir skapa að líkindum minni hættu fyrir aðra vegfarendur ef þeir vita að þeir verða ekki eltir uppi.


Alexey Stakhanov - fallin goðsögn kommúnismans

Ein af þeim goðsögnum sem haldið var á lofti á síðustu öld af áróðursmönnum Sovétríkjanna og málpípum þeirra í öðrum löndum, misjafnlega nytsamlegum sakleysingjum var sagan af Alexey Stakhanov kolanámumanninum sem að sögn gat unnið á við fimm eða gott betur. Stakhanov varð svo frægur að hann komst á forsíðu tímaritsins Time árið 1936. Hann var lykilmaður í áróðursstríði Stalíns og átti eflaust að sýna hvernig kommúnisminn gat hvatt alþýðuna til dáða.  Ég minnist þess að ég hugsaði stundum um þennan mann sem gat hagrætt vinnu sinni og tíma þannig að hann fimmfaldaði afköst sín í kolanámunni og ég hugsaði í framhaldinu sjálfur um hvernig ég gæti hagrætt tíma mínum og afköstum betur. Á menntaskólaárunum undir lok 8. áratugarins voru marxistar - leninistar áberandi og einnig virtist mér sem Mao Zedong væri í talsverðu uppáhaldi hjá sumum. Mér blöskraði samt alltaf einhliða og ótrúverðugur áróður kommúnista og bullið um vondu atvinnurekendurna sem aðrændu góðu verkamennina snerti mig ámóta mikið pólitískt séð og ævintýrið um Hans og Grétu. Marx, Lenín, Mao eða Stalín voru aldrei mínir menn en eftir á að hyggja þá hugsa ég að hafi einhver þessara hetja sósíalismans höfðað til mín þá hafi Stakhanov gert það. Ég viðurkenni að ég trúði sögunni af Stakhanov og ég sá ekki í gegnum hana á þeim árum. Þá geisaði enn kalt stríð og greinar á við Time greinina sem vísað er á hér að ofan voru hiklaust kallaðar moggalygi. Það var erfitt andrúmsloft og það gat verið áhættusamt að viðra pólitískar skoðanir því menn gátu átt á hættu að missa vini eða falla í ónáð á ýmsum stöðum.

Seint á 9. áratugnum byrjaði svo að molna undan orðstír Stakhanovs. Það byrjaði með grein í The New York Times 1985 og síðan fylgdi sjálf Pravda í kjölfarið 1988, en Pravda var málgagn sovéska kommúnistaflokksins. Á þeim árum var Pravda orðin óvægin í endurskoðunarhlutverkinu * og perestrjoka - stefna endurskoðunar- og umbótasinnans Gorbatsjoffs var orðin ofan á. Þessar fregnir nam ég með einum eða öðrum hætti á þessum árum, blessunarlega og því er ég núna laus undan oki Stakhanovs Smile - eða næstum því. Ég stend sjálfan mig þó að því ennþá að reyna að gjörnýta tímann eins og hægt er. Ég opna stundum tvær eða þrjár tölvur og vinn á þeim öllum. Set í gang verkferla á þeim og færi mig síðan á milli og ýti á enter á einni á meðan ferlismælir silast yfir skjáinn á annarri og sú þriðja er í endurræsingarfasa. Þetta er stundum hægt en þó ekki alltaf. Ég afsaka mig gjarnan með því að hérna fari ég líka eftir aðferðafræði örgjörvans sem úthlutar hverju verki tímasneið og heldur mörgum verkferlum í gangi líkt og fjölleikamaður með marga bolta á lofti. Var nokkur að tala um Stakhanov - nei ekki ég.

* Endurskoðunarsinnar var pólitískt hugtak sem kommúnistar notuðu. Það var notað yfir þá sem vildu þróa sósíalismann og horfa á hann með gagnrýnu hugarfari. Þetta hugtak notuðu harðir kommúnistar eins og hvert annað skammaryrði yfir frjálslyndari félaga sína.


Kvótakerfið í sjávarútveginum er ekki eitt á ferð - gleymum ekki mjólkurkvótanum!

Ég hlustaði á ádrepu Eiríks Stefánssonar á Útvarpi Sögu núna í morgun eins og oft áður og ég verð að segja að í grundvallaratriðum er ég sammála honum. Líklega myndu fleiri gefa sig fram og segja hið sama ef hann myndi pússa málflutning sinn og slípa ummæli sín um málefnaandstæðinga. En ég er sammála honum í því að kvótakerfið í sjávarútveginum sé mistök frá upphafi en það gleymist gjarnan að það er kvótakerfið í landbúnaðinum líka!  Með þessu er ég ekki að segja að ég vilji ekki vernda fiskistofna - það er annað mál. Mestu mistökin með kvótakerfum þessum voru þau að  sameina í eitt veiðiheimild (framleiðsluheimild hvað mjólkina varðar) og eignarheimild. Með þessum mistökum skapaðist fljótt fámenn stétt auðmanna, kvótaeigendur eða fjármagnseigendur sem eru nokkurs konar nútíma lénsherrar. Kvótakerfin eru því afturhvarf til lénsskipulags fyrri tíma og draga úr sjálfstæði og frumkvæði einstaklinganna og gera þá að leiguliðum. Mér verður oft hugsað til Hólmfasts Guðmundssonar sem var flengdur fyrir að selja nokkra fiska í Hafnarfirði. Hólmfastur þessi er ekki samtímamaður okkar, hann var uppi á tímum einokunarverslunarinnar.

Í sjávarútveginum var það eflaust einlægur tilgangur með kvótanum að vernda fiskistofna en í landbúnaðinum var ekki verið að vernda neitt nema rétt þeirra sem voru búnir að koma sér þægilega fyrir og byggja upp sín bú. Ýmsir í þeim hópi voru þó ekki ánægðir með þann kvóta sem þeir fengu úthlutað því um miðjan 9. áratuginn var þeim tilmælum beint til bænda að þeir drægju úr framleiðslu. Sumir fóru eftir þessum tilmælum en aðrir ekki. Síðar voru þessi ár gerð að viðmiðunarárum um hversu mikinn kvóta bændur fengju úthlutað. Nærri má geta hvílíkri óánægju þetta olli. Þeim sem höfðu sýnt stéttarvitund og dregið úr framleiðslu var þannig refsað fyrir hollustu sína.  Einnig var miðstýring stjórnvalda á kvótanum töluverð og nokkuð var um óánægju vegna þess að einhverjir fengu kvóta en aðrir ekki. Þannig var stéttarvitund og einingarhugur kúabænda í raun stórskaddaður með kvótanum auk þess sem endurnýjun í greininni varð mjög hæg og framleiðslueiningarnar stækkuðu og stækkuðu. Í dag borga neytendur og bændur óþarfan kostnaðinn af mjólkurkvótanum. Bændurnir með lágum launum og neytendur með háu afurðaverði.  Enginn stjórnmálaflokkur mér vitanlega berst fyrir afnámi mjólkurkvótans. Það gerir Framsóknarflokkurinn skiljanlega ekki því það var undir hans stjórn sem bæði þessi illræmdu kvótakerfi urðu að veruleika og var fylgt eftir af fullum þunga.

 


Ríkisútvarp þarf ekki að vera það sama og almannaútvarp

Við lestur pistla minna um Ríkisútvarpið kynni einhver að halda að mér þætti dagskrá þess léleg eða að ég forðaðist að hlusta eða horfa á það. Svo er ekki. Ég hef um langt árabil verið aðdáandi Rásar - 1 og í kvöld hlustaði ég af og til á rásina frá kl. 18 og til um kl. 22. Skrapp samt aðeins frá smástund. Dagskráin var mjög áheyrileg og fróðleg en trúlega hefur hún höfðað mest til fólks á miðjum aldri og þar fyrir ofan en um það er allt gott að segja. Rás - 1 byggir á langri hefð sem er áratuga mótandi starf sem unnið var í Útvarpi Reykjavík af hæfu og góðu starfsfólki. Þó ýmislegt megi finna að lagaramma þeim sem stofnunin starfi eftir þá er ég á þeirri skoðun að þessi fornfræga og rótgróna stöð eigi að fá að vera til í sinni núverandi mynd áfram og ég sé ekkert athugavert við það að ríkið eigi hana áfram að því gefnu að útvarpslögin tryggi fjölbreytni og jafna aðstöðu allra stöðva.  Það er ekki hægt að rífa fullvaxin og falleg tré upp með rótum og planta þeim annars staðar. Þau eiga að fá að standa áfram eins og þau eru og á þeim stað sem þau eru. Ég er aftur á móti á þeirri skoðun að hæpið sé að landsstjórnin standi í sjónvarpsrekstri sem og rekstri skemmtistöðvarinnar Rásar - 2.  Um þetta hef ég fjallað t.d. í pistlinum Rúv - Menningarleg Maginotlína og fleiri pistlum sem sjá má á þessu yfirliti. Hvað það varðar er ég sannfærður um að með því að hygla einum aðila umfram aðra þá hindri núverandi lög heilbrigðan vöxt og framtak á þessu sviði. Allir sem standa að rekstri útvarps og sjónvarps eiga að fá greitt fyrir efni flutt á íslensku - ekki bara Ríkisútvarpið. Með þessu móti myndu allar útvarpsstöðvarnar taka á sig að vera almannaútvarp auk þess að gegna öryggishlutverki. Líkur eru á því að landsbyggðin fengi með þessu fyrirkomulagi löngu tímabært tækifæri til að færa miðlun menningarinnar heim í hérað.


Radio Luxembourg - minningar

Þa er ekki víst að yngri lesendur bloggsins kannist við  Radio Luxembourg. Þetta var frjáls og óháð útvarpsstöð sem útvarpaði aðallega á ensku frá furstadæminu Luxembourg og var fjármögnuð með sölu auglýsinga. Þessi útvarpsstöð á sér langa sögu en hún og aðrar frjálsar stöðvar sem staðsettar voru á skipum umhverfis Bretlandseyjar áttu að líkindum sinn þátt í því að einokun BBC á útvarpsrekstri var afnumin 1973.

Ég minnist þess hvað það var heillandi tilfinning að reyna að ná Luxembourgarútvarpinu. Til þess þurfti sérstakan útbúnað sem var á þá leið að ferðaútvarp var tekið og um það var vafið góðum spotta af koparvír. Annar endi vírsins lá gjarnan út um glugga og virkaði sem loftnet en hinn endinn í ofn og virkaði sem jarðtenging.  Þannig útbúið náðust líka fleiri stöðvar á útvarpstækið svo sem útvarp flotastöðvar Bandaríkjamanna í Keflavík skst. AFRTS (American Forces Radio and Television Service Keflavik Iceland), nefnd Kanaútvarpið í daglegu tali. Þegar svo stöðin náðist og þekktist af kallmerkinu sem var "Two - ooh - eight - lets take you higher..." var takmarkinu náð. Stöðin sendi út á 208 metrum á miðbylgju en á þeim árum voru skalar tækjanna yfirleitt í metrum en ekki kílóriðum eða megariðum eins og nú er.

Þorvaldur Halldórsson sagði fyrir nokkru frá því á Útvarpi Sögu að þau í Hljómsveit Ingimars Eydal hefðu hlustað á Radio Luxembourg og heyrt þar nýjustu lögin og gátu því verið tilbúin með þau þegar lögin nokkru síðar fengu spilun í Útvarpi Reykjavík (núna RÚV- Rás 1) og urðu þar með vinsæl á Íslandi. 

Ég man að á tímum þorskastríðsins þá voru fréttamenn Luxembourgarútvarpsins duglegir að segja frá því að "Icelandic gunboats" hefðu gert þetta og hitt og mér þótti furðulegt að varðskipin skyldu vera kölluð þessu nafni því hér heima var tíundað kyrfilega að fallbyssurnar væru frá tímum síðasta Búastríðsins í Suður-Afríku.  Það var athyglisvert að upplifa þetta fjölmiðlastríð og sjá hvernig deiluaðilar útbúa og matreiða sinn málstað í fjölmiðlum og hefur alla tíð síðan orðið mér mikið umhugsunarefni.

Luxembourgarstöðin spilaði mest vinsældalista og skaut auglýsingum og fréttum inn á milli þess sem málglaðir diskótekararnir þeyttu skífum.   Margir aðdáendur stöðvarinnar sem og Keflavíkurstöðvarinnar voru því vanir því að heyra efni af vinsældalistum því Keflavíkurstöðin spilaði gjarnan vinsælustu sveitalögin. Þetta hefur sjálfsagt valdið því að sú eftirvænting sem byggðist upp þegar Rás 2 byrjaði breyttist brátt í vonbrigði. A.m.k. varð svo hjá mér. Rás 2 var á fyrstu árunum aðallega í framúrstefnupoppi og því að spila nýútkomnar plötur og ég gafst mjög fljótlega upp á stöðinni, enda vanur poppinu úr Radio Luxembourg, sveitavinsældalistanum í Kanaútvarpinu sem og gullaldarrokkinu sem var mikið spilað af hljómplötum og snældum á þessum árum. Ég var of ungur fyrir Þjóðarsálina (þó svo ég hlusti á Sigga Tomm með mikilli ánægju núna á Útvarpi Sögu) og því fór sem fór. Ég slökkti á Rás 2 fljótlega eftir að hún byrjaði og hef aldrei fundið ástæðu til að gefa henni annað tækifæri.


Lækka þarf hámarkshraða á Suðurlandsvegi milli Hveragerðis og Selfoss

Því miður eru litlar líkur á að draga muni úr mikilli slysatíðni á Suðurlandsvegi á þeim köflum þar sem enn er ekki búið að skipta veginum. Vegna ástandsins í efnahagsmálum eru litlar líkur á að Suðurlandsvegur breytist mikið á næstu misserum og því horfa landsmenn sömuleiðis fram á óbreyttar líkur á slysum á þessari leið.

Krossarnir við Kögunarhól eru þögult vitni og áminning um þau sorglegu tíðindi sem verða aftur og aftur á leiðinni. Á þessari leið eru nokkrir kaflar sem eru sérlega áhættusamir. Einn þeirra er kaflinn milli Hveragerðis og Selfoss. Hann er sérmerktur sem slysasvæði enda hlykkjóttur og beygjóttur. Inn á hann liggja líka nokkrir þvervegir sem eru merktir með biðskyldumerkjum.

Það er í rauninni ótrúlegt að á þessum uþb. 10 km. vegarspotta skuli enn vera 90 km. hámarkshraði. Mannfallið á þessari leið virðist ekki hreyfa við neinum öðrum en þeim sem þurfa að syrgja ættingja sína. Sem fyrst þyrfti að lækka hámarkshraða á leiðinni niður í 80 eða jafnvel 70 og sömuleiðis þyrfti að skipta út biðskyldumerkjunum og setja stöðvunarskyldumerki í staðinn á þvervegina. Reyndar þyrfti að skipta út biðskyldumerkum og setja stöðvunarskyldumerki víðast hvar á Suðurlandsveginum og á fleiri stöðum þar sem sveitavegir liggja þvert inn á malbikaða aðalbraut með 90 km. hámarkshraða.

Nú kunna menn að andmæla þessari skoðun með þeim rökum í fyrsta lagi að það sé þjóðhagslega óhagkvæmt að lækka hámarkshraða. Spurning hvort menn hafa tekið háar slysalíkur og tjón sem orsakast af mannfalli með í þann reikning? Bæði er umhverfisvænt að aka á minni hraða og þjóðhagslegi reikningurinn er fljótur að jafna sig upp ef fólki fjölgar í bílum.

Í öðru lagi má reikna með þeim andmælum að fáir muni hlýða fyrirmælum um hámarkshraða. En þau rök eru ekki góð og gild í þessari umræðu. Á að afsaka lögbrot með því að löggæslan sé slæleg? Það væri hægur vandi að koma upp færanlegum löggæslumyndavélum á leiðinni sem væru færðar til með reglulegu millibili auk þess að beita hefðbundnum ráðum.

(Endurbirtur pistill frá 25.5. 2008.)


Nokkur skemmtileg orð

Ég hef verið að hugleiða ýmsa skemmtilega frændsemi orða. Ég hef gaman af því að bera saman orð úr ensku og íslensku sem hljóma næstum því eins en hafa kannski aðra merkingu. Hér eru nokkur. Íslenska orðið kemur fyrst en síðan það enska:

Bað - bath; hljómar alveg eins og merkir það sama.
Flór - floor; hljómar eins en merkir ekki alveg það sama.
Rann - run; hljómar eins en hefur lítilsháttar breytta merkingu.
Fýla - feeling; Fýla í merkingunni að fara í fýlu. Breytt orð en bæði orðin túlka tilfinningar.

Svo er það íslenska orðið kapall í merkingunni hestur eða hryssa frekar. Mér var sagt í dag að í spænsku eða katalónsku þýddi orðið cabal eða caval hestur. Cavalero eða cavalier er þá maður á hesti þó oftar í merkingunni riddari. Kapall og caval hljómar mjög svipað.

California þýðir heitur ofn. Cal er sama hljóð og í kaloríur eða orka. Fornia er ofn.
Florida er blóma-eitthvað og Texas þýðir þök. Sel þetta ekki dýrara en mér var sagt. Leiðréttið mig ef ég fer með rangt mál.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband