Lækka þarf hámarkshraða á Suðurlandsvegi milli Hveragerðis og Selfoss

Því miður eru litlar líkur á að draga muni úr mikilli slysatíðni á Suðurlandsvegi á þeim köflum þar sem enn er ekki búið að skipta veginum. Vegna ástandsins í efnahagsmálum eru litlar líkur á að Suðurlandsvegur breytist mikið á næstu misserum og því horfa landsmenn sömuleiðis fram á óbreyttar líkur á slysum á þessari leið.

Krossarnir við Kögunarhól eru þögult vitni og áminning um þau sorglegu tíðindi sem verða aftur og aftur á leiðinni. Á þessari leið eru nokkrir kaflar sem eru sérlega áhættusamir. Einn þeirra er kaflinn milli Hveragerðis og Selfoss. Hann er sérmerktur sem slysasvæði enda hlykkjóttur og beygjóttur. Inn á hann liggja líka nokkrir þvervegir sem eru merktir með biðskyldumerkjum.

Það er í rauninni ótrúlegt að á þessum uþb. 10 km. vegarspotta skuli enn vera 90 km. hámarkshraði. Mannfallið á þessari leið virðist ekki hreyfa við neinum öðrum en þeim sem þurfa að syrgja ættingja sína. Sem fyrst þyrfti að lækka hámarkshraða á leiðinni niður í 80 eða jafnvel 70 og sömuleiðis þyrfti að skipta út biðskyldumerkjunum og setja stöðvunarskyldumerki í staðinn á þvervegina. Reyndar þyrfti að skipta út biðskyldumerkum og setja stöðvunarskyldumerki víðast hvar á Suðurlandsveginum og á fleiri stöðum þar sem sveitavegir liggja þvert inn á malbikaða aðalbraut með 90 km. hámarkshraða.

Nú kunna menn að andmæla þessari skoðun með þeim rökum í fyrsta lagi að það sé þjóðhagslega óhagkvæmt að lækka hámarkshraða. Spurning hvort menn hafa tekið háar slysalíkur og tjón sem orsakast af mannfalli með í þann reikning? Bæði er umhverfisvænt að aka á minni hraða og þjóðhagslegi reikningurinn er fljótur að jafna sig upp ef fólki fjölgar í bílum.

Í öðru lagi má reikna með þeim andmælum að fáir muni hlýða fyrirmælum um hámarkshraða. En þau rök eru ekki góð og gild í þessari umræðu. Á að afsaka lögbrot með því að löggæslan sé slæleg? Það væri hægur vandi að koma upp færanlegum löggæslumyndavélum á leiðinni sem væru færðar til með reglulegu millibili auk þess að beita hefðbundnum ráðum.

(Endurbirtur pistill frá 25.5. 2008.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eiríkur Harðarson

En Ragnar þú segir að litlar líkur séu til þess að ástandið breytist, sökum stöðu efnahagsmála. Ekki geri ég ráð fyrir því að vilji þessarar svefnrofa ríkisstjórnar, sé mikill til að veita auknu fjármagni til vegagerðarinnar, svo skipta megi út biðskyldumerkjum í staðinn fyrir stöðvunarmerki. Þá tel ég líka ólíklegt að ráðamenn verði viljugri til þess að setja upp hraðamyndavélar.

 Heitast óska ég þess að ég hafi RANGT fyrir mér um þessi málefni.

Eiríkur Harðarson, 11.8.2008 kl. 17:59

2 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Sæll Eiríkur og takk fyrir innlitið. Það að lækka hámarkshraðann kostar brotabrotabrot af því sem tvöföldun vegarins kostar. Það kostar auðvitað ný stöðvunarskyldumerki, en stengurnar þarf trúlega ekki að endurnýja og gömlu biðskyldumerkin er eflaust hægt að nota annars staðar. Svo þarf líklega nýjar hraðamerkingar en þar gildir líka að gömlu skiltin með 90 er trúlega hægt að mála upp og nota áfram annarsstaðar. Svo er þetta spurning um nokkra tíma í vinnu við að skrúfa gömlu merkin niður og setja nýju merkin í staðinn. Löggan er þarna alltaf hvort sem er að passa og kostnaðaraukinn af hraðaeftirlitinu yrði því lítill. Þetta er aðallega spurning um vilja og framtakssemi. En það er líklega þar sem átakanlegasti skorturinn er til staðar.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 11.8.2008 kl. 18:05

3 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

   ÉG er svo algjörlega sammála þér, hraðann niður og það strax.  Vonandi verðum við ekki sett út í kuldann með þessar framkvæmdir.  Grim Reapervona að sá með ljáinn fái ekki fleiri.

Ásdís Sigurðardóttir, 11.8.2008 kl. 18:11

4 Smámynd: Rúna Guðfinnsdóttir

Mér finnst eins og hann sé 70km. á þessari leið. Það er poki yfir 90km. merkinu síðan í jarðskjálftunum. Er það rangt hjá mér. (Var að kíta við bóndann um þetta )

Rúna Guðfinnsdóttir, 11.8.2008 kl. 19:25

5 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Sælar Ásdís og Rúna og takk fyrir innlitin og athugasemdirnar. Rúna það var hluti af leiðinni sem var tekinn niður í 70 eftir jarðskjálftana. Sá  kafli var frekar stuttur og var undir fjallinu. Það er búið að hækka hann aftur núna í 90 þar, alla vega var búið að taka pokana af skiltunum sýndu 90 síðast þegar ég fór þarna um.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 11.8.2008 kl. 19:57

6 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Sæl veri þið, nei Ragnar það er ekki búið að taka pokann af en kaflinn er orðinn styttri.

Ég er sammála því að það geti verið skynsamlegt að lækka hámarkshraðann á milli Hveragerðis og Selfoss í 70km/klst.

Var þessi bíll sem olli slysinu á yfir 70km/klst?

Enn, hvar eru sýslumaður og svæðisstjóri vegagerðarinnar búnir að vera, eru þeir báðir á tónleikum? Vegurinn er ónýtur þarna frá Kotströnd og að Selfossi eftir jarðskjálftann og ekki var hann beysinn fyrir, þetta átti að sjálfsögðu að laga eigi síðar en á innan við viku eftir skjálftann og fyrir mörgum árum átti að vera búið að gera bæði afreinar, aðreinar og hjáreinar við öll þessi vegamót.

Svo er ekki að sjá að vegagerðin ráði við að tvöfalda Suðurlandsveg eins og fullorðnir menn mundu gera.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 11.8.2008 kl. 20:08

7 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Gleymdi: Því að nýi vegurinn verður í öllum þessum sveigum, við skulum vona að vegagerðin verði búin að laga skemdirnar fyrir hálkur.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 11.8.2008 kl. 20:09

8 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir innlitið Högni. Ekki er mér kunnugt um tildrög þessa nýjasta slyss en mér finnst slysatíðnin á þessum vegarspotta alveg óásættanleg og ég tel að ráðamenn Sunnlendinga ættu að gera eitthvað í málinu tafarlaust.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 12.8.2008 kl. 08:19

9 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Magga! Það er þetta sem ég er að tala um á minni síðu, það breytist ekkert þó svo að hámarkshraðinn verði lækkaður þarna, enda er hann að öllu jöfnu ekki nema 70-80km/klst. síðustu mánuði.

Ráðamenn, Ragnar?

Högni Jóhann Sigurjónsson, 12.8.2008 kl. 13:32

10 Smámynd: Theódór Norðkvist

Það er líka hægt að draga úr óþarfa ferðum yfir og sameinast í bíla með því að auglýsa eftir farþegum eða fari á http:/www.samferda.net.

Þannig má draga úr umferð og þar með slysahættu auk þess spara umtalsverðar fjárhæðir í eldsneytiskostnaði.

Theódór Norðkvist, 12.8.2008 kl. 13:32

11 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir innlitin. Einar og Magga Ó: Það er rétt að best væri að laga og tvöfalda veginn strax  en það er að öllum líkindum langt í að það verði raunveruleiki á þessum kafla. Skv. 24 stundum í dag mun tvöföldunin byrja á kaflanum milli Hólmsheiðar og Hveragerðis og endanleg matsáætlun á ekki að liggja fyrir fyrr en í apríl á næsta ári. Miðað við framkvæmdahraða og hugsanlegar tafir eins og urðu t.d. við Reykjanesbraut þá eru því miður líklega nokkur ár þangað til vegabótum verður lokið á þessum umrædda kafla.  Hvers vegna ekki að horfa raunsætt á málið og gera það sem hægt er að gera núna strax til að draga úr hárri slysatíðni á kaflanum frekar en bíða og bíða eftir nýjum vegi?

Högni, já það er rétt að hraðinn hefur verið minni þarna en nýverið var hraðaminnkunin takmörkuð og færð að Kögunarhóli og síðast þegar ég fór þarna um þá náði hún þaðan og að Selfossi. Þessi minnkaði hraði hefur að líkindum stuðlað að minni slysatíðni í sumar. Reyndar hefði mátt takmarka hraðann meira á verstu köflunum sem sigu eftir jarðskjálftana og vitaskuld þarf að laga alla þessa kafla sem sigu.

Reyndar finnst mér að 90 km. hámarkhraði á mörgum íslenskum malbikuðum og tvískiptum vegum sé álitamál sér í lagi þar sem undirbygging veganna virðist ekki vera í öllum tilfellum viðunandi. Aftur og aftur rekur maður sig á það að vegur hefur sigið hér og þar og getur verið hættulegur á 90. Síðan er spurning hvort beygjur og halli séu hannaðar fyrir þennan mikla hraða. Í tilfelli Suðurlandsvegar er líklega ekki svo því hann var hannaður um 1970 og trúlega hannaður fyrir 80 km. hámarkhraða.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 12.8.2008 kl. 16:49

12 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Ég er sammála Theódór.

Þetta er nefnilega soldið skrítið og þá má spurja, enn eini sinni, hvar eru þeir sem eiga að sjá um þessi atriði? Þjóðvegur 1 sem er alltof mjór er með 90 km/klst. hámarksshraða og innansveitavegir sem eru enn mjórri eru líka með 90 km/klst.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 12.8.2008 kl. 18:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband