Færsluflokkur: Menning og listir

Ljómi barnsins - nýr jólatexti við þekkt lag

Flestir muna eftir eða kannast við Procol Harum lagið 'A whiter shade of pale'. Hægt er að skoða það á YouTube hérna. Lagið er bæði dramatískt og hátíðlegt og í því má merkja ákveðið ris sem nær hámarki í sérlega grípandi og fagurri laglínu sem varð heimsfræg 1967 í flutningi hljómsveitarinnar þar sem leikur á Hammond orgel var áberandi. Þannig vildi til að fyrir nokkrum vikum hafði ég veður af því að það vantaði íslenskan texta við lagið og í framhaldi af því bjó ég til texta sem á sunnudagskvöldið var frumfluttur og sunginn á aðventutónleikum í Selfosskirkju af Gunnari Guðna Harðarsyni við undirleik strengjasveitar Tónlistarskóla Árnessýslu og Esterar Ólafsdóttur sem lék á orgel. Stjórnandi var Greta Guðnadóttir. Íslenski textinn er eins og sjá má ekki byggður á enska textanum heldur er hann sjálfstæð smíð við lagið og er byggður í kringum þema sem er heimsókn vitringanna að vöggu Jesúbarnsins.

 Ljómi barnsins

Við ferðuðumst um nætur
í ljóma stjörnunnar
um eyðisand og merkur
í von að fá nú svar
Kynngimagnað næturhúmið
kvað sitt huldudjúpa ljóð
um óræð hinstu örlög manna
-en við misstum ekki móð-

En svo gerðist það - yfir hellinum var stjarnan kyrr
og birtan þýddi hjarta hjarn
hún kom frá stjörnuhimni heiðum
og frá ásýnd - lítils barns

Í ómi mildrar þagnar
þú færir okkur von
Í stjörnuskini huggar
ung kona lítinn son
gull reykelsi og myrru
við berum þér að gjöf
um jörðina fer gleðistraumur
um hjörtun hlýleg svör

En svo gerðist það - yfir hellinum var stjarnan kyrr
og birtan þýddi hjarta hjarn
hún kom frá stjörnuhimni heiðum
og frá ásýnd - lítils barns

Og fjárhirðarnir komu
og fluttu þessi boð
Um englaraddir bjartar
vefa gullna orðavoð
Mikinn frið ég ykkur færi
og fögnuð hér í dag
ykkur frelsari er fæddur
syngjum lof- og dýrðarlag


Hlúa þarf betur að hljóðrituðum menningararfi

Í grein 3 í lögum nr. 6 frá 1. febrúar 2007 um Ríkisútvarpið ohf segir um hlutverk almannaútvarps, en það er m.a:

 Að varðveita til frambúðar frumflutt efni, enda sé gengið frá samningum við aðra rétthafa efnis um að slíkt sé heimilt.

Í 4. grein segir svo:

Ríkisútvarpinu ohf. er heimilt að taka saman, gefa út og dreifa hvers konar efni, án endurgjalds eða gegn endurgjaldi, sem stuðlar að því að miðla áður framleiddu efni í eigu félagsins, svo sem rituðu máli, hljómplötum, hljóðsnældum, geisladiskum, myndböndum og margmiðlunarefni.

Í þessum málsgreinum felst enn ein mismununin gagnvart frjálsu útvarpsstöðvunum sem fyrir bera skarðan hlut hvað varðar menningarstyrk frá ríkisvaldinu. Ekki er nóg með að RÚV fái styrk til að varðveita frumflutt efni heldur getur stofnunin líka hagnast á því að gefa það út.  Með ólíkindum er að frjáls og fullvalda þjóð skuli koma menningarmálum sínum fyrir á þennan hátt og láta einn aðila njóta þvílíkra forréttinda. Margþætt hlutverk RÚV hlýtur líka að vera ráðamönnum þar á bæ nokkur vandi. Ekki er nóg með að stofnunin þurfi að sinna umfangsmiklum útvarpsrekstri heldur ber henni að varðveita mestan part af hljóðrituðum menningararfi þjóðarinnar!

Heppilegast væri að koma á fót sjálfstæðu hljóðritasafni eða auka við starfsemi Kvikmyndasafnsins þannig að þessum þætti menningarinnar væri sinnt af sjálfstæðri og óháðri stofnun. Jafnframt þyrfti að gefa öllum jafnan aðgang að þessu efni.


Dagar frostrósanna

Þessa dagana hafa frostrósir myndast á þeim gluggum þar sem enn er einfalt gler og upphitun lítil svo sem í ýmsum gripahúsum. Áður fyrr mynduðust frostrósir á gluggum híbýla fólksins, svo sem á gluggum baðstofanna og er slíkt enn í manna minni. Ein heimild um það er eftirfarandi ljóð eftir föður minn Brynjólf Guðmundsson sem lengi bjó á Galtastöðum í Gaulverjabæjarhreppi. Hann er fæddur og uppalinn á bænum Kolsholtshelli í Villingaholtshreppi, og bjó þar sín fyrstu búskaparár áður en hann flutti að Galtastöðum. Þar á bæ var áður gömul baðstofa með torfþaki og glugga með einföldu gleri.

Frostrós

Ég ligg lítill drengur
í gömlu baðstofunni
horfi á kvistina
í súðinni taka á sig
margskonar myndir

Fjöll tröll og álfa
ævintýraheimur
á baðstofusúðinni

Laufblað á glugga
Ég rís upp til
að taka það af
Finn aðeins kalt gler

Rétt seinna
Fullkomin frostrós
með puttafar
á einföldu gleri

Tvöfalt gler
engin frostrós

(Desember 2002)

 

Ljóðið birtist áður á vefsetrinu vina.net: http://www.vina.net/index.php/brynjolfur/2002/12/02/frostros


Myndarleg hátíðahöld á degi íslenskrar tungu

Hátíðahöldin í tilefni dags íslenskrar tungu sem haldin voru í Þjóðleikhúsinu og sjónvarpað í beinni útsendingu á föstudaginn var voru sannarlega bæði skemmtileg og ánægjuleg. Í dag er svo endursýning þessa atburðar í RÚV sjónvarpinu. Einstaka bloggari hefur haft á orði að of mikið hafi verið gert úr deginum en ég er ekki sammála. Jónas Hallgrímsson var stórkostlegt skáld og það sem sagt var um hann og tungumálið á þessum degi var ekki ofsagt né of oft endurtekið. Jónas er verðugur fulltrúi endurreisnar hinnar íslensku menningar sem fram fór á 19. öld og síðar og vel að þessum heiðri komin. Í tilefni þess að 200 ár eru liðin frá fæðingu hans er það sem fram fór alveg viðeigandi og sér í lagi vegna þess að þau viðhorf sem Jónas tefldi fram í stjórnmálaumræðu sinnar tíðar eru brýn enn þann dag í dag því að á dögum Jónasar sótti danskan stíft á íslenskuna en í dag er það enskan sem aldrei fyrr. Menntamálaráðuneytið og ráðherra og allir þeir sem hönd lögðu á plóginn eiga því heiður skilinn vegna smekklegra, skemmtilegra og vel viðeigandi hátíðahalda.


Stofnun ljósvakasafns er löngu tímabær

Stundum heyrist það viðhorf til stuðnings þess að RÚV verði áfram í ríkiseign að ekki megi láta menningararf þjóðarinnar til einkaaðila. En það þarf ekki að gerast. Hægt er að skilja á milli varðveisluhluta menningararfsins og hins daglega reksturs sjóvarpsstöðvarinnar og útvarpsrásanna og þess hluta starfseminnar sem í raun er safnstarfsemi. Hægt er því að stofna ljósvakasafn sem hefur það hlutverk að safna ljósvakaefni sem flutt er á íslensku eða hefur að öðru leyti ótvíræð tengsl við íslenska menningu. Þjóðarbókhlaðan gegnir nú þegar þessu hlutverki hvað varðar prentað mál og ljósvakasafnið yrði því aðeins útvíkkun á nákvæmlega sömu hugsun þegar kemur að ljósvakaefni.  Það er í rauninni ótrúlegt að ekki skuli vera búið að þessu fyrir löngu. Það er líka alveg jafn ótrúlegt að íslenska ríkið skuli enn standa að því að dreifa textuðu erlendu afþreyingarefni - ótrúlegt en satt!

Sagt hefur verið í mín eyru að ríkisreksturinn einn tryggi gæði þess efnis sem framleitt er og hefur það verið rökstutt með tilvísunum í margt sérlega fróðlegt og skemmtilegt efni sem framleitt hefur verið fyrir BBC. Sagt hefur verið að þetta hefði aldrei verið hægt að framleiða í Bandaríkjunum þar sem frjálshyggjan hefur yfirhöndina. En málið er auðvitað að hér er hægt að fara milliveg. Í Bandaríkjunum mætti trúlega vera meira um opinberan styrk til gerða heimildamynda. Ástæða þess hve vel tekst til hjá BBC er auðvitað sú að hið opinbera borgar brúsann. Það gæti sem best verið áfram þó einkaaðilar sjái um rekstur stöðvanna. Afnotagjaldið þyrfti ekki að afleggjast þó RÚV verði rekið af einkaaðilum. Það er líka löngu tímabært að fara að skipta um heiti á því og fara að kalla það menningarskatt. Þessi skattur gæti síðan runnið til þeirra einkastöðva sem greiðendurnir kjósa sjálfir í réttu hlutfalli við framboð þeirra af íslensku efni. Þannig væri komið það aðhald sem nauðsynlegt er að neytendur fjölmiðla sýni þeim og einnig hvatning til þeirra til að framleiða og dreifa íslensku efni og láta það hafa forgang fram yfir erlent. Þetta er í rauninni ákveðinn menningarlegur verndartollur sem þung rök eru fyrir því að eigi rétt á sér. Hví ekki að hlúa að og vernda sjálfsmyndina og þau gildi sem þjóðin trúir á á sama hátt og innlend framleiðsla á öðrum neysluvörum er vernduð?


Eddan opinberar mikla grósku í ljósvakamiðlun

Edduverðlaunin og útsendingar RÚV frá þeim sem og endursýning ættu að sýna fram á hvílík gróska er í framleiðslu íslensks ljósvakaefnis. Þar leggur margt hæfileikafólk hönd á plóginn. Verðlaunin staðfesta að í íslenskri menningu býr mikill sköpunarkraftur og hægt er að segja að framboð íslensks efnis sé fjölbreytt miðað við hve fáa sjóði kvikmyndagerðarmenn geta sótt í og þó að sumt af þessu virðist nánast gert á viljastyrknum einum.

Óskandi er að sem flestir skilji að fénu sem almenningur leggur til með hinum svokölluðu afnotagjöldum er ekki best varið með því að láta það renna til einnar stöðvar sem rekin er undir forsjá ríkisvaldsins. Líklegt er að fjöldinn og fjölbreytnin muni verða heilladrýgst í þeim efnum. Þá myndu stöðvarnar allar sitja við sama borð og njóta jafnræðis. Nú kann einhver að segja að ríkisútvarp sé nauðsynlegt til að halda uppi öflugri stöð sem geti þjónað öllu landinu og fleiri stöðvar myndu aðeins dreifa kröftunum. Reynsla síðustu ára ætti að nægja til að flestir skilji að hið fyrra er ekki raunin. Allt frá því Stöð 2 hóf starfsemi sína með miklum glæsibrag hefur allt það starf í rauninni afsannað það að ríkið þurfi að halda úti öflugu sjónvarpi. Hvað varðar síðari rökin þá væri hægt að aðskilja safnhluta RÚV frá rekstrarhluta þess og halda safnhlutanum áfram undir umsjón ríkisins. Það efni sem hlyti ríkisstyrk myndi þá sjálfkrafa falla til í þann ljósvakabanka og allar stöðvarnar hafa jafnan aðgang að honum og rétt svo sem höfundarlög myndu heimila. Það væri líka mikið óráð að selja ljósvakabankann og þann menningararf sem í hann hefur safnast til eins aðila, það væri í rauninni menningaróhapp, líkt og gerðist þegar málverkasafn Landsbankans var selt með rekstri hans og húsum. Eins og staðan er í dag er RÚV í óheppilegri klemmu. Sem ríkisfyrirtæki geta þeir varla þegið rausnarlega styrki eða kostanir en sem einkaaðilar þurfa þeir á slíku fé að halda. Síðustu útvarpslög sem breyttu RÚV í opinbert hlutafélag hafa líklega gert stöðuna enn erfiðari en hún var fyrir.


Til hamingju Sigurbjörn!

Sigurbjörn biskup er vel að þessum heiðri kominn því þótt ritstörf hans myndu ein og sér nægja til þessara verðlauna þá sýndi hann í kvöld í Þjóðleikhúsinu og þjóðin fékk að fylgjast með í beinni útsendingu að hann er einn af mestu og bestu ræðumönnum sem þessi þjóð hefur alið. Hann er því ekki bara maður hins ritaða heldur einnig hins talaða orðs og það með glæsibrag. Ég minnist t.d. frægra sjónvarpspredikana hans hér á árum áður sem voru umtalaðar og annálaðar fyrir góðan flutning og hve auðvelt hann átti og á greinilega enn með að hrífa áhorfendur og áheyrendur með sér.


mbl.is Sigurbjörn Einarsson hlaut verðlaun Jónasar Hallgrímssonar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hulduhundurinn

Saga þessi gerist á síðari helmingi 20. aldar á sveitabæ á sunnanverðu Íslandi í héraði því sem stundum er nefnt Flói. Það var á dimmu vetrarkvöldi. Það snjóaði og kyngdi snjónum niður í stórum flyksum. Bóndinn á bænum hafði farið út í fjósið til að mjólka kýrnar ásamt tengdaföður sínum. Á þessum árum rann mjólkin ekki í rörum eins og síðar varð heldur þurfti að bera mjaltavélaföturnar með mjólkinni í út í mjólkurhúsið í hvert skipti þegar þær fylltust. Þar var mjólkinni hellt í gegnum sigti niður í stóra brúsa, svonefnda mjólkurbrúsa. Þannig var það líka þetta tiltekna kvöld. Mennirnir mjólkuðu þegjandi, hlustuðu á útvarpið og skellina í mjaltavélunum. Mjólkurhúsið á þessum bæ lá rétt við útidyr fjóssins og var beygt til hægri inn í mjólkurhúsið strax og komið var út úr fjósinu.

Einu sinni sem oftar fór bóndinn með fulla mjaltavélarfötu út í mjólkurhúsið og hellti úr henni í mjólkursigtið. Þegar hann snýr sér við til að ganga út úr mjólkurhúsinu þá sér hann að í dyrum mjólkurhússins stendur stór og fallegur alhvítur hundur, loðinn með lafandi eyru og horfir á hann. Bóndinn sneri inn í fjósið og kallaði á tengdaföður sinn að koma og sjá hundinn.

Hundurinn bakkaði aðeins á meðan bóndinn fór framhjá honum og hann horfði á bóndann með vinarglampa í augunum. Bóndinn kenndi í brjósti um hundinn sem var einn á ferð. Það snjóaði mikið og honum datt í hug að hundinum hlyti að vera kalt og réttast væri að gefa honum einhverja hressingu. Mjólkurhúsið var lítið og bóndinn þurfti ekki annað en snúa sér við til að teygja sig í mjólkurdreytil í dalli sem þarna var. Við það sneri hann baki í hundinn andartak. Þegar hann sneri sér við aftur var hundurinn horfinn og engin fótspor eða nein önnur ummerki um að þarna hefði dýr verið á ferð var að sjá í nýföllnum snjónum við mjólkurhúsdyrnar. Í því bili kom tengdafaðir hans innan úr fjósinu til að sjá hundinn. Bóndanum og tengdaföður hans þótti þetta að vonum mjög undarlegt en þeir höfðu ekki mörg orð um þetta.

Leið nú tíminn með sínu daglega lífi veturinn og vorið. Engar sýnir né neitt óvenjulegt bar fyrir bóndann þangað til sumarnótt eina. Dreymir hann þá að tengdamóðir hans sem einnig var búsett á bænum kemur til hans og segir honum að maður sé kominn á bæinn sem vilji finna hann. Í því bili vaknaði bóndinn því sonur hans á barnsaldri sem svaf í rúmi við hliðina á bóndanum vakti hann til að fara með sig á snyrtinguna. Bóndinn sinnir barninu og sofnar aftur vært. Dreymir hann þá enn að hann sé á gangi á leið að fjárhúsunum á bænum. Í draumnum kemur þá í veg fyrir hann hvítur hundur. Þá fannst bóndanum að hann þekkti í draumnum hundinn sem hann sá í mjólkurhúsdyrunum um veturinn. Bóndanum finnst hundurinn vilja að hann komi með sér og man hann þá eftir tengdamóður sinni úr fyrri draumnum og að maður sé kominn að finna sig. Fer hann þá heim að bænum. Finnst honum þá að á hlaðinu standi stórvaxinn maður, hörkulegur í yfirbragði með tvo hvíta hesta með sér búna reiðtygjum. „Það er ekki auðvelt að ná í þig“ sagði maðurinn. Ég vil biðja þig að koma með mér og hjálpa konunni minni sem ekki getur fætt.“ „Heldur þú að ég sé rétti maðurinn til þess?“ varð bóndanum að orði. Maðurinn svaraði því játandi. „En ég þarf að sinna drengnum og ég er ekki mikið klæddur - er bara á nærskyrtunni“ sagði bóndinn. „Þú hefur þegar sinnt drengnum - hann vaknar ekki sagði maðurinn. Það er sumarnótt og þér mun ekki verða kalt.“ Sá bóndinn þá að best væri að vera ekki með fleiri mótbárur og steig á bak öðrum hestinum. Riðu þeir nú af stað og fóru krókaleið nokkra frá bænum. Bóndanum fannst sem hann hefði aldrei komið á bak eins góðum hesti. Honum fannst reiðleiðin nokkuð dulúðug en áttaði sig þó á því hvar leið þeirra lá. „Ég sé að þú veist hvert þú ert að fara“ sagði maðurinn en ég varð að taka áhættuna. Riðu þeir nú sem leið lá að stað nokkrum í sveitinni þar sem ekkert var venjulega nema hóll nokkur. En nú brá svo við að bóndanum sýndist hóllinn vera lítill og snyrtilegur bær.

Gengu þeir inn í bæinn. Þar inni lá kona í rúmi og gat hún ekki fætt. Bóndanum virtist hún nokkru yngri en maðurinn sem sótti hann. Bóndinn var enn undrandi í draumnum yfir því að hann hefði verið valinn til þessa hjálparstarfs og fannst sér nokkur vandi á höndum þar sem hann hafði aldrei aðstoðað við barnsfæðingar þó verið hefði viðstaddur eina slíka. Honum datt því loks í hug að segja við konuna: „Ef þú nærð að slaka á milli hríða þá kemur þetta.“ Að svo búnu lagði hann hönd á kvið konunnar. Konan reyndi að fara eftir þessu ráði og fljótlega fæddist barnið sem var drengur. Bóndanum fannst sem ósýnilegar hendur tækju á móti því og það var farið með það frá. Eftir það tók konan til máls og sagði: „Ég veit að þú vilt ekkert þiggja fyrir þetta, en ef þér snýst hugur og þú vilt einhvern tíma þiggja aðstoð þá skaltu hengja rúmteppið af hjónarúminu út þrjá daga í röð og þriðja daginn skaltu brjóta teppið saman á sérstakan hátt.“ En daginn áður en bóndann dreymdi drauminn hafði rúmteppi hjónanna á bænum einmitt verið þvegið og hengt út á snúru. Konan hélt áfram og lýsti fyrir bóndanum hvernig teppið ætti að vera brotið saman á snúrunni. Eftir það kvaddi bóndinn og maðurinn sem hann hafði séð fyrst fylgdi honum heim á hestunum. Morguninn eftir vaknaði bóndinn, mundi hann drauminn og þótti hann all-raunverulegur í minningunni.

Liðu nú árin. Ekki kom til þess að bóndinn teldi sig þurfa á því að halda að leita á náðir draumkonunnar með eitt né neitt. Bæði var að hann var vantrúaður á að það breytti neinu en einnig var til staðar efi um að rétt væri að leita á náðir afla sem ef til væru, væru jafn framandi og efni draumsins hafði gefið til kynna. Nokkrum árum síðar ákváðu þau hjónin samt að prófa að hengja rúmteppið út á snúru og brjóta það samkvæmt fyrirmælum draumkonunnar. Skömmu síðar dreymir bóndann að hann sé á gangi á vegi. Mætir hann þá draumkonunni og leiddi hún við hlið sér ungan dreng. Konan snýr sér að honum og sagði: „Ég skal reyna að liðsinna þér í þessu, en ég veit ekki hvort ég get gert mikið.“ Við svo búið endaði draumurinn en bóndinn mundi hann samt vel þegar hann vaknaði og var fyrst í stað ekki alveg viss hvort þetta hefði borið fyrir í vöku eða draumi.

Lengri er þessi saga ekki. Bóndinn var ófáanlegur að segja frá hvaða úrlausnarefni það var sem hann bar upp við draumkonuna, né heldur hvort liðsinni hennar hefði borið árangur. En hvað hundinn varðar þá hefur hann ekki sést í Flóanum hvorki fyrr né síðar til þessa dags svo vitað sé.

Birtist áður á slóðinni: http://www.vina.net/index.php/ragnar/2006/02/13/hulduhundurinn


RÚV - og hin rausnarlegi styrkur Björgólfs

Hinn rausnarlegi styrkur sem Björgólfur Guðmundsson hefur lofað RÚV er lofsvert framtak og sýnir að meðal íslenskra athafnamanna fyrirfinnst menningarlegur metnaður og áræði. Viðbrögðin við styrknum eru blendin. Formaður Hollvinasamtakanna lýsti efasemdum sínum og Ögmundur Jónasson hefur sömuleiðis lýst efasemdum. Þetta sýnir svo ekki verður um villst að RÚV er enn í erfiðri aðstöðu. Sem ríkisfyrirtæki getur það ekki þegið og sem einkafyrirtæki getur það ekki hafnað. Þróun mála er einnig auðsæ. Íslensk menning er arðbær og trúlega mjög arðbær þegar upp er staðið en það sem mun leysa hana úr læðingi er frelsi hennar úr faðmi ríkisvaldsins og stjórnmálaleiðtoganna. Óskandi er að fjármunir Björgólfs muni nýtast vel til menningarlegra og góðra verka. 

Ef staðan hefði verið sú á tímum Fjölnismanna að danska ríkið hefði eitt átt öflugasta fjölmiðilinn hér á landi hver hefðu áhrif þeirra þá orðið? Hverjir eru kostir Fjölnismanna nútímans, þ.e. þeirra manna sem vilja efla menningarlegt sjálfstæði þjóðarinnar og sjálfstæði hennar á öllum sviðum. Eiga þeir sitt athvarf í ranni ríkisvaldsins?  Það skulum við vona miðað við stöðu mála í dag.

Auðvitað þarf sem fyrst að koma málum þannig fyrir að ljósvakaarfurinn verði ekki seldur með rekstri stöðvanna þegar þar að kemur, sem trúlega er bara tímaspursmál, rétt eins og listaverkasafn Landsbankans var selt með rekstri hans. Sem fyrst þyrfti að aðskilja rekstur ljósvakabankans frá rekstri ríkisstöðvanna og af-oheffa þann rekstur. Hann gæti sem best heitað RÚV áfram en hlutverk hans yrði einungis að varðveita ljósvakaarfinn og miðla honum, sem og að vera efnisbanki fyrir það íslenskt efni sem yrði styrkt af ríkinu og útvarpað og sjónvarpað af frjálsum og óháðum stöðvum.

Íslenskir stjórnmálamenn verða að finna það þor og þann dugnað sem þarf til að geta horfst í augu við þann veruleika að ráðherra ríkisstjórnarinnar sé ekki hæstráðandi og í raun stjórnarformaður yfir öflugasta ljósvakamiðlinum. Það er aðeins fjöldinn einn og fjölbreytnin sem mun hámarka menningarlegan sköpunarkraft þjóðarinnar og þjóna öryggishlutverkinu sem best.


RÚV - Menningarleg Maginotlína

Stjórnvöld telja greinilega að RÚV eigi að vera brjóstvörn og merkisberi íslenskrar menningar og mynda mótvægi við erlend áhrif. Hugmyndafræðin á bakvið RÚV er því eins og sú á bakvið Maginotlínuna frönsku [1]. Maginotlínan var geysilega íburðarmikið mannvirki úr stáli og steypu sem teygði sig eftir landamærum Frakklands og Þýskalands, en þegar til kom keyrðu óvinirnir framhjá henni. Í RÚV eru lagðir geysimiklir fjármunir sem betur væru komnir hjá hinum ýmsu frjálsu og óháðu ljósvakamiðlum landsins. RÚV þarf sem fyrst að breyta í menningarsafn og rekstur ljósvakastöðvanna á að koma fyrir hjá einkaaðilum og gæta þess að allir ljósvakamiðlar landsins sitji við sama borð hvað varðar styrk frá ríkinu. Ef hlustendur og áhorfendur fá að velja hvert þeir láta afnotagjald sitt renna og það rennur síðan til stöðvanna í hlutfalli við framboð þeirra af íslensku efni og menningarviðburðum þá er komi það vogarafl sem menningin þarf, þ.e. sú góða menning sem trauðla fær lifað nema með opinberum styrkjum en pólitískur vilji er fyrir að lifi. Ef allar stöðvarnar gætu síðan gengið í hinn gamla menningarbrunn RÚV og jafnframt undirgengist þá kvöð að það efni sem styrkt væri yrði sett í ljósvakabankann og því nýtast öðrum þá myndi drifkraftur, frumleiki og fjölbreytni lyfta menningarlegu grettistaki. Grettistaki sem löngu er orðið tímabært að verði lyft.

Sú hugmyndafræði sem nú liggur til grundvallar RÚV er til orðin á 2. og 3. áratug síðustu aldar eða á  sama tíma og hugmyndafræði Maginotlínunnar og mikilla ríkisafskipta. Framfarir í ljósvakatækni og þróun á viðhorfum til ríkisafskipta hafa tekið miklum breytingum á þessum tíma. Maginotlínan liggur nú niðurgrafin á landamærum Frakklands og Þýskalands engum til gagns, en RÚV gengur enn sem fyrr á 70-80 ára gömlum riðandi brauðfótum og framhjá því og gegnum það streymir erlent efni í stríðum straumum. Ótrúlegt að stöðin skuli enn þann dag í dag sýna ótalsett erlent efni og bjóða áhorfendum upp á íslenskan texta. Bíómyndasýningum á vegum hins opinbera ætti að hætta alfarið sem allra fyrst. Meira um það síðar.

Sú viðhorf sem ég hef sett hér fram kunna að virðast vera í anda frjálshyggju, en ég tel þessi viðhorf samt ekki vera frjálshyggjuviðhorf að öðru leyti en því að þau hafna forræði, og sér í lagi forræði á menningarsviðinu. Fjölbreytnin og sá sköpunarkraftur sem leysist úr læðingi þegar fjöldinn fær að njóta sín getur einn orðið til að fleyta íslenskri menningu framhjá menningarlegum brotsjóum og áföllum. Athugið að hér er ekki verið að gagnrýna starfsfólk RÚV sem vinnur gott starf heldur starfsramma þann og lagaramma sem löggjafarvaldið felur stofnuninni. Það er hið pólitíska vald sem ég kalla til ábyrgðar á RÚV og mistökum þess en ekki starfsfólk stofnunarinnar sem ég lít frekar á sem sérlega þolendur þessa úrelta menningarframtaks.

[1] http://en.wikipedia.org/wiki/Maginot_Line


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband