Höldum vöku okkar - gefum Grýlu og jólakettinum engin færi

Grýla reið fyrir ofan garð
hafði hala fimmtán,
en á hverjum hala
hundrað belgi,
en í hverjum belg
börn tuttugu.
Þar vantar í eitt,
og þar skal far í barnið leitt.

Svona er Grýlu kerlingunni lýst í gömlu kvæði. Grýla er fornu fari talin einhver hinn versti óvættur. Hún er bæði mannæta og leggst á þá sem minnst mega sín og leggur til atlögu þar sem garðurinn er lægstur ásamt annarri óvætt - jólakettinum. Hún er því tákn einhverrar þeirrar mestu ómennsku og illsku sem hægt er að hugsa sér. Þegar koma jólasveinanna sona hennar er skoðuð sést að fyrst koma tiltölulega meinlitlir sveinar, Stekkjastaur sem gerir ekkert annað en reyna að sjúga ærnar, Giljagaur sem reynir að sleikja mjólkurfroðu og Stúfur sem hirðir agnir af pönnu. Síðari sveinarnir eru þeim mun ógurlegri. Skyrjarmur eða Skyrgámur sá áttundi stal skyri, Bjúgnakrækir bjúgum. Ketkrókur sá tólfti stelur aðal matarbirgðunum kjötinu og Kertasníkir sá þrettándi rænir ljósunum sjálfum. Þarna má sjá ákveðna stigmögnun illskunnar og klækjanna eftir því sem nær dregur jólunum. Kertasníkir kemur á aðfangadagskvöld þann 24. desember. Það sem vantar inn í þessa mynd er óvætturin sjálf Grýla hin skelfilega móðir allra hinna, mun hún birtast eða ekki á jóladaginn sjálfan 25. desember? Sú mynd sem þarna er dregin upp er eins og púsluspil þar sem hlustandinn á sjálfur að setja síðasta stykkið og spurning er hvernig stykki það verður. Í frægu jólasveinakveri Jóhannesar úr Kötlum og í fleiri heimildum er Grýla aflögð trúlega vegna þess að sú venja er aflögð að hræða börn til hlýðni og sagt er að Grýla sé dauð. Þetta er merkileg heimild um umskipti og viðhorfsbreytingu menningarinnar gagnvart táknmyndum ómennsku og illsku.

Trúlega hefur fátækt og ýmis óáran fyrri tíma valdið því að skil mennsku og ómennsku hafa verið skarpari en þau eru í dag. Svangt fólk eða sveitarómagar sem veslast upp úr hor eru sem betur fer ekki lengur hluti af raunveruleikanum. Á þeim tíma sem jafnframt er tími fábreyttari uppeldisaðferða hefur kannski þótt nauðsynlegt að draga upp skýrar myndir ómennskunnar til að vekja fólk á öllum aldri til vitundar um náunga sinn og leggja áherslu á ábyrgð hvers og eins.

Ef marka má þann kraft sem settur er í vegsömun mennskunnar og ljóssins í dag hérlendis og í nágrannalöndum okkar um þessar mundir ættum við í engu að þurfa að kvíða né óttast þann raunveruleika sem Grýla táknar - amk. ekki í okkar heimshluta. Það þýðir samt ekki að við megum sofna á verðinum og halda að fyrst Grýla sé dauð þá muni hún alltaf vera það áfram. Þau forréttindi að búa við Grýlulaust land eru hvorki sjálfsögð né sjálfgefin. Þau eru undir því komin að við höfum vara á okkur og veljum gaumgæfilega þau púsl sem við notum til að móta mynd lífsins og samfélagsins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Gleðileg jól, nýjasti bloggvinur minn !

Greta Björg Úlfsdóttir, 23.12.2007 kl. 15:17

2 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Sæl Greta og takk fyrir innlitið. Gleðileg jól sömuleiðis!

Ragnar Geir Brynjólfsson, 24.12.2007 kl. 00:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband