Færsluflokkur: Menning og listir

Ríkisútvarp þarf ekki að vera það sama og almannaútvarp

Við lestur pistla minna um Ríkisútvarpið kynni einhver að halda að mér þætti dagskrá þess léleg eða að ég forðaðist að hlusta eða horfa á það. Svo er ekki. Ég hef um langt árabil verið aðdáandi Rásar - 1 og í kvöld hlustaði ég af og til á rásina frá kl. 18 og til um kl. 22. Skrapp samt aðeins frá smástund. Dagskráin var mjög áheyrileg og fróðleg en trúlega hefur hún höfðað mest til fólks á miðjum aldri og þar fyrir ofan en um það er allt gott að segja. Rás - 1 byggir á langri hefð sem er áratuga mótandi starf sem unnið var í Útvarpi Reykjavík af hæfu og góðu starfsfólki. Þó ýmislegt megi finna að lagaramma þeim sem stofnunin starfi eftir þá er ég á þeirri skoðun að þessi fornfræga og rótgróna stöð eigi að fá að vera til í sinni núverandi mynd áfram og ég sé ekkert athugavert við það að ríkið eigi hana áfram að því gefnu að útvarpslögin tryggi fjölbreytni og jafna aðstöðu allra stöðva.  Það er ekki hægt að rífa fullvaxin og falleg tré upp með rótum og planta þeim annars staðar. Þau eiga að fá að standa áfram eins og þau eru og á þeim stað sem þau eru. Ég er aftur á móti á þeirri skoðun að hæpið sé að landsstjórnin standi í sjónvarpsrekstri sem og rekstri skemmtistöðvarinnar Rásar - 2.  Um þetta hef ég fjallað t.d. í pistlinum Rúv - Menningarleg Maginotlína og fleiri pistlum sem sjá má á þessu yfirliti. Hvað það varðar er ég sannfærður um að með því að hygla einum aðila umfram aðra þá hindri núverandi lög heilbrigðan vöxt og framtak á þessu sviði. Allir sem standa að rekstri útvarps og sjónvarps eiga að fá greitt fyrir efni flutt á íslensku - ekki bara Ríkisútvarpið. Með þessu móti myndu allar útvarpsstöðvarnar taka á sig að vera almannaútvarp auk þess að gegna öryggishlutverki. Líkur eru á því að landsbyggðin fengi með þessu fyrirkomulagi löngu tímabært tækifæri til að færa miðlun menningarinnar heim í hérað.


Radio Luxembourg - minningar

Þa er ekki víst að yngri lesendur bloggsins kannist við  Radio Luxembourg. Þetta var frjáls og óháð útvarpsstöð sem útvarpaði aðallega á ensku frá furstadæminu Luxembourg og var fjármögnuð með sölu auglýsinga. Þessi útvarpsstöð á sér langa sögu en hún og aðrar frjálsar stöðvar sem staðsettar voru á skipum umhverfis Bretlandseyjar áttu að líkindum sinn þátt í því að einokun BBC á útvarpsrekstri var afnumin 1973.

Ég minnist þess hvað það var heillandi tilfinning að reyna að ná Luxembourgarútvarpinu. Til þess þurfti sérstakan útbúnað sem var á þá leið að ferðaútvarp var tekið og um það var vafið góðum spotta af koparvír. Annar endi vírsins lá gjarnan út um glugga og virkaði sem loftnet en hinn endinn í ofn og virkaði sem jarðtenging.  Þannig útbúið náðust líka fleiri stöðvar á útvarpstækið svo sem útvarp flotastöðvar Bandaríkjamanna í Keflavík skst. AFRTS (American Forces Radio and Television Service Keflavik Iceland), nefnd Kanaútvarpið í daglegu tali. Þegar svo stöðin náðist og þekktist af kallmerkinu sem var "Two - ooh - eight - lets take you higher..." var takmarkinu náð. Stöðin sendi út á 208 metrum á miðbylgju en á þeim árum voru skalar tækjanna yfirleitt í metrum en ekki kílóriðum eða megariðum eins og nú er.

Þorvaldur Halldórsson sagði fyrir nokkru frá því á Útvarpi Sögu að þau í Hljómsveit Ingimars Eydal hefðu hlustað á Radio Luxembourg og heyrt þar nýjustu lögin og gátu því verið tilbúin með þau þegar lögin nokkru síðar fengu spilun í Útvarpi Reykjavík (núna RÚV- Rás 1) og urðu þar með vinsæl á Íslandi. 

Ég man að á tímum þorskastríðsins þá voru fréttamenn Luxembourgarútvarpsins duglegir að segja frá því að "Icelandic gunboats" hefðu gert þetta og hitt og mér þótti furðulegt að varðskipin skyldu vera kölluð þessu nafni því hér heima var tíundað kyrfilega að fallbyssurnar væru frá tímum síðasta Búastríðsins í Suður-Afríku.  Það var athyglisvert að upplifa þetta fjölmiðlastríð og sjá hvernig deiluaðilar útbúa og matreiða sinn málstað í fjölmiðlum og hefur alla tíð síðan orðið mér mikið umhugsunarefni.

Luxembourgarstöðin spilaði mest vinsældalista og skaut auglýsingum og fréttum inn á milli þess sem málglaðir diskótekararnir þeyttu skífum.   Margir aðdáendur stöðvarinnar sem og Keflavíkurstöðvarinnar voru því vanir því að heyra efni af vinsældalistum því Keflavíkurstöðin spilaði gjarnan vinsælustu sveitalögin. Þetta hefur sjálfsagt valdið því að sú eftirvænting sem byggðist upp þegar Rás 2 byrjaði breyttist brátt í vonbrigði. A.m.k. varð svo hjá mér. Rás 2 var á fyrstu árunum aðallega í framúrstefnupoppi og því að spila nýútkomnar plötur og ég gafst mjög fljótlega upp á stöðinni, enda vanur poppinu úr Radio Luxembourg, sveitavinsældalistanum í Kanaútvarpinu sem og gullaldarrokkinu sem var mikið spilað af hljómplötum og snældum á þessum árum. Ég var of ungur fyrir Þjóðarsálina (þó svo ég hlusti á Sigga Tomm með mikilli ánægju núna á Útvarpi Sögu) og því fór sem fór. Ég slökkti á Rás 2 fljótlega eftir að hún byrjaði og hef aldrei fundið ástæðu til að gefa henni annað tækifæri.


Salzburgarnautið

Salzburgarnautið eða Salzburg Stier er heiti á  hljómpípuorgeli sem geymt er í kastalanum í Salzburg, nánar tiltekið Hohensalzburg virkinu stærsta kastalavirki í Evrópu sem gnæfir í meira en 100 metra hæð yfir borginni og sem byrjað var að byggja á 11. öld. Það var erkibiskupinn í Salzburg, Leonard von Keutschach sem jafnframt var hertogi og stjórnandi Salsburgar sem í þá tíð var sjálfstætt hertogadæmi sem lét byggja Salzburgarnautið árið 1502 til að nota það sem klukku og sírenu fyrir borgina. Til að byrja með gat orgelið aðeins gefið frá sér fáa hljóma og þegar þeir glumdu minnti hljómurinn á nautsbaul. Salzborgarar voru því fljótlega farnir að kalla spilverkið í kastalanum 'nautið'. Frá árinu 1502 hefur nautið baulað þrisvar á dag til að gefa borgarbúum til kynna hvað tímanum líður. Fyrir 500 ára afmælið árið 2002 var nautið tekið í gegn og lagfært.

Á þessum tíma hefur nautið þróast talsvert frá því að geta spilað fá tóna yfir í að geta spilað lög. Meðal þeirra sem sömdu lög fyrir Salzburgarnautið var Leopold Mozart faðir Wolfgangs Amadesusar Mozart. Hann endurbætti nautið þannig að hægt var að koma tólf lögum fyrir á tromlunni sem stjórnar spilverkinu og því var hægt að skipta um lag sem nautið spilaði fyrir hvern mánuð ársins.

Nýlega var ég á ferðalagi á þessum slóðum og á skoðunarferð um kastalann var stöðvað við lítinn glugga þar sem hægt var að sjá inn í herbergi nautsins. Ég varð svo hissa yfir því sem ég sá að ég steingleymdi að taka mynd en þetta var eins og að horfa á risavaxna spiladós. Þarna var tromla sem pinnar gengu út úr rétt eins og í litlum spiladósum nema þessi var mjög stór. Á netinu fann ég að tromlan er 5 fet og 7 tommur á lengd og 9,8 tommur í þvermál! Hljómurinn kemur frá orgelpípum sem eru um meter á hæð það mesta. Ekki heyrði ég í nautinu í þetta skiptið en kannski verður það síðar. Gaman væri ef einhver lesenda þessara orða hefur heyrt í því hljóðið.  Frá árinu 1997 hefur Salzburgarnautið verið á heimsminjaskrá UNESCO.

Heimildir:
http://www.salzstier.com/
http://www.salzstier.com/stierpics.htm


Um örnefnið „Almannagjá“ og kenningar um staðsetningu almennings á Alþingi hinu forna

Sumrin 1984-1986 var ég sumarstarfsmaður í Þjóðgarðinum á Þingvöllum og vann þar ýmis störf svo sem að tína rusl í Almannagjá og nágrenni. Þá fór ég að velta fyrir mér kenningum sem hingað til hafa verið viðteknar um að lögsögumaðurinn á Alþingi hinu forna hafi staðið á Lögbergi og talað til mannfjölda sem á að hafa staðið niðri í hlíðinni austan megin við gjána, dreifður um þar fyrir neðan og allt niður að Öxará. Balarnir þar stóðu hærra á miðöldum því land seig á Þingvöllum eins og kunnugt er í jarðskjálftunum miklu undir lok 18. aldar.  Þessar kenningar rifjuðust upp í fyrrakvöld þegar ég sá Sigurð Líndal í sjónvarpinu reifa þetta við danska kóngafólkið og þar minntist hann líka á þá kenningu sína að lögsögumaðurinn hafi snúið baki í fólkið í hlíðinni og talað í áttina að gjárveggnum til að nýta hljómburðinn í hinum háa vestari bakka gjárinnar.

Nú er það svo að sá sem leggur leið sína um Almannagjá og Lögberg og grenndina þar fyrir neðan, og fer þarna um í alls konar veðri veitir því auðveldlega athygli að það sem sagt er í gjánni berst sérlega vel eftir henni endilangri nema veðurhljóð sé þeim mun meira. En reyndar er það svo að ef hvasst er þarna þá er besti og skjólsælasti staðurinn bæði fyrir rigningu og roki niðri í gjánni, þ.e. niðri í Almannagjá.  Þetta geta menn sem best prófað sjálfir því umferð gangandi vegfarenda er umtalsverð og tal fólksins heyrist best niðri í gjánni sjálfri og berst vel. Við góðar aðstæður gerist það jafnvel að það sem sagt er stundarhátt niðrundir Haki heyrist alla leið að beygjunni sem verður á gjánni skömmu áður en komið er að Öxará og það án þess að menn ætli að reyna mikið á röddina.

Þessar voru hugleiðingar mínar þegar ég dundaði við ruslatínsluna og í framhaldi af því fór ég að velta fyrir mér örnefninu 'Almannagjá' og hvað það segði. Ég velti því fyrir mér spurningunni: Hver er í Almannagjá ef ekki almenningur? En eins og kunnugt er þá er talið að talsverður fjöldi fólks hafi verið á þinginu að hlýða á lögin og dómana eins og sjá má hér:

Alþingi Íslendinga er í senn elsta stofnun þjóðarinnar og sú æðsta. Það er talið stofnað á Þingvöllum árið 930, og markar sá atburður upphaf þjóðríkis á Íslandi. Í upphafi var Alþingi allsherjarþing þar sem æðstu höfðingjar komu saman til löggjafarstarfa og til að kveða upp dóma. Auk þess var öllum frjálsum mönnum og ósekum heimilt að koma áþingið, og þangað sóttu auk goða bændur, málsaðilar, kaupmenn, iðnaðarmenn, sagnaþulir og ferðalangar. Oft hefur því verið fjölmennt á Alþingi.Þeir sem sóttu Alþingi dvöldust í búðum á Þingvöllum um þingtímann. Innan þinghelgiskyldu allir njóta griða og frelsis til að hlýða á það sem fram fór.Miðstöð þinghaldsins var Lögberg. Þar átti lögsögumaðurinn fast sæti, en hann var æðsti maður þingsins. Hlutverk hans var meðal annars að fara upphátt með gildandi lög Íslendinga, þriðjung þeirra ár hvert. Lögin um þinghaldið, þingsköpin, fór hann með fyrir þingheim árlega. [Leturbr. RGB] [1]

Vegna þessara hugleiðinga minna við ruslatínsluna forðum hef ég alltaf fundið til efa þegar ég hef heyrt hinar viðteknu kenningar um að almenningur hafi staðið niðri í hlíðinni og á bölunum við Öxará og hef með sjálfum mér ekki trúað þeim. Ég leyfi mér þvert á móti að halda fram að fólkið - almenningur hafi miklu fremur staðið niðri í Almannagjá eins og nafnið bendir til því þar er bæði skjólsælast og hljóðbærast  og að Lögberg hafi verið á gjárbarminum, kannski skammt frá þeim stað þar sem talið er núna að það sé en mér finnst líklegt að það hafi verið heldur ofar og nánast á brúninni því ef maður stendur á austari og lægri brúninni þá nýtur hann góðs hljómburðar til jafns við þá sem eru niðri í gjánni en því fjær sem maður fer frá brúninni og niður í hlíðina þá dregur úr hljómburðinum. Vera má líka að fólk hafi verið dreift úti um allt eins og gengur og gerist þar sem mannfjöldi kemur saman, kannski slangur af fólki í hlíðinni og jafnvel niðri við Öxará en fleiri niðri í Almannagjá sjálfri, og þegar veðrið versnaði er líklegt að flestir hafi safnast upp í gjána til að hlýða á lögsögumanninn á meðan enn var fært að þinga vegna veðurs.

[1] Sjá: http://www.althingi.is/pdf/isl.pdf


Bragi - Óðfræðivefur - merkilegt framtak til miðlunar menningararfsins

Eins og kunnugt er eiga Íslendingar ekki aðgengilegar útgáfur af bestum trúarlegum skáldskap íslenskum fram að Hallgrími Péturssyni en þó hafa Norðmenn gefið sum þessara kvæða út í myndskreyttum hátíðarútgáfum í þýðingum, en nú hillir undir bragarbót í þessum málum. Undanfarin ár hefur Kristján Eiríkssonverkefnisstjóri á handritasviði hjá Árnastofnun unnið að óðfræðivef á netinu. Ein eining vefjarins ber heitið 'Ljóðasafn' og er meiningin að safna smám saman í hana sem flestum ljóðum íslenskum sem ort hafa verið fyrir 1800. Slóðin á vefinn er http://tgapc05.am.hi.is/bragi/. Best er að byrja á að fara inn á "Bragþing" á neðri línu í haus og síðan inn á einstakar einingar. Þegar helgikvæðin væru flest komin inn í ljóðasafnið á vefnum með nútímastafsetningu og dálítilli greinargerð fyrir geymd hvers og eins þá mætti gefa kvæðin út á bók af þeim myndarskap sem þeim hæfir og þá til dæmis með myndskreytingum eins og Norðmenn hafa gert. Óskandi er að þetta merka framtak fái þá athygli og stuðning sem það verðskuldar svo landsmenn þurfi ekki þurfi að leita út fyrir landsteinana til að nálgast upplýsingar um svo sjálfsagða hluti sem gömul helgikvæði af þeirri ástæðu einni að enginn hérlendur aðili hefur gefið þau út á aðgengilegu formi.

Þessi færsla birtist áður á vefsetrinu kirkju.net hér.


Óðurinn til lífsins og vináttunnar

Flestir þekkja hið geysivinsæla lag 'Wonderful world' sem Louis Armstrong gerði heimsfrægt. Hægt er að sjá óborganlegan og einstæðan flutning hans á því á eftirfarandi YouTube myndskeiði sem nú þegar hefur fengið yfir 3 milljónir heimsókna:

Texti þess er í stuttu máli óður til lífsins, vináttunnar og æskunnar og var hugsunin á bakvið hann sú að auka bjartsýni fólks í Bandaríkjunum árið 1967 þegar lagið var gefið út. Þetta var á tímum kynþáttatogstreitu og Víetnamstríðs. Lífsgleðin og vináttan getur sameinað alla, bæði unga og gamla, fólk af ólíkum þjóðum, litarhætti og trú, karla og konur. Í tilefni af því langaði mig að gera tilraun að texta við þetta lag sem gæti komist eitthvað nálægt því að ná þeim hughrifum sem enski textinn kemur svo vel til skila. Hvort það hefur tekist verða aðrir að dæma um. Ég lýk því þessari síðustu bloggfærslu ársins með því að birta textann hér fyrir neðan og þakka ykkur lesendur góðir samfylgdina á árinu. Megið þið njóta blessunar, lífsgleði og friðar á árinu sem nú gengur í garð.

Vinarþel 

Ég sé laufguð tré  - [og] rauðrósa beð,
í blóma þær  -  lífg' okkar geð.
[Já] ég heillatákn tel - okkar vinarþel.

Himinbláminn skær - og skýjabær
dagur mér kær - [og] nóttin svo vær.
[Já] ég heillatákn tel - okkar vinarþel.

Í litum regnboganna - mér birtist hljómur skýr
í andlitunum ljómar - þá vonarlogi nýr.
Vinir heilast hlýtt segja; blessun sé þín
úr augum þeirra - ánægjan skín.

Barnahlátur tær - [mér] hjarta er nær
blessun sá fær - er eyra þeim ljær.
[Já] ég heillatákn tel - okkar vinarþel.

(tónlist)

Í litum regnboganna - mér birtist hljómur skýr
í andlitunum ljómar - þá vonarlogi nýr.
Vinir heilast hlýtt segja; blessun sé þín
úr augum þeirra - ánægjan skín.

Barnahlátur tær - [mér] hjarta er nær
blessun sá fær - er eyra þeim ljær
[Já] ég heillatákn tel - okkar vinarþel. 

Ath. [] merktan texta er hægt að fella niður ef það fer betur í söngnum.

Sjá: http://en.wikipedia.org/wiki/What_a_Wonderful_World


Billy Swan: „I can help“

Hver man ekki eftir þessu skemmtilega lagi frá '74? Í athugasemdakerfinu með laginu stendur að Presley hafi flutt það. Aldrei hef ég heyrt kónginn syngja það og hef þó hlustað á margt lagið með honum. Hvað svo sem er satt í því máli þá fer Billy mjúkum höndum um lagið og það er mín trú að flestir sem heyrðu hann flytja það muni betur eftir þeim flutningi. Það var spilað aftur og aftur í útvarpinu árið '74.

René Pape syngur Ó Isis og Ósiris úr Töfraflautunni

Ég fann þetta skemmtilega myndskeið á YouTube af René Pape þar sem hann syngur aríu Sarastrós úr Töfraflautunni eftir Mozart. Njótið vel. Getur nokkur vísað mér á íslenska textann við þessa aríu?

Höldum vöku okkar - gefum Grýlu og jólakettinum engin færi

Grýla reið fyrir ofan garð
hafði hala fimmtán,
en á hverjum hala
hundrað belgi,
en í hverjum belg
börn tuttugu.
Þar vantar í eitt,
og þar skal far í barnið leitt.

Svona er Grýlu kerlingunni lýst í gömlu kvæði. Grýla er fornu fari talin einhver hinn versti óvættur. Hún er bæði mannæta og leggst á þá sem minnst mega sín og leggur til atlögu þar sem garðurinn er lægstur ásamt annarri óvætt - jólakettinum. Hún er því tákn einhverrar þeirrar mestu ómennsku og illsku sem hægt er að hugsa sér. Þegar koma jólasveinanna sona hennar er skoðuð sést að fyrst koma tiltölulega meinlitlir sveinar, Stekkjastaur sem gerir ekkert annað en reyna að sjúga ærnar, Giljagaur sem reynir að sleikja mjólkurfroðu og Stúfur sem hirðir agnir af pönnu. Síðari sveinarnir eru þeim mun ógurlegri. Skyrjarmur eða Skyrgámur sá áttundi stal skyri, Bjúgnakrækir bjúgum. Ketkrókur sá tólfti stelur aðal matarbirgðunum kjötinu og Kertasníkir sá þrettándi rænir ljósunum sjálfum. Þarna má sjá ákveðna stigmögnun illskunnar og klækjanna eftir því sem nær dregur jólunum. Kertasníkir kemur á aðfangadagskvöld þann 24. desember. Það sem vantar inn í þessa mynd er óvætturin sjálf Grýla hin skelfilega móðir allra hinna, mun hún birtast eða ekki á jóladaginn sjálfan 25. desember? Sú mynd sem þarna er dregin upp er eins og púsluspil þar sem hlustandinn á sjálfur að setja síðasta stykkið og spurning er hvernig stykki það verður. Í frægu jólasveinakveri Jóhannesar úr Kötlum og í fleiri heimildum er Grýla aflögð trúlega vegna þess að sú venja er aflögð að hræða börn til hlýðni og sagt er að Grýla sé dauð. Þetta er merkileg heimild um umskipti og viðhorfsbreytingu menningarinnar gagnvart táknmyndum ómennsku og illsku.

Trúlega hefur fátækt og ýmis óáran fyrri tíma valdið því að skil mennsku og ómennsku hafa verið skarpari en þau eru í dag. Svangt fólk eða sveitarómagar sem veslast upp úr hor eru sem betur fer ekki lengur hluti af raunveruleikanum. Á þeim tíma sem jafnframt er tími fábreyttari uppeldisaðferða hefur kannski þótt nauðsynlegt að draga upp skýrar myndir ómennskunnar til að vekja fólk á öllum aldri til vitundar um náunga sinn og leggja áherslu á ábyrgð hvers og eins.

Ef marka má þann kraft sem settur er í vegsömun mennskunnar og ljóssins í dag hérlendis og í nágrannalöndum okkar um þessar mundir ættum við í engu að þurfa að kvíða né óttast þann raunveruleika sem Grýla táknar - amk. ekki í okkar heimshluta. Það þýðir samt ekki að við megum sofna á verðinum og halda að fyrst Grýla sé dauð þá muni hún alltaf vera það áfram. Þau forréttindi að búa við Grýlulaust land eru hvorki sjálfsögð né sjálfgefin. Þau eru undir því komin að við höfum vara á okkur og veljum gaumgæfilega þau púsl sem við notum til að móta mynd lífsins og samfélagsins.


Hvernig breyttust jólasveinarnir og af hverju?

Oft hef ég hugsað um þá algeru umbreytingu sem varð á gömlu íslensku jólasveinunum, Stúf, Stekkjastaur, Skyrgámi og þeim bræðrum öllum sonum Grýlu og líklega Leppalúða. 

Umbreytingu þessara karla má líkja við algera viðhorfsbyltingu eða umsnúning á lífsgildum. Þeir leggja af tröllskap sinn og fláræði Grýlu kerlingarinnar sem var eitthvert versta tröllaskass sem sögur fara af og verða þess í stað alger andstæða þess sem þeir voru áður. Þeir umbreytast í glaðlega karla sem keppast við að gleðja mann og annan en þó aðallega börnin. Hvað svo sem það var sem gerðist þá má segja að það hljóti að hafa verið eitthvað gott. Fóru þeir kannski í skóla eða var það skóli lífsins sem hafði þessi góðu áhrif? Þeir hafa að sögn verið til í mörg hundruð ár og enginn skyldi vanmeta lífsreynsluna - en það skrýtna er að það er ekki lengra síðan en á fyrri hluta síðustu aldar sem þeim bræðrum var lýst sem sísvöngum matarþjófum og hrekkjakörlum í landsfrægum jólasveinavísum Jóhannesar úr Kötlum.

Ég hallast því að því að þeir bræðurnir hafi gengið í skóla eða að minnsta kosti farið á námskeið þar sem markmiðið með náminu hefur verið breytt viðhorf og bætt hegðun. Ef þetta er ekki raunin þá hlýt ég að hyggja að þeir hafi kynnst einhverjum sem hefur haft þessi góðu áhrif á þá.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband